Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Stefnumótun og endurskipulagning Lúterska heimssambandsins

Stjórnarfundur Lúterska heimssambandsins (LH) hófst í dag í Genf. Fulltrúi Þjóðkirkjunnar á fundinum er Magnea Sverrisdóttir, djákni, sem var kjörin í stjórn sambandsins á heimsþingi þess í Stuttgart sumarið 2010.

Eitt af aðalmálum fundarins er stefnumótun og endurskipulagning á starfsemi Lúterska heimssambandins fyrir árin 2012 – 2017.  Fyrir fundinum liggja drög að  stefnumótun og endurskipulagningu sambandsins. Aðildarkirkjur ráðsins tóku þátt í því ferli með tillögum og umsögnum um fyrstu drög.

Fjórir meginþættir í starfi LH

Martin Junge, framkvæmdastjóri LH, lagði áherslu á það í upphafsávarpi að fjórir meginþættir hafi mótað starf LH frá upphafi: Kærleiksþjónusta og hjálparstarf, boðun, guðfræði og samkirkjumál. Hann nefndi nokkra þætti í starfinu sem hann taldi áskorun enn í dag en sagði jafnframt að það væri stjórnarmanna að ganga frá stefnunni.

Hann minnti á að LH var stofnað 1947 í kjölfar heimsstyrjaldar af fólki sem horfðist í augu við  gríðarlegan fjölda flóttamanna í Evrópu, fátækt, atvinnuleysi og fólk sem bar mörg ör vegna stríðsátaka. Sama mynd blasir við í dag þó að svæðið hafi ef til vill færst til. Þess vegna hljóti kærleiksþjónusta og hjálparstarf alltaf að vera grundvallaratriði í starfi sambandsins.

Samkirkjumál eru hafa verið grundvallarþáttur í starfi sambandsins og leitt meðal annars til tímamóta undirritunar á sameiginlegri yfirlýsingu með rómversk kaþólsku kirkjunni um réttlætingu af trú. Sátt og uppbygging er þáttur í samkirkjulegu starfi og það sást vel á heimsþinginu 2010 þegar lútersku kirkjurnar báðu mennonítakirkjur fyrirgefningar á ofsóknum fyrr á öldum og nokkurra ára sáttaferli lauk á afar eftirminnilegan hátt.

Fræðsla og efling er hluti af starfi LH og hefur verið frá upphafi. Hluti af því er að efla ungt fólk og konur sem leiðtoga. Þá setti heimsþingið umhverfismál mjög ákveðið á dagskrá heimssambandsins og því þarf að fylgja eftir.

Grétu þegar þær áttu að tala

Áður stjórnar fundurinn hófst sótti Magnea fund á vegum kvennastarfs LH, ásamt fleiri stjórnarfulltrúum.  Sjálfsstyrking og fundaþjálfun var meðal annars á  dagskrá enda er bakgrunnur þátttakenda mjög mismunandi og sumar kvennanna ekki vanar að tala í stórum hópi, sérstaklega ekki á máli sem ekki er þeirra eigið.

„Sérstakir kvennafundir eru mikilvægir í þessu samhengi,“ segir Magnea, „þar sem reynsluheimur kvenna frá mismunandi heimsálfum er ólíkur. Þrjár kvennanna fóru að gráta þegar þær áttu að tala, þetta reyndist þeim svo erfitt.“

Í stjórn LH situr fólk hvaðanæva að úr heiminum. Ekki eiga allir jafnauðvelt aðgengi að fundum. Martin Junge, framkvæmdastjóri greindi meðal annars frá því að einn af fulltrúum kirkna í Afríku, Elijah Zina frá Líberíu, fengi ekki leyfi til að ferðast til Sviss þar sem yfirvöld skilgreina hann sem mögulegan flóttamann inn á Schengen svæðið. Mótmæli LH og staðfesting á að hér væri um stjórnarmann að ræða dugðu ekki til að breyta þessu. Martin Junge minnti á þetta og hve mikinn aðstöðumun fulltrúar kirknanna búa ennþá við. Eitt af fyrstu verkefnum stjórnarinnar var að senda bréf til Zina og lýsa samstöðu og hvatningu.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir