Ísafjarðarkirkja

 

Ferming

Orðið ferming (confirmatio) þýðir staðfesting.  Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni.  Það fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun.  Fermt er við messu.  Fjölskylda og vinir barnsins ganga með því til altaris.

Algengt er að presturinn ljúki ræðu sinni með þessum orðum:

Magnús Erlingsson, 21/5 2018

Helgihald á hvítasunnu

Á hvítasunnudag 20. maí kl. 14:00 er fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju.  13 börn fermast.  Kór Ísafjarðarkirkju syngur. Organisti er Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Kl. 15:30 á hvítasunnudag verður helgistund í kapellu Fjórðungssjúkrahússins.  Prestur er sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 14/5 2018

Guðfræðiráðstefna í Holti

Í tilefni af 90 ára afmæli Prestafélags Vestfjarða hefur verið ákveðið að halda guðfræðiráðstefnu í Friðarsetrinu í Holti í Önundarfirði dagana 20. til 21. ágúst næstkomandi.  Gisting er á staðnum.  Skráning og upplýsingar hjá sr. Hildi Ingu Rúnarsdóttur í síma 869-4993 .

Yfirskrift ráðstefnunnar er:  Hvernig byggjum við brýr milli ólíkra menningar- og trúarheima?  Til að varpa ljósi á þetta höfum við fengið þrjá fyrirlesara frá Ísrael; rabbía, prest og guðfræðing til að vera með innlegg og leiða þetta samtal.  Þetta eru þau dr. Maria Leppäkari framkvæmdastjóri Sænsku guðfræðistofnunarinnar í in Jerusalem, dr. Isaac Munther prestur lúthersku kirkjunnar í Bethlehem og frjálslindi rabbíinn Cohen Nir.

Erindi þeirra munu meðal annars fjalla um spurningar eins og:  Hver er staða trúarinnar í fjölmenningarsamfélagi Vesturlanda?  Hver er staða hennar í deilum og átökum Austurlanda?  Hvernig komum við í veg fyrir að trú sé notuð til að réttlæta hatursorðræðu?  Hvernig vinnum við gegn slíku í nútímanum?  Hver eru tengsl trúar og mannréttinda?

Magnús Erlingsson, 14/5 2018

Messa og aðalsafnaðarfundur

Sunnudaginn 13. maí kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Í predikuninni var rætt um mæðradaginn og að kirkjan væri andleg móðir kristinna manna.  Að messu lokinni var boðið upp á súpu í safnaðarheimilinu.

Síðan var haldinn aðalsafnaðarfundur.  Lagðir voru fram reikningar sóknarinnar og kirkjugarðanna.  Tekjur kirkjugarðanna voru 13.588.405 kr. en útgjöld 16.662.221 kr.  Tekjur sóknarinnar voru 23.853.284 kr. en útgjöld 20.431.864 kr.  Rekstrarafgangurinn fór í að greiða af lánum safnaðarins, sem eru til komnar vegna byggingar Ísafjarðarkirkju.  Formaður sóknarnefndar, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir flutti starfs- og yfirlitsskýrslu.  Engar kosningar voru að þessu sinni.

Allir velkomnir.

Magnús Erlingsson, 7/5 2018

Vantar starfsfólk í kirkjugarðana

Kirkjugarðarnir á Ísafirði óska eftir að ráða fólk til starfa í kirkjugörðunum nú í sumar.  Óskum eftir fólki, sem er eldri en 16 ára, og getur hafið störf í lok maí.  Nánari upplýsingar veitir Elvar Ingason kirkjugarðsvörður eða sr. Magnús Erlingsson í síma 456-3171.

Magnús Erlingsson, 2/5 2018

Prestastefnan 2018

Prestastefnan 2018 var haldin í Neskirkju í Reykjavík dagana 24. til 26. apríl.  Fjallað var um umhverfismál auk hefðbundinna kirkjumála.  Haldið var uppá 100 ára afmæli Prestafélags Íslands.

Prestastefnan 2018 samþykkti eftirfarandi ályktun:

Prestastefna 2018 hvetur stjórnvöld á Íslandi til dáða og styður vinnu að aðgerðaráætlun vegna loftslagsmála á Íslandi. Þá hvetur hún kirkjuleg stjórnvöld og söfnuði kirkjunnar til að leggja sitt af mörkum til þess að Íslendingar nái að standa við þau markmið í loftslagsmálum sem þeir hafa skuldbundið sig til. Má þar nefna að Íslendingar dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35-40 prósent fyrir 2030, miðað við losun 1990 svo að hlýnun andrúmslofts verði vel innan við 2 gráður (miðað við stöðuna fyrir iðnbyltingu).

Prestastefna 2018 hvetur einnig biskup Íslands fyrir hönd þjóðkirkjunnar til að skrifa undir yfirlýsingu (s.k. Arctic Commitment) um að bruni svartolíu til að knýja skip verði bannaður á norðurslóðum, svo og flutningur á svartolíu nema óhjákvæmilegt sé fyrir íbúa nyrstu byggða.

Magnús Erlingsson, 23/4 2018

Messa sunnudaginn 22. apríl

Sunnudaginn 22. apríl kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Ein stúlka, Jóhanna Ýr Barðadóttir fermdist.

Þetta var fyrsti sunnudagur sumarsins og kirkjugestir fögnuðu því að vetrinum væri lokið með því að syngja nokkra vor- og sumarsálma.

Magnús Erlingsson, 16/4 2018

Lokahátíð kirkjuskólans

Kirkjuskólastarfinu í Ísafjarðarsókn lauk með rútuferðalagi til Suðureyrar síðastliðinn sunnudag, þann 8. apríl.  Haldin var sameiginleg kirkjuskólahátíð í Suðureyrarkirkju.  Síðan var pyslupartý í samkomuhúsinu.  Hátíðin tókst vel í alla staði og það var hópur af ánægðum krökkum og foreldrum, sem kom heim klukkan eitt eftir hádegið.

Kirkjuskólinn fer nú í frí fram á haustið.  Árný, Lísbet og Magnús þakka fyrir samverur vetrarins.

Magnús Erlingsson, 5/4 2018

Ferðalag fermingarbarna

Ferðalag fermingarbarna tókst mjög vel.  Lagt var af stað föstudaginn 6. apríl kl. 17:00 en um er ræða árvisst ferðalag fermingarbarna.  Farið var frá Ísafjarðarkirkju með rútu til Bolungarvíkur.  Þar var farið í sund.  Síðan var ekið að Holti í Önundarfirði og þar var gist.  Sr. Fjölnir og sr. Magnús buðu upp á pylsur og djús.  Síðan var kvöldvaka og helgistund í kirkjunni um miðnættið.  Farið var heim með rútu um hádegi á laugardag.

Þetta var sameiginleg ferð fermingarbarna frá Ísafirði, Flateyri og Suðureyri.  Ferðin tókst mjög vel og var skemmtileg.

Magnús Erlingsson, 5/4 2018

Páskakveðja

Starfsfólk Ísafjarðarkirkju, jafnt launaðir starfsmenn sem sjálfboðaliðar vilja óskum öllum Vestfirðingum gleðilegra páska.

Páskarnir eru vorhátíð kirkjunnar og ein af þremur stórhátíðum kirkjuársins.  Þá fögnum við upprisu Jesú Krists, sem opnar okkur dyrnar að eilífa lífinu.  Egg eru gjarnan tengd páskum.  Inni í náttúrulegu eggi er nýtt lif að verða til.  Þess vegna eru egg góð táknmynd páskanna því á páskum fögnum við nýju lífi.

Magnús Erlingsson, 1/4 2018

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Þriðjudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.
Fundur hjá æskulýðsfélaginu kl. 20:00.

Dagskrá ...