Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Sr. Kristján Valur Ingólfsson

Kristján Valur Ingólfsson

Kristján Valur Ingólfsson

Víglusbiskup í Skálholti

kristjanvalur.is
kvi.annáll.is

Fjölskylduhagir

Kristján Valur Ingólfsson er fæddur 28. október 1947 í Dal í Grenivíkursókn í Laufásprestakalli, sonur hjónanna Hólmfríðar Björnsdóttur frá Nolli og Ingólfs Benediktssonar frá Jarlsstöðum. Þau eignuðust tíu börn og er Kristján Valur sjötti í röð þeirra. Kristján Valur og Margrét Bóasdóttir, MBA, söngkona og  kórstjóri hafa verið gift í 40 ár. Þau eiga synina Bóas sem er fatahönnuður og Benedikt söngvari. Báðir hafa þegar getið sér gott orð, hvor á sínu sviði.

Helstu stefnumál

1. Að nýta eins vel og kostur er möguleika þjóðkirkjunnar til trúfræðslu og trúariðkunar.

Kristin trú virðist vera  á undanhaldi allsstaðar á Vesturlöndum. Einnig hér. Ekki bara hjá ungu fólki. Þetta tel ég vera stærstu áskorun kristinnar trúar í samtímanum. Þjóðkirkjan getur nýtt sér reynslu systurkirknanna til þess að bregðast við. Tækifæri þjóðkirkjunnar til að snúa vörn í sókn eru mörg og mikilvæg eins og best sést á þvi að lang stærstur  hluti 13-14 ára barna kemur í fermingarfræðslu, allur þorri ungra foreldra ber börnin sín til skírnar og  næstum því allir Íslendingar eru bornir  til moldar í kristnu samhengi. Þetta eru dásamleg tækifæri sem við þurfum að nota betur!

2. Að bregðast við neikvæðri umræðu um þjóðkirkjuna, dvínandi trausti til hennar og fjölgandi úrsögnum.

Efla þarf samstöðu þjóðkirkjufólks  og styrkja leiðtoga kirkjunnar, jafnt leika sem lærða til að standa vörð um smæstu einingar kirkjustarfsins jafnt og hinar stærstu, og varast að láta leiða sig inn í neikvæða umræðu um grunnstoðir og grunngildi kirkjunnar.

3. Að bregðast við fjárhagsvanda safnaðanna og þjóðkirkjunnar í heild.

Leggja þarf upp með nýtt samningaferli við ríkisvaldið með það fyrir augum að viðurkennt verði að sóknargjöld séu félagsgjöld safnaða og að ríkið sem innheimtuaðli skuli umbúðalaust skila þeim til safnaðanna, en meti þau ekki sem hverja aðra skattheimtu sem hið pólitíska vald  geti farið með að vild.

4. Að leita nýrra leiða á öllum stigum kirkjustarfsins.

Þegar kreppir að og tekjur minnka og starfsfólki fækkar verður að bregðast við með  betri vinnubrögðum og aukinni alúð.  Það gildir jafnt um launað starfsfólk sem sjálfboðaliða. Bæta þarf menntun, starfsþjálfun og símenntun allra þeirra sem starfa í kirkjunni.

5. Að helgihald og samkomur safnaðanna taki mið af þeim sem þangað leita, fyrst og fremst  með nýjum söng.

Þjóðkirkjan er syngjandi kirkja. Ekkert kirkjustarf sameinar söfnuðinn betur er söngurinn, allt frá krílasöng til öldungakóra. Með útgáfu á nýju söngefni fyrir kirkjuna, auknu starfi kóra á öllum aldri, bættri menntun  organista og kórstjóra og skipulagðri söngmálastjórn með fastri stöðu söngmálastjóra getur kirkjan brugðist við þörfinni á að tjá trú sína og bera henni vitni með nýjum textum og nýjum tónum. 

Þjóðkirkjan og biskupsþjónustan

Stærsta verkefni þjóðkirkjunnar framundan er hið sama og á öllum  tímum. Það er að standa vörð um kristna trú og trúariðkun í samræmi við  hina kristnu kenningu eins og hana er að finna í heilagri ritningu og í játningum okkar kirkju. 

Í öðru lagi þarf þjóðkirkjan  að bregðast við kröfum og áherslum samtímans bæði um samfellt uppbyggjandi starf safnaðanna þrátt fyrir fjárhagslegar þrengingar, og um traust og trúverðugleika gagnvart samfélaginu öllu.

Í þriðja lagi þarf þjóðkirkjan að lagfæra lög sín og reglur til bóta fyrir stjórnsýsluna og taka mið af ábendingum ríkisendurskoðunar. Þar rís hæst það verk sem yfir stendur að ljúka endurskoðun  frumvarps til nýrra þjóðkirkjulaga og í framhaldi af því alls lagaumhverfis  þjóðkirkjunnar og samskipta hennar við ríkisvaldið. Í tengslum við þetta verk til endurskoðunar laganna þarf einnig að endurskoða starfsreglur kirkjuþings og samþykktir þess. Umræðan sem nú fer fram um stjórnarskrána kann að leiða til þeirrar niðurstöðu að þjóðkirkjan verði þar ekki nefnd. Það væri mikið slys. Um hana myndu  þá jafnvel engin lög gilda önnur er almenn lög um öll trúfélög og lífsskoðunarfélög. Þjóðkirkjan verður að  leggjast gegn þessum hugmyndum en jafnframt vera tilbúin til að bregðast við þeim nýju aðstæðum ef af verður.

Í  fjórða lagi þarf þjóðkirkjan að leggja sig enn frekar fram um menntun starfsfólks síns, bæði presta og djákna í samvinnu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, organista og kórstjóra, með því að styrkja sérmenntun þeirra á hinu kirkjulega og trúarlega sviði, og ekki síst með því að bæta fræðslu og menntun allra þeirra sem starfa fyrir kirkjuna, að mestu í sjálfboðinni þjónustu, eins og sóknarnefndarfólk, meðhjálpara og kirkjuverði, kórsöngvara og hringjara, svo nokkuð sé nefnt.

Síðast en ekki síst  þarf þjóðkirkjan að endurheimta rétta krónutölu sóknargjaldanna miðað við verðlagsþróun svo hún geti sinnt starfi sínu sem þjóðkirkja í öllum söfnuðum smáum og stórum.

Biskupinn hefur það meginverkefni að standa vörð um trúna og kenninguna. Þess vegna hefur hann þá skyldu að vígja og vísitera. Þó að kirkjuþingið fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar  er biskup Íslands í raun æðsti yfirmaður hennar, en hann er sjaldnast, ef nokkurntíma, einn í ráðum. Í störfum sínum getur hann treyst á mikinn fjölda samstarfsfólks í öllum greinum síns tilsjónarembættis. Auk kirkjuráðs og starfsmanna Biskupsstofu sem standa honum næst í daglegri umsýslu, fara prestar og prófastar og vígslubiskupar með tilsjón í kirkjunni hver á sínu sviði ásamt biskupi.

Orða má það þannig að þjóðkirkjan sé stærsta fjöldahreyfing í landinu. Þar er líka stærsti hópur sjálfboðaliða að starfi, þar sem er til dæmis allt það fólk sem situr í sóknarnefndum og syngur í kirkjukórum. Útilokað er að þjóðkirkjan geti haldið úti svo fjölþættu starfi sem hún gerir án þessa sjálfboðna starfs. Margir söfnuðir hafa að undanförnu orðið að fækka launuðu starfsfólki vegna fjárhagsþrenginga. Stærstur hluti þessa fólks eru einstaklingar sem sinna nauðsynlegum grundvallarstörfum safnaðar, eins og að annast barnafræðslu, æskulýðsstarf og kórastarf. Án þessa starfs getur þjóðkirkjan alls ekki verið. En stærsta og mikilverðasta starf þjóðkirkjunnar er það sem í raun er unnið í kyrrþey, eins og hver annar sjálfsagður og eðlilegu hluti hins daglega lífs. Sannleikurinn er sá að það væri alls engin kirkja í þessu landi ef ekki kæmu til bænir og trúfræðsla foreldra með börnum sínum. Engin trúfræðsla er öflugri en trúariðkunin sjálf. Bæn foreldra fyrir barni sínu allt frá fyrstu vísbendingu þungunar, frá fæðingu að skírn og þaðan allt til fermingarþroska og enn áfram er kröftugasti vitnisburður trúarinnar í þjóðkirkjunni. Þess vegna þarf líka að efla starf með foreldrum  ungra barna og bæta vel í flóru fræðslu- og stuðningsefnis fyrir trúarlíf heimilanna.

Menntun

Að loknu fullnaðarprófi á Grenivík og námi í heimaskóla séra Sigurðar Guðmundssonar á Grenjaðarstað einn vetur, tók við tveggja vetra nám við Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal og landspróf þaðan vorið 1964. Menntaskólinn að Laugarvatni 1964-1968 og stúdentspróf þaðan. Nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands frá 1968. Cand.theol.-próf þaðan 1974. Framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði við Háskólann Heidelberg í Þýskalandi 1977-1984 og aftur 1996-1997.

Störf

Sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli 1974-1978, aukaþjónusta í Svalbarðssókn í Þistilfirði og í Sauðanesprestakalli í heild 1975-1976. Prestsþjónusta í sunnudags- og helgiþjónustu, óreglulega en af og til í afleysingum í Þýskalandi 1980-1984. Sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli og þjónaði Ísafirði, Hnífsdal og Súðavík 1985-1986. Sóknarprestur í Grenjaðarstaðarprestakalli og þjónaði Grenjaðarstaðar-, Einarsstaða-, Þverár- og Nessóknum 1986-1992. Prestur í afleysingum fyrir sóknarprest og í rektorsþjónustu í Skálholti 1992-1996, 1997-1999. Settur sóknarprestur í Skálholtsprestakalli í desembermánuði 1997. Prestsþjónusta í afleysingum í Langholtsprestakalli í Reykjavík (frá 1999) og í Mosfellsprestakalli, (1999- 2003) auk messu- og predikunarþjónustu í Kapellu Háskóla Íslands (1999-2008) og í Hallgrímskirkju frá 1999. Sóknarprestur á Þingvöllum frá 2004.

Forfallakennsla í Laugalækjarskóla í Reykjavík á vormisseri 1973. Kristinfræðikennsla við grunnskólann á Raufarhöfn 1974-1974, kristinfræðikennsla við grunnskólann á Hafralæk í Aðaldal 1987-1988.

Kenndi messusöngfræði og sálmafræði við orgeldeild Tónlistarskólans á Akureyri 1989-1991.

Settur rektor Skálholtsskóla á tímamótum í janúar 1992, í hlutastarfi, og að fullu frá september1992. Stýrði Skálholtsskóla 1993-1996 og 1997-1999. Bar ábyrgð á daglegum rekstri skólans, mannaráðningum og starfsmannahaldi og mótaði stefnu hans. Bar ábyrgð á bókhaldi skólans fyrsta árið eða þar til starfskraftur var ráðinn til þess. Kenndi í stöðu rektors Skálholtsskóla á fjölmörgum námskeiðum þar, einkum fyrir starfsfólk þjóðkirkjunnar, og hélt fyrirlestra fyrst og fremst um stöðu kirkjunnar, samskipti ríkis og kirkju, kirkjurétt og embættisskilning Þjóðkirkjunnar, sálmasöng og guðsþjónustuhald árin 1992-1999.

Kenndi líturgísk söngfræði sem stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands frá 1992, með hléum, til 1999. Lektor í kennimannlegri guðfræði við sömu deild að undangengnu mati dómnefndar 2000-2008 og kenndi helgisiðafræði, sálmafræði og djáknafræði. (50% staða með stjórnunarábyrgð).

Verkefnisstjóri helgisiða- og kirkjutónlistarsviðs á Biskupsstofu frá 2000 (50% staða).

Umsjón með samfylgd guðfræðistúdenta í starfsþjálfun Þjóðkirkjunnar frá 2001.

Kennsla á fjölmörgum námskeiðum á vegum Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar frá 1994, fyrir meðhjálpara og kirkjuverði, fyrir kórfólk og organista, fyrir sóknarnefndir og fyrir presta og leikfólk. Kennslustaðir á landinu utan höfuðborgarsvæðisins eru alls 27.
Útbjó kennsluefni á sviði helgihalds kirkjunnar, sálmasöngs og kirkjutónlistar, tengsla trúar og listar auk almennra kirkjufræða og kirkjuréttar.

Félags- og trúnaðarstörf

Starfaði að undirbúningi breytinga á starfi Skálholtsskóla þar til ný lög um hann tóku gildi í mars 1993 og skipulagði uppbyggingu hinnar nýju stofnunar í samvinnu við biskup og kirkjuráð og síðar skólaráð skólans.

Í dómnefnd um hæfi sr. Bjarna Sigurðssonar dósents,til framgangs í stöðu prófessors við Guðfræðideild Háskóla Íslands 1988, og um hæfi dr. Péturs Péturssonar, dósents, til hins sama, 1994. Í dómnefnd um hæfi sr. Sigfinns Þorleifssonar til skipunar í lektorsstöðu 2005.

Í Helgisiðanefnd Þjóðkirkjunnar frá 1978, formaður frá 1997.

Í stjórn sumarbúðanna við Vestmannsvatn 1986-1992.

Formaður Prestafélags hins forna Hólastiftis 1990-1992.

Í skólanefnd Framhaldsskólans að Laugum í Reykjadal 1986-1992 og vann að breytingu Héraðsskólans í Framhaldsskóla með réttindum til að útskrifa stúdenta.

Formaður skólanefndar Grunnskólans í Reykholti í Biskupstungum 1996-1998.

Í nefnd á vegum Þjóðkirkjunnar 1995 til að fjalla um hlutverk organista í aðdraganda Þjóðkirkjulaganna frá 1997.

Í stjórn Tónskóla Þjóðkirkjunnar 2000-2006 og vann að endurskipulagningu skólans, gerð nýrrar námskrár og mótun stefnu Þjóðkirkjunnar í tónlistarmálum.

Í Listanefnd Kristnihátíðarnefndar til undirbúnings Kristnihátíðar 1996-2000.

Í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju 1999-2009 og formaður 2000-2005.

Formaður stjórnar Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 2001 og 2003.

Í nefnd á vegum Þjóðkirkjunnar til endurskoðunar starfsreglna um starfsþjálfun guðfræðikandidata og um samfylgd guðfræðistúdenta frá 1999 (nýjar starfsreglur samþykktar af Kirkjuþingi 2002).

Í nefnd á vegum Guðfræðideildar til endurskoðunar námstilhögunar í Guðfræðideild 2000- 2001 (ný námstilhögun gildir frá 2003).

Í nefnd á vegum Þjóðkirkjunnar til undirbúnings starfsmannastefnu Þjóðkirkjunnar 2001 (samþykkt á Kirkjuþingi 2002).

Í nefnd á vegum Biskupsembættisins til undirbúnings erindisbréfa fyrir presta 2001.

Í nefnd til undirbúnings að gerð minnismerkis um fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi sem reist var í Hafnarfirði um 1533, frá 2001. Verki lauk með því að forseti Þýskalands, Johannes Rau, afhjúpaði minnismerkið 1.júlí 2003.

Í nefnd á vegum Prestafélags Íslands til endurskoðunar á siðareglum presta 2001-2002.

Í Tónleikanefnd Háskóla Íslands frá 2001.

Í nefnd á vegum Kirkjuráðs til endurskoðunar á starfsemi Kirkjumiðstöðvarinnar á Vestmannsvatni 2002.

Formaður stjórnar Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar 2003-2006 

Í Bygginga- og listanefnd Þjóðkirkjunnar 2003-2010.

Í nefnd til undirbúnings siðareglna fyrir útfararstofur 2003.

Formaður nefndar til endurskoðunar Handbókar kirkjunnar 2004.

Sit í Sálmabókarnefnd sem formaður Helgisiðanefndar 2004.

Í nefnd skipaðri af Dómsmálaráðherra 2004til að ræða álitaefni er snerta lög um helgidagafrið, nr. 32 14. maí 1997.

Í nefnd skipaðri af Dóms-og kirkjumálaráðherra til endurskoðunar laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu 2005 og aftur 2011.

Í milliþinganefnd Kirkjuþings um endurskoðun þjóðkirkjulaganna 2010-2011.

Ráðgefandi um málefni helgihalds kirkjunnar frá 1978. Sat í Helgisiðanefnd sem gaf út núgildandi Handbók kirkjunnar 1981.

Ráðgjafi sálmabókarnefndar frá 1986 til og með útkomu viðbætis við sálmabók 1991. Vann með nefndinni að útkomu bráðabirgðaútgáfu sálmabókarinnar 1997.

Tók þátt í undirbúningi að útgáfu söngefnis fyrir barnakóra, kvennakóra og blandaða kóra undir heitinu Söngvasveigur, einkum hefti 1-9. Tók þátt í undirbúningi Barnasálmabókar 2000.

Ráðgjafi um helgihald á Þingvöllum á Kristnihátíð 2000 og mótaði helgihald laugardagsins (iðrunarganga með þátttöku fulltrúa Páfagarðs og samtaka kristninnar).

Ráðgjafi biskupsembættisins í málefnum guðsþjónustunnar og helgihaldsins frá 2000 og sem verkefnisstjóri helgisiða- og kirkjutónlistarsviðs Biskupsstofu í hálfu starfi frá sama tíma.

Hafði mótandi áhrif á nýskipan kennimannlega þáttarins í námsframboði Guðfræðideildar sem tekið var upp á árinu 2003, með starfi í nefnd á vegum deildarinnar.

Mótaði tillögur að nýskipan kirkjutónlistarmála Þjóðkirkjunnar 2002-2003.

Ráðgjöf um skipan prestsembætta að beiðni Prestafélags Íslands 2001-2002.

Ráðgjöf um efni fyrir kirkjuárið, guðsþjónustuna og aðrar athafnir kirkjunnar á vef Þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is, frá ársbyrjun 2002 og frá 2008 www.kirkjan.is/handbok-presta.

Rit

Fjölmargar greinar í Kirkjuriti og Ritröð Guðfræðistofnunar, Bókarkaflar og Sálmar, þýddir og frumsamdir í sálmabókum og söngbókum.

Comments are closed.