Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Hvað er þjóðkirkjan?

Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag. Allir landsmenn geta tilheyrt henni. Þéttriðið net sókna um land allt tryggir að þjónusta kirkjunnar nái til landsmanna allra. Hver sá er tilheyrir þjóðkirkjunni greiðir sóknargjald til þeirrar sóknar þar sem lögheimili hans er og hefur öll réttindi innan hennar. Þjóðkirkjan er opin öllum, allir eiga aðgang að þjónustu hennar og eru ekki krafðir um trúarafstöðu.

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Sókn og samfélag

Sóknarkirkjurnar um land allt hafa í þúsund ár vitnað um Jesú Krist og markað eyktir mannlífsins og signt krossgötur ævinnar. Með helgihaldi sínu, fræðslu og kærleiksþjónustu vill þjóðkirkjan stuðla að uppeldi í trú og bæn, greiða veg kærleika í verki, veita leiðsögn kristninnar trúar og siðar á daglegri för, huggun í sorg og mótlæti, og búa látnum legstað sem tjáir virðingu fyrir einstaklingnum og sögu hans. Þjónusta þjóðkirkjunnar er samfélagsmótun og efling, þar sem við finnum okkur hluta samhengis sem ber okkur uppi og blessar.

Krossgötur ævinnar

Guðsþjónustur helgidaganna og helgar athafnir þjóðkirkjunnar, svo sem skírn, ferming, brúðkaup, útför, eru áningarstaðir á lífsins leið, með veganesti orðs og atferlis sem styrkja samfélagið milli fólks og kynslóða og efla von og lífsþrótt. Þar verður hin opna þjóðkirkja sýnileg, með sína löngu hefð og sögu og sterka framtíðarsýn í ljósi Jesú Krists.

Samfylgd á lífsins leið

Í blíðu og stríðu lífsins þörfnumst við stuðnings og samfylgdar annars fólks, fjölskyldu og vina. Þjóðkirkjan hefur um aldir lagt til rými, iðkun, tákn og orð til að tjá gleði og sorg, einn og með öðrum. Í einrúmi og opinberlega er beðið fyrir fólki og samfélagi. Barnastarf kirkjunnar er stuðningur við trúaruppeldi heimilanna þar sem börnum er kennt að elska Guð og biðja. Leiðsögn í andlegum efnum, fræðsla og uppbygging í trú er mikilvægur þáttur í þjónustu kirkjunnar. Sálgæsla presta og djákna reynist ómetanleg hjálp þegar glímt er við dýpstu og örðugustu lífsspurningar.

Félagsleg ábyrgð

Þjóðkirkjan hefur með höndum margskonar félagslega þjónustu, kærleiksþjónustu safnaða og neyðaraðstoð innanlands og þróunar og neyðarhjálp á alþjóðavettvangi um farveg Hjálparstarfs kirkjunnar. Prestar og djáknar í sóknum og á stofnunum veita fólki stuðning, ráðgjöf, sálgæslu auk leiðsagnar í andlegum efnum. Stuðningur við fólk í hjúskaparerfiðleikum er umtalsverður þáttur í starfi presta og með Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er veitt dýrmæt þjónusta til stuðnings fjölskyldum.

Siðgæði

Með fræðslustarfi safnaðanna, barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi vill þjóðkirkjan greiða veg kristnu siðgæði og veita leiðsögn og stuðning í siðgæðislegum efnum. Í ljósi kærleiksboða Krists og gullnu reglunnar vill hin opna þjóðkirkja stuðla að samtali, umburðarlyndi, virðingu  fyrir manngildinu og lotningu fyrir lífi.

Kyrrð – íhugun

Kyrrð er munaðarvara í nútímanum. Sóknarkirkjan býður kyrrð og rými til bænar og íhugunar hverjum þeim sem eftir leitar, iðkun hennar og athafnir beina sjón til þess helga og háa.

Samhengi sögunnar

Engin stofnun á Íslandi getur sýnt fram á annað eins samhengi í þjóðarsögunni og kirkjan. Þjóðkirkjan stendur vörð um það, um leið og hún vill mæta trúarþörf samtíma síns með næringu fagnaðarerindisins. Þjóðkirkjan er víðtækasta mannræktarhreyfing þessa lands og hefur víðari snertiflöt við heimili og stofnanir samfélagsins en nokkur stofnun.

Menning

Íslensk menning er runnin af rótum vestrænnar, kristinnar hámenningar. Þjóðkirkjan hefur miklu hlutverki að gegna að hlú að grunnstoðum íslenskrar þjóðmenningar en styður jafnframt að frjórri menningarstarfsemi, ekki síst drottningu listanna, tónlistinni.

Aðrar kirkjur og trúfélög

Þjóðkirkjan er íslensk, stendur djúpum rótum í íslenskri sögu og þjóðarhefð, en jafnframt er hún hluti alþjóðlegs samhengis og tekur virkan þátt í samstarfi kirkna heimsins. Þjóðkirkjan vill stuðla að góðum samskiptum við aðrar kristnar kirkjur og trúarsamfélög í landinu og vinna að skilningi og virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum sem festa rætur hér á landi.

Aðild að þjóðkirkjunni

Aðild að þjóðkirkjunni er staðfest með skráningu í Þjóðskrá. Um 300 sóknir um land hafa innan sinna vébanda tæplega 80% þjóðarinnar. Meðlimagjöld, svonefnd sóknargjöld, eru reiknuð sem hlutfall af tekjuskatti. Með sama hætti innheimtir ríkið meðlimagjöld annarra trúfélaga. Sóknargjöld þjóðkirkjufólks greiðast hins vegar beint til heimasóknar viðkomandi einstaklings og standa undir rekstri og viðhaldi kirkjuhússins og margháttaðri safnaðarstarfsemi. Með aðild að þjóðkirkjunni er stutt við eina styrkustu kjölfestu íslensks þjóðfélags og menningar. Þar munar um hvern og einn. Ef þú ert óviss um það hvort þú ert skráð(ur) í Þjóðkirkjuna geturðu haft samband við Þjóðskrá eða sóknarprestinn.

Fjármál þjóðkirkjunnar

Tekjur Þjóðkirkjunnar byggja á lögum og samningum við ríkið á grundvelli kirkjueigna. Einnig innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna sem og önnur trúfélög. Þjóðkirkjan er sjálfstæð stofnun og jarðeignir sem voru í eigu kirkjunnar stóðu áður beint undir launum og rekstri embættanna og viðhaldi kirknanna.

Nánar

Myndbönd á YouTube