Garðasókn

 

Ferð með fyrirheiti

Ferð eldri borgara í Garðaprestakalli verður farin á uppstigningadag 5. maí nk.
Skrá þarf þátttöku eigi síðar en 2. maí

Árlegt ferðalag eldri borgara í boði kirkjunnar verður á uppstigningardag, 5. maí kl. 09.00. Þessi ferð hefur jafnan verið vinsæl og vel skipuð, en eldri borgurum í Garða- og Bessastaðasókn er boðið til þessarar ferðar af söfnuðunum í tilefni þess að uppstigningardagur hefur verið útnefndur sem dagur eldri borgara í kirkjunni.

Í ár er förinni stefnt austur fyrir fjall. Fyrsti áningarstaður verður í Skálholti. Litið verður á stað og kirkju undir leiðsögn, en þaðan verður haldið að Gullfossi. Sú náttúruperla skýrir sig sjálf, en þar verður boðið upp á hádegishressingu.

Frá Gullfossi verður haldið að Geysi. Þá ólgu sem þar býr er jafnan vert að skoða. Á heimleiðinni verður boðið upp á miðdegiskaffi í Þrastarlundi, en þar hefur verið reistur nýr veitingaskáli.

Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir því að stoppa að Sólheimum, en óhægt var um vik að koma því við.

Áætluð heimkoma er kl. 17.00, en kostnaður við ferðina er kr. 2.000,- á mann. Þeir sem hyggjast taka þátt í þessari ferð eru beðnir að skrá sig á skrifstofu Garðasóknar í síma 565 6380 eða á netfang safnaðarins, gardasokn@gardasokn.is. Eldri borgarar í Bessastaðasókn hafi samband við Grétu djákna í síma 863 1061.

Friðrik Hjartar, 15/4 2005 kl. 14.29

     

    Garðasókn, Kirkjulundi, 210 Garðabæ. Sími 565 6380 , fax 565 6853 · Kerfi RSS