Ísafjarðarkirkja

 

Jarðarför á laugardag

Laugardaginn 23. júní kl. 14:00 verður Jónas Sigurðsson jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju.

Magnús Erlingsson, 20/6 2018

Nafn Guðs

Biblían skptist í tvo meginhluta, Gamla og Nýja testamentið.  Gamla testamentið var skrifað á hebresku og er það sameiginlegt helgirit gyðinga og kristinna manna.  Mörg nöfn eru notuð yfir Guð í Heilagri ritningu.  Þegar Móses spurði um nafn Guðs þá fékk hann einungis þetta svar: „Ég er sá sem ég er“ (Önnur Mósebók 3:14).  Sjálft nafn Guðs er þannig ekki opinberað.  Við kristnir menn notum ýmis nöfn yfir þann Guð, sem við trúum á.  Við köllum hann föður og Drottinn í bænum okkar, við tölum um Krist og Heilagan anda.

Hjá gyðingum er hefð fyrir því að líta svo að nafn Guðs sé opinberað eða jafnvel falið í hebreska orðinu JHVH (יהוה), sem yfirleitt er þýtt sem Drottinn eða bara Guð.  Orðið JHVH kemur fyrst fyrir í 2. kafla Biblíunnar þar sem fjallað er um sköpun mannsins í aldingarðinum Eden.  Á íslensku er JHVH oftast umskrifað sem Jahve.  Ef þetta hebreska orð væri lesið þá væri framburðurinn líkt og við segðum Javí.  Þetta nafn Guðs, JHVH er svo heilagt fyrir gyðingum að þeir bera nafnið ekki fram upphátt heldur segja í staðinn Adonai, sem þýðir „Drottinn minn“.

Orðið JHVH kemur 6828 sinnum fyrir í hebreska texta Biblíunnar.  Í nútímaþýðingum Biblíunnar er þetta hebreska orð alltaf þýtt sem Guð, Drottinn eða Herra.  Vottar Jehóva hafa hins vegar annan hátt á.  Þeir álíta að Biblían hafi verið fölsuð og útúrsnúin allt frá elstu þýðingunum á grísku.  Þeir hafa því gert eigin þýðingar á mörg mál en ekki á íslensku enn.  Einn mikilvægur munur á Biblíuútgáfum Votta Jehóva og annarra er að þar er nafnið Jehóva notað þar sem á hebresku stendur JHVH.  Hjá vottunum heitir guð Jehóva.

Magnús Erlingsson, 18/6 2018

Messa á þjóðhátíðardaginn

Sunnudaginn 17. júní kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Ein stúlka, Halla María Ólafsdóttir fermdist.

Messan var vel sótt.  Meðal annarra var þar hópur flóttamanna frá Sýrlandi, sem fengið hafa skjól hér á Vestfjörðum.

Magnús Erlingsson, 13/6 2018

Kynningarfundur fyrir fermingarstörf haustsins

Kynningarfundur fyrir fermingarstörf næsta vetrar var haldinn í Ísafjarðarkirkju miðvikudagskvöldið 13. júní kl. 20:00. Kynnt var fimm daga ferðalag í Vatnskóg í ágúst og önnur tilhögun fermingarstarfanna. Skráning í fermingarfræðslu var á fundinum eða einnig er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið isafjardarkirkja@simnet.is.

Næsta vetur verður fermingarfræðslan með tölvert öðru sniði en verið hefur undanfarin ár.  Í satð vikulegra kennslustunda allan veturinn verður boðið upp á nokkra lotur og lögð meiri áhersla á uplifun barnanna.  Byrjað verður á því að fara í fimm daga ferðalag í Vatnaskóg, sumarbúðir KFUM, sem eru rétt hjá Hvalfirði.  Ferðin er frá sunnudeginum 26. ágúst til fimmtudagsins 30. ágúst.

Viljir þú fá nánari upplýsingar þá er hægt að hafa samband við sr. Magnús í síma 844-7153.

Magnús Erlingsson, 8/6 2018

Kirknaráð Evrópu kallar eftir friði og réttlæti svo að hægt sé að leysa vanda flóttafólks

Kirknaráð Evrópu, á ensku Conference of European Churches, skammstafað CEC, var stofnað árið 1959 og var Þjóðkirkja Íslands einn af stofnendum þess.  Í kirknaráðinu eru allar kirkjudeildir og kirkjur í Evrópu.  Upphaflegt markmið ráðsins var að að vinna markvisst að einingu og friði í heiminum.  Í dag eru áskoranir kristninnar í Evrópu m.a. fækkun meðlima og aukið skilningsleysi á hlutverki kirkjunnar. Flestir Evrópubúar aðhyllast kristna siðfræði og samsinna þeim boðskpa, sem kemur fram í dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum.  Á sama tíma fækkar þeim, sem ástunda kristna trú, sækja kirkju og biðja.  Mætti hér tala um siðrof, þar sem hin kristna breytni er ekki endilega tengd kjarna hinnar kristnu trúar.

Fundur Kirknaráðsins er haldinn þessa dagana í bænum Novi Sad í Serbia.  Biskup úr grísku rétttrúnaðarkirkjunni ræddi um þann fjölda flóttafólks, sem leitar skjóls á Grikklandi.  Þar mætti það gestrisni hins kristna samfélags, sem í anda Krists þjónar fólki í neyð.  Á sama tíma væri einnig lögð áhersla á að hjálpa fólki til að snúa aftur til síns heima.  Biskupinn sagði jafnframt að ekki dygði að kirkjur veittu aðstoð og sýndu gestrisni, því jafnframt þyrftu sterkar þjóðir og ríkjandi öfl að hætta að selja vopn til stríðandi fylkinga í heiminum.  Ekki væri hægt að styðja fólk til að búa í sínu heimalandi ef á sama tíma væri verið að selja vopn til stríðandi fylkinga á þeim sömu svæðum.  Vesturlönd þyrftu að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á stríðandi svæðum.

.

Magnús Erlingsson, 7/6 2018

Helgihald á sjómannadaginn

Á sjómannadaginn 3. júní kl. 9:30 var guðsþjónusta í Hnífsdalskapellu.  Kór sjómanna söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Að lokinni guðsþjónustu var gengið út í Hnífsdalskirkjugarð og minnst látinna sjómanna.

Á sjómannadaginn 3. júní kl. 11:00 var einnig guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Að lokinni guðsþjónustu var gengið að sjómannastyttunni og minnst látinna sjómanna.

Magnús Erlingsson, 29/5 2018

Þrenningarhátíð

Þrenningarhátíð eða trinitatis ber að þessu sinni upp á sunndaginn 27. maí.  Þrenningarhátíð er ávallt haldin næsta sunnudag á eftir hvítasunnu.

Kristnir menn trúa á hinn þríeina Guð, sem hefur opinberast okkur mönnum.  Í fyrsta lagi sjáum við Guð í náttúrunni.  Þar er hann skapari heimins, höfundur lífsins, faðir okkar allra.  Í öðru lagi þá mætum við Guði í Jesú Kristi.  Þar er hann frelsari okkar og besti bróðir.  Í þriðja lagi finnum við fyrir nálægð Guðs hér og nú í heilögum anda.  Það er heilagur andi, sem vekur trúna í hjörtum okkar.

Magnús Erlingsson, 25/5 2018

Ferming

Orðið ferming (confirmatio) þýðir staðfesting.  Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni.  Það fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun.  Fermt er við messu.  Fjölskylda og vinir barnsins ganga með því til altaris.

Algengt er að presturinn ljúki ræðu sinni með þessum orðum:

Magnús Erlingsson, 21/5 2018

Helgihald á hvítasunnu

Á hvítasunnudag 20. maí kl. 14:00 er fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju.  13 börn fermast.  Kór Ísafjarðarkirkju syngur. Organisti er Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Kl. 15:30 á hvítasunnudag verður helgistund í kapellu Fjórðungssjúkrahússins.  Prestur er sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 14/5 2018

Guðfræðiráðstefna í Holti

Í tilefni af 90 ára afmæli Prestafélags Vestfjarða hefur verið ákveðið að halda guðfræðiráðstefnu í Friðarsetrinu í Holti í Önundarfirði dagana 20. til 21. ágúst næstkomandi.  Gisting er á staðnum.  Skráning og upplýsingar hjá sr. Hildi Ingu Rúnarsdóttur í síma 869-4993 .

Yfirskrift ráðstefnunnar er:  Hvernig byggjum við brýr milli ólíkra menningar- og trúarheima?  Til að varpa ljósi á þetta höfum við fengið þrjá fyrirlesara frá Ísrael; rabbía, prest og guðfræðing til að vera með innlegg og leiða þetta samtal.  Þetta eru þau dr. Maria Leppäkari framkvæmdastjóri Sænsku guðfræðistofnunarinnar í in Jerusalem, dr. Isaac Munther prestur lúthersku kirkjunnar í Bethlehem og frjálslindi rabbíinn Cohen Nir.

Erindi þeirra munu meðal annars fjalla um spurningar eins og:  Hver er staða trúarinnar í fjölmenningarsamfélagi Vesturlanda?  Hver er staða hennar í deilum og átökum Austurlanda?  Hvernig komum við í veg fyrir að trú sé notuð til að réttlæta hatursorðræðu?  Hvernig vinnum við gegn slíku í nútímanum?  Hver eru tengsl trúar og mannréttinda?

Magnús Erlingsson, 14/5 2018

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Fimmtudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.

Dagskrá ...