Ísafjarðarkirkja

 

Reglur fyrir kirkjugarðana á Ísafirði

I. kafli:  Inngangur

Kirkjugarðar Ísafjarðar ná yfir þrjá kirkjugarða.  Það er Hnífsdalskirkjugarð, Eyrarkirkjugarð og Réttarholtskirkjugarð.  Sóknarnefnd Ísafjarðarsóknar fer með stjórn kirkjugarðanna.

Allir eiga rétt á grafstæði í görðunum.  Kirkjugarðsvörður hjálpar fólki við að velja legstæði og skráir hver sé ábyrgðarmaður fyrir legstæðinu.  Hægt er að taka frá fyrir nánustu aðstandendur  legstæði við hliðina á gröfinni.  Að hámarki eru tekin frá 3 legstæði.  Að greftrun lokinni sér kirkjugarðsvörður um að tyrfa leiðið og jafna það ef jarðvegur sígur.

Kirkjugarðsvörður  markar grafstæði og línu í þau sem miða skal bakhlið legsteins við.  Legsteinar og undirstöður þeirra skulu ávallt vera innan marka grafstæðis.  Heimilt er að jarðsetja duftker í kistugrafstæði, sem þegar hefur verið jarðsett í.

Í Hnífsdalskirkjugarði og Réttarholtskirkjugarði eru minningarsteinar vegna þeirra sem hafa farist en ekki fundist.  Hægt er að setja minningarskildi á steinana og skal haft samráð við kirkjugarðsvörðinn.

Sóknarnefndin sér um að garðarnir séu hirtir og slegnir á sumrin.  Aðstandendur bera hins vegar ábyrgð á viðhaldi legsteina og minningarmarka.  Fyrir jólin stendur fólki til boða að setja upp ljósakrossa og er innheimt sérstakt gjald fyrir slíkt.

II. kafli:  Um frágang leiða

Aðstandenum er heimilt að planta blómum á leiði ástvina sinna eða  hafa þau í þar til gerðum kerjum.  Eins má fólk setja styttur, ljósker og aðra lausa muni á leiðin.  Ekki er leyfilegt að planta trjám í legstæði.

Ekki má setja girðingar úr steini, málmi, timbri, plasti eða sambærilegu efni utan um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Þá er ekki heimilt að reisa grafhýsi.

Þegar aðstandendur hyggjast setja minnismerki á grafreit skulu þeir tilkynna það kirkjugarðsverði og gera honum grein fyrir stærð og gerð minnismerkis og fá leyfi fyrir uppsetningu.  Minnismerkin og uppsetning þeirra er alfarið á ábyrgð og kostnað aðstandenda.  Minnismerki úr plasti eru ekki leyfileg.

Ekki er hægt að setja upp legstein fyrr en gröfin hefur sigið og moldin hefur jafnað sig.  Aftur á móti er strax hægt að setja upp trékross og sé krossinum komið til kirkjugarðsvarðar þá er það gert um leið og gengið er frá gröfinni á útfarardegi.  Setja má trékross á alla grafreiti þar sem ekki er minnismerki.  Trékrossar skulu vera úr gegnheilum fúavörðum viði.  Hámarkshæð trékrossa á kistugrafstæði er 1,3 metrar frá jörðu, en 0,5 metrar á duftgrafstæði.

Hámarksbreidd legsteins á einfalt grafstæði er 0,8 metrar, að meðtöldum undirsteini, en 1,4 metrar ef legsteinn nær yfir tvö grafstæði.  Nái legsteinn yfir fleiri en tvö grafstæði, skal þess gætt að steinninn fari ekki nær næstu grafstæðum til hvorrar handar en nemur 0,3 metrum.  Hámarkshæð legsteins frá yfirborði jarðar er 1,5 metrar.  Allir legsteinar aðrir en púltsteinar skulu standa á platta.  Skal þykkt plattans vera a.m.k. 10 sentimetrar og því sem næst ferhyrndur.

Nauðsynlegt er að skipta um jarðveg áður en legsteini er komið fyrir.  Skal grafa 0.35 metra undir jarðvegsyfirborð og a.m.k. 0.1 metra út fyrir undirstöðu legsteins á alla kanta.  Notast skal við frostfrítt efni eins og möl.

Heimilt er að setja lausan ramma úr steini eða tré kringum leiði og má hann að hámarki vera 50 cm á breidd en 60 cm á lengd.  Hæð rammans má ekki vera meiri en 12 cm.  Heimilt er að fylla rammann með möl.  Umsjónaraðilar kirkjugarðsins eru ekki skyldugir til að byrgja rammann svo að gras fjúki ekki yfir mölina þegar slegið er, – en reynt yrði að lágmaka allt slíkt með því að leggja krossviðarplötu yfir.

III. kafli:  Um duftreit og aðra reiti

Stefnt er að því að koma upp í framtíðinni sérstökum duftgrafreit í Réttarholtskirkjugarði.  Eins er hugsanlegt að komið verði upp fleiri sérreitum.

Kirkjugarðsvörður markar duftgrafstæði og línu í þau sem miða skal bakhlið legsteins við.  Legsteinar og undirstöður þeirra skulu ávallt vera innan marka grafstæðis.  Legsteinar á duftgrafstæðum skulu vera púltsteinar.  Staðsetja skal púltstein fyrir miðju grafstæðis við hina afmörkuðu línu fyrir bakhlið.  Einnig er heimilt að setja náttúrustein eða steyptan púltstein með steyptri málmplötu á duftgrafstæði, enda liggi hann þá flatur og sé innan sömu stærðarmarka og púltsteinar.  Ef náttúrusteinn er þykkari en 0,2 m skal þess gætt við uppsetningu að hæð frá yfirborði sé ekki hærri en reglur kveða á um.  Einfalt duftgrafstæði er að lágmarki 0,75 x 0,75 metrar, tvöfalt duftgrafstæði er 0,75 x 1,5 metrar og fjórfalt duftgrafstæði er 1,5 x 1,5 metrar.

IV. kafli:  Önnur ákvæði

Reglur þessar eru settar á grundvelli 51. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.  Brot gegn ofangreindum reglum kann að varða við viðurlög, sem tilgreind eru í 52. gr. laganna um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.

Kirkjugarðsstjórn er heimilt að fjarlægja af grafreitum óviðeigandi girðingar og minnismerki í samræmi við 26. gr. laganna um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.   Vandamönnum skal í slíkum tilvikum gert viðvart, sé þess kostur, og samráð haft við prófastinn í Vestfjarðaprófastdæmi.

Rísi ágreiningur um túlkun þessara reglna má skjóta þeim málum til úrskurðar Kirkjugarðaráðs innan þriggja mánaða frá ákvörðun kirkjugarðsstjórnar.

Reglur þessar taka gildi frá og með 15. janúar 2018.  Skulu þær kynntar fólki á heimasíðu Ísafjarðarkirkju og eins á skiltum í kirkjugörðunum.  Þá skulu reglunar ávallt afhentar fólki um leið og því er úthlutað legstæði.

Sóknarnefndin Ísafirði.

Magnús Erlingsson, 21/1 2018

Kirkjuskólinn í Hnífsdal

Kirkjuskólinn í Hnífsdal hefur aftur göngu sína mánudaginn 22. janúar.  Samverurnar eru í Hnífsdalskapellu og hefjast klukkan fimm síðdegis.  Dagskráin samanstendur af fræðslu, söng og helgihaldi.  Einnig er sýnt brúðuleikhús, sem nýtur mikilla vinsælda.  Börnin fá límmiða, sem þau safna.  Einnig fá þau mynd til að lita.  Boðið er upp á djús og kex.

Magnús Erlingsson, 17/1 2018

Kirkjuskólasamverurnar byrja aftur á ný

Kirkjuskólinn á Ísafirði hefst miðvikudaginn 17. janúar.  Samverurnar eru klukkan hálf fimm og er dagskráin sniðin að þörfum ungra barna, sem eru í leikskóla eða fyrstu bekkjum grunnskólans.  Við byrjum inni í kirkjunni með söng og helgihaldi.  Það er sögð biblíusaga og sýnt brúðuleikhús.  Síðan förum við yfir í safnaðarheimilið og litum eða föndrum.  Hver samvera er innan við klukkutíma löng.

Magnús Erlingsson, 15/1 2018

Frí í fermingarfræðslu

15. og 18. janúar er frí í fermingarfræðslunni en þá er sr. Magnús á prófastafundi á Biskupsstofu í Reykjavík.

Magnús Erlingsson, 13/1 2018

Orgeltónleikum í Ísafjarðarkirkju frestað um viku

Orgeltónleikum, sem vera áttu í Ísafjarðarkirkju næstkomandi sunnudag, hefur verið frestað um eina viku!

Í staðinn verða þeir haldnir sunnudaginn 21. janúar kl. 17:00.   Þá mun Tuuli Rähni leika á orgel kirkjunnar verk eftir Buxtehude, Bach og Mendelssohn.  Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Orgel Ísafjarðarkirkju er danskt orgel frá P. Bruhn.  Í því eru 23 raddir í tveimur nótnaborðum og fótpedal.

Magnús Erlingsson, 8/1 2018

Fermingardagar vorsins

Fermingardagar vorsins í Ísafjarðarprestakalli hafa verið ákveðnir.  Haldinn var fundur með foreldrum fermingarbarna í lok nóvember til að ræða málin og velja daga.  Fermt verður á eftirfarandi dögum:

  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á pálmasunnudag 25. mars kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á skírdag 29. mars kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 22. apríl kl. 11:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju á hvítasunnudag 20. maí kl. 14:00
  • Fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 17. júní kl. 11:00

Magnús Erlingsson, 8/1 2018

Áramótakveðja

Starfsfólk Ísafjarðarkirkju óskar Vestfirðingum gleðilegs nýs árs um leið og við þökkum fyrir samstarf á liðnu ári.

Magnús Erlingsson, 31/12 2017

Aftansöngur á gamlársdag

Á gamlársdag kl. 17:00 var aftansöngur í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Þessi síðasta guðsþjónusta ársins var vel sótt.  Veðrið á gamlárskvöld var stillt og fallegt, frost og snjór yfir öllu.

Magnús Erlingsson, 28/12 2017

Messað á jóladag

Á jóladag kl. 14:00 var jólamessa í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Kl. 15:30 var svo jólaguðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Eyri, Torfnesi.  Þar söng kór starfsmanna sjúkrahússins.  Heimilisfólk og gestir þeirra sungu jólasálmana.  Á eftir var boðið upp á heitt kakó með rjóma og smákökur með.

Magnús Erlingsson, 21/12 2017

Miðnæturmessa á jólanótt

Á aðfangadag kl. 23:30 var hin hefðbundna messa á jólanótt í Ísafjarðarkirkju.  Fluttir voru Hátíðasöngvar Bjarna Þorsteinssonar.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Fjöldi fólks mætti og söng með kórnum jólasálmana.  Er miðnæturmessan ein fjölsóttasta messa ársins enda mikil stemming í þessari messu.

Magnús Erlingsson, 20/12 2017

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

 

Ísafjarðarkirkja, Sólgötu 1, 400 Ísafirði. Sími 456 3171 , fax 456 3070 · Kerfi RSS