Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir skipuð héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra – kosningu til vígslubiskups frestað

Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa sr. Evu Björk Valdimarsdóttur héraðsprest í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, frá og með 1. nóvember 2017. Frá sama tíma er afturkölluð skipun hennar í embætti prests í Dómkirkjuprestakalli, sem taka átti gildi 1. nóvember 2017.  Tildrög eru þau að komið hafa fram athugasemdir um að ekki hafi verið réttilega staðið að kosningu kjörnefndar prestakallsins, en kjörnefnd hefur m.a. það hlutverk að kjósa prest úr hópi umsækjenda. Sóknarnefnd Dómkirkjusóknar valdi í kjörnefndina en kjósa skal kjörnefnd á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi.
Þessi annmarki á málsmeðferðinni er það mikill að mati biskups að endurtaka verður skipunarferlið.  Til að greiða fyrir því hefur sr. Eva Björk orðið við málaleitan biskups um að skipun hennar verði afturkölluð. Með þessu sé í senn litið til hagsmuna allra umsækjenda um embættið og til stjórnsýslulaga. Breytingar þessar eru gerðar í góðu samráði við sr. Evu Björk og með samkomulagi við hana.
Ekki er talin þörf á sömu aðgerðum hvað varðar skipun sóknarprests Dómkirkjuprestakalls, sr. Sveins Valgeirssonar frá því fyrr á árinu, því að hann var eini umsækjandinn um sóknarprestsembættið þegar það var auglýst sl. vor.
Gert er ráð fyrir því að embætti prests við Dómkirkjuprestakall verði auglýst að nýju á næstunni.

Kjörnefndarmenn sókna í Skálholtsumdæmi hafa kosningarrétt við kjör vígslubiskups, sem stendur nú yfir. Í ljósi ofangreinds hefur kjörstjórn við vígslubiskupskjörið ákveðið að fresta seinni umferð kosninganna, sem hefjast áttu 6. nóvember nk. Kjörstjórn hefur óskað eftir því að Biskupsstofa afli upplýsinga um það hvernig staðið hefur verið að kjöri allra kjörnefnda í Skálholtsumdæmi. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir mun kjörstjórn taka ákvörðun um framhald málsins. 

Deila fréttinni


Nýjar fréttir