Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Biskup í Malaví

Biskup skoðar sprettu nýrrar frætegundar ásamt starfsmönnum verkefnisins og íbúum.

Það var þorpsbúum í Malaví mikil uppörvun að hitta biskup Íslands í byrjun mánaðar og skynja áhuga hans á kjörum þeirra. Fáir hafa látið sig varða afdrif fjölskyldna sem búa við örbirgð og náttúrhamfarir. Því var vel tekið á móti fulltrúum kirkju og hjálparstarfs hennar í Suður-Malaví. Söngur, dans og einlæg gleði skein úr svip fólks. Verk voru lögð til hliðar, allir vildu hitta gestina og segja þeim hversu mikið hefði breyst. Og ekki að undra.

Fylgst með árangri

Hjálparstarf kirkjunnar hefur fjármagnað þróunarstarf í 40 þorpum á svæðinu í nær sex ár. Í því felst að afla vatns og nýta til neyslu, áveitna til ræktunar og til að brynna og geta haldið skepnur. Heilsufar batnar þar sem sjúkdómar sem berast með óhreinu vatni hverfa nær alveg. Áveitur tryggja fleiri og betri uppskerur. Kennsla í meðferð búfjár skilar fjölbreyttari fæðu og svolitlu fé til að kaupa nauðsynjar ef geit er seld. Geitur fær fólkið fyrir fé frá Íslandi. Fyrsta afkvæmi er gefið þeim sem ekki á og þannig fjölgar þeim sem þurfa ekki að reiða sig eingöngu á uppskeru. Mikilvægt er að fylgjast með árangri af þróunarverkefnum sem kirkjan styður. Íslensku fulltrúarnir sáu hvernig þorp höfðu stækkað með tilkomu brunna. Nú fannst þeim sem áður höfðu flúið allsleysið að kominn væri grundvöllur lífs. Tré höfðu vaxið til að halda í raka og veita skugga, matjurtir spruttu vel og kólera og niðurgangur voru horfin. Mikill árangur hefur náðst en vandinn vex á öðrum sviðum s.s. með tilkomu veðrabreytinga. Erfiðara er að áætla hvenær best sé að sá, eða hvenær þurfi að forða sér vegna flóðahættu.

Ábyrgð, grunnþörfum mætt

Innifalið í verkefninu er mikil fræðsla um réttindi fólks og það er þjálfað í að bera kennsl á raunverulegu vandamálin, það sem myndi bæta aðstæður og að færa það í orð við stjórnvöld. Með þátttöku fólksins alveg frá stigi hugmyndavinnu öðlast það ábyrgðartilfinningu gagnvart því sem aðstoðin býður. Verkefnið tryggir að allir þorpsbúar komi að málum, karlar, konur, fatlaðir, ekkjur, ungir og aldnir. Þannig verður verkefni sjálfbært.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir