Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Fræðsluferð til Wittenberg og prestastefna 2017

Árið 2017 markar merk tímamót í sögu lúterskrar kirkju í heiminum. Á þessu ári er þess minnst að 500 ár eru liðin frá því að kaþólski munkurinn Marteinn Lúther negldi mótmælaskjal í 95 greinum á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg og er sá gjörningur ásamt öðrum talinn marka upphaf siðbótarinnar.

Af þessu tilefni er prestastefna 2017 haldin í Wittenberg og verður hún sett í Hallarkirkjunni þriðjudaginn 6. júní kl. 18. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flytur ávarp við setningu stefnunnar og einnig svæðisbiskup þýsku kirkjunnar í Halle-Wittenberg, propst.dr. Johann Schneider.

Hópurinn með mökum telur alls 102 þátttakendur og þar af 74 presta og djákna. Afleysingar vegna fjarveru þeirra sem taka þátt eru skipulagðar í hverju prófastsdæmi og er leitað til eftirlaunapresta til þess að aðstoða við þær. Vegna kostnaðarþátttöku þeirra sem sækja fræðsluferðina og prestastefnu í Wittenberg að þessu sinni, sem og stuðnings stéttarfélaga og annarra er kostnaður kirkjumálasjóðs vegna prestastefnu 2017 í Wittenberg innan við 10 milljónir króna. Þess má geta að kostnaður vegna prestastefnu 2014 sem haldin var á Ísafirði var nánast sama fjárhæð. Hvort tveggja er innan ramma fjárhagsáætlunar kirkjumálasjóðs. Ekki er tekið þátt í kostnaði maka við ferðina.

Heimamenn í Þýskalandi hafa undirbúið hátíðarárið af myndarskap. Settar hafa verið upp einstakar fræðslusýningar, til dæmis National special exhibition “Luther! 95 Treasures – 95 People sem sóttar verða í þessari ferð. Í Wittenberg er einnig Lútershúsið (Luterhaus) sem er sýning og safn, til húsa á fyrrum heimili þeirra hjóna Katarínu von Bora og Marteins Lúthers.

Þátttakendur í ferðinni sækja námsstefnu með þýskum nemendum og prófessorum þeirra. Stjórnandi hennar er prof. dr. dr. Johannes Schilling. Prof. dr. Michael Volter mun þar kynna nýtt skýringarrit um Rómverjabréfið. Prof. Schilling hefur stýrt undirbúningi þýsku kirkjunnar í tilefni hátíðarársins.

Eins gefst þátttakendum færi á að hlýða á fyrirlestra í nágrannabænum Torgau um konur í siðbótinni. Kathrin Wallrabe mun halda fyrirlesturinn We are reformers – women give the spirit for the future! Séra Annette Kalettka mun halda fyrirlesturinn Women and their ways of bringing about the Reformation in Germany. Þær munu jafnframt svara spurningum og stjórna umræðum.

Dagskrá ferðarinnar er fjölbreytt og eiga þátttakendur þess kost að upplifa tímamótaárið á einstakan máta. Þátttaka í ferðinni miðar að tengslamyndun við fræðimenn í Þýskalandi og auknum skilningi á siðbótinni í sögu og samtíð.

Til prestastefnu boðar biskup Íslands alla vígða þjóna, svo og fasta kennara við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

 

Mynd með frétt er frá Wittenberg, þar sem Hallarkirkjan ber hæst.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir