Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Sagan sem seint gleymist

Dómkórinn flytur Jóhannesarpassíu Bachs í Langholtskirkju 1. og 2. apríl kl. 17.00. Nú er að nálgast sá árstími þegar vaninn er að rifja upp sömu söguna ár hvert. Þótt sorgleg sé hefur hún góðan endi og við verðum aldrei leið á henni, að því er virðist. Passían eða píslarsagan er til í fleiri en einni útgáfu þótt efni þeirra sé nokkurn veginn það sama. Tónskáld hafa mörg hver spreytt sig á henni en enginn þó af meiri andagift en Johann Sebastian Bach sem samdi fimm tónverk byggð á píslarsögu Krists þótt aðeins tvö þeirra hafi varðveist.

Nú ætlar Dómkórinn í Reykjavík að flytja annað þessara tónverka, sjálfa Jóhannesarpassíu Bachs, og það í tvígang dagana 1. og 2. apríl næstkomandi. Flutningurinn verður í Langholtskirkju og hefst kl. 17 báða dagana.

Svo þessu stórvirki verði komið til skila fær kórinn til liðs við sig kammersveit undir forystu Unu Sveinbjarnardóttur og einvalalið söngvara þar sem Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hildigunnur Einarsdóttir alt syngja aríur, Þorbjörn Rúnarsson tenór fer með hlutverk guðspjallamannsins, Fjölnir Ólafsson baritón túlkar Pílatus og Kristinn Sigmundsson bassi ljær Jesú Kristi rödd sína. Öllu þessu liði stjórnar Kári Þormar dómorganisti.

Jóhannesarpassían hefur af skiljanlegum ástæðum notið mikilla vinsælda eftir að hún var „enduruppgötvuð“ um 1830. Allir helstu kórar landsins hafa spreytt sig á flutningi hennar svo segja má að það hafi fyrir löngu verið orðið tímabært að Dómkórinn tækist á við þetta stórvirki tónbókmenntanna.

Nú gefst því kostur á að hlýða á Jóhannesarpassíuna í Langholtskirkju 1. og 2. apríl. Miðasalan fer fram á miði.is.

Ljósmynd með frétt: Mikael Stjernberg

Deila fréttinni


Nýjar fréttir