Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Lestur Passíusálmanna í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd

Á föstudaginn langa eða þann 14. apríl verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í heild sinni í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Það verða þau Steinunn Jóhannesdóttir, leikari og rithöfundur, og Sigurður Karlsson, leikari og þýðandi, sem munu skipta lestrinum á milli sín að þessu sinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau hafa afskipti af sr. Hallgrími eða fjölskyldu hans en þau léku Hallgrím og Guðríði í leikriti sr. Jakobs Jónssonar sem bar heitið TYRKJA-GUDDA og sýnt var í Þjóðleikhúsinu leikárið 1983-1984.

Lesturinn í Saurbæ hefst kl. 13.30 og stendur til u.þ.b. 18.30. Fólk getur komið og farið að vild á meðan lestri stendur og þegar stutt hlé verða gerð á lestrinum mun organisti kirkjunnar, Erla Rut Káradóttir, leika á orgel.

Sr. Hallgrímur var prestur í Saurbæ á árunum 1651-1669 eða um 18 ára skeið en þá lét hann af embætti vegna veikinda (holdsveiki) en hann lést á Ferstiklu árið 1674 sextugur að aldri (1614-1674).

Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og er talið að hann hafi lokið því verki árið 1659 en þeir voru fyrst gefnir út árið 1666.

Hafa þeir verið kynslóðunum á Íslandi jafnan svo hjartfólgnir að sr.

Hallgríms hefur oft verið minnst sem prests allrar þjóðarinnar og sem mesta trúarskálds hennar.

Hallgrímur leitaði fyrst til fjögurra hefðarkvenna sem hann sendi Passíusálmana í eiginhandarritum. Handritunum fylgdi ósk um að þær tækju að sér að kynna sálmana fyrir öðrum, verja þá fyrir gagnrýni og sjá til þess að þeim yrði ekki „varpað undir bekk“ þ.e.a.s stungið undir stól.

Þessar konur voru þær Ragnhildur Árnadóttir í Kaldaðarnesi, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Helga Árnadóttir í Hítardal handrit, sem vorið 1660 fengu í hendur handrit sem nú eru glötuð. Vorið 1661 fékk svo Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti það handrit sem varðveist hefur til okkar tíma.

Allir velkomnir.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir