Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Hólahátíð 2017, með áherslu á siðbót í samtíð

Hólahátíð 2017 fer fram föstudag til sunnudags, 11.-13.ágúst og verður hátíðin tileinkuð 500 ára afmæli Marteins Lúthers, með áherslu á siðbót í samtíð.

Hátíðardagsskrá verður sett af Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup í Auðunarstofu á föstudaginn kl.17:00. Á dagsskrá má helst nefna þátttökugjörninginn Tesur á Hólahátíð, sem fer fram alla helgina og Tón-leikhúsið á sunnudeginum kl. 11:00.

Tesur á Hólahátíð er í umsjá listakvennanna Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal, en þar gefst fólk tækifæri til að nota sömu prent-tækni og Marteinn Lúther nýtti þegar hann mótmælti kaþólsku kirkjunni og hengdi sínar 95 tesur upp, en á Hólahátíð 2017 er fólk hvatt til þess að koma sínum hugmyndum um betri kirkju á sama hátt til skila.

Á laugardagsmorgni kl. 09:00 verður lagt af stað í fjórðu árlegu Pílagrímsgöngu frá Gröf á Höfðaströnd, og gengið eftir Hallgrímsveginum að Hóladómkirkju þar sem fram fer endurnýjun skírnarinnar og altarisganga.

Laugardagskvöldið einkennist af þýskum matargerðarhefðum, en þá mun matreiðslumeistarinn Þórir Erlingsson útbúa veisluborð í anda þeirrar matargerðar sem var á tíma Marteins Lúther í Þýskalandi, hægeldað yfir opnum eldi, ýmsar tegundir af vandlega krydduðum pylsum, þ.m.t. bratwurst, ásamt sauerkraut og öl á krana, brugguðu eftir þýskum hefðum og öðru góðgæti.

Á sunnudeginum hefst dagsskráin á flutningi ReykjavíkBarokk á Tón-leikhúsinu, Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn eftir þær Guðnýju Einarsdóttur og Diljá Sigursveinsdóttur. En þar mun leikkonan Steinunn Jóhannesdóttir, ásamt einsöngvurum, rekja sögu siðbótarkvennanna Elísabetar Cruciger og Halldóru Guðbrandsdóttur.

Eftir hádegi, kl. 14:00 fer fram prestsvígsla þar sem mag.theol. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir verður vígð til þjónustu við Lögmannshlíðarprestakall. Að veislukaffi loknu í Hólaskóla verður samkoma þar sem Auður Eir Vilhjálmsdóttir flytur hátíðarræðu og ReykjavikBarokk flytur tónlist.

Deila fréttinni


Nýjar fréttir