Ísafjarðarkirkja

 

Aðventuhátíð barnanna í Hnífsdalskapellu

Sunnudaginn 4. desember kl. 14:00 var aðventuhátíð í Hnífsdalskapellu.  Kirkjuskólabörnin fluttu helgileik jólanna.  Ung stúlka úr dalnum lék jólalag á píanó.  Sóknarpresturinn sagði jólasögu.  Viðstaddir sungu jólalög og organistinn lék á orgel kapellunnar.  Boðið var upp á hressingu á eftir í hliðarsalnum.  Boðið var upp á heitt kakó og piparkökur.

Magnús Erlingsson, 24/11 2016

Aðventa

Aðventan 2016 hófst sunnudaginn 27. nóvember. Þá var fyrsti sunnudagur í aðventu af alls fjórum.  Margir setja upp ljósakrossa á leiði ættingja sinni í kirkjugörðum Ísafjarðarsóknar.  Séu einhver vandkvæði er fólki bent á að hafa samband við kirkjuvörðinn, Elvar Ingason í síma 783-2623.  Gjaldið fyrir að stinga ljósakrossi í samband er 3.000 krónur.

Orðið aðventa er úr latínu og merkir tilkoma.  Adventus Domini sögðu þeir á miðöldum, sem merkir Drottinn er að koma, en þetta heiti vísar til þess að kristnir menn vænta þess að Kristur komi aftur.  Aðventan er þannig séð endurkomutími.  Í nútímanum er aðventan í hugum flestra undirbúningstími fyrir komu jólanna.  Þá skreyta margir hús sín með marglitum ljósum og er af því mikil prýði.

Annað orð yfir aðventuna er jólafasta. Það vísar til þess að á katólskri tíð var siður að fasta vikurnar fyrir jól.  Þá neitaði fólk sér um kjöt og annan munað.  Þetta ýtti undir fiskneyslu á þessum tíma.  Nú er lítið eftir af þessum sið nema þá helst neysla skötu á Þorláksmessu.

Magnús Erlingsson, 21/11 2016

Guðsþjónusta

Sunnudaginn 20. nóvember kl. 11:00 var guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Í predikun sinni fjallaði sóknarpresturinn um heimsenda og hinsta dóm.

Magnús Erlingsson, 16/11 2016

Foreldrar fermingarbarna ákváðu fermingardaga vorsins

Haldinn var fundur með foreldrum fermingarbarna í Ísafjarðarkirkju mánudagskvöldið 14. nóvember til að ákveða fermingdaga vorsins.  Ýmsum hugmyndum var varpað fram.  Dagarnir, sem voru samþykktir og fólk var tilbúið að skrá sig á, voru þessir:

  • Pálmasunnudagur 9. apríl kl. 14:00 í Ísafjarðarkirkju
  • Skírdagur 13. apríl kl. 14:00 í Ísafjarðarkirkju
  • Hvítasunnudagur 4. júní kl. 11:00 í Hnífsdalskapellu
  • Hvítasunnudagur 4. júní kl. 14:00 í Ísafjarðarkirkju

Magnús Erlingsson, 12/11 2016

Messa á kristniboðsdegi

Sunnudaginn 13. nóvember kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Þá sungum við Taize-sálma, sem eru íhugunartónlist frá klaustrinu Taize í Frakklandi.  Kór Ísafjarðarkirkju söng og voru sumir sálmanna sungnir án undirleiks.  Kom það fallega út.  Kórstjóri var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 8/11 2016

Fermingarbörn söfnuðu fyrir hreinu vatni

Mánudagskvöldið 31. október gengu fermingarbörn í hús á Ísafirði og í Hnífsdal með bauka og söfnuðu peningum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.  Alls söfnuðust 147.270 krónur, sem er mjög góður árangur.  Söfnunarféð verður notað til að grafa brunna með handdælum í Austur-Afríku og tryggja fólkinu þannig hreint vatn, sem er undirstaða heilbrigðis.  Ennfremur verður féð notað til að styrkja afrísk börn, sem misst hafa foreldra sína.

Við þökkum sóknarfólki fyrir að taka vel á móti fermingarbörnunum og styðja þau í að hjálpa jafnöldrum sínum í þriðja heiminum.

Magnús Erlingsson, 29/10 2016

Messa síðasta sunnudaginn í október

Sunnudaginn 30. október kl. 11:00 var messað í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Guðspjall dagsins var Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.

Frekar fámennt var í messunni enda líklegt að einhverjir hafi vakað aðfararnótt sunnudagsins til að fylgjast með úrslitum þingkosninganna.

Magnús Erlingsson, 26/10 2016

Jól í skókassa

Hvað er „Jól í skókassa“?  „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir.  Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að tilteknir hlutir séu í hverjum kassa.  Sjá nánar á:  http://www.kfum.is/skokassar/  Það var fyrir jólin 2004 að hópur ungs fólks innan KFUM og KFUK ákvað að láta reyna á verkefnið hér á landi.  Þá voru undirtektirnar frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar.  Síðan hefur verkefnið vaxið ár frá ári og er þetta í þrettánda sinn, sem við hér á Ísalandi gerum þetta.  Á þessum árum hafa yfir 50.000 jólakassar verið sendir til Úkraníu en þar er þeim dreift til munaðarlausra barna og fátækra barna, sem annars fengju ekki jólagjafir.

Hvað má fara skókassann?  Hver kassi er annað hvort ætlaður stelpu eða strák.  Það eru fjórir aldursflokkar; 3-6 ára, 7-10 ára, 11-14 ára og 15-18 ára.  Góðar gjafir í kassana eru til dæmis leikföng, skóladót, föt, sælgæti, sápustykki, tannbursta og tannkrem.  Ekki má setja vökva í kassana eins og t.d. Sjampó né heldur brothætta muni eða stríðsdót eða spilastokka því þeir tengjast fjárhættuspilum þarna.

Hvar og hvenær á að skila skókassanum?  Það er æskulýðsfélag Ísafjarðarkirkju, sem tekur á móti skókössunum á Ísafirði og er hægt að koma með svona kassa til þeirra þriðjudagskvöldið 1. nóvember.  Tekið er á móti kössum í safnaðarheimilinu á daginn.  Siðasti sjéns til að skila er föstudagurinn 8. nóvember.

Magnús Erlingsson, 26/10 2016

Latín-amerísk messa

Sunnudaginn 23. október kl. 11:00 var messa með latín-amerískum sálmum í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng sálma frá Suður-Ameríku með íslenskum texta.  Sóknarpresturinn ræddi um tengsl trúar og þjóðfélagsmála í predikun sinni.

Magnús Erlingsson, 19/10 2016

Ferðalag fermingarbarna í Önundarfjörð

Laugardaginn 15. október fóru fermingarbörn úr Ísafjarðarprestakalli í ferðalag.  Gist var eina nótt í Friðarsetrinu Holti og komið heim laust eftir hádegi daginn eftir.  Fararstjórar voru prestarnir Fjölnir Ásbjörnsson og Magnús Erlingsson.

Lagt var af stað frá Ísafjarðarkirkju með rútu á laugardeginum og ekið til Bolungarvíkur.  Þar var farið í sund.  Síðan var ekið í Holt og allir komu sér fyrir.  Boðið var upp á pylsur í kvöldmatinn.  Kvöldvaka var um níuleytið en um miðnættið var ratleikur utandyra.  Kom sér þá vel að mörg barnanna voru með ljós á símanum sínum.  Boðið var upp á súkkulaðidrykk og kex að ratleik loknum.  Nokkuð var liðið á nóttina þegar mannskapurinn sofnaði.

Þrátt fyrir ekki svo langan svefn voru allir vaknaðir klukkan hálf tíu.  Eftir morgunmat þá fórum við í messu í Holtskirkju.  Fólkið í sveitinn var einnig mætt.  Þetta var góð guðsþjónusta þar sem mikið var sungið.  Um hádegið kom svo rúta og ók okkur heim til Ísafjarðar.

Með kærri kveðju og þökk fyrir samveruna, Fjölnir Ásbjörnson og, Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 11/10 2016

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Sunnudagur

Í Ísafjarðarkirkju er alla jafnan messað á sunnudögum kl. 11:00.

Dagskrá ...