Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Upphafshátíð fimm alda minningu siðbótarinnar

Þann 29. janúar n.k. á afmælisdegi Katrínar af Bóra, eiginkonu
Marteins Lúthers, verður hátíðarmessa og Tónleikhús Kammerhópsins
Reykjavík Barokk Elísabet og Halldóra, Bach og Grallarinn: Tónleikhús um tvær siðbótarkonur í Hallgrímskirkju. Hátíðarmessan hefst kl.11 og Tónleikhúsið kl.12.15. Boðið verður upp á hátíðarkaffi að dagskrá lokinni í suðursal kirkjunnar. Messunni verður útvarpað á Rás 1 og dagskránni allri streymt á facebook síðu kirkjunnar.

Dagur þessi mun marka upphaf þeirra hátíðarhalda er standa yfir
allt árið til minningar um að 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther
negldi 95 mótmæli á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Sá gjörningur er sagður marka upphaf siðbótar kirkjunnar og upptaktur að stofnun hinnar evangelísk lúthersku
kirkju. Ný heimasíða verður opnuð www.sidbot.is.

Í hátíðarmessunni mun biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir prédika og sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskupar þjóna fyrir altari ásamt prestum Hallgrímskirkju. Nefndarfólk úr Fimm alda nefnd siðbótar koma einnig að messunni. Tónleikhúsið hefst strax að lokinni messu.

Tónleikhúsið Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn byggir á heimildum um sögu tveggja kvenna, Elisabethar Cruciger (1500 – 1535) og Halldóru Guðbrandsdóttur (1574-1658). Takmarkað er til af heimildum um konur fyrri alda en þó hefur á síðustu árum borið á vakningu meðal fræðimanna og töluvert verið ritað um hlut kvenna í mannkynssögunni. Elisabeth Cruciger er þekktust fyrir að hafa verið meðal fyrstu sálmaskálda siðbótarinnar, en aðeins er vitað um einn sálm eftir hana sem gefinn var út í sálmabók Marteins Lúthers 1524. Sálmurinn ber heitið Herr Christ der einig Gottes Sohn og er hann kveikjan að þessari sýningu. Um Halldóru Guðbrandsdóttur er vitað með vissu að með leyfisbréfi konungs hafði hún staðarforráð á Hólum í Hjaltadal í forföllum föður síns Guðbrands Þorlákssonar biskups árin 1624 – 1627.

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir tónleikhúsinu. Hópurinn samanstendur af 12 hljóðfæraleikurum en auk þeirra koma fram á sýningunni fjórir söngvarar og leikkona. Aðalhlutverkin í sýningunni verða í höndum Maríu Ellingsen leikkonu og söngvaranna Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur og Jóhönnu Halldórsdóttur. Konsertmeistari ReykjavíkBarokk á sýningunni verður Hildigunnur Halldórsdóttur fiðluleikari og listrænir stjórnendur verkefnisins eru Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari og Guðný Einarsdóttir organisti.

Frír aðgangur er að hátíðardagskránni.

Tónleikhúsið verður endurflutt í Hjallakirkju kl. 21 sama kvöld.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir