Ísafjarðarkirkja

 

Guðsþjónusta og aðalsafnaðarfundur

Sunnudaginn 21. maí kl. 11:00 er guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju syngur.  Organisti er Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Þema messunnar er bænin.

Að guðsþjónustu lokinni verður boðið upp á súpu í safnaðarheimilinu.  Síðan verður haldinn aðalsafnaðarfundur.  Kjósa þarf til kjörnefndar og einnig hluta sóknarnefndar.  Lagðir verða fram reikningar sóknar og kirkjugarða og rætt um málefni kirkjunnar.

Magnús Erlingsson, 17/5 2017

Sumarstörf hjá Kirkjugörðum Ísafjarðar

Kirkjugarðar Ísafjarðar auglýsa eftir sumarstarfsfólki í kirkjugörðunum.  Starfið felst í grasslætti og annarri garðvinnu og hirðingu.  Starfsmenn þurfa að geta hafið störf þann 15. maí.  Um er að ræða starf í þrjá mánuði.

Einnig er auglýst eftir kirkjuverði til leysa af í 4-6 vikur.

Umsóknir skulu hafa borist sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju, pósthólf nr. 18, 400 Ísafirði, fyrir 3. maí n.k.  Eins er hægt að senda okkur tölvupóst á netfangið isafjardarkirkja@simnet.is.  Nánari upplýsingar veita kirkjuvörður og sóknarprestur í síma 456-3560.

Magnús Erlingsson, 24/4 2017

Gleðilegt sumar

Starfsfólk Ísafjarðarkirkju óskar ykkur gleðilegs sumars um leið og við þökkum fyrir veturinn.

Magnús Erlingsson, 21/4 2017

Guðsþjónusta á sumardaginn fyrsta

Á sumardaginn fyrsta klukkan ellefu, þann 20. apríl kl. 11:00 fögnuðum við komu sumarsins með því að hafa fjölskylduvæna guðsþjónustu í Ísafjarðarkirkju.  Flokkur blásara úr Tónlistarskóla Ísafjarðar mætti og blæs okkur voranda í brjóst með þekktum lögum.  Kirkjugestir sungu saman sálma og sumarlög.

Magnús Erlingsson, 16/4 2017

Páskamessa á Ísafirði

Á páskadagsmorgun klukkan ellefu, þann 16. apríl kl. 11:00 var hátíðarmessa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Í predikun sinni fjallaði sóknarpresturinn um hvað það er að vera lifandi dauður og hvað það er að upprisinn og lifandi.  Að messu lokinni bauð Kvenfélag Ísafjarðarkirkju upp á rúnnstykki og kaffi í safnaðarheimilinu.  Fjölmenni kom til kirkju til að fagna páskunum og upprisu Krists!

Magnús Erlingsson, 12/4 2017

Helgistund á föstudaginn langa

Á föstudaginn langa klukkan hálf fjögur, þann 14. apríl kl. 15:30 var haldin krossljósastund í kapellunni á sjúkrahúsinu.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Minnst var krossdauða Jesú og atburðir dagsins íhugaðir.

Magnús Erlingsson, 11/4 2017

Messa á skírdag

Á skírdag, 13. apríl kl. 14:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng Hátíðasöngva Bjarna Þorsteinssonar.  Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Sex ungmenni, þrjár stúlkur og þrír piltar fermdust í athöfninni.

Magnús Erlingsson, 10/4 2017

Messa á pálmasunnudag

Á pálmasunnudag klukkan tvö var messað í Ísafjarðarkirkju. Kórinn söng og Tuuli lék á orgelið. Fjórar stúlkur fermdust. Þetta voru þær Helena Haraldsdóttir, Katla María Magdalena Sæmundsdóttir, Linda Rós Hannesdóttir og Signý Stefánsdóttir.

Magnús Erlingsson, 7/4 2017

Vorferðalag kirkjuskólans

Vorferðalag kirkjuskólans var á pálmasunnudag 9. apríl. Þá var mætt klukkan hálf ellefu við Ísafjarðarkirkju og farið með rútu til Flateyrar. Þar var haldin kirkjuskólahátíð og síðan var pylsupartý. Þetta var lokahátíð kirkjuskólans.

Magnús Erlingsson, 7/4 2017

Tvöfalda kærleiksboðorðið

Hvaða boðorð er æðst eða mikilvægast?  Jesús svaraði þessu svo (Matt 22.37-39):

Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.  Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.  Annað er þessu líkt:  Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Magnús Erlingsson, 4/4 2017

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Fimmtudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.
Kirkjukórsæfing kl. 20:00.

Dagskrá ...