Breiðholtskirkja

 

Pílagrímaganga 4. desember með TTT

Nýtt kirkjuár hófst síðastliðinn sunnudag, á fyrsta sunnudegi í aðventu.   Með nýju ári fögnum við  nýju upphafi þar sem við fáum tækifæri til að endurnýjast sem Guðs góða sköpun.  Á slíkum tímamótum er gott að hugleiða hvaða þýðingu nýtt kirkjuár hefur fyrir okkur.  Hugleiða eigin trú og biðja þess að hún megi styrkjast og eflast Drottni til dýrðar á nýju kirkjuári.  Af því tilefni verður efnt til pílagrímagöngu frá Breiðholtskirkju fimmtudaginn 4. desember kl. 17:15. Pílagrímaferðir eru gömul hefð í flestum kristnum kirkjudeildum.  Sú breyting hefur orðið á hefðinni að í dag liggur leiðin ekki endilega til helgra staða; lokastaðurinn er ekki markmiðið í sjálfu sér.  Fremur er það pílagrímagangan sjálf sem er orðin aðalatriðið.   Sú verður einmitt reyndin í pílagrímagöngunni  nk. fimmtudag.  Börn úr TTT starfi Breiðholtskirkju munu taka þátt í göngunni  þar sem horft verður til umhverfis kirkjunnar um leið og sköpunarsagan úr I. Mósebók verður lesin.  Áætlað er að gangan taki 30 mínútur og því ættu allir fjölskyldumeðlimir að geta komið með.   Eftir gönguna getur göngufólk komið inn í safnaðarheimilið og átt þar notalega stund saman. 

Nína Björg Vilhelmsdóttir, 3/12 2008

Aðventukvöld 30. nóvember

Fyrsta sunnudag í aðventu 30. nóvember verður aðventukvöld kl. 20.  Dagskráin er fjölbreytt bæði í tali og tónum.  Ræðumaður kvöldsins verður Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður.  Kirkjukór Breiðholtskirkju syngur og leiðir almennan safnaðarsöng og Kvennakór Reykjavíkur flytur tvö aðventulög.  Fermingarbörn sýna helgileik út frá friðarbæn Frans frá Assisí.  Eftir stundina verður boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur í safnaðarheimilinu og gefst þá kostur á að styrkja Hjálparstarf kirkjunnar.  Einnig verða seld friðarljós Hjálparstarfsins í anddyri kirkjunnar.  Hefjum jólaundirbúninginn í sameiningu að kvöldi fyrsta sunnudags í aðventu.

Bryndís Malla Elídóttir, 27/11 2008

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Fyrsta sunnudag í aðventu verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11 með þátttöku eldri barnakór kirkjunnar.  Kveikt verður á fyrsta aðventukertinu, spádómskertinu, og sungin nokkur jólalög.  Einnig munu börnin hjálpast að við að setja upp “Betlehemfjárhúsið” og er það alltaf hátíðleg stund.  Eftir guðsþjónustuna verður boðið upp á piparkökur, kaffi og djús í safnaðarheimilinu.

Bryndís Malla Elídóttir, 26/11 2008

Lifandi kirkja

Það má með sanni segja að það sé ævinlega líf í kirkjunni okkar.  Á morgun, miðvikudag, verður hin vikulega kyrrðarstund sem hefst klukkan 12:00.  Eftir kyrrðarstundina er boðið uppá léttan hádegisverð í safnaðarheimilinu.  

Klukkan 13:30 hefst samvera eldri borgara.  Í samverunni verður hið árlega og æsispennandi bingó.  Kirkjuprakkarar hittast klukkan 16:00 og þau ætla að byrja að æfa jólahelgileikinn.  

Allir eru hjartanlega velkomnir í kirkjuna.

Nína Björg Vilhelmsdóttir, 25/11 2008

Fjölskylduguðsþjónusta og Tómasarmessa

Sunnudaginn 23. nóvember verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11.  Yngri barnakórinn syngur og börn út TTT sýna helgileik.  Einnig verður barn borið til skírnar.  Sunnudagaskólabörnin fá að sjálfsögðu límmiða í bókina og brúðurnar leggja eitt og annað til málanna eins og þær eru vanar að gera.   Boðið er upp á hressingu í safnaðarheimilinu að lokinni guðsþjónustunni.

Kl. 20 verður Tómasarmessa með fjölbreyttri tónlist, máltíð Drottins og fyrirbæn.  Tómasarmessurnar njóta mikilla vinsælda og er upplifundarþáttur hverrar messu mikilvægur en boðið er upp á fyrirbæn með handayfirlagningu, en einnig má skrifa bænarefni á miða og verður beðið fyrir þeim bænarefnum í messunni og í kyrrðarstundum í kirkjunum næstu vikur á eftir.  Bænin er ber árangur, það hefur oft sannast í Tómasarmessunum.    Eftir messunar er kaffisopi í safnaðarheimilinu.

Bryndís Malla Elídóttir, 20/11 2008

Kirkjuprakkarar og æskulýðsfélag

kl. 16 á miðvikudögum hittast kirkjuprakkararnir í safnaðarheimilinu.  Starfið er ætlað börnum í 2. til 4. bekk, starfsmaður kirkjunnar sækir þau börn sem eru í Bakkaseli og fylgir þeim sem vilja í kirkjuna.  Boðið er upp á ávexti eða aðra hressingu á hverri samveru sem eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar.  Í desember munu kirkjuprakkararnir æfa helgileik sem sýndur verðu í kirkjunni um jólin.  Alltaf er tekið vel á móti nýjum prökkurum.

kl. 20 hittist æskulýðsfélag kirkjunnar sem er í umsjón KFUM og KFUK.  Góður hópur unglinga úr 8. og 9. bekk bera uppi félagið og tekur sér ýmislegt fyrir hendur en nýlega fór hópurinn til dæmis í sólarhringsdvöl í Vatnaskóg.  Framundan er skemmtileg dagskrá og allir unglingar eru að sjálfsögðu velkomnir í hópinn.

Bryndís Malla Elídóttir, 18/11 2008

Kyrrðarstund í hádeginu

Alla miðvikudaga kl. 12 er kyrrðarstund í kirkjunni.  Fyrirbænin er mikilvægur liður í stundinni og má koma bænarefnum á framfæri við presta kirkjunnar í síma 587 1500 eða á milli 11 og 12 þriðjudaga til föstudaga.  Eftir kyrrðarstundina er boðið upp á léttan hádegisverð í safnaðarheimilinu.

Bryndís Malla Elídóttir, 18/11 2008

Kristniboðsdagurinn á sunnudaginn

Kristniboðsdagurinn er haldinn hátíðlegur í kirkjunni annan sunnudag í nóvember.  Í Breiðholtskirkju verður messa kl. 11 og þá mun sr. Helgi Hróbjartsson kristniboði prédika.  Prestur er sr. Gísli Jónasson og organisti Julian E. Isaacs sem jafnframt stjórnar kór kirkjunnar.   Að messu lokinni verður boðið upp á súpu og brauð í safnaðarheimilinu þar sem sr. Helgi mun sýni myndir frá Afríku og segja frá starfi sínu þar sem kristniboði.  Sr. Helgi hefur langa reynslu af þjónustu við erfiðar og frumstæðar aðstæður og mun á sunnudaginn segja frá því starfi á sinn einstaka hátt.

Sunnudagaskólinn er einnig á sínum stað kl. 11.

Bryndís Malla Elídóttir, 6/11 2008

Allra heilagra messa

Sunnudaginn 2. nóvember verður messa og sunnudagaskóli kl. 11.  Prestur sr. Bryndís Malla Elídóttir, organisti Jón Bjarnason, kór kirkjunnar syngur.  Á allra heilagra messu er guðspjallið úr 5. kafla Matteusarguðspjalls, hin svo kölluðu sæluboð.  Í sunnudagaskólanum heldur fjársjóðsleitin áfram því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera (Matt. 6:21).  Umsjón með sunnudagaskólanum hafa Nína, Karen. Linda og Jóhann.

Bryndís Malla Elídóttir, 31/10 2008

Miðvikudagur fyrir unga sem aldna

Á miðvikudögum er starf fyrir alla aldurshópa í Breiðholtskirkju.  Kl. 12 á hádegi er kyrrðarstund í kirkjunni og kl. 13:30 hefst starf eldri borgara í safnaðarheimilinu en þær samverur eru aðra hvora viku yfir vetrartímann.  Að þessu sinni verður spilað og spjallað um lífsins gagn og nauðsynjar.  Kl. 16 koma kirkjuprakkararnir en þeir eru á aldrinum 7 til 9 ára.  Í kirkjuprökkurunum er syngið, leikið, föndrað og sagðar sögur einnig er boðið upp á ávexti á hverri samveru.  Kl. 20 er síðan fundur í æskulýðsfélaginu en það er KFUM og KFUK sem hafa veg og vanda af þeirri dagskrá sem þar er boðið upp á.

Bryndís Malla Elídóttir, 28/10 2008

Sóknarprestur er sr. Magnús Björn Björnsson s. 8919840.
Viðtalstímar þriðjudaga til föstudaga kl. 11-12 eða eftir samkomulagi. Sími 587 1500.
Prestur innflytjenda: Sr. Toshiki Toma
Héraðsprestur: dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson
Prófastur: sr. Gísli Jónasson
Framkvæmdastjóri Eldri borgararáðs: Þórey Dögg Jónsdóttir

Fimmtudagur

Kl. 11-12 viðtalstími presta
Kl. 20:00 fræðslukvöld frá október 2018.

Dagskrá ...