Garðasókn

 

Vídalínshátíð

Vídalínshátíð hefst með hátíðarmessu 1. maí í tilefni af 10 ára vígsluafmæli Vídalínskirkju

Á þessu vori eru 10 ár liðin frá vígslu Vídalínskirkju en hún var vígð 30. apríl 1995 af Hr. Ólafi Skúlasyni, biskup. Í tilefni af þessum tímamótum efnir Garðasókn til Vídalínshátíðar. Hátíðin hefst með hátíðarguðsþjónustu sunnudaginn 1. maí kl. 11 f.h. Hr. Sigurður Sigurðarson, víglubiskup í Skálholti mun prédika. Viólukvartett leikur við athöfnina, Ingibjörg Guðjónsdóttir syngur einsöng og kór Vídalínskirkju syngur undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar, organista. Öll tónlist sem flutt verður við athöfnina verður eftir tónskáld sem voru uppi á tímum Jóns Vídalíns, meðal þeirra Johann Sebastian Bach og Georg Friedrich Händel.

< ?xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Undirbúningur að Vídalínshátíð hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Upphaflega var gert ráð fyrir mörgum viðburðum á skömmum tíma á þessu vori. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að Vídalínshátíð muni standa yfir allt fram til vors á næsta ári. Ástæða þess er að 20. mars 2006 verða liðin 40 ár frá því að Garðakirkja var endurvígð. Jón Vídalín var prestur í Görðum á Álftanesi og því er viðeigandi að hátíð sem hefst í kirkju sem við hann er kennd ljúki í kirkju þar sem hann þjónaði í upphafi farsæls ferils sem kennimaður og fræðimaður.

Næsti viðburður Vídalínshátíðar verður Vídalínsganga þar sem gengið verður frá Garðakirkju að Vídalínskirkju. Gangan verður farin í tengslum við kirkjudaga sem haldnir verða 24-25 júní n.k.

Frá og með komandi hausti og fram til vors 2006 verða viðburðir af ýmsum toga, tónleikar, málstefnur og fleira sem nánar verður skýrt frá þegar þar að kemur.

Halldór S. Magnússon, 8/4 2005 kl. 8.57

     

    Garðasókn, Kirkjulundi, 210 Garðabæ. Sími 565 6380 , fax 565 6853 · Kerfi RSS