Háteigskirkja

 

Vassula Rydén talar í Háteigskirkju 6. júní kl. 19.30

Þriðjudagskvöldið 6. júní næstkomandi miðlar Vassula Rydén orði Guðs á samkomu í Háteigskirkju kl. 19.30. Vassula er grísk, fædd í Egyptalandi árið 1942 og tilheyrir grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Vegna starfa eiginmanns hennar bjó fjölskyldan víða um heim, til dæmis í Bangladesh þar sem Guð birtist henni algjörlega óvænt 28. nóvember 1985. Þann boðskap sem Vassula meðtekur skrifar hún niður og hefur miðlað honum í meira en 85 löndum. Árið 2004 talaði hún fyrir fullu húsi í Hallgrímskirkju og að þessu sinni er hún á ferð um Norðurlöndin. Bækur hennar hafa verið þýddar á yfir 42 tungumál og sjá sjálfboðaliðar um það starf. Vísdómurinn sem Vassula miðlar hefur þannig haft áhrif á fólk um allan heim.

Inntak spádómsorðanna er þrá Guðs eftir auknum kærleika og einingu kristinnar kirkju. Því hefur Vassula Rydén beitt sér fyrir einingu og friði á milli trúfélaga og fengið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir störf sín en hún þiggur ekki laun fyrir vinnu sína. Vassula hefur einnig átt samtöl við leiðtoga annarra trúarbragða og þannig lagt lóð sitt á vogarskálar heimsfriðar. Höfuðstöðvar hreyfingarinnar sem hefur myndast í kring um þennan boðskap, True Life In God, eru í Sviss. Árlega eru farnar pílagrímsferðir á valda staði og hreyfingin rekur hjálparstarfið Beth Myriam (Hús Maríu). Sjá www.tlig.org.

 

María Ágústsdóttir, 29/5 2017 kl. 14.21

     

    Háteigsvegur 27-29, 105 Reykjavík. Sími 511 5400 , fax 511 5411 · Kerfi RSS