Val um fermingarstað

Ágústa Þorvaldsdóttir spyr:

Góðan daginn!

Get ég óskað eftir því við hvaða prest sem er að hann fermi barnið mitt?
Ef aðstæður eru þannig að ég kjósi annan prest fremur en minn sóknarprest hefur hann þá eitthvað um það að segja?

Ólafur Jóhannsson svarar:

Sæl Ágústa, langalgengast er að sóknarprestar fermi þá unglinga sem búa í sókninni og tilheyra Þjóðkirkjunni. Almennt er litið þannig á að sóknarbörn eigi rétt á prestsþjónustu hjá sóknarpresti sínum. Hins vegar á sóknarprestur enga heimtingu á að annast prestsverk fyrir sóknarbörn sín og hér á landi er löng hefð fyrir því að leita megi annað.
Á hverju ári eru þess mörg dæmi að unglingar fermist utan sinnar sóknar. Í sumum tilvikum fermast frændsystkini saman, í öðrum tilvikum er ósamræmi milli skólahverfa og sókna og unglingar vilja vera með skólafélögum sínum. Í enn öðrum tilvikum kunna aðrar fjölskylduaðstæður eða persónulegar aðstæður að liggja að baki. Oft er sóknarpresturinn látinn vita af því þegar svo stendur á en hann þarf ekki að samþykkja þessa ráðstöfun.
Þegar væntanlegt fermingarbarn hefur lokið fermingarundirbúningi og staðist þær kröfur, sem gerðar eru, má ferma það.