Ísafjarðarkirkja

 

Guðsþjónusta á Hlíf

Sunnudaginn 22. janúar kl. 14:00 verður guðsþjónusta á Hlíf.  Kór Ísafjarðarkirkju syngur.  Organisti er Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 18/1 2017

Safnaðarstarfið er að fara af stað á nýju ári

Fermingarfræðslan hófst mánudaginn 16. janúar.

Barnastarfið í Ísafjarðarkirkju hefst miðvikudaginn 18. janúar.  Kirkjuskólinn er þá kl. 16:30 en Ttt-klúbburinn kl. 17:30.

Barnastarfið í Hnífsdal hefst mánudaginn 23. janúar.  Fylgist með auglýsingum hér á síðunni.

Magnús Erlingsson, 14/1 2017

Jarðarför á laugardegi

Laugardaginn 14. janúar kl. 14:00 var Björn Baldursson jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni.

Björn Baldursson var sóknarnefndarformaður Ísafjarðarkirkju.  Aðstandendur afþökkuðu blóm en bentu þeim, sem vildu minnast hans, á minningarsjóð Ísafjarðarkirkju.  Bankanúmerið er 0156-26-4117.  Kennitalan er 660169-6959.  Leggi fólk inn á sjóðinn þá biðjum við það að senda okkur tölvupóst svo að við getum útbúið minningarkort, sem komið verður til aðstandenda.  Netfangið er isafjardarkirkja@simnet.is

Að útför lokinni buðu aðstandendur til erfidrykkju í Turnhúsinu niðri í Neðstakaupstað.

Um var ræða bálför að ósk hins látna.  Kistan verður flutt suður og svo í fyllingu tímans verður duftkerinu komið fyrir í kirkjugarðinum í Ögri.

Magnús Erlingsson, 9/1 2017

Prófastafundur

Biskups Íslands boðaði til prófastafundar á Biskupsstofu þriðjudaginn 10. janúar til ræða ýmis mál svo almannatengsl og kirkjuþingsmál.  Til fundarins voru einnig boðaðir báðir vígslubiskupar auk prófastanna níu.  Á fundinum var einnig rætt um hvernig ráðgert er minnast fimm alda afmælis siðbótar Marteins Lúthers.

Magnús Erlingsson, 8/1 2017

Áramótakveðja

Starfsfólk Ísafjarðarkirkju óskar sóknarbörnum prestakallsins gleðilegs árs um leið og við þökkum fyrir ánægjuleg samskipti á árinu 2016.

Magnús Erlingsson, 31/12 2016

Aftansöngur á gamlársdag

Á gamlársdag kl. 17:00 var aftansöngur í Ísafjarðarkirkju.  Þetta var síðasta guðsþjónusta ársins.  Í kirkju voru 47 manns, sem er svipað og undanfarin ár.  Í predikun sinni fjallaði sóknarpresturinn meðal annars um söguskoðun Hegels.

Magnús Erlingsson, 27/12 2016

Umhverfismál á vettvangi þjóðkirkjunnar

Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Allt sem Guð skapar er gott og viðheldur lífinu, elur og nærir. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Guð felur manninum að vera ráðsmaður sköpunarverksins og um leið er hann hluti þess. Þeirri köllun er honum ætlað að sinna af umhyggju og virðingu fyrir því sem lifir og grær. Lotning fyrir höfundi sköpunarverksins leiðir til ábyrgðar gagnvart því lífi og náttúru sem hann skapar. Frammi fyrir hinu sístæða sköpunarverki erum við hvött til að vera samverkamenn Guðs í að skapa betra líf og réttlátari heim.

Lifnaðarhættir mannkyns á síðustu öldum hafa valdið röskun á náttúru jarðar. Þessar breytingar kalla á, að við endurskoðum þá lifnaðarhætti og gildismat, vinnum gegn ofneyslu og sóun og greiðum veg ráðdeildar og virðingar.

Íslenska þjóðkirkjan er aðili að stefnumótun Alkirkjuráðsins og Lútherska heimssambandsins er lýtur að umhyggju fyrir náttúrunni. Í því felst hvatning til þess að söfnuðir og stofnanir kirkjunnar leggi sitt að mörkun í mótun samfélags og lífshátta sem stuðla að hófsamari og að réttlátari skiptingu jarðargæða, að vinna gegn fátækt og neyð.

Í samræmi við það vill þjóðkirkjan leggja sitt af mörkum með því að:

  • boða hógværð og látleysi í lífsstíl og neyslu
  • uppörva einstaklinga og samfélag í því að auðsýna ábyrgð í umgengni sinni um jarðargæði
  • vinna gegn sóun og ofneyslu
  • leggja sig fram um að hlynna að lífi og náttúru
  • stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðargæða, nýtni, orkusparnaði og endurvinnslu.

Magnús Erlingsson, 27/12 2016

Fyrsta jólaguðsþjónustan á Eyri

Á jóladag kl. 15:30 var guðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Eyri.  Var þetta jólaguðsþjónusta fyrir heimilisfólkið og þá, sem lágu inni á Fjórðungssjúkrahúsinu yfir hátíðarnar.  Kór starfsfólks Heilbrigðisstofunar Vestfjarða söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Viðstaddir messuna voru 80 manns.

Magnús Erlingsson, 25/12 2016

Hátíðarguðsþjónusta á jóladag

Á jóladag kl. 14:00 var guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Sungið var hátíðartón Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Snjóbylur var á jóladag og dró það úr messusókn, sem var minni en oft áður.  Í kirkju voru 78 manns.

Magnús Erlingsson, 22/12 2016

Aftansöngur á jólanótt

Á aðfangadagskvöld kl. 23:30 var aftansöngur í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Í kirkju voru 175 manns.  Er það álíka góð messusókn og undanfarin ár.

Magnús Erlingsson, 22/12 2016

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Föstudagur

Fermingarfræðsla kl. 13:15.

Dagskrá ...