Ekki eru allir eins

Honum var vísað inn í klefa sem var átta eða tíu fermetrar að stærð. Gluggi fyrir enda, rúmbálkur, borð og stóll. Sturta og klósett afgirt með þunnum vegg og hengi fyrir. Á henginu voru myndir af brosandi tunglum. Eitt vissi hann að þetta var ekki tunglið. Það var lengra í burtu og hann prísaði sig sælan að vera ekki þar. Aldrei hrifinn af tunglferðum.

Þetta var annað tungl. Hingað hafði hann skotið sér sjálfur í sinni einkaeldflaug. Sennilega í ógáti eða hugsunarleysi. Algjört glappaskot.

Klefinn var rými hans næstu mánuðina. Hans einkarými. Hann hafði ákveðið að nú skyldi þessi tími verða notaður af einhverju viti. Hann ætlaði ekki að láta aðra fanga trufla sig um of og ekki heldur starfsmenn. Nei, hann ætlaði að skoða hlutina í nýju ljósi. Fylgjast með hugsunum sínum og hvernig lífið gengi fyrir sig í fangelsi. Já, og hugsa næsta leik í lífinu. Eins og í skák. Lífið var ekki ólíkt manntafli, hann hafði heyrt marga segja það. Hann kunni mannganginn, hafði oft teflt sér til gamans og verið jafn góður og aðrir í skáklistinni. Já, enda ekki ólíkur jafnöldrum sínum þó hann væri líka sérstakur að ýmsu leyti. Hver var ekki sérstakur? Ekki voru allir eins?

Þegar í fangelsið kom var spurt með undrunarsvip hvort hann væri ekki með meira meðferðis en það sem reyndist vera í litlum bakpoka. Honum fannst hann ekki þurfa að hafa meira – lifði einföldu lífi þarna fyrir utan og ætlaði sér að hafa það enn einfaldara fyrir innan múrinn – til dæmis að hvíla sig algjörlega á tölvum. Einhvern tímann hafði hann lesið um fanga í kínversku fangelsi sem máttu aðeins taka með sér það sem kæmist fyrir í litlu koddaveri. Síðan voru eigur þeirra settar í þetta koddaver sem þeir skyldu nota sem sinn kodda og gátu því tæplega sakað samfanga sína um að stela einhverju af þeim meðan þeir svæfu.

Klukkan tíu var klefanum lokað. Hann sat á stólnum og hlustaði. Í fjarska barst ómur af þungarokki. Einhver sturtaði svo niður í klósettið. Síðan var skrúfað frá sturtu í einhverjum klefanna á ganginum. Svo sönglaði fangi í næsta klefa og hann kannaðist ekki við lagið. Kannski var það ekki lag. Úti var logn. Skyldi maður geta heyrt í logninu, spurði hann sjálfan sig. Logn er ekki hreyfing. Er ekki sagt að úti sé lognkyrrt? En með því að heyra ekkert í veðri eða vindum heyrði hann að það var logn.

Hann hallaði sér aftur í stólnum og horfði á hvíta klefaveggina og rifna korktöfluna. Hann vildi ekki koma á þennan stað en var fluttur gegn valdi sínu. Reyndar braust hann ekkert um í flutningsbílnum en hugsaði sem svo allan tímann að hann væri andvígur þessum flutningi vegna þess að ferðin sem var fyrir höndum var brot á einni meginreglu í lífi hans: að vera aldrei farþegi í aftursæti með ókunnum bílstjóra. Sumir sögðu við hann að þetta væri einhver tegund af heilkenni sem truflaði líf hans en hann sagði þetta vera eina af tíu meginreglum í lífi sínu. En hinar níu? Þær voru einkamál.

En lognið stóð ekki lengi. Nú heyrði hann óljósan þyt við gluggann. Leit út en sá ekkert bærast. Samt var þytur. Lognið farið. Og það var kvöld. Nú leit hann svo á að hið opinbera kerfi ætti líf hans um stund og réði því. Hann hefði misst frelsi sitt í hendur þess og fengi skert frelsi þennan tíma sem hann sæti afbrotið af sér. Hann ætlaði að fylgjast með hvernig farið væri með lífið – hann var eins og lítil eftirlitsstofnun með sjálfum sér og lífi sínu. Það var nú bara heilmikið verkefni og hann velti því fyrir sér hvort ekki þyrfti að skrá öll atvikin sem myndu gerast í lífi hans næstu mánuðina svo hægt væri að gefa skýrslu ef einhver bæði um hana. Hver ætti svosem að óska eftir skýrslu? Það væri þá ekki nema hann sjálfur! Aldrei að vita.

Honum hafði verið sagt kurteislega að fara inn klukkan tíu því reglur segðu til um það. Hann yrði svo vakinn í fyrramálið klukkan átta samkvæmt reglunum. Þetta var fínt, nú fengi hann bara ró og næði.

Um morguninn var hann vakinn með ómþýðri rödd sem sagði honum að dagurinn væri góður. Þetta fundust honum vera góð tíðindi og bókaði þau um leið og hann reis upp við dogg: Þetta er góður dagur.

Hann velti því fyrir sér hvort morgunmatur biði hans í hinu sameiginlega rými. Svo var ekki og hann sneri því aftur inn í einkarými sitt, klefann. Hann ætlaði ekki að svelta enda gæti hann þá sem eftirlitsstofnun með sjálfum sér fengið kæru fyrir vanrækslu. Hann fór því aftur fram og fékk sér skyrslettu. Einhver sló svo kumpánlega á öxl hans og spurði hvort hann vildi ekki vera í matarklúbbi með þeim nokkrum þarna. Jú, hvers vegna ekki. Hann leit á það sem hagstæð samlegðaráhrif fyrir tvær eða fleiri stofnanir, sig og þá. Sá kumpánlegi svaraði að allir ættu að fljúga eins og þeir væru fiðraðir. Amma hans hefði alltat sagt það. Þess vegna væri fjöður í skyrinu. Skyrið væri líka sykurskert – og staðurinn frelsisskertur.

„Nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.“

Hann sagðist hafa verið á ferðalagi hingað og þangað um jörðina. Spurður hvort hann hefði séð mann sem héti Job og væri heiðarlegur og trúaður maður, réttlátur og forðaðist illt, svaraði hann svo:. „Er hann guðhræddur að ástæðulausu?“

Þessir tveir sem töluðu þarna saman forðum daga voru þeir Satan og Guð. Um þetta samtal má lesa í einu spekirita Biblíunnar sem heitir Jobsbók. Þar er fjallað um þjáningar hins réttláta manns.
Satan er greinilega frekar luntalegur yfir þessum ágæta manni, honum Job. Kann ekki við hvað hann er góður drengur. Og svo bætir við svar sitt: „Guð, þú hefur nú blessað hann í bak og fyrir og verndað hann. En um leið og þú hættir því mun hann formæla þér upp í opið geðið.“

Satan var nefnilega að gefa til kynna að Job þessi væri ekkert nema sjálfselskan og trú hans væri eigingjörn. Um leið og eitthvað færi að blása á móti yrði Guði fleygt út. Þetta fá margir að heyra enn þann dag í dag.
En Guð segir að Satan megi herja á allt hið veraldlega í eigu Jobs en ekki megi snerta hann sjálfan. Þetta líkaði Satani vel. Hann hóf þegar niðurrifsstörf sín. Síðan rak hver ógæfan aðra í lífi Jobs. Hann missti allt. Hús, fé, skepnur, vinnumenn og akra. Og börn sín. Við blasti auðn eyðileggingar eins og fylgir hinu illa. Sálarharmur og sálarkvein.

Skyldi Job hafa formælt Guði? Nei, hann féll á jörðina og fór með bæn. Það er heimsfræg bæn sem margir kannast við:

Nakinn kom ég af móðurskauti
og nakinn hverf ég þangað aftur.
Drottinn gaf og Drottinn tók,
lofað veri nafn Drottins.

(Jobsbók 1.21).

En sagan er ekki búin. Aftur hittast þeir Satan og Guð. Kannski var Satan dálítið vígmóður eftir að hafa herjað á Job en ekki fengið hann til að bölva skapara himins og jarðar í sand og ösku. Og var auðvitað hundfúll yfir því. Guð sagði Job standa sig með mikilli prýði og væri hans maður þrátt fyrir allt. Og Guð bætir því við þegar hann horfir á Satan: „Þó að þú hafir að tilefnislausu egnt mig gegn honum til að gera út af við hann.“

En Satan var ekki af baki dottinn. Hann mælir líka fleyg orð: „Nær er skinnið en skyrtan.“ Já, skyrtan sem tákn hins veraldlega, þó að hún sé rifin og tætt geta menn staðið það svosem af sér. Skyrta er bara skyrta. En skinnið? Það er tákn um lífið. Hvað ef gengið er gegn því? Og Satan segir: „Snertu hold hans og bein. Þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ Guð segir Satani að hann megi herja á líkama hans en skuli ekki deyða hann. Þetta hefur Satani sennilega líkað vel og talið víst að nú mynda Job láta Guð heyra það og formæla honum. Fór sigurviss af þessum fundi.

Alls konar sjúkdómar grófu um sig hjá Job og kvöl hans varð mikil. Hann afmyndaðist og varð óþekkjanlegur. Kona hans hvatti hann til að formæla Guði og fara að deyja. En Job gekk ekki lengra en að formæla fæðingardegi sínum með orðunum: Farist sá dagur ég fæddist á. Og hann flutti magnað angurljóð sem lesa má í þriðja kafla Jobsbókar. Þar er spurt um tilgang lífsins. Og þjáningar lífsins. Hvers vegna er maðurinn ekki tekinn frá þeim? „Hefur dauðlegur maður rétt fyrir sér gagnvart Guði?“ spyr einn vina Jobs. (Jobsbók 4.17).

Síðan settust vinir Jobs hjá honum og þeir þögðu í viku því kvöl hans var svo mikil. En síðar flytja þeir langar ræður yfir honum og telja meðal annars víst að hann hafi brotið stórlega gegn Guði fyrst þessar skelfilegu þjáningar sækja á hann. Og þeir fara með alls konar lygar um Guð. Job svarar þessum ræðum og heldur tryggð við Guð en kvartar engu að síður um meðferð hans á sér.

Að lokum tekur Guð til máls. Flytur rosalegar ræður úr miklum stormi. Þar er Job tekinn svo sannarlega á teppið: Guð segir: „Nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.“ (Jobsbók 38.3). Síðan kemur hver spurningin á fætur annarri um sköpunarverkið, hvort Job hafi verið viðstaddur sköpunina og hvort hann hafi til dæmis gefið hestinum afl og klætt makka hans faxi? Hvort hann hafi skapað skepnur jarðarinnar og búið til regnið? Job iðrast orða sinna og segir: „Ég hef talað af skilningsleysi um undursamleg kraftaverk.“

Sögu Jobs er ekki lokið. Hann fær allt til baka – byrjar í raun og veru nýtt líf eftir að hafa séð og reynt að munur er á manninum og Guði.

Hljóð í fangelsi

Mannlífið er eins og frumskógur að mörgu leyti. Og allir hafa heyrt hljóð úr frumskógi í kvikmyndum og náttúrulífsmyndum. Skógurinn er lifandi. Hljóð berast úr öllum áttum. Alls konar hljóð en flest er nokkuð blíð og róandi. Annað veifið kunna að berast skerandi hljóð eða hvell svo menn hrökkva í kút. Kannski grimmdarleg hljóð og sum sem vekja djúpan hroll og segja frá miskunnarleysi náttúrunnar þar sem engu er þyrmt. En heildarhljómurinn minnir suma á tónverk sem ekkert mannlegt tónskáld getur skrifað. Það er hljómkviða lífsins sjálfs sem hrífur alla.

Alls konar hljóð fylgja manneskjunum. Ekki bara líkamshljóð í margbreytilegum aðstæðum heldur og öllum athöfnum hennar. Flestum þessum hljóðum venjumst við og hættum smám saman að taka eftir þeim og kallast það lögmálið um neikvæða aðlögun. Hljóðið verður hluti af umhverfinu. Það getur verið umferðaniður, veðurhljóð eins og sjávarniður, ómur frá skvaldri, dauf hlátrasköll og hróp frá skólalóð eða leikvelli. Smíðahljóð frá húsgrunnum og þannig mætti lengi telja. Manneskjan er vera hljóðsins.

Menn tala um hljóðmengun og hún þykir ekki góð fremur en önnur mengun. Og þegar hljóðmengun gengur út í öfgar er talað um síbylju. Það er eins og stórhríð sem gefur ekkert eftir. Hljóðmengun er auðvitað óskyld hinum venjulegu hljóðum í umhverfinu sem eiga sér eðlilegar orsakir og menn eru nokkuð sáttir við. Hljóð sem ekki á heima í umhverfinu er mengandi. Stundum er talað um góða hljóðvist húsnæðis eða slæma. Þá er einfaldlega átt við hvernig hljóð berast um rýmið og stundum þarf að bæta úr ef rýmið sjálft magnar hljóðið upp svo óbærilegt getur verið að dvelja í rýminu.

Hvert hljóð í húsi á sinn uppruna eins og þegar rakhníf er barið utan í vaskbrún til að hreinsa úr honum skeggstubba svo dæmi sé tekið. Í nánasta umhverfi ættu menn að leitast við að dempa hljóðin til þess að skapa betra umhverfi.
Hljóð berast auðveldlega um og eru bylgjur eins og flestum er kunnugt um. Í fangelsi geta menn verið misviðkvæmir fyrir hljóðum. Sum fangelsi eru ekki með góða einangrun milli klefa eða hæða og því berast hljóð þar auðveldlega á milli. Síendurtekin hljóð geta verið hvimleið og kannski fátt til ráða til að draga úr þeim. Eyrnatappar duga skammt – en bæta þó úr. Hægt er að biðja nágranna sína hvort heldur í fangelsi eða annars staðar að ganga hljóðlega um og þá sér í lagi á kvöldin svo ekki sé nú talað um að næturlagi. En því miður er ekki alltaf tekið tillit til óska manna.

Í fangelsi er hægt að útiloka hljóð með því til dæmis að hafa sjálfur/sjálf tónlist lágt stillta til að deyfa önnur hljóð – þá verður tónlistin það hljóð sem hefur yfirhöndina og heyrist yfir það sem viðkomandi telur óæskilegt hljóð. Þannig geta menn tekið á nánasta vanda sínum í umhverfi sínu hvað þetta snertir. Hversdagsleg hljóð í fangelsi geta magnast upp í huga manna sem ekki eru í jafnvægi og til þess verður að taka tillit.

Í hverjum fangaklefa geta menn átt sín innri átakafullu hljóð. Það getur verið hljóður grátur hins einmana og óttaslegna. Grátkviða þegar hugsað er til harðra örlaga og slæmra mistaka eða einhvers sem gert var í fullkomnu gáleysi eða í fljótræði. Það innra hljóð heyrir enginn nema sá sem gefur það frá sér. Slíkt hljóð er djúp og hrein lífstjáning sem er algjört einkamál – hljóð sem tjáir innri líðan sem viðkomandi verður að búa með eins og sáran verk. Auðvitað getur hann sagt öðrum frá þessu en það getur ekki alltaf linað þessar einkaþjáningar hans eða hennar. Til forna var sagt að menn ættu að bera harm sinn í hljóði. Nútíminn hefur ekki tekið það gilt í öllu og vill þess í stað að allir leysi frá tilfinningaskjóðu sinni. Þá er mikilvægt að einhver taki við þeim tilfinningahljóðum sem þaðan berast og kunni að beina þeim í réttan farveg.

Til hvers eru fangelsi?

Menn velta stundum fyrir sér forsendum fyrir því að fangelsi skuli vera til í vestrænu menningarsamfélagi.

Ríkisvaldið hefur í gegnum dómstóla vald til að svipta þegna sína frelsi að undangengnum dómum sem byggja á því að tiltekin lög ríkisins hafi verið brotin. Fyrir þau brot þarf að mati ríkisins að koma einhvers konar endurgjald. Fangelsisdómur – frelsissvipting – er ein leið ríkisvaldsins til að innheimta þetta endurgjald. Frelsi hins dæmda er stórlega skert með fangelsisdóminum og öllum persónulegu högum hans raskað og þá ekki aðeins hins dæma heldur hins ódæmda t.d. maka og fjölskyldu.

Þetta er gert í krafti þess að sú sé krafa lýðs, laga og réttalætis.

Ríkisvaldið reisir og rekur hús sem kallast fangelsi og um þau er fjallað í tilteknum lögum og reglum. Kjarni þeirra er frelsissviptingin og hvernig skuli búið að hinum frelsissviptu. Mikilvægur þáttur í þessu sambandi er gæsla, fangagæsla, hinna dæmdu manna. Eitt markmið hennar af mörgum er að hindra flótta úr frelsissviptingunni og annað til er öryggisgæsla gagnvart borgurunum eins og það er gjarnan orðað. Þá er gengið út frá því að hinn dæmdi geti verið hættulegur samborgunum sínum en vissulega hafa margir þeirra framið mjög alvarleg brot. Ákveðið mat kemur í ljós með skilgreiningu fangelsa í opin og lokuð. Sá sem er í opnu fangelsi er líklega síður hættulegur samfélaginu en sá sem er í lokuðu. Svo ekki sé talað um öryggisfangelsi sem svo eru kölluð. Þó er ekkert einhlítt í þessum efnum og margur sem telur að meirihluti fanga eigi að vera í opnum fangelsum enda séu þau skárri kostur en hin lokuðu.

Rekstur fangelsa kostar fé eins og annar rekstur. Í öllum rekstri er litið til þess arðs sem af honum hlýst. Fangelsi eru stofnanir sem skila óverulegum arði þegar litið er til þeirra fjármuna sem fara í rekstur þeirra og stofnunum þeim tengdum. En tilvist þeirra er hins vegar oft rökstudd meðal annars með því að arðurinn sé huglægur og fólginn í réttlætiskröfu hins almenna borgara, jafnvel réttlætinu sjálfu sem hugsjón, eða dulinni þrá þess sem vill vita af hinum dæmdu bak við lás og slá.

Meginforsendan er frelsissviptingin og hún telst ekki vera góð í sjálfu sér í vestrænum nútíma lýðræðisríkjum út frá heimspekilegum mannúðarsjónarmiðum heldur ill nauðsyn hins ófullkomna samfélags. Þess vegna hafa verið reyndar aðrar leiðir eins og samfélagsþjónusta og rafrænt eftirlit – auk sektardóma og skilorðsbundinna dóma.

Í fangelsi er einstaklingurinn skyndilega háður öðrum um margar almennar hversdagslegar athafnir – hann getur til dæmis ekki komist í heimabanka sinn í lokuðu fangelsi. Fanginn er eins og hver önnur manneskja – sem leitar að sómasamlegu lífi og góðu. Vill góðan aðbúnað og tækifæri í umhverfinu til að mennta sig, þroska sig og taka framförum. Á fangelsisumhverfi að hamla þroska? Koma í veg fyrir persónulegar framfarir? Bregða fæti fyrir þá sem vilja mennta sig? Nei, enginn vill slík fangelsi. En þó eru víða alls konar hindranir og hömlur sem rekja má meðal annars til fjárskorts þar sem ríkisvaldið er tregt til að láta fé af hendi rakna í hinn óarðbæra rekstur. Þetta er hluti af niðurbrjótandi áhrifum fangelsis og úr þeim er hægt að draga með tækifærum á sviði menntunar, iðju- og starfsþjálfunar; með fjölbreyttum atvinnutækifærum innan fangelsa, uppbyggilegum tómstundum og viturlegum leiðbeiningum í þeim efnum, áhugasviðskönnunum meðal fanga og hollri og fjölbreyttri líkamsrækt. Sé þessu og fleiru í svipuðum dúr til að dreifa eru minni líkur á því að þau sem í fangelsi eru komi þangað aftur og aftur.

Fangelsi mega ekki vera eins og geymslugámar á hafnarbakka. Ríkisvaldið verður að gangast við þeim sem stofnunum á þess vegum og reka þau fyrst og síðast með hagsmuni fanganna í huga. Það verður líka að gera sér ljóst að fangelsi eru viðkvæmir staðir og andleg líðan sem og líkamleg fanga getur verið harla misjöfn.

Svo öllu sé til haga haldið þá má ekki heldur gleyma því að hluti fangahópsins glímir við margvíslegan vanda sem á rætur í fíkniefnaneyslu og annarri persónulegri óreglu. Þegar slíkir einstaklingar eru sviptir frelsi sínu og settir í fangelsi þarf að huga að vanda þeirra með sérstökum hætti. Segja má með réttu að vandi þeirra sé kominn á herðar ríkisvaldsins.

Í nútíma vestrænum ríkjum er frelsið eitt það dýrmætasta sem fólk á. Þau sem glata því tímabundið eru stödd í mjög sérstöku öngstræti mannlífsins þar sem krefjast verður aðgátar í nærveru sálar.

Gefið af sér

Öll samskipti fela í sér að menn gefa eitthvað af sjálfum sér bæði meðvitað og ómeðvitað. Það þarf ekki að vera annað en svipbrigði, orð eða þögn. Svipurinn getur verið mildur og skilningsríkur, harðleitur og ósvífinn. Orðin geta verið ljúf og látið vel í eyrum en þau geta líka verið hörð og óvægin. Þögnin getur verið skilningsrík og samúðarfull – líka nístandi og köld.

Samskipti lærum við smám saman í lífinu. Lærum að skilja hvað svipbrigði þýða og að sjálfsögðu orðin. Góð samskipti verða okkur fyrirmynd á sama hátt og slæm geta rifið niður sál og huga.

Í fangelsi eru góð samskipti mjög mikilvæg. Segja má að í fangelsi séu menn í sama skiprúmi og meira en það líka á vissan hátt á strandstað í lífinu. Eru skipbrotsmenn. Þá er mikilvægt að menn séu samtaka, raunsæir og réttsýnir. Strandstaðurinn má ekki verða að átakasvæði þar sem menn vega hver að öðrum. Það skilar mönnum ekki heilum eftir áfall heldur getur það leitt menn síðar á nýjan strandstað.

Allir þekkja orðatiltækið að sælla sé að gefa en þiggja. Sá sem gefur hefur vissa yfirburði til að láta eitthvað af hendi. Það getur verið að gjafir þær sem hann lætur af hendi séu bara sem dropi af öllu því sem hann á. Engu að síður gefur hann og þá fyrst og fremst tilfinningalega. Sýnir jafnvel rausnarskap. Það er vel. En sá sem þiggur er í þeirri stöðu að þurfa eða langa í það sem um ræðir. Honum líður allavega betur með það sem að honum er rétt og þakkar fyrir sig – vanalega.

Þegar menn líta í samskiptasjóð sinn verður þeim ljóst að af nægu getur verið að taka. Þar þarf ekki að sýna neinn nirfilskap. Allir hafa eitthvað að gefa úr þeim sjóði. Og þiggjendurnir leynast víða – einhver sem þráir góðan svip, hlý orð og skilningsrík. Svo sannarlega er hann eða hún tilbúin til að þakka fyrir slíkan viðurgerning. Þeir sem hafa tamið sér gjafmildi af þessum verðmætum sem ekki verða metin til fjár líður á margan hátt betur en þeim sem sitja að sjálfum sér og láta ekki frá sér hlý orð eða uppbyggileg, hvetjandi svip og dáðríkan, heldur þumbast áfram. Þeir eru nirflar í mannlegum samskiptum og eiga margt ólært. Hinir sem gefa af sér festu, mildi og hvatningu, fá þakklæti og þeir sem þiggja endurgjalda slíkt viðmót með ríkulegum hætti.

Sumir gefa allt af sér, allt sem þeir eiga, í þeirri von að það hjálpi. Þeir gefa af andlegum allsnægtum sínum til þeirra sem eru staddir á vegamótum í lífi sínu sem geta verið þjáningarfull. Fangelsi eru viss vegamót – þar sem vegir heimsins og fangans mætast. Við þessi vegamót bíða menn þeirrar stundar þá þeim er gefið merki um að rísa upp og halda á braut. Þeir hafa lengi verið í höndum annarra ef svo má segja og eru það hendur hins opinbera og vanþóknunarhendur samfélagsins. Menn hafa beðið að sáru taki þeirra sleppi og sú bið getur verið erfið; full af einsemd og jafnvel vonbrigðum. Þess vegna er gott og gjöfult viðmót samferðarmanna hughressandi á hinum tvíræðu vegamótum þar sem angistarfullur hugur bíður eftir lausn.

Það er stundum talað um góða menn og vonda. Og reyndar að allir menn hafi í sér góða þræði sem og slæma. Engum er alls varnað, það er að segja allir hafa eitthvað gott fram að færa – er það ekki? En manneskjan er þessi dularfulla og óræða blanda af því sem er gott, fagurt, illt og ófagurt. Hún hefur tækifæri til að leggja góðu baráttunni lið og berjast gegn því illa. En stundum leggst hún á sveif með andstæðingum hins góða og fagra. Það er gáta illskunnar í heimi Guðs og manns.

Hver er góður og hver er slæmur? Allir menn tefla fram sjálfum sér í lífinu og segja hverjir þeir eru með orðum sínum, svip og verkum. Allt er það eins konar auðkennislykill sem ekki er auðvelt að henda frá sér og setja upp sakleysissvip þegar hentar í samskiptum við aðra.

Þau orð eru höfð eftir meistaranum frá Nasaret, Jesú Kristi, að hvert tré þekkist af ávexti sínum. Og hann bætti við: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ (Lúkasarguðspjall 6.45). Hér er engin hálfvelgja á ferð og kostirnir eru tveir: góður og slæmur sjóður; góður maður og vondur maður. Orðin hvetja okkur til að staldra við og spyrja af einlægni: Hvernig er minn andlegi sjóður? Hver er ég? Og hvorum megin vil ég standa? Sennilega er ekki mjög erfitt að velja á milli ef skynsemin fær að ráða.

Þitt er valið. Beittu skynseminni. Og ekki síður trúnni.

Þegar ekki er fyrirgefið

Mannlífinu er stundum líkt við torg. Margir þekkja Stjörnutorgið í verslunarmiðstöð nokkurri. Þar er margt um manninn. Ys og þys – og ýmsir að úða í sig mishollum skyndimat af pappdiskum. Hafa hist til að næra sig. Sumir ganga bara í gegnum torgið þar sem allt er á ferð og flugi. Eru á leið í einhverjar verslanir þar sem tískan situr við völd. Aðrir eru á mannlífsröltinu og eru ekki með neitt annað í huga en að skoða mannlífið. Renna niður rafknúna stiga og njóta lífsins. Alls staðar er fólk, ýmist í hópum eða sem einstaklingar. Oftast glatt og kátt. Allir eru í einhverjum erindum og líka þau sem telja sig ekki vera í neinum erindum. Fólk á ferð.

Hver þessara einstaklinga á sér sögu. Sína persónulega sögu. Það er nokkuð öruggt að hver ein og einasta manneskja hafi einhvern tímann rekist hastarlega á aðra manneskju á mannlífstorginu og ekki komið vel fram við hana. Gert eða sagt eitthvað sem hefur sært eða meitt. Eða ekki sagt neitt eða gert, sýnt tómlæti sem er beiskara en allt beiskt. Að vera ekki til í augum annarra – það er andlegt norðurheimskaut.

Hjá flestum skýst oft sú hugsun upp hvort ekki sé rétt að biðjast afsökunar á einhverju sem hvílir á viðkomandi eftir mannlífsárekstur. Það reynist mörgum auðvelt en öðrum ekki. Afsökun er hversdagsleg og snýst oftast um smávægileg atriði í hversdeginum. En þau geta líka verið alvarleg. Og þeim mun alvarlegri sem þau eru þá kemur annað orð í hugann og það er fyrirgefning. Það orð er svo sem líka notað í hversdagslegum tilvikum, við biðjumst fyrirgefningar á hinu og þessu eins þegar komið er oft seint eða rekist utan í einhvern annan og þar fram eftir götunum. Kannski finnst okkur það hátíðlegra en afsökun.

En bæði orðin afsökun og fyrirgefning eru náskyld og þau má kalla tengslaorð. Þau snúast um tengsl milli fólks eða samband. Við grípum til þeirra til að gera við tengsl sem hafa rofnað með ákveðnum hætti sem er að við, ég, þú, höfum slegið til einhvers með orði eða í verki. Tengslin rofna og oft tekst að kom þeim í gott lag. En í sumum tilvikum geta rofin tengsl alið af sér óvild eða hatur. Kulda eða hefndarhug. Þú leggur lykkju á leið þína til að viðkomandi manneskja verði ekki á vegi þínum á mannlífstorginu. Stundum getur sú lykkja eða krókur verið föst á ferðakorti þínu allt lífið. Kannski finnst þér þú ekki geta fyrirgefið – lykkjan í lífinu sé betri heldur en afsökun eða fyrirgefning – eða hreint út sagt illskárri kostur. Þá stendur það enda það sem þér var gert skelfilegra en hægt er að lýsa og skilja.

Móttekning fyrirgefningar er algjörlega í höndum þess sem brotið var gegn. Ef viðkomandi vill ekki af einhverjum ástæðum taka á móti fyrirgefningu þá stendur það. Þú skalt virða þá ákvörðun og íhuga.
Ferli fyrirgefningar er ekki alltaf einfalt. Stór hluti af því er oft sársaukafull bið – kannski beggja aðila sem bíða að tími þeirra mætist.

Fyrirgefning er ekki sjálfsali. Enginn fer nánast öllu fram í samskiptum sínum við aðrar manneskjur – nema þeir sem siðblindir teljast – og krefjast svo kannski sjálfkrafa fyrirgefningar.
Fyrirgefning er kröfuhörð vegna þess að hún krefst uppgjörs. Persónulegs uppgjörs og skynsamlegrar hugsunar og tilfinningaríkar.

Hér er dæmi um það sem ekki er hægt að fyrirgefa – og þá afstöðu verða menn að virða. Hún er persónuleg og öðrum ekki fært að skilja hana: „Þó að ég sé sjálfur nokkuð sáttur og beri ekki hefndarhug til gömlu nasistanna mun ég aldrei fyrirgefa þeim. Aldrei nokkurn tíma. Þegar ég lít til baka er svo margt sem ég mun aldrei gleyma og aldrei fyrirgefa. Ég mun aldrei gleyma hungrinu og kuldanum, ofbeldinu og kvalaópunum, sjúkdómunum og skítnum, líkunum og brælunni úr bálstofunni. Ég mun aldrei gleyma…“ (Garðar Sverrrisson: Býr Íslendingur hér? Minningar Leifs Muller, Iðunn 1988, bls. 257). Enginn getur sett sig í spor þessa manns sem þoldi ótrúlegan hrylling sem hann lýsir m.a. í þessum orðum.

Guð einn fyrirgefur það sem mennirnir sjálfir geta ekki fyrirgefið. Það er vegna þess að Guð er Guð og maður er maður. Fyrirgefning Guðs yfirstígur mannlegt réttlæti – hún er ofar réttlæti mannanna – hann fyrirgefur mönnunum það sem er ófyrirgefanlegt á mælikvarða þeirra.

En hvar sem fyrirgefning bankar upp þá er hún alltaf farvegur fyrir kærleika Guðs og leysir manneskjuna úr viðjum fortíðar. Þennan kærleika skilja mennirnir ekki alltaf. Stundum finnst þeim hann vera óréttlátur gagnvart þeim sjálfum því þeir vilja vilja sitja einir að honum – og aðrir megi ekki njóta hans. Fyrirgefning felur í sér kærleiksríka sátt og opnar dyr til framtíðar; sá dregur andann léttar sem er fyrirgefið.

Með augnaráðinu einu…

Fyrir stuttu var sagt frá því í fréttum að maður nokkur í Kína hefði kært fræga leikkonu fyrir að stara á sig af sjónvarpsskjánum. Hann sagði að þetta augnaráð hefði valdið honum sálrænum skaða. Ekki fylgdi það fréttinni hvernig þessu mjög svo sérstaka kærumál lauk. Það er auðvitað óvenjulegt að maður taki persónulega til sín augntillit og svipbrigði sem sjást á sjónvarpskjá og telst mjög líklega ekki heilbrigt svo ekki sé meira sagt. Hvað sem því líður þá vekur þetta athygli á mætti augnaráðsins. Jafnvel í dauðu sjónvarpstæki þar sem manneskja birtist á skjánum getur augnaráð valdið titringi og komið manneskju í ójafnvægi.

Augun segja sögu. Stundum er meira að segja sagt að þau séu spegill sálarinnar. Allt það sem hrærist hið innra með okkur birtist fyrr eða síðar á „augnskjánum“. Engu sé í raun og veru hægt að leyna. Augun afhjúpa alla fyrr eða síðar.

Allir þekkja mikilvægi þess að komast í augnsamband við fólk. Það er ekki nóg að sjá fólk og taka í höndina á því heldur verður að horfa í augu þess. Menn horfast í augu og tala á vissan hátt með augunum. Það er ekki tilviljun að talað sé um flóttalegt augnaráð þess sem hefur eitthvað að fela; stingandi augnaráð reiðinnar; já og kalt augnaráð þess sem er sama um allt; augnaráðið er líka blítt þar sem elskan og umhyggjusemin er í fyrirrúmi. Það er líka ástúðarfullt og endurspeglar sjálfa ástina og það er ekki lítið. Í hinum frægu Ljóðaljóðum sem fjalla um ást Guðs á manninum segir: „… hjarta mínu hefurðu rænt með augnaráðinu einu…“ (4.9). Mjög laglega komist að orði um það að verða ástfanginn – eða um ást við fyrstu sýn? Margir kannast við það. Þá þekkja margir líka hrokafullt augnaráð og vingjarnlegt. Við getum sett margvísleg lýsingarorð fyrir framan augnaráðið, allt eftir því hvernig það birtist okkur. En sennilega er augnaráðið alla jafna vinsamlegt og hlutlaust. Um leið og hrært er í tilfinningum og hugsunum breytist augnaráðið í samræmi við það. Það er ekki bara spegill, heldur líka hitamælir eða jafnvel tilfinningalegur jarðskjálftamælir manneskjunnar.

Augu okkar mannanna eru dýrmæt og verða aldrei ofmetin. Við gleymum oft að þakka fyrir að hafa sjón og sjá heiminn í kringum okkur. Sjá annað fólk. Eða okkur sjálf. Það skiptir ekki máli þótt margt sem beri fyrir augu okkar sé hreinasta hörmung og dapurlegt – ekki má loka augum gagnvart því. Oftar sjáum við það sem er gott og fagurt, ljúft og yndislegt. Hjá flestum dregur augað sig jafnvel nær því sem er fallegt heldur en því sem telst vera ófagurt og illt. Það dregst að ljósinu – hinu fagra og góða.

Jesús talaði um augað sem lampa líkamans: „Auga þitt er lampi líkamans.“ (Lúkasarguðspjallið 11.34). Þar endurómaði hann örugglega kunn orð Sálmanna: „Þitt orð er lampi fóta minn og ljós á vegum mínum.“(119.105). Auga þitt – og orð Guðs vísa þér veg.

Það er mikilvægt nota rétt ljós í lífinu – eða eins og sagt er og þykir æskilegt: að sjá hlutina í réttu ljósi. Margt getur nefnilega villt mönnum sýn og slegið ryki í augu þeirra. Augun eru berskjölduð enda þótt hægt sé að renna augnlokunum niður og stundum harla fljótt. En augnlokin eru ekkert járntjald! Rétta ljósið getur verið vandfundið – hafðu augun opin. Stundum getur meira að segja ljós villt mönnum sýn, þá er það villuljós.

Augað starfar stöðugt og á góðum stað í helgri bók segir: „…augað verður aldrei satt af að sjá.“ (Prédikarinn 1.8). Það er sífelld veisla sem ber fyrir augun – sjáðu bara náttúruna! Fjöll, fossa og ár. Blóm og hraun. Fólkið þitt! En eins og í öllum veislum þá verða menn að gæta sín. Ekki er allt jafn holt og gott. Sumir drekka frá sér ráð og rænu en aðrir liggja afvelta. Flestir kunna sér þó hóf og stýra augum sín með sóma.
Svo er talað um auga Guðs. Hvað er það? Mennirnir lýsa Guði með sínum eigin orðum og líkja honum við það sem þeir þekkja. Þannig tala menn um Guð – með sínu eigin tungumáli og geta ekki annað. Guð sér. Auga hans fylgist með öllu. Við manneskjurnar stöndum frammi fyrir augliti Guðs hverja stund og berum ábyrgð á gjörðum okkar og hugsunum; og því sem við viljum að aðrir sjái til okkar.

Hvað vilt þú að aðrir menn sjái hjá þér? Og hvað vill Guð sjá?

Hvaða augnaráð velur þú úr tilfinningasafni þínu? Vinsamlegt, hörkulegt? Blítt og ástúðarfullt sem vekur vellíðan?

Hvaða augnaráð vilt þú sjá gagnvart sjálfum/sjálfri þér?

Orð Guð vísar okkur veg og verður sem ljós fyrir augað. Það getur vakið hjá okkur rétt augnaráð – ekki neitt augnaóráð!

Láttu kærleika Guðs stýra augnaráði þínu og lífi. Það er rétt ljós.

Illgresi í garðinum?

Kínverskt máltæki segir að sá sem eigi bækur og garð hafi alltaf nóg að gera og honum þurfi aldrei að leiðast. Garður er merkilegt fyrirbæri og gæði hans velta meðal annars á jarðvegi og hversu sólríkur hann er. Kannski eins og mannlífsgarðurinn sem margur mengar og reisir háa girðingu í kringum til þess að nágranninn sjái ekki yfir og sólin kemst þá stundum óvænt í flokk óvinveittra granna! Já, garðurinn segir margt um þann sem hirðir hann. Lítil saga er um mann sem gekk fram hjá óhirtum garði og tautaði með sjálfum sér að ekki hirti Guð mikið um garðinn. Engill hvíslaði svo að manninum að Guð hefði lánað garðinn til mannsins sem svaf á sínu græna eyra í hengirúminu undir trénu. Garður krefst umhirðu og þess vegna hefur lífinu stundum verið líkt við garð. Menn verða að hirða garðinn sinn – annars fer allt í óefni. Hvað ætlar þú að gera?

Maðurinn fer aldrei frá sjálfum sér hvar sem hann hafnar. Þú sjálfur/sjálf ert alltaf einhvers staðar í miðju leiksins. Og þú ert gerandinn í lífi þínu – sá eða sú sem tekur ákvarðanir um hvað eigi að verða, núna eða síðar. Þú ert eins og leikstjóri sem átt að stjórna eigin lífi. Kannski gerir þú þér ekki alltaf grein fyrir því í hvaða lykilstöðu þú sjálfur/sjálf ert þegar kemur að lífi þínu. Kannski ertu stundum of upptekinn við að kenna öðrum um hvernig komið er – kenna öðrum um að garðurinn þinn er í órækt og þar æði illgresið yfir allt og þú verðir að leggja á flótta. Í stað þess auðvitað að hefjast handa og ganga í verkið: hirða garðinn þinn. En það er líka ákveðinn óvissuþáttur í lífi þínu og hann er sá að einhver hafi kannski sannfært þig um að garðurinn eigi að vera svona eins og hann er: órækt. Einhver sem þú treystir? Jafnvel einhver þér nákominn sem blekkir þig?

Samspil þitt við aðra í kringum þig er líka lykilatriði. Ef þú gefur þeim sem vilja þér vel hvort sem þeir eru þér skyldir eða óskyldir langt nef verðurðu eins og hver annar eintrjáningur sem flýtur einn niður eftir ánni og rekur enda sína í hvað sem verður á vegi hans. Enginn maður er eyland, allir eru hluti af fastalandinu með einum eða öðrum hætti.

Í fangelsi eru menn hluti af fastalandinu. Hluti af hópi sem þeir deila kjörum með um ákveðinn tíma. Það er nokkuð stór garður sem menn verða að rækta þar í sameiningu og hirða. Alla jafna gengur það mjög vel og menn reyna að láta allt fara friðsamlega fram. Þegar út er komið blasir við annar garður, það er garður frelsisins, sem menn verða að taka að sér. Hann reynir oft meira á menn en fangelsisgarðurinn. Óræktin virðist í sumum tilvikum ná sér furðu fljótt á strik í garðinum fyrir utan en innan fangelsisveggjanna – og stundum svo skjótt að menn staldra við úti í frelsinu eins og þeir hafi skroppið í kaffi. „Ég hef svosem flest hérna í fangelsinu,“ sagði fangi nokkur. „Það vantar auðvitað frelsið,“ bætti hann við og var hugsi á svip. „En ég veit ekki heldur hvað ég er að gera við frelsið þegar ég er úti. Oft fer það í bölvaða órækt og ég set það að veði fyrir hitt og þetta.“ Svo spurði hann sjálfan sig: „Ætli ég þekki orðið frelsið frá ófrelsinu?“

Í Biblíunni er oft talað um garða enda voru menn þess tíma fyrst og fremst bændur og yrkjendur jarðarinnar. Jesús talaði oft um garða og í þessari dæmisögu gefur hann okkur gott ráð og lesið nú:

Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim:
„Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“ (Matteusarguðspjall 13.24-30)

Menn verða að þekkja illgresi frá því sem gott er, hveitinu í dæmisögunni. Þekkja í raun og veru frelsið þegar úr ófrelsinu er komið; geta þá slitið upp allt illgresið sem ætlar sér að kæfa frelsið.
Kínverska máltækið nefndi ekki bara garð heldur líka bækur. Bók bókanna er Biblían – hún getur kennt þér allt um lífsins garðyrkju.

Hugleiðing í fangelsi: Hárskeri Lúthers

Allir þurfa að láta klippa sig. Eins og gengur og gerist koma tískubylgjur í hárklippingum og skyndilega er fjöldi manna kominn með sömu klippinguna. Þetta sést alls staðar. Líka í fangelsum. Þangað skila líka tískuklippingar sér. Sennilega er þó frægasta klippingin innan múranna bara krúnarakaðir karlmenn, kröftugir og svalir að sjá. Um þessar mundir er í tísku einhvers konar heysáta á hvirflinum og annar hluti höfuðsins snöggrakaður. Þetta fer flestum vel ef ekki öllum. Síðan mun önnur tíska leysa þessa af hólmi – og koll af kolli. Þannig er tískan, eins og vindurinn, enginn veit hvaðan hún kemur (eða hvað?) né hvert hún fer(?) ef hún fer bara ekki um allt eins og eldur í sinu.

Eins og með annað er snertir líkamann þá er hártíska ákveðin yfirlýsing og á sér einhverjar rætur aðrar en það sem einhverjum tískuklipparanum dettur í hug í það og það sinnið. Í gamla daga var snoðklipping mjög algeng áður en farið var í sveitina. Sá piltur sem var snoðaður var á leið í sveitina. Sagt var í hálfkæringi að það væri til þess að lúsin sæist betur þegar í sveitina væri komið! Sumir sögðu reyndar að það væri bæjarhreinsun áður en haldið væri út í fagra sveitina! Svo kom drengurinn úr sveitinni með lubbann og þá var það undir honum komið hvernig hann lét klippa sig fyrir veturinn. Allir kannast við gamlar myndir af hjárænulegum unglingum nýkomnum úr sveitinni með hár niður á herðar. Það var ákveðinn kafli í lífinu sem var um stund að baki. Lífsreynsla sem aldrei gleymdist.

Sumir fara alltaf til sama rakarans – eða klipparans. Treysta einhverjum einum fyrir kollinum á sér og komast í gott samband við hann. Í mörgum tilvikum ævilangt samband eða þar til annar hvor gengu fyrir ætternisstapa. Frægt er til dæmis að Halldór Laxness lét klippa sig vikulega hjá hárskeranum í Eimskipafélagshúsinu en þá voru reyndar fá dæmi um það að menn hér á landi færu vikulega í hársnyrtingu. Þessi hárskeri eins og svo margir aðrir átti sinn fasta viðskiptahóp og þekkti hann mæta vel.

Í fangelsum er það svo að hárskerar koma og klippa menn. En það er líka algengt að í fangahópnum leynist góður klippari. Hann setur upp sinn stól og klippir menn gegn vægu gjaldi. Sú hársnyrting hefur verið til fyrirmyndar og margir notfært sér hana þegar hún hefur verið í boði.

Siðbótarfrömuðurinn Marteinn Lúther (1483-1546) átti sinn hárskera. Sá hét Pétur Beskendorf. Þeir urðu miklir mátar og ræddu margt. Og auðvitað ræddu þeir uppreisnina sem Lúther hafði gert gegn ægiveldi kaþólsku kirkjunnar og sneri öllu á hvolf í Evrópu á sínum tíma. Rakarinn ræddi við Lúther um trú sína og vandkvæði sín við að biðja til Guðs. Lúther gerði sér lítið fyrir og skrifaði sérstaka bænabók handa honum – hún var reyndar í bréfformi en hefur verið gefin út ótal sinnum. Þessi bænabók er eins og annað sem frá Lúther kom á kjarnyrtu máli og lifandi af trú og anda. Hann segir frá trúarlífi sínu og baráttu og veikleika í trúnni. Persónuleg og einlæg bók. Og bænirnar eru allar í þessum anda. Bænabókin var mikill fengur fyrir rakarann og hann notaði hana og kom trúarlífi sínu í gott horf. Bókin heitir því stutta nafni: Einföld leið til að biðja. Lúther segir í formálanum: „Góður og athugull hárskeri einbeitir sér að verkinu, gefur ekki hugsunum sínum lausan taum, hann heldur augunum opnum fyrir verki sínu enda er blað rakhnífsins eggskarpt. Hann má ekki gleyma sér við verkið því þá er voðinn vís. Of miklar og djúpar samræður geta kostað ranga klippingu, skurð á nefi, eyrum eða jafnvel hálsi! Allt sem vel er gert krefst aðgæslu og umhugsunar eins og segir í orðskviðunum: Sá sem hugsar um margt í einu, hugsar ekkert, og gerir ekkert rétt. Bænin krefst einbeitingar og helgunar hjartans ef hún á að vera góð bæn. Þess vegna skaltu halda einbeitingunni í bæninni.“

En rakarinn lenti í ógæfu. Stuttu eftir að bænabókin sem honum var tileinkuð kom út á prenti varð hann tengdasyni sínum að bana í drykkjuæði. Það var mikið áfall fyrir vini hans og Lúther talaði máli hans og fékk lífi hans þyrmt. Fór svo að Pétur rakari var sviptur öllum eignum sínum og dæmdur í útlegð. Þetta voru miklir róstutímar í Evrópu og grímulaust ofbeldi viðgekkst og yfirvöld, furstar og kóngar, brugðust við með pyntingum og aftökum.

En bænabók hans lifir og hefur orðið mörgum hjálparhella. Því miður er hún ekki til á íslensku en þýðing er í undirbúningi.

Allir geta beðið, lagt sjálfa sig fram í bæn til Guðs!

Sjálfsævisagan

Kannski er komið að því núna. Þú hefur örugglega verið að hugsa um það lengi en aldrei orðið neitt úr því. Alltaf hefur eitthvað komið upp á og þú hætt við. Frestað því að taka á málum –sett annað í forgang. Er það ekki líka bara alvanalegt, hugsar þú með sjálfum/sjálfri þér.

En núna er komið að því. Þú ákveður. Nýtt ár kemur í fangið á þér. Hvað á að gera við það? Sóa því eins og öllum hinum árunum? Er það ekki líka eins og hin? Nokkuð merkilegt við það? Númer í tímanum sem líður á sama hátt og áður.

Þú ákveður. Það er dálítið merkilegt að ráða yfir hugsunum sínum og lífi. En fangelsið setur auðvitað skorður – það dregur línur og nú er eitt árið enn hafið innan veggja þess. Engu að síður er hugsunin frjáls til að skipuleggja framtíðina með öðrum hætti en áður og ekki skortir dirfskuna! Búa sér til nýtt líf. Líf sem kemur heim og saman við það sem maður þráir dýpst inni við hjartarætur; krækja í hamingjuna og gott líf. Það er þó jákvætt.

Allir skrifa sjálfsævisögu sína. Fæstir láta prenta hana með venjulegum hætti, gefa hana út á bók. En allir gefa hana út gagnvart öðru fólki. Þú segir sögu þína með hegðun þinni, svip og orðum. Og aðrir lesa hana, lesa í svip þinn, útlit og hegðun. Velta fyrir sér orðum þínum. Hver er þessi manneskja eiginlega?

Sjálfsævisaga þín getur tekið stökkbreytingu á þessum tímamótum. Nýr kafli hefst í þeirri bók sem fær lesandann til að stökkva hæð sína í loft af gleði. Hann samgleðst þér innilega því stefnt er að nýju lífi. Einhverju sem skiptir máli og gefur þér lífsfyllingu. Fær þig til að gefa öðrum og vera ekki lengur bara hinn eilífi þiggjandi. Var ekki sagt að sælla væri að gefa en að þiggja?

Nú byrjar þú á nýjum kafla og gerir það af hreinskilni og setur heiðarleikann í fyrsta sæti. Verður heiðarlegur gagnvart sjálfum/sjálfri þér. Um leið finnur þú fyrir betri líðan í sálartetrinu – um það votta öll þau sem snúið hafa við blaðinu og hafið nýtt líf. Velkomin/in í hópinn! Hann er fjölmennari en þú heldur!

En þú mátt ekki halda að nýr kafli í lífi þínu sé saminn í anda draumaverksmiðjunnar þar sem allt er svo yndislegt að það hálfa væri nóg. Enda þótt heiðarleikinn sé ljúfur þá er hann líka sár bæði gagnvart sjálfum/sjálfri þér og öðrum. Heiðarleikinn afhjúpar lygi og fals, bendir á kjarnann í sjálfum/sjálfri þér sem er þrá eftir sannleika. Hann byggir upp og leggur hornsteina í nýtt líf en um leið þarf að rífa upp með rótum illgresi og moka burt fúnum stoðum og grjóti sem mylst. Þetta er töluvert verkefni og vinnst ekki á einni nóttu. Ekki einum degi. Ekki einu ári! Þetta vinnst hægt og bítandi á löngum tíma og þarf stöðugt viðhald. Heiðarlegt líf er eins og bygging og allar byggingar þurfa endurbætur og viðhald.

Nýr kafli. Áskorun um að breyta um stefnu. Áskorun um að gera upp það liðna. Við sjálfa/n sig og aðra.

Þú horfir á sjálfa/n þig í hringiðu áranna. Eitt fer og annað kemur. Þú fylgir með, það er ekki boðið upp á aðra ferð í tímanum á jörðu. Kannski spyrðu eins og margur: Hvert fóru öll árin? Syngja menn ekki um það hvernig tíminn týnist? Glataður tími er til í lífi hvers manns. En nú er hinn glataði tími ekki lengur í uppáhaldi hjá þér. Nú á að nota hverja stund, hverja mínútu, hverja sekúndu, hvert sekúndubrot, í annað og merkilegra heldur en botnlaust þrugl. Nú er það uppbygging sálar og líkama sem er í öndvegi.

Kannski hefurðu staðið í þessum sporum áður. Byrjað að skrifa nýjan kafla í sjálfsævisögu þinni. Brotið blýantinn, eytt svo öllu úr tölvunni. Gefist upp. Sagst ætla að gera þetta seinna. En þetta seinna virtist aldrei koma eða flaut fram hjá þér. Þú sást það ekki. Hafðir ekki áhuga, fannst annað merkilegra. Hélst áfram að skrifa hörmungarkafla í ævisöguna og blekkingin gerðist fararstjóri þinn og besti vinur. Ætli sú lesning sé uppbyggileg? Nei.

Nú skal það gerast. Nýr gæfukafli í sjálfsævisögu hefst, nýtt líf blasir við. Svo hjálpi okkur Guð.