Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Opnun Biblíusýningar í Skálholti

Mikið er að vonum um að vera í kirkjum landsins um þessar mundir til að minnast þess að nk. þriðjudag 31. okt. 2017 verður hálft árþúsund liðið frá því að hinn 33 ára gamli guðfræðingur Marteinn Lúther negldi mótmæli sín í 95 liðum á hurð hallarkirkjunnar í Wittemberg í Þýskalandi. En eins og flestir vita ruddi hann þar með braut margskonar umbótum í kristnu helgihaldi — sem ýmist hafa verið nefndar siðbreyting eða siðbót.

Einn þessara viðburða verður eins og vera ber í Skálholti, biskupssetrinu fornhelga þar sem Oddur Gottskálksson, er sjálfur kallaði sig “ónýtan yngling”, hóf þýðingu Nýja testamentisins á íslensku árið 1536 aðeins nær tveimur áratugum eftir upphaf siðbótar. Í Skálholtskirkju, hinni dáðu byggingu Harðar Bjarnasonar arkitekts, verður efnt til fallegrar athafnar síðdegis á sjálfan siðbótardaginn. Flutt verða stutt erindi, einkar fróðleg, og fögur tónlist sungin og leikin — jafnframt því sem opnuð verður einstaklega áhugaverð sýning á öllum þýðingum Biblíunnar á íslensku o.fl. ritum sem hana varða í Þorláksbúð.

Það eru afkomendur dr. Sigurðar Pálssonar vígslubiskups í Skálholtsstifti 1966-1983 sem vilja með sýningunni veita almenningi aðgang að gersemum er í gegnum tíðina söfnuðust til varðveislu hjá hinum virta kennimanni. Þykir táknrænt að sýna fornar íslenskar Biblíur í Þorláksbúð – húsi þeirrar gerðar sem bækurnar voru um aldir varðveittar í. Fátt er líka jafnvel fallið til að minnast áðurnefndra tímamóta en einmitt biblíusýning því með siðbótinni hætti Biblían að vera nær eingöngu í höndum presta og preláta en dreifðist út og varð í fylling tímans almenningseign m.a. hér á landi.

Allir eru velkomnir til þessarar athafnar og fylgir nánari dagskrá. Óhætt er að hvetja alla sem geta til að gera sér dagamun og njóta athafnarinnar.

500 ÁR FRÁ UPPHAFI SIÐBÓTAR MARTEINS LÚTHERS

Athöfn í Skálholtskirkju þriðjudaginn 31. október 2017 kl. 17:00

OPNUN BIBLÍUSÝNINGAR

Sýning á öllum íslenskum útgáfum Biblíunnar frá upphafi, sem voru í eigu séra Sigurðar Pálssonar vígslubiskups.

- Vígslubiskup Kristján Valur Ingólfsson flytur ávarp og býður gesti velkomna.

- Ólafur Sigurðsson flytur ávarp af hálfu afkomenda séra Sigurðar og kynnir aðdraganda að sýningunni.

- Dr. Gunnar Kristjánsson fv. prófastur: Bók bókanna í íslenskri menningarsögu.

- Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor: Hversu elskulegar eru þínar tjaldbúðir -Brot úr sögu íslenskra biblíuþýðinga í minningu dr. Sigurðar Pálssonar vígslubiskups.

- Guðni Ágústsson fv. ráðherra: Biblían – Boðskapur réttlætis og kærleika.

Gissur Páll Gissurarson söngvari og Jón Bjarnason organisti sjá um tónlist.

- Biblíusýning opnuð í Þorláksbúð

- Kaffiveitingar í Skálholtsskóla

Deila fréttinni


Nýjar fréttir