Venjan að klæðast fermingarkyrtlum

Fermingarbarn spyr:

Hversvegna er venja að klæðast kyrtlum við fermingu?

Kristján Valur Ingólfsson svarar:

Á þeim árum þegar munur ríkra og fátækra var mjög sýnilegur á Íslandi var algengt að við fermingu stóðu hlið við hlið fermingarbörn sem áttu ekkert, nema fræðin sem þau kunnu og ein skárri föt eða engin, og velklædd börn ríkra foreldra. Fyrir augliti Guðs eru allir jafnir. Fyrir augliti manna hinsvegar ekki. Fermingarkyrtlarnir voru innleiddir til að minnka þennan mun og hjálpa bæði fermingarbörnunum og öðrum kirkjugestum til að muna hið fyrra en gleyma hinu – í það minnsta þessa einu stund.

Fyrir utan þetta hafa fermingarkyrtlarnir táknræna merkingu. Þeir eru hvítir til minna á skírnarklæðin, sem alltaf eru hvít.