Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Rýmka ætti reglur um kosningarétt

 

Í setningarræðu aukakirkjuþings 2012 sem haldið var þann 4. febrúar síðastliðinn vék forseti þingsins í setningarræðu að ástæðum þess að þingið er kallað saman.

Það kann vel að vera að saka megi kirkjuþing 2011 um þá vanrækslusynd að hafa ekki gefið álitaefnum um rafrænar kosningar nægilegan gaum. Að hluta til að minnsta kosti verður það skýrt með þeirri staðreynd að tvívegis hefur kirkjuþing verið kosið rafrænt á grundvelli sams konar reglna og nú gilda um biskupskjör, 2006 og 2010. Í hvorugt skiptið voru brigður bornar á framkvæmd þeirra kosninga. Það segir hins vegar ekki alla sögu um öryggi og áreiðanleika rafrænna kosninga. Þrátt fyrir tækniframfarir og tölvubyltingar hafa rafrænar kosningar ekki verið teknar upp við kjör sveitarstjórna, þjóðþinga eða þjóðhöfðingja, hvorki hér á landi né í þeim ríkjum sem næst okkur standa að stjórnskipunarvenjum, að minnsta kosti ekki svo að mér sé kunnugt um. Þrátt fyrir ótvírætt hagræði slíkra kosninga má ætla að efinn um öryggi hafi staðið þeim í vegi. Hvað sem um það verður sagt má færa gild rök að því að eðlilegt sé að um rafrænar kosningar gildi almenn löggjöf í því landi þar sem þær á að framkvæma. Þannig háttar ekki til á Íslandi. Hafi síðasta kirkjuþingi orðið á í messunni að þessu leyti er enn tóm til að bæta úr áður en til kosninga um biskup Íslands verður gengið. Það er hluti af lífinu að skjátlast eða gera mistök. Það eru hins vegar viðbrögðin við mistökum sem skipta máli. Þess vegna er aukakirkjuþing nú kvatt saman.

Þá ítrekaði þingforseti þá skoðun sína að rýma ætti kosningareglur enn frekar og að allt þjóðkirkjufólk, eða að minnsta kosti fólk sem með einum eða öðrum hætti kemur að kirkjustarfi, ætti að hafa kosningarétt.

Við setningu kirkjuþings 2009 setti ég fyrst fram þá skoðun að allt þjóðkirkjufólk – en ekki aðeins trúnaðarmenn í sóknarnefndum – ætti að njóta kosningaréttar til kirkjuþings sem fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Til þess hníga svo veigamikil rök að mínum dómi að sams konar tilhögun gildi um biskupskjör – eða að minnsta kosti að allir þeir, sem með einum eða öðrum hætti koma að kirkjulegu starfi, njóti kosningaréttar. Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing á landinu og það skiptir margfalt fleiri en þá, sem nú eru á kjörskrá kirkjunnar, miklu máli hverjir véla þar um ábyrgð og áhrifamátt. Ég hef áréttað þessi sjónarmið á kirkjuþingum bæði 2010 og 2011, þar á meðal með þessum orðum: „Ef þjóðkirkjan vill vera þjóðkirkja í lífrænum tengslum við fólkið í landinu verður hún að leita til grasrótar sinnar en ekki upphefja sjálfa sig sem óumbreytanlega stofnun í guðfræðilegum skilningi. Við verðum að kalla miklu fleira fólk til ábyrgðar og ákvarðanatöku í kirkjunni, meðal annars með gerbreytingu á öllu fyrirkomulagi kosninga innan kirkjunnar, bæði biskupskosninga og kosninga til kirkjuþings.

Pétur Kr. Hafstein hefur einnig ritað grein á trúmálavefinn þar sem hann hnykkir á öðrum atriðum úr setningarræðu sinni sem lesa má á vef kirkjuþings.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir