Ísafjarðarkirkja

 

Kirkjuskólasamverurnar byrja aftur á ný

Kirkjuskólinn á Ísafirði hefst miðvikudaginn 17. janúar.  Samverurnar eru klukkan hálf fimm og er dagskráin sniðin að þörfum ungra barna, sem eru í leikskóla eða fyrstu bekkjum grunnskólans.  Við byrjum inni í kirkjunni með söng og helgihaldi.  Það er sögð biblíusaga og sýnt brúðuleikhús.  Síðan förum við yfir í safnaðarheimilið og litum eða föndrum.  Hver samvera er innan við klukkutíma löng.

Magnús Erlingsson, 15/1 2018

Frí í fermingarfræðslu

15. og 18. janúar er frí í fermingarfræðslunni en þá er sr. Magnús á prófastafundi á Biskupsstofu í Reykjavík.

Magnús Erlingsson, 13/1 2018

Orgeltónleikum í Ísafjarðarkirkju frestað um viku

Orgeltónleikum, sem vera áttu í Ísafjarðarkirkju næstkomandi sunnudag, hefur verið frestað um eina viku!

Í staðinn verða þeir haldnir sunnudaginn 21. janúar kl. 17:00.   Þá mun Tuuli Rähni leika á orgel kirkjunnar verk eftir Buxtehude, Bach og Mendelssohn.  Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Orgel Ísafjarðarkirkju er danskt orgel frá P. Bruhn.  Í því eru 23 raddir í tveimur nótnaborðum og fótpedal.

Magnús Erlingsson, 8/1 2018

Fermingardagar vorsins

Fermingardagar vorsins í Ísafjarðarprestakalli hafa verið ákveðnir.  Haldinn var fundur með foreldrum fermingarbarna í lok nóvember til að ræða málin og velja daga.  Fermt verður á eftirfarandi dögum:

  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á pálmasunnudag 25. mars kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á skírdag 29. mars kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 22. apríl kl. 11:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á hvítasunnudag 20. maí kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 17. júní kl. 11:00

Magnús Erlingsson, 8/1 2018

Áramótakveðja

Starfsfólk Ísafjarðarkirkju óskar Vestfirðingum gleðilegs nýs árs um leið og við þökkum fyrir samstarf á liðnu ári.

Magnús Erlingsson, 31/12 2017

Aftansöngur á gamlársdag

Á gamlársdag kl. 17:00 var aftansöngur í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Þessi síðasta guðsþjónusta ársins var vel sótt.  Veðrið á gamlárskvöld var stillt og fallegt, frost og snjór yfir öllu.

Magnús Erlingsson, 28/12 2017

Messað á jóladag

Á jóladag kl. 14:00 var jólamessa í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Kl. 15:30 var svo jólaguðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Eyri, Torfnesi.  Þar söng kór starfsmanna sjúkrahússins.  Heimilisfólk og gestir þeirra sungu jólasálmana.  Á eftir var boðið upp á heitt kakó með rjóma og smákökur með.

Magnús Erlingsson, 21/12 2017

Miðnæturmessa á jólanótt

Á aðfangadag kl. 23:30 var hin hefðbundna messa á jólanótt í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Fjöldi fólks mætti og söng með kórnum jólasálmana.  Er miðnæturmessan ein fjölsóttasta messa ársins enda mikil stemming í þessari messu.

Magnús Erlingsson, 20/12 2017

Aftansöngur í Hnífsdal

Á aðfangadag kl. 18:00 hringdum við inn jólin í Hnífsdal.  Þá var aftansöngur samkvæmt venju í Hnífsdalskapellu.  Sönghópur leiddi almennan safnaðarsöng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Messan var vel sótt.

Magnús Erlingsson, 19/12 2017

Jólafrí

Kirkjuskólinn og fermingarfræðslan eru komin í jólafrí.  Við byrjum aftur í janúar.

Magnús Erlingsson, 18/12 2017

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Miðvikudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.
Opið hús er í Hnífsdalskapellu milli 10:30 og 12:00.
Mömmumorgunn er í safnaðarheimilinu kl. 10:30.
Tíu-tólf ára klúbbur er kl. 17:30.

Dagskrá ...