Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Kynningarfundir vegna biskupskjörs

Kirkjuklukka, Skálmanesmúli. Mynd: Sigurður ÆgissonKynningarfundir vegna biskupskjörs verða haldnir í byrjun mars. Alls verða haldnir sex fundir.

Eins og áður hefur komið fram ályktaði kirkjuráð eftirfarandi á fundi sínum 18. janúar 2012:

  1. Þau sem gefa kost á sér til biskupsembættis og þau sem vinna að kjöri þeirra gæti þess að halda í heiðri siðareglur embættismanna og starfsfólks þjóðkirkjunnar og gæti þess að orð þeirra og athafnir séu þjóðkirkjunni til sóma og málstað hennar til framdráttar.
  2. Til að auðvelda kynningu á frambjóðendum verði haldnir kynningarfundir í öllum landshlutum. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs skipuleggi þessa fundi í samráði við héraðsnefndir, sem allir frambjóðendur og kosningabærir prestar og leikmenn prófastsdæmisins eru boðaðir til. Kostnaður við fundina greiðist úr kirkjumálasjóði. Ekki er greiddur ferðakostnaður fundarmanna og frambjóðenda.
  3. Kirkjuráð gangist fyrir og kosti útgáfu á sameiginlegu kynningarefni um frambjóðendur til biskupskjörs. Jafnframt verði kynningarefni um frambjóðendur gert aðgengilegt á sérstöku vefsvæði á vef kirkjunnar. Frambjóðendum og stuðningsmönnum þeirra sé gefinn kostur á að kynna málstað sinn í framangreindum miðlum. Fyllsta jafnræðis sé þar gætt um aðgengi.

Kynningarfundirnir geta ekki hafist fyrr en í fyrsta lagi 2. mars 2012 þar sem þá fyrst liggur væntanlega fyrir hverjir bjóða sig fram, sbr. starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 1108/2012, með síðari breytingu nr. 117/2012. Þá þarf að hafa hliðsjón af tímasetningu kosningarinnar einnig.

Í samráði við héraðsnefndir, sem annast undirbúning fundanna, svo og formann kjörstjórnar við biskupskjör hafa eftirfarandi kynningarfundir verið ákveðnir:

  1. Reykjavík föstudag  2.3. Háteigskirkja kl. 16. Fyrirhugað er að taka þennan fyrsta kynningarfund frambjóðenda upp á myndband og birta á vef kirkjunnar í framhaldinu til að auðvelda kjósendum að kynna sér frambjóðendur.
  2. Egilsstaðir laugardag 3.3. kl. 13.
  3. Selfoss mánudag 5.3. kl. 20.
  4. Borgarnes miðvikudag 7.3. kl 20.
  5. Ísafjörður fimmtudag 8.3. kl. 20.
  6. Akureyri laugardag 10.3.  kl. 13.

Æskilegt hefði verið að halda fundi víðar þar sem margir kjósenda eiga um langan veg að fara, en það var metið svo að þá hefði umfang þessa orðið of mikið og of mikill tími farið í kynningarfundina. Héraðsnefndir hafa verið beðnar um að meta möguleika þess að hagnýta tæknina til að gera fleirum kleift að hafa aðgang að fundunum.

Miðað verður við að hver fundur standi ekki lengur en um tvo og hálfan tíma. Héraðsnefndir ákvarði þó nánar hver á sínum stað um það. Dagskrá hvers fundar verði í meginatriðum þannig að frambjóðendum gefist kostur á að flytja stutta kynningu á sér og málefnum sínum og fyrirspurnir/almennar umræður verði að því búnu. Héraðsnefndir ákvarða þó sömuleiðis nánar um dagskrá og fyrirkomulag fundar hver á sínum stað.

[Ath. Eftir að þessi tilkynning var birt var dagsetningu Selfossfundarins breytt. Sú breyting var hinsvegar svo afturkölluð og því eru upplýsingarnar hér fyrir ofan réttar. ÖHK 14. febrúar kl. 9.52 ]

Deila fréttinni


Nýjar fréttir