Djáknafélag Íslands

 

Félagsfundur á aðventu

Auglýsing: aðventufundur 4. des 2017

Haldinn verður félagsfundur í byrjun aðventu þar sem við íhugum birtu ljóssins og hlúum svo í kjölfarið að lífsþrótti félagsins okkar með súpu og skemmtilegu samfélagi. Samveran verður í Fella- og Hólakirkju, mánudaginn 4. desember, klukkan 18:30.

(Ljósmynd með leyfi: Gareth Harper, unsplash.com)

Ólöf I. Daviðsdóttir, 22/11 2017

Starf auglýst á Landspítala

Prestur eða djákni með framhaldsmenntun í sálgæslu (CPE) eða sambærilega framhaldsmenntun s.s. fjölskyldumeðferð, óskast á Landspítala.  Starfshlutfall er 100% og veitist starfið frá 1. janúar 2018 eða eftir samkomulagi.

Nánari upplýsingar um starfið eru á vef stjórnarráðsins, starfatorg.is, og er jafnframt sótt um starfið í gegnum vefgátt sem þar er.

 

Ólöf I. Daviðsdóttir, 12/11 2017

Námskeið um hópstjórn í sorgarvinnu

Námskeið um hópstjórn á vettvangi sorgarvinnu vegna missis verður haldið á vegum samtakanna Ný dögun þann 18. október n.k. Félagsfólk DÍ hefur fengið upplýsingar um námskeiðið og tilhögun þess í tölvupósti. Einnig má finna upplýsingar um námskeiðið á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 2/10 2017

Djáknavígsla 24. september

Elísabet Gísladóttir vígist til djákna við athöfn í Dómkirkjunni, sunnudaginn 24. september n.k., klukkan 11. Elísabet mun gegna djáknaþjónustu við hjúkrunarheimilið Sóltún. Einnig hlýtur Sylvía Magnúsdóttir þá prestsvígslu. Hún mun þjóna sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum. Athöfnin er öllum opin og væri gleðilegt ef djáknar fjölmenntu til vígslunnar.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 21/9 2017

Öldrun og efri árin – námskeið fyrir starfsfólk safnaða

 

Námskeið um öldrun og efri árin verður haldið föstudaginn 29. september.  Fyrirlesarar verða dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Námskeiðið er einkum ætlað starfsfólki safnaða sem starfa meðal eldra fólks.  Að námskeiðinu standa Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæmanna og kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu. Skráning fer fram hjá Eldriborgararáði í síma 567-4810 eða eldriborgararad@kirkjan.is. Skráningu líkur miðvikudaginn 27. september.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 21/9 2017

Dagur díakóníunnar og alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

Sunnudaginn 10. september er dagur diakoniunnar eins og alltaf á 13. sunnudegi eftir trinitatis. Þann dag verður útvarpsmessa kl. 11 frá Áskirkju í Reykjavík. Predikun flytur Ásdís Pétursdóttir Blöndal, djákni, og mun hún ásamt sr. Sigurði Jónssoni, sóknarpresti, þjóna fyrir altari. Kammerkór Áskirkju mun syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, organista. Allir eru velkomnir í Áskirkju og ef þið eruð ekki við störf í eigin kirkju þennan dag væri gaman að sjá ykkur við messuna.

Þessi dagur er einnig alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Af því tilefni verður kyrrðarstund í Dómkirkjunn kl. 20. Að kyrrðarstundinni standa Geðhjálp, Geðsvið Landspítala, Hugarafl, Landlæknisembættið, Minningarsjóður Orra Ómarssonar, Ný dögun, Pieta, Rauði kross Íslands og Þjóðkirkjan. Einnig verða kyrrðarstundir haldnar á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjanesbæ.

Áhugavert væri að fá nánari fregnir af því sem um verður að vera í söfnuðum Þjóðkirkjunnar þennan dag, hvort heldur er til að fagna degi díakóníunnar eða vegna forvarnardagsins.  Frásagnir mætti gjarnan birta á heimasíðum safnaðanna og samfélagsmiðlum. Einnig má senda umfjöllun til birtingar á vef Djáknafélagsins.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 7/9 2017

Fyrirlestur Evu Bjarkar Valdimarsdóttur um fyrirgefninguna

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir prestur í Keflavíkurkirkju verður gestur fyrsta fundar Djáknafélags Íslands á nýju ári. Hún mun flytja okkur fyrirlestur um fyrirgefninguna. Að fyrirlestri loknum verða umræður og fyrirspurnir. Samveruna endum við svo á því að borða saman hádegisverð í boði DÍ.

Vinsamlegast skráið þátttöku á Facebooksíðu Djáknafélagsins.

 

Þórey Dögg Jónsdóttir, 25/1 2017

Styrktarsjóður KFH auglýsir eftir umsóknum

Logo - Kristilegt félag heilbrigðisstéttaKristilegt félag heilbrigðisstétta auglýsir nú eftir umsóknum úr styrktarsjóði KFH. Verkefni skulu tengjast markmiðum félagsins.
Styrktarsjóður KFH var stofnaður árið 2009 til minningar um Vigdísi Magnúsdóttur, hjúkrunarforstjóra og formann KFH um árabil.
Umsóknarfrestur er til 20. janúar 2017.

Nánari upplýsingar um styrkinn og frágang umókna eru hér á vef KFH.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 29/12 2016

Jólafundur Djáknafélags Íslands

Djáknafélag Íslands býður félagsfólki sínu til jólafundar
miðvikudagskvöldið 23. nóvember nk. kl. 18:00
í Hjallakirkju í Kópavogi.

Við ætlum að koma saman á lágstemmdum nótum og hlaða batteríin fyrir komandi gleði- og annatíma á vinnustöðum okkar. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat ætlar að leiða okkur í kyrrðarbæn. Við endum svo samveruna á því að halda lítið krúttlegt pálínuboð undir ljúfum jólatónum. DÍ leggur til drykki.

Hlökkum til að sjá ykkur öll, kæru félagar.

Þórey Dögg Jónsdóttir, 16/11 2016

Dagskrá DÍ fram að áramótum

Mánudaginn 10. október 2016 kl. 10:10 mun Díana Ósk Óskarsdóttir halda fyrir okkur námskeið um meðvirkni. Díana Ósk er guðfræðingur að mennt og hefur mikla þekkingu á málefninu. Hún gaf út bókina Vertu þín besta vinkona. Bókin fjallar um meðvirkni. Súpa og brauð í hádeginu í boði DÍ. Námskeiðið er félagsmönnum að kostnaðarlausu og fer það fram í safnaðarheimili Fella- og Hólakirkju.

Jólafundur DÍ verður haldinn 23. nóvember kl. 18:00 í Hjallakirkju í Kópavogi. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir mun leiða okkur í kyrrðarbæn og undirbúa okkur þannig fyrir annirnar sem framundan verða hjá okkur flestum. Stjórn DÍ leggur til drykki, en hver og einn tekur með sér eitthvert smáræði á sameiginlegt hlaðborð. Vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Mánudaginn 30. janúar kl. 10:00 mun séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Keflavíkurkirkju, flytja fyrirlestur um fyrirgefninguna á félagsfundi DÍ. Staðsetning er ekki enn staðfest. Hádegisverður er í boði DÍ. Fyrirlesturinn er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Takið þessar dagsetningar frá og fjölmennum á fundina. Við viljum benda ykkur á, að tímasetningar fundanna eru ákvarðaðar með fjölskylduhagsmuni að leiðarljósi. Frekari upplýsingar um námskeið og fyrirlestra vorsins birtast síðar.

 

Ólöf I. Daviðsdóttir, 26/9 2016


Djáknafélag Íslands
Grensáskirkju
108 Reykjavík

 

· Kerfi RSS