Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

„Græni patríarkinn“ í heimsókn til Íslands

Hans Heilagleiki Bartólemeus I, samkirkjulegi patríarkinn í Konstantínóbel, og andlegur leiðtogi ríflega 300 milljóna kristinna innan Rétttrúnaðarkirkjunnar, sækir Ísland heim á vegum þjóðkirkjunnar, Alkirkjuráðsins og Arctic Circle – Hringborðs norðursins dagana 12. til 15. október næstkomandi. Patríarkinn flytur meðal annars eina af aðalræðum þings Arctic Circle um réttlátan frið við jörðina í Hörpu föstudaginn 13. október, verður í forsæti eigin messu og viðstaddur samkirkjulega guðsþjónustu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 15. október.

Meðan á Íslandsheimsókn Patríarkans til Íslands stendur mun hann hitta að máli dr. Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra.

„Það eru sannarlega söguleg tíðindi að „græni patríarkinn“ skuli hafa þekkst boð um heimsókn til Íslands á þeim tíma sem við höfum markað í þjóðkirkjunni sem tímabil sköpunarverksins,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. „Rætur embættis hans má rekja til frumkristni og þess vegna er hann talinn fremstur meðal jafningja í Rétttrúnaðarkirkjunni og andlegur leiðtogi hennar. Frá því hann tók við embætti árið 1991 hefur hann sýnt að hann dvelur ekki í sögunni, heldur er í hópi helstu alþjóðlegu hugsjónarmanna, friðarstilla og brúarsmiða samtíma okkar.“

Samkirkjulegi patríarkinn hefur unnið að bættri sambúð kirkjudeilda, aflað sér virðingar fyrir einlægan málflutning í umhverfismálum og málefnum sem snerta friðargjörð og sáttaumleitanir. Hann hefur einnig átt frumkvæði að mörgum alþjóðlegum þingum um trúarlegt umburðarlyndi og samtölum við trúarleiðtoga Múslima og Gyðinga.

Patríarkinn kemur til Íslands ásamt fimm manna sendinefnd í tilefni af ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina, sem haldin verður í Digraneskirkju og á Þingvöllum 11. til 13. október, og til þess að flytja boðskap um sama efni á Arctic Circle þinginu í Hörpu. Alkirkjuráðið tekur virkan þátt í Hringborði norðursins að þessu sinni, meðal annars í pallborðsumræðum að lokinni ræðu Patríarkans og tveimur málstofum á þinginu, en að annarri þeirra kemur einnig Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar.

Fleiri atriði í dagskrá Bartólemeusar 1 í heimsókn hans til Íslands verða birt síðar.

Nánari upplýsingar um lífsferil, störf og verkefni embættis hans má finna á heimasíðunni: https://www.patriarchate.org/

Deila fréttinni


Nýjar fréttir