Hafnarfjarðarkirkja

 

Fullveldi og sjálfstæði þjóðar og einstaklinga

Tryggvi Gíslason. Ræða í Hafnarfjarðarkirkju 17. júní 2018

Góðir kirkjugestir.
Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga – sautjándi júní – og í ár fögnum við Íslendingar hundrað ára fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.  Þetta er því mikið ár í lærdómsríkri sögu lands og þjóðar.

Ísland hefur verið sjálfstætt og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku frá 1. desember 1918 og lýðveldi með þingbundna stjórn frá 17. júní 1944 – eftir að hafa verið undir norskum og dönskum konungum frá því Gamli sáttmáli var gerður árið 1262.  Áður hafði ríkt á Íslandi þjóðveldi með fyrsta alþingi í Evrópu, stofnað 930, eins og þið þekkið, góðir kirkjugestir, en gömlum kennara norðan úr landi hættir til þess að týna sér í fræðslu og fróðleik, og vil ég biðja ykkur að virða mér það til betri vegar.

Fullveldi er sagt fela í sér fullt vald þjóðar til þess stjórna öllum málefnum sínum, en fullvalda ríki er jafnframt sjálfstætt ríki, eins og það er kallað.

Þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hófst í Kaupmannahöfn á fyrra hluta nítjándu aldar.  Frumkvöðull þeirrar baráttu var Baldvin Einarsson, sem fæddur var á Molastöðum í Fljótum árið 1801.  Er útgáfa hans á tímaritinu Ármanni á Alþingi talin marka upphaf þjóðfrelsisbaráttunnar.  Baldvin Einarsson lagði í baráttu sinni áherslu á fræðslu og uppeldi þjóðarinnar, sem hann taldi grundvöll sjálfstæðis.  Á undan honum höfðu boðberar upplýsingarinnar, svo sem Magnús Stephensen dómstjóri í landsyfirdómi, rutt brautina með fræðslustefnu sinni þar sem trú á mannlega skynsemi var undirstaða og boðberar upplýsingarinnar töldu leiða til framfara, frelsis og félagslegs réttlætis, en frelsi félagslegt réttlæti var víða af skornum skammti í Evrópu á þessum tíma.

Í mars 1834 gáfu þrír ungir, íslenskir námsmenn við Kaupmannahafnarháskóla út boðsbréf um stofnun nýs tímarits, tímaritsins Fjölnis.  Þessir þrír ungu menn voru Brynjólfur Pétursson [1810-1851], sem þá var 24 ára – síðar forstöðumaður stjórnardeildar Íslands í danska stjórnarráðinu, Konráð Gíslason [1808-1891], 26 ára, síðar prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og Jónas Hallgrímsson [1807-1845], sem var 26 ára að aldri og las þá lög en lauk síðar prófi í náttúrufræði með jarðfræði og steinafræði sem sérgrein og hlaut við dauða sinn virðingarheitið listaskáldið góða.  Hefur ekkert annað skáld borðið það virðingarheiti.  Um vorið bættist í hóp Fjölnismanna Tómas Sæmundsson [1807-1841], einnig 26 ára að aldri, síðar prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð.

Tilgangur með útgáfu Fjölnis var einkum þríþættur. Í fyrsta lagi að stuðla að nytsemi til þess að auka velmegun, eins og það er orðað.  Í öðru lagi nefna Fjölnismenn, að stefnt skuli að fegurð og þá meðal annars fegurð málsins sem aldrei megi gleyma, en fyrst og fremst verði málið að vera hreint og óblandað.  „Engin þjóð verður til fyrr en hún talar mál út af fyrir sig, og deyi málin deyja líka þjóðirnar, eða verða að annarri þjóð,” eins og það er orðað í inngangi fyrsta árgangi Fjölnis 1835.  Í þriðja lagi nefna Fjölnismenn sannleikann, en skynsemi mannsins þyrstir í sannleika vegna hans sjálfs, eins og Fjölnismenn orða þetta – skynsemi mannsins þyrstir í sannleika vegna hans sjálfs.

Segja má að tilgangur með útgáfu Fjölnis hafi verið pólitískur því að Fjölnismenn vildu hafa áhrif á samfélagið, vildu breyta því og bæta og horfðu til gullaldar Íslendinga, enda var það trú margra á þessum tíma, að þjóðveldisöldin hefði verið blómatími menningar og hagsældar á Íslandi og þangað bæri að sækja fyrirmyndir og hvatningu eftir eitt mesta hörmungatímabil Íslandssögunnar.

Ljóðið Ísland eftir Jónas Hallgrímsson, sem birtist í fyrsta árgangi Fjölnis, hefur verið kallað stefnuskrá Fjölnismanna.  Kvæðið er rómantískt í þeim skilningi, að litið er til fjarlægrar fortíðar en um leið er ljóðið hvatning til Íslendinga:

Það er svo bágt að stand’ í stað, og mönnunum munar

annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.

Hvað er þá orðið okkar starf í sexhundruð sumur?

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir  veg?”

 

Svo mörg voru þau orð um sjálfstæði og fullveldi þjóðar.

En í tilefni þessa þjóðhátíðardags og í tilefni þessa merka árs fullveldis og sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar langar mig hins vegar til þess að gera annars konar fullveldi og annars konar sjálfstæði að umræðuefni hér í Hafnarfjarðarkirkju – kirkju okkar Margrétar.  Hér vorum við gefin saman í hjónaband fyrir tæpum 60 árum af séra Garðari Þorsteinssyni, þeim eftirminnilega og merka manni.

Þetta annars konar fullveldi, sem mig langar að fara um nokkrum orðum, er fullveldi og sjálfstæði einstaklingsins, fullveldi og sjálfstæði hvers og eins okkar.  Spurningin er, hvort einstaklingur geti búið við fullt sjálfstæði – eða með öðrum orðum: getur nokkur einstaklingur verið öðrum óháður?

Margt hefur verið rætt og ritað um, hvað felst í orðinu sjálfstæði – hvort heldur rætt er um sjálfstæði einstaklings eða sjálfstæði þjóðar og þá einnig hvort þjóð geti verið algerlega óháð öðrum þjóðum.

Samkvæmt stjórnmálafræði byggist lýðræði á tveimur grundvallarreglum: reglunni um sjálfstæði einstaklingsins: að engum skuli gert að fylgja reglum sem aðrir hafa þröngvað upp á hann, og reglunni um jafnrétti: að allir skuli hafa sömu tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta samfélagið.

Einnig er sagt, að sjálfstæði sé að geta hugsað og starfað í samræmi við eigin óskir, óháð ráðandi öflum í þjóðfélaginu og kröfu umheimsins um hlutverk og stöðu.  Er þá verið að ræða um andlegt sjálfstæði.

Lykilorð rómantísku stefnunnar, sem Fjölnismenn aðhylltust, voru frelsi, sannleikur og ást. Áhersla var lögð á tilfinningar einstaklingsins og að veruleikinn væri ekki einungis sýnileg tilvera – heldur óáþreifanlegur og dulinn veruleiki – og í þessum ósýnlega veruleika væri að finna algildar fyrirmyndir hugmynda um sjálfan veruleikann.  Er þetta raunar endurómur af kenningum gríska heimspekingsins Platons um frummyndirnar, en Platon var uppi fjórum öldum fyrir Krists burð, svo að ræturnar liggja langt aftur í tímanum.  Margt hefur því verið sagt um sjálfstæði einstaklinga og þjóða.

En til þess að gera langa sögu stutta, góðir kirkjugestur, tel ég, að hvorki þjóðríki né einstaklingar geti verið fullkomalega sjálfstæð og öðrum óháð.  Þjóðir gera samninga við önnur ríki og ganga í bandalög af ýmsu tagi.  Má nefna Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið ESB, Evrópska efnahagssvæðið, Evrópudómstólinn, Atlantshafsbandalagið NATO og Norðurlandaráð, en Ísland á aðild að öllum þessum samtökum og verður að fara eftir fyrirmælum þessara bandalaga, enda er gott að eiga aðild að traustum bandalögum sem byggja á lýðræði, mannréttindum og bræðralagi.

Á sama hátt er það styrkur fyrir hvern einstakling að ganga í bandalag við aðra einstaklinga, svo sem hjónaband – deila lífinu með öðrum einstaklingi.

Þá er það styrkur að fella sig undir lögmálsorð þar sem grundvallarsetningin er:  Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra, eins og stendur í Mattheusarguðspjalli 7:12.

Margir aðhyllast að vísu ekki kenningar Krists – hina kristnu heimspeki eins og hún birtist í guðspjöllunum, og kalla sig jafnvel trúlausa og hæðast að okkur sem trúum.  En hinir trúalausu virðast ekki átta sig á því, að trúleysi er líka trú – trú án skuldbindinga.

Í upphafi minntist ég á Fjölnismanninn og eftirlætisskáld mitt Jónas Hallgrímsson, sem var guðfræðingur frá Bessastaðaskóla og aðhylltist kenningar rómantísku stefnunnar þar sem óskiljanleg og óræð uppspretta og upphaf heimsins er hið sama og guð.  Þessi hugmynd hefur verið nefnd algyðistrú, panþeismi, og kemur fram í ljóðum Jónasar.  Í algyðistrú býr þrá eftir því sem er ekta, ósvikið og ósnortið.  Oft er vitnað til orða þýska heimspekingsins Friedrichs Schellings [1775-1854] þegar hann segir: „Náttúran er hinn sýnilegi andi og andinn er hin ósýnilega náttúra.” en Schelling var helsti heimspekingur rómantísku stefnunnar.

Orð Schellings enduróma orð Hebreabréfsins: Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.  Þessi orð hafa lengi verið mér hugstæð: Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.

Með því að hafa orð Krists að leiðarljósi er unnt að rata um villustigu heimsins, vera sjálfstæður – en þiggja leiðsögn – góð ráð. Í Mattheusarguðspjalli 12:35 segir Kristur:

„Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði – en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.”  Ef við leitumst við að hugsa fallega – bera gott fram úr góðum sjóði og komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur, erum við að ástunda grundvallarkenningu kristninnar – kærleikann, en  „Kærleikurinn er fylling lögmálsins,” eins og segir í Rómverjabréfinu 13:10.

Í fyrra bréfi Páls til Kórintumanna segir:  „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.  Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.    …    Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.  En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.  Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.  En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.” Kor I 13:1-13.

Hugsið ykkur: Ef mannkynið hefði boð kristinnar heimspeki að leiðarljósi þar sem ríkir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur – liti heimurinn sannarlega öðruvísi út.

Góðir kirkjugestir.  Ég ætla að ljúka þessum orðum um sjálfstæði einstaklinga og þjóða með erindi úr Hulduljóðum Jónasar Hallgrímssonar, kvæði sem tengist umræðuefni mínu hér í dag, sjálfstæði, sannleika, ást og kærleika.  Hulda, sem kvæðið er ort til, er tákn náttúrunnar, tákn Íslands, tákn visku og fræða og hin „sólfagra mey”, eins og hún er nefnd í kvæðinu, þekkir hugsanir Guðs og er því eins konar guðsmynd.

Smávinir, fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, vér mættum margt

muna hvort öðru’ að segja frá.

Prýði þér lengi landið það

sem lifandi guð hefir fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

alls staðar fyllir þarfir manns.

 

Guð veri með ykkur – og gleðilega þjóðhátíð.

Jón Helgi Þórarinsson, 20/6 2018 kl. 15.24

     

    Strandgötu, 220 Hafnarfjörður. Sími 520-5700 , fax 555-1294 · Kerfi RSS