Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Kirkjuþing 2009 hefst á laugardag

Fulltrúar á kirkjuþingi

Kirkjuþing hefst laugardaginn 7. nóvember með helgistund kl. 9 í Grensáskirkju.Fyrir þinginu liggja að þessu sinni 27 mál. Þar á meðal erutillögur er varða skipulag kirkjunnar, samstarf og sameiningu prestakalla og tilfærslur á verkefnum.

Þá liggur fyrir tillaga um umhverfisstefnu kirkjunnar, þar sem meðal annars lagt til hvernig unnið skuli að umhverfismálum á vegum sókna. Þá eru lagðar fram siðareglur fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða innan kirkjunnar og tillaga að starfsreglum um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar.

Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar koma nú fyrir þingið í annað sinn eftir umræðu á prestastefnum 2008 og 2009. Þar er kveðið á um framkvæmd og ábyrgð ýmissa þátta í  helgihaldi kirkjunnar og þess sem því tengist, svo sem umsjón með kirkjuhúsi og starfsfólk.

Málin má skoða á vef kirkjuþings, www.kirkjuthing.is.

Þingið verður haldið í Grensáskirkju. Hljóðupptökur af þingfundum verða sendar út á vef þingsins samdægurs.

Um kirkjuþing
Kirkjuþing starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 frá 1997. Samkvæmt ákvæðum þeirra fer það með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, þ.e. nema önnur ákvæði þeirra eða annarra laga mæli fyrir um annað.

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt. Hinir kjörnu fulltrúar eru kosnir í níu kjördæmum, sem ná yfir eitt eða fleiri prófastsdæmi og úr hverju þeirra kemur einn vígður maður og einn leikmaður, nema úr þremur þeim fjölmennustu, tveimur Reykjavíkurprófastsdæmum og Kjalarnessprófastsdæmi. Þar eru tveir vígðir menn og þrír leikmenn úr hverju kjördæmi. Auk þess eru tveir leikmenn fyrir Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og tveir leikmenn fyrir Árnes-, Rangárvalla-, og Skaftafellsprófastsdæmi.

Forseti kirkjuþings er kosinn til fjögurra ára úr röðum leikmanna. Á þinginu starfa allsherjar-, fjárhags- og löggjafarnefnd og eiga allir fulltrúar, nema forseti, sæti í einhverri þeirra. Núverandi forseti kirkjuþings er Pétur Hafstein.

Með þjóðkirkjulögunum frá 1997 var kirkjuþingi fengin heimild til að skipa með starfsreglum flestum þeim málefnum, sem áður var gert með lögum frá Alþingi eða reglugerðum frá kirkjumálaráðuneytinu. Á fyrstu þremur kirkjuþingunum eftir lagabreytinguna voru settar starfsreglur um mikilvægustu stofnanir og verkefni kirkjunnar.

Stefnumörkun kirkjunnar
Þá er kirkjuþingi falið að annast stefnumörkun á ýmsum sviðum kirkjunnar, nema annað sé tekið fram í lögunum. Um sum verkefni skal hafa samráð við prestastefnu.
Kirkjuþing fjallar um reikninga, sem það skal sjá til að hljóti fullnægjandi endurskoðun, og fjárhagsáætlanir. Með ályktunum getur þingið sett fram tillögur og ábendingar um þau atriði, sem það telur að betur megi og þurfi að fara. Kirkjuráði er hins vegar með lögum falin að öðru leyti ábyrgð á fjármálum. Kirkjuþing kýs fjóra fulltrúa í kirkjuráð, sem fer með framkvæmdavald kirkjunnar undir forsæti Biskups Íslands.

Kirkjuþing getur haft frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beint þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi. Ennfremur leitar ráðherra umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi.

Meðferð mála á kirkjuþingi
Um málsmeðferðina gilda ákvæði laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og starfsreglur um kirkjuþing nr. 729/1998.

Mál á kirkjuþingi geta verið tillögur að starfsreglum eða tillögur að þingsályktun. Tvær tegundir mála eru skyldubundin og eru alltaf lögð fram á kirkjuþingi þ.e. skýrsla kirkjuráðs og fjármál þjóðkirkjunnar.

Að jafnaði eru mál kynnt við upphaf kirkjuþings og fer þá fram fyrri umræða. Síðan eru þau send til nefnda og síðari hluta þingsins eru mál afgreidd er þau hafa hlotið nefndarumsögn og farið í gegnum aðra umræðu.

 

Deila fréttinni


Nýjar fréttir