Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Pílagrímagöngur á Skálholtshátíð

Skálholtshátíð í ár verður haldin helgina 22.-23. júlí 2017. Eins og undanfarin ár er pílagrímagöngur sem enda á Skálholtshátíð.
Að þessu sinni verða þrjár pílagrímagöngur úr tveimur áttum, ein sem byrjar á Bæ í Borgarfirði og sameinast annarri göngu frá Þingvöllum og svo er sú þriðja þegar hafin en hófst við Strandakirkju 22. maí s.l. og er gengin í áföngum.
Pílagrímaganga frá bæ í Borgarfirði. Pílagrímar ganga á vegum félagsins Pílagrímar, frá Bæ í Borgarfirði heim í Skálholt dagana 18. – 23. júlí. Komið verður í Skálholt á Skálholtshátíð. Hægt er að koma inn í gönguna hvaða dag sem er en þátttakendur verða að skrá sig hjá Huldu Guðmundsdóttur netfang: khuldag@hive.is og sr. Elínborgu Sturludóttur, netfang: Elinborg.Sturludottir@kirkjan.is

Pílagrímaganga frá Þingvöllum. Hún hefst við Þingvallakirkju að morgni laugardagsins 22. júlí kl. 9:00 með fararblessun (pílagrímagangan frá Bæ verur samferða þessari göngu) og lýkur við Neðra-Apavatn,  þar sem bílar bíða göngufólksins og flytja í náttstað, ef þess er óskað. Mikilvægt er að taka það fram að leiðin frá Þingvöllum yfir Lyngdalsheiði er mjög löng rúmlega 30. km. Því er mikilvægt að hafa plástra með sér og vera vel nestaður og undir það búinn að síðustu sporin yfir heiðina geti reynt á.Farangur verður fluttur fyrir fólk frá Þingvöllum að Skálholti fyrir þau sem þess óska.

Göngunni er fram haldið á sunnudagsmorgni 23. júlí frá Neðra-Apavatni kl. 9.00 og er fólki ekið þangað. Gengið er sem leið liggur að Skálholti til hátíðarguðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju og verður komið í Skálholt sem hefst kl. 13.30. Kirkjukaffi er að messu lokinni. Hægt hefur verið að koma inn í gönguna á ýmsum stöðum og ganga aðeins hluta hennar en vera fullgildur pílagrímur á Skálholtshátíð. Margir hafa sameinast henni við Vellankötlu á laugardeginum upp úr kl. 11.00 eða við vörðuna þar sem göngufólk fer út af veginum yfir Lyngdalsheiði um kl. 12.30, við Neðra Apavatn á sunnudeginum kl. 9.00, við veginn undir Mosfelli um kl. 12.00 eða við Spóastaði um kl. 13.00.

Pílagrímagangan frá Strandakirkju. Þessi ganga hófst 28. maí og var þá gengið af stað frá Strandakirkju.  Þessi ganga er með öðru sniði en gengið er fimm sunnudaga frá mái til júlí.

Þessar göngur eru eftir:

9. júlí     Hraungerði – Ólafsvellir
23. júlí     Ólafsvellir – Skálholt

Þau sem ganga frá Ólafsvöllum síðasta áfangann í Strandakirkjugöngunni (lagt af stað í rútu frá Skálholti kl. 7 um morguninn) geta pantað gistingu og mat í Skálholti laugardagskvöldið 22. júlí, sbr. upplýsingar hér að neðan.

Gangan er í samvinnu við Ferðafélag Íslands, sjá ferðaáætlun á heimasíðu þess: https://www.fi.is/is/ferdir/pilagrimaleid-fimmti-afangi. Skráning er hjá Ferðafélaginu.

Gisting og matur í Skálholti

Þau sem það kjósa og taka þátt í þessum pílagrímagöngum geta fengið svefnpokagistingu í Skálholtsbúðum. Þar eru eins – og tveggja manna herbergi með sameiginlegum böðum. Boðið verður upp á sameiginlegan kvöldverð í Búðunum, kjötsúpu og heimabakað brauð að hætti brytans í Skálholt, kaffi og te á eftir.

Á sunnudagsmorgun er í boði morgunverður, sem hver og einn útbýr fyrir sig, hráefni til staðar s.s. brauð, álegg, súrmjólk, te og kaffi.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að taka fram óskir um gistingu, akstur og hvort þeir verði í kvöldverðinum á laugardagskvöldið.

Kostnaður:

Svefnpokagisting: kr. 4000

Kvöldverður: kr. 3.000

Morgunverður: kr. 1000

Akstur Apavatn-Skálholt-Apavatn:  kostnaður fer eftir fjölda þátttakenda.

Þátttaka tilkynnist á netfangið halldor.reynisson@kirkjan.is

Pílagrímagöngur eru hluti af hinum kristna menningararfi. Þeir sem ferðast til heilagra staða eru kallaðir pílagrímar. Þetta orð er komið úr miðaldalatínu (pelegrinus) en á rætur í klassískri latínu (peregrinus, útlendingur). Slíkar göngur eru farnar af misjöfnum ástæðum; í þakkargjörð, í yfirbótarskyni eða af trúarlegum og/eða menningarlegum áhuga. Gengið er í áföngum en hlé eru notuð til bænahalds, ritningarlesturs eða til íhugunar og kyrrðar.

Frá 2004 hefur verið gengin pílagrímaganga frá Þingvöllum að Skálholti á Skálholtshátíð sem haldin er árlega í kring um Þorláksmessu að sumri 20. júlí.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir