Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Gríðarlegur skortur á samhug og ábyrgð

Biskup Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar senda frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu: Gríðarlegur skortur á samhug og ábyrgð

Í kjölfar tilskipunar Bandaríkjaforseta um bann við landgöngu fólks frá sjö ríkjum til Bandaríkjanna hafa Lútherska heimssambandið, Lutheran World Federation, Alkirkjuráðið, the World Council of Churches, og Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um grafalvarlegar afleiðingar tilskipunarinnar fyrir flóttafólk. Biskup Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar taka heilshugar undir og styðja ályktunina.

„Kristin trú kennir okkur að elska náungann. Í því felst að við tökum á móti flóttafólki og komum fram við það eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur,“ segir í yfirlýsingunni en í henni eru bandarísk stjórnvöld eindregið hvött til að virða alþjóðalög sem skylda þjóðir heims til að taka á móti flóttafólki og veita því vernd.

 „Ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að helminga fjölda flóttafólks sem veita skal hæli ár hvert hefur ekki aðeins grafalvarleg áhrif fyrir fólk sem er í brýnni þörf fyrir vernd, tilskipun Bandaríkjaforseta grefur jafnframt undan því að aðrar þjóðir virði alþjóðalög um vernd flóttafólks.“

„Við þökkum öllum þeim samtökum og stofnunum sem veita mannúðaraðstoð fólki í neyð, sérstaklega fólki frá Sýrlandi og Miðausturlöndum. Við þökkum þeim sem hafa aðstoðað flóttafólk við að fá hæli í Bandaríkjunum sem og annars staðar. Við tökum undir með öllum þeim sem hafa krafist þess að tilskipunin verði dregin til baka,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.

Lútherska heimssambandið og Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna aðstoða flóttafólk í 25 ríkjum heims. Árið 2016 aðstoðaði Lútherska heimssambandið 2,3 milljónir jarðarbúa sem hafa þurft að yfirgefa heimkynni sín vegna átaka. 

Yfirlýsinguna í heild er að finna á heimasíðu Lútherska heimssambandsins: https://www.lutheranworld.org/sites/default/files/statement_on_us_presidential_executive_order_final_links.pdf

Nánari upplýsingar veita:

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

sími 5284406 / 8963898. Netfang bjarni@help.is

Þorvaldur Víðisson, biskupsritari

sími 5284005 / 8561505. Netfang thorvaldur@biskup.is

Deila fréttinni


Nýjar fréttir