Ísafjarðarkirkja

 

Sumarfrí

Sóknarpresturinn, sr. Magnús Erlingsson er í sumarfríi fram til 10. ágúst.  Þurfir þú á prestsþjónustu á halda þá skaltu snúa þér til sr. Fjölnis Ásbjörnssonar sóknarprests í Holti.  Síminn hjá sr. Fjölni er 866-2581.

Magnús Erlingsson, 26/7 2016

Guðsþjónusta í Unaðsdal

Sunnudaginn 24. júlí klukkan tvö verður guðsþjónusta í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd við Djúp.  Prestur er sr. Magnús Erlingsson.  Allir velkomnir.

Magnús Erlingsson, 17/7 2016

Hátíðarmessa klukkan ellefu

Sunnudaginn 17. júlí kl. 11:00 var messað í Ísafjarðarkirkju.  Nýr organisti kirkjunnar, Tuuli Rähni lék á orgelið og stjórnaði kórsöngnum..  (Tuuli er frá Eistlandi en hefur verið búsett hér á Íslandi undanfarin ár ásamt eiginmanni sínum og börnum.  Hún hefur reynslu af því að starfa sem organisti bæði á Þingeyri og eins í Einarsstaðakirkju í Reykjdal.  Hún hefur tvö undanfarin ár verið við framhaldsnám í orgelleik hjá Birni Steinari Sólbergssyni.)

Geirþrúður Charlesdóttir steig í stólinn og predikaði í þessari sunnudagsmessu.  Einnig aðstoðaði hún sóknarprestinn í altarisgöngunni.  (Geirþrúður var meðhjálpari Ísafjarðarkirkju til fjölda ára auk þess að gegna formennsku í Kvenfélagi Ísafjarðarkirkju.  Geirþrúður hefur verið virk í ýmsum fálagsmálastörfum á Ísafirði.)

Þessi messa var haldin í tilefni af 150 ára afmæli Ísafjarðarkaupstaðar!  Fjölmenni var við athöfnina.  Biskups Íslands Agnes M. Sigurðardóttir, bæjarstjórinn á Ísafirði Gísli Halldórsson og fyrrum sóknarprestur á Ísafirði Jakob Ágúst Hjálmarsson voru öll viðstödd messuna auk forseta Alþingis Einars K. Guðfinnssonar.  Margir gamlir Ísfirðingar mættu einnig í kirkjuna.

Magnús Erlingsson, 14/7 2016

Jarðarför klukkan hálf ellefu

Laugardaginn 16. júlí kl. 10:30 var Helga Hansdóttir jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju.  Jarðsett var í Réttarholtskirkjugarði.

Magnús Erlingsson, 13/7 2016

Kirkjugarðsvinir taka til hendinni

Stofnuð hafa verið hollvinasamtök kirkjugarðanna á Ísafirði, sem hafa það að markmiði sínu að bæta og fegra kirkjugarðana.  Búinn hefur verið til hópur á Fasbókinni, sem heitir Kirkjugarðsvinir á Ísafirði.  Er þau, sem áhuga hafa, hvött til skrá sig í hópinn.

Næsta fimmtudag, 7. júlí kl. 16:00 ætlar hópurinn að hittast og taka til hendinni í gamla kirkjugarðinum á Ísafirði.  Eitthvað er til af hrífum, sköfum og fíflabönum í garðinum en gott væri líka að einhverjir tækju með sér verkfæri.  Ætlunin er að hreinsa allar helstu göturnar í gamla garðinum svo að hann líti betur út.  Ef nógu margir mæta þá verður einnig unnið í kirkjugarðinum á Réttarholti.

Magnús Erlingsson, 5/7 2016

Sunnudagsguðsþjónusta

Sunnudaginn 26. júní kl. 11:00 var guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Þetta var kveðjumessa Huldu Bragadóttur organista, sem þjónað hefur kirkjunni í meira en tuttugu ár af stakri trúmennsku.  Voru henni færðar þakkir fyrir þjónustu sína.  Eftir athöfnina hélt samstarfsfólk Huldu litla grillveislu henni til heiðurs.

Þessi guðsþjónustu var einnig óvenjuleg fyrir þær sakir að hún var að hluta til á ensku.  Biskup John frá Englandi las úr Galatabréfinu og var með stutta hugvekju og síðan sungu allir viðstaddir sálminn Amazing Grace.  Biskup John kom hingað með einu ferðaskipanna og hafði hann sett sig í samband við sr. Magnús með ósk um að fá að taka þátt í guðsþjónustunni.  Auk heimafólks voru við athöfnina all nokkur fjöldi ferðamanna en þennan dag voru þrjú ferðaskip í heimsókn í Ísafjarðarhöfn.

Magnús Erlingsson, 24/6 2016

Gjaldskrá fyrir prestsþjónustu

Gjaldskrá fyrir prestsþjónustu er ákvörðuð af Innanríkisráðuneytinu.  Samkvæmt Stjórnartíðindum þá átti gjaldskráin að hækka um síðustu áramót.  En sóknarpresturinn á Ísafirði er hæglætismaður þegar kemur að gjaldskrárhækkunum.  Nýja gjaldskráin lítur svona út:

  • Skírn:  6.250 kr.
  • Ferming:  17.860 kr.
  • Hjónavígsla:  11.600 kr.
  • Embættisvottorð:  1.780 kr.

Gjaldskrá þessi tekur gildi í Ísafjarðarprestakalli frá og með 20. júní 2016.

Magnús Erlingsson, 20/6 2016

Fermingarmessa á laugardegi

Laugardaginn 18. júní kl. 11:00 var síðasta fermingarmessa vorsins í Ísafjarðarkirkju.  Fjögur börn fermdust.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Hulda Bragadóttir.  Í lok athafnar sungu allir Ó, blessuð vertu sumarsól, enda átti það vel við því sól skein í heiði þegar fermingarbörnin gengu úr kirkju.

Magnús Erlingsson, 16/6 2016

Hjónavígsla

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar heita hvor öðrum ævitryggðum og að deila lífinu saman í gleði og sorg.  Brúðhjónin heita því að elska og virða hvort annað. Presturinn flytur hugleiðingu og að loknum hinum hefðbundnu spurningum þá lýsir hann þau hjón.  Viðstaddir biðja fyrir brúðhjónunum og heimili þeirra.

Hjúskaparsáttmálinn er löggerningur, sem þýðir til dæmis það að hjónin eiga allt saman og erfa hvort annað.  Í stað hinnar hefðbundnu helmingaskiptareglu þá er stundum gerður kaupmáli.  Vígsluathöfnin felst í því að tveir einstaklingar lýsa því yfir í áheyrn votta að þau vilji vera hjón og síðan handsala þau þennan sáttmála.  Samkvæmt íslenskum lögum hjafa prestar og forstöðumenn safnaða heimild til að annast hjónavígslur en einnig er hægt að gifta sig hjá sýslumönnum á Íslandi.  Munurinn á kirkjulegri hjónavígslu og borgaralegri er sá að í kirkjulegu vígslunni er Guð beðinn um að blessa hjúskapinn.  Önnur algeng heiti á hjónavígslu eru brúðkaup og gifting.

Magnús Erlingsson, 15/6 2016

Fermingarmessa á sunnudegi

Sunnudaginn 12. júní kl. 11:00 var fermingarmessa í Ísafjarðarkirkju.  Þá fermdust þrjú börn.  Það var blíðviðri og allir í hátíðarskapi.

Magnús Erlingsson, 9/6 2016

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Laugardagur

Í Ísafjarðarkirkju er yfirleitt messað á sunnudögum kl. 11:00.

Dagskrá ...