Ísafjarðarkirkja

 

Sunnudagsbíltúr í messu?

Sunnudaginn 19. ágúst er ekki messað í Ísafjarðarkirkju.  En áhugasömum er bent á að prófasturinn er að messa í kirkjunni á Eyri við Seyðisfjörð klukkan tvö.

Magnús Erlingsson, 18/8 2018

Útför

Laugardaginn 18. ágúst klukkan tvö verður Einar Rósinkar Óskarsson jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju.

Einar Rósinkar var fæddur hér á Ísafirði árið 1955.  Hann var sjómaður hér við Djúp og vann á þungavinnuvélum.  Hin seinni árin var hann starfandi hjá Samskip í Reykjavík.  Einar Rósinkar varð bráðkvaddur norður í Jökulfjörðum þann 5. ágúst síðastliðinn.

Magnús Erlingsson, 18/8 2018

Fermingarstörfin hefjast í ágúst með ferðalagi

Fermingarstörfin í Ísafjarðarkirkju næsta vetur verða með öðru sniði en verið hefur. Í stað vikulegra kennslustunda þá verðum við nokkrar náskeiðshrinur. Sú fyrsta verður dagana 26. – 30. ágúst en þá ætlum við í ferðalag í sumarbúðirnar í Vatnaskógi. Áætluð brottför sunnudaginn 26. ágúst er kl. 11:00 frá Ísafjarðarkirkju. Fimmtudaginn 30. ágúst er áætlaður komutími að Ísafjarðarkirkju kl. 19:00.

Dagskrá námskeiðsins er þannig að við hefjum hvern dag með morgunstund en síðan verður skipt í fjóra hópa þar sem hver hópur hefur þrjár kennslustundir með sínum fræðara. Eftir hádegi er frjáls tími með ýmsum dagskrártilboðum s.s. bátum, íþróttum, útiveru ofl. Hressing er um miðjan daginn. Kl. ca. 17-19 er hópastarf með ýmsu móti. Á kvöldin verða kvöldvökur og helgihald.

Vatnskógur er í Svínadal sem liggur norðan við Hvalfjörð ca. 25 km. frá Akranesi. Þar hafa Skógarmenn KFUM rekið sumarbúðir síðan 1923 og fermingarbúðir frá 1991. Staðurinn er fallegur. Það er skógur allt um kring. Þarna eru íþróttavellir og íþróttahús. Einnig eru bátar til að róa eða sigla á vatninu. Fermingarbörn, sem hafa farið á námskeið í Vatnaskógi, segja að svona námskeið séu ógleymanleg upplifun.

Skráning og frekari upplýsingar veitir sr. Magnús Erlingsson í síma 844-7153 en einnig má senda honum tölvupóst á netfangið isafjardarkirkja@simnet.is

Magnús Erlingsson, 11/8 2018

Sameiningar prestakalla

Biskupafundur hefur það hlutverk að gera tillögur til kirkjuþings um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Nýverið samþykkti biskupafundur tillögur um sameiningu prestakalla á landsvísu. Tillögurnar ganga út frá óbreyttum fjölda presta í nýjum stækkuðum prestaköllum og að sóknaskipan verði óbreytt. Héraðsmódelið svokallaða er fyrirmyndin, en það er byggt á samvinnu presta og sérstakri ábyrgð hvers og eins á ákveðnum sóknum í prestakallinu og ábyrgð hvers og eins á ákveðnum málaflokkum. Nafngift þessi á rætur að rekja til sameiningar fjögurra prestakalla á Héraði á Austurlandi.

Meginreglan verði sú að í hverju prestakalli séu starfandi að lágmarki þrír prestar. Frá því geta þó verið frávik þar sem aðstæður eru breytilegar eftir prestaköllum. Þannig verða um sinn einhver prestaköll áfram einmenningsprestaköll eða sóknarprestur og einn prestur þjóna sama kallinu.

Kostir stærri prestakalla eru:
a) betri og fjölbreytilegri þjónusta fyrir sóknarbörn, sem fá aðgang að fleiri prestum
b) meiri sérhæfing prestsþjónustunnar
c) betra starfsumhverfi prestanna með jöfnun þjónustubyrði
d) betri nýting fjármuna og annarra auðlinda

Tillögurnar hafa verið kynntar í nokkrum prestaköllum og hefur þeim almennt verið vel tekið. Í Vestfjarðaprófastsdæmi hefur biskupafundur gert tillögu um að sameina Hólmavíkur- og Reykhólaprestakall í eitt prestakall. Tillögurnar verða teknar til umfjöllunar á héraðsfundi Vestfjarðaprófastsdæmis þann 2. september. Síðan verða þær lagðar fyrir kirkjuþing, sem hefst þann 3. nóvember.

Magnús Erlingsson, 11/8 2018

Jarðarför á föstudag

Föstudaginn 10. ágúst kl. 13:00 var María Jóhannesdóttir jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju.  Jarðsett var í Réttarholtskirkjugarði.  Aðstandendur buðu til erfidrykkju í Kiwanishúsinu á Skeiði að athöfn lokinni.

María var fædd að Dynjanda í Jökulfjörðum.  Um fermingaraldur flutti hún ásamt fjölskyldu sinni að Bæjum á Snæfjallaströnd.  María giftist Sigurvin Guðbjartssyni.  Þau áttu lengst af heima í Bolungarvík en hin seinni árin hér á Ísafirði.

Magnús Erlingsson, 8/8 2018

Mesa í Unaðsdal

Sunnudaginn 5. ágúst kl. 14:00 var messa í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd.  Organisti var Kjartan Sigurjónsson en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Fjölmenni var við athöfnina og tók fólk vel undir í sálmasöngnum.  Að lokinni guðsþjónustu var boðið upp á kirkjukaffi í Unaðsdal.

Sóknarprestur og organisti fóru til þessarar messu að hætti postulanna því þeir siglu yfir Djúpið.  Að vísu var ekki setið undir árum eða segli heldur flutti Sævar Óskarsson þá á vélbátnum Búðanesi.

Magnús Erlingsson, 1/8 2018

Sókn og söfnuður

Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar.  Hver sókn er landfræðilega afmörkuð og fólkið, sem býr þar, myndar samfélag eða söfnuð, þar sem reglulegt helgihald fer fram og fólk leitast við að lifa samkvæmt boðskap Jesú Krists.

Söfnuðurinn er kirkjan. Þegar söfnuðurinn safnast saman um orð Guðs þá birtist þar kirkja Krists, líkami Krists á jörðu og samfélag heilagra.  „Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra,“ segir Kristur í 18. kafla Matteusarguðspjalls.

Til að hægt sé að halda uppi reglulegu helgihaldi og safnaðarstarfi þá þarf hver sókn að hafa að lágmarki 150 manns innan sinnan vébanda.  Í fámennari sóknum er ekki messað reglulega, stundum bara ein sumarmessa.

Magnús Erlingsson, 30/7 2018

Messa sunnudaginn 29. júlí

Sunnudaginn 29. júlí kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Einn piltur, Sölvi Guðmundsson fermdist.  Þetta var 9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð og guðspjall dagsins var úr 16. kafla Lúkasar um slóttuga ráðsmanninn.

Magnús Erlingsson, 26/7 2018

Skálholtshátíð

Í dag, á 8. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, sem að þessu sinni ber upp á 22. júlí er Skálholtshátíð.  Halda þá margir prestar í Skálholt og eru þar við hátíðarmessu.  Biskup Íslands mun í dag eftir hádegið vígja sr. Kristján Björnsson til vígslubiskups.

Ekki er messað í Ísafjarðarkirkju í dag.  Næsta messa verður eftir viku.

Magnús Erlingsson, 22/7 2018

Maríumessa Magdalenu

Í dag, 21. júlí er Maríumessa Magdalenu.  María þessi, sem að öllum líkindum var frá þopinu Magðdölum við Galíleuvatn, var ein af konunum, sem fylgdu Jesú og lærisveinunum á ferðum þeirra.  María var viðstödd krossfestingu Jesú og hún var ein kvennanna, sem fóru út að gröf Jesú á páskadagsmorgni.  Samkvæmt vitnisburði Jóhannesarguðspjalls þá var María fyrsta manneskjan til að mæta Jesú Kristi upprisnum.  Hún er því frumvottur upprisunnar.

Magnús Erlingsson, 21/7 2018

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Sunnudagur

Í Ísafjarðarkirkju er alla jafnan messað annan hvern sunnudag kl. 11:00.

Dagskrá ...