Ísafjarðarkirkja

 

Fermingarfræðsla

Fermingarfræðslan hefst mánudaginn 18. september í safnaðarheimili Ísafjarðarkirkju.  Við byrjum á fræðslu um Martein Lúter og lesum teiknimyndablað en í ár eru 500 ár síðan Lúter hóf siðbót sína.  Fermingarkverið heitir Con Dios og það notum við allan veturinn.  Fermingarbörnin fá kverið að láni hjá kirkjunni en þurfa að skila því heilu næsta vor.  Í nóvember verðum við með samélagsverkni og þá ganga fermingarbörn í hús og safna fyrir hreinu vatni en Hjálparstarf kirkjunnar hefur unnið að því á undanförnum árum að grafa brunna í Afríku til að tryggja fólki hreint vatn, sem er undirstaða heilbrigðis.  Eina helgi í nóvember verður farið í sólarhringslangt ferðalag.  Í október verður haldinn sérstakur kvöldfundur með foreldrum.  Á þeim fundi verður rætt um hugsanlega fermingardaga og í framhaldi af því verða fermingardagar vorsins ákveðnir.  Sérstök fermingarfræðsla fyrir foreldra verður í nóvember.

Fermingarfræðslan byggist upp á vikulegum kennslustundum í safmarheimilinu yfir heilan vetur.  Hver kennslustund er 45 mínútur og ætlast er til að nemendur mæti í alla tíma.  Meðferðis í fræðslutímana þurfa börnin að hafa skriffæri, lausblaðamöppu, Nýja testamentið og svo auðvitað fermingarkverið.  Kennt verður í þremur hópum.  Fyrsti hópurinn mætir á mánudögum kl. 13:15.  Annar hópur er á mánudögum kl. 14:15 og sá þriðji er á fimmtudögum kl. 13:15.

Ef þið viljið skrá ykkur í fermingarfræðslu vinsamlegast sendið þá tölvupóst á netfangið isafjardarkirkja@simnet.is og gefið upp nafn fermingarbarns og foreldra og tilgreinið hvaða kennsluhópur hentar ykkur.

Magnús Erlingsson, 18/9 2017

Guðsþjónusta á sunnudaginn

Guðsþjónusta var í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 17. september kl. 11:00. Eftir messuna voru fermingarstörf vetrarins kynnt.  Kór Ísafjarðarkirkju söng við guðsþjónustuna.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 14/9 2017

Kirkjuskólinn á Ísafirði er að byrja

Kirkjuskólinn í Ísafjarðarkirkju hefst miðvikudaginn 13. september klukkan hálf fimm.  Þetta er samvera fyrir börn á leikskóla- og grunnskólaaldri.  Við syngjum, hlustum á sögur, litum og föndrum.

Klukkan hálf sex er svo klúbbur fyrir eldri börn á aldrinum 10 til 12 ára.

Kirkjuskólinn í Hnífsdalskapellu hefst mánudaginn 18. september klukkan fimm.

Magnús Erlingsson, 12/9 2017

Héraðsfundur

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis var haldinn sunnudaginn 3. september 2017.  Hann hófst með guðsþjónustu í Saulauksdalskirkju.  Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir messaði.  Hádegisverður var snæddur í Stúkuhúsinu á Patreksfirði og var boðið upp á gómsæta gúllassúpu.  Sjálfur héraðsfundurinn var haldinn í safnaðarheimilinu á Patreksfirði.  Prestar og sóknarnefndarfólk víða af Vestfjörðum kom þarna saman til að ræða um kirkjuleg málefni.

Magnús Erlingsson, 4/9 2017

Orgelandakt í Ísafjarðarkirkju

Sunnudaginn 27. ágúst kl. 17:00 var orgelandakt í Ísafjarðarkirkju.  Tuuli Rähni lék á orgel kirkjunnar.  Sóknarpresturinn las úr Guðs orði og fór með bæn.

Orgelið var í aðalhlutverki á þessari íhugunarstund.  Viðstaddir nutu þess að slaka á og hlýða á kirkjutónlist en organisti Ísafjarðarkirkju, Tuuli Rähni var nýkomin frá Eistlandi þar sem hún hélt orgeltónleika í Dómkirkjunni í Tallinn.  Á andaktinni lék Tuuli rúmlega tíu mínúta langt verk eftir César Franck, afar rómantískt og tilfinningaþrungið verk, sem hljómaði vel á orgel kirkjunnar.  César Franck var sjálfur orgnisti.  Hann starfaði og bjó lengst af í París.  Hann er einn kunnasti höfundur orgelverka á rómantíska tímabilinu.  Franck var fæddur árið 1822 en hann lést árið 1890.

 

Magnús Erlingsson, 22/8 2017

Námskeið fyrir barnafræðara í Ísafjarðarkirkju

Miðvikudaginn 6. september kl. 20:00 verður haldið námskeið fyrir fræðara í barnastarfi kirkjunnar. Námskeiðið verður í safnaðarheimili Ísafjarðarkirkju. Leiðbeinandi er Elín Elísabet, sem gert hefur barnaefni kirkjunnar undanfarin ár. Elín mun kynna efni vetrarins, nýtt sunnudagaskólalag, nýja Hafdísar- og Klemmaþætti og ýmsar nýtirlegar hugmyndir fyrir starf með börnum.

Barnastarfið í Ísfjarðarkirkju hefst svo miðvikudaginn 13. sepember.  Klukkan hálf fimm er kirkjuskólinn en hann er ætlaður leikskólabörnum og börnum í yngstu bekkjum grunnskólans.  Klukkan hálf sex er svo klúbbur fyrir krakka á aldrinum tíu til tólf ára.

Kirkjuskólinn í Hnífsdal hefst mánudaginn 18. september klukkan fimm.

Magnús Erlingsson, 22/8 2017

Messa í Unaðsdal

Sunnudaginn 23. júlí kl. 14:00 var messað í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd.  Organisti var Kjartan Sigurjónsson en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Að messu lokinni var boðið upp á kirkjukaffi í Unaðsdal.

Magnús Erlingsson, 13/7 2017

Sumarstarf í kirkjugörðunum

Okkur vantar annan starfsmann til að vinna í kirkjugörðunum.  Starfið felst í því að raka saman hey, kantskera, raka gangstíga og mála vegg auk annarra útiverka.  Ef þú hefur áhuga þá skalt hringja í sóknarprestinn í síma 844-7153.

Magnús Erlingsson, 30/6 2017

Sjómannadagsguðsþjónusta á Ísafirði

Á sjómannadaginn, sunnudaginn 11. júní kl. 11:00 var guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Kór sjómanna söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Ragnheiður Hákonardóttir flutti ræðu.  Þær ræddi hún meðal annars um stöðu sjómannskonunnar og mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenska þjóð.  Einnig rifjaði hún gamla sjóferðabæn úr Djúpinu.

Að guðsþjónustu lokinni var lagður blómsveigur að minnismerki sjómanna og minnst látinna félaga.

Magnús Erlingsson, 7/6 2017

Sjómannadagsguðsþjónusta í Hnífsdal

Á sjómannadaginn, sunnudaginn 11. júní kl. 9:30 var guðsþjónusta í Hnífsdalskapellu.  Kór sjómanna söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Í predikun sinni ræddi presturinn meðal annars um sjókvíaeldi.

Að guðsþjónustu lokinni var gengið út í Hnífsdalskirkjugarð, lagður blómsveigur að styttu sjómannsins og minnst látinna sjómanna.

Magnús Erlingsson, 6/6 2017

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Fimmtudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.
Kirkjukórsæfing kl. 20:00.

Dagskrá ...