Ísafjarðarkirkja

 

Latín-amerísk messa

Sunnudaginn 23. október kl. 11:00 verður messa með latín-amerískum sálmum í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju syngur sálma frá Suður-Ameríku með íslenskum texta.  Allir velkomnir.  Sóknarprestur.

Magnús Erlingsson, 19/10 2016

Ferðalag fermingarbarna í Önundarfjörð

Laugardaginn 15. október fóru fermingarbörn úr Ísafjarðarprestakalli í ferðalag.  Gist var eina nótt í Friðarsetrinu Holti og komið heim laust eftir hádegi daginn eftir.  Fararstjórar voru prestarnir Fjölnir Ásbjörnsson og Magnús Erlingsson.

Lagt var af stað frá Ísafjarðarkirkju með rútu á laugardeginum og ekið til Bolungarvíkur.  Þar var farið í sund.  Síðan var ekið í Holt og allir komu sér fyrir.  Boðið var upp á pylsur í kvöldmatinn.  Kvöldvaka var um níuleytið en um miðnættið var ratleikur utandyra.  Kom sér þá vel að mörg barnanna voru með ljós á símanum sínum.  Boðið var upp á súkkulaðidrykk og kex að ratleik loknum.  Nokkuð var liðið á nóttina þegar mannskapurinn sofnaði.

Þrátt fyrir ekki svo langan svefn voru allir vaknaðir klukkan hálf tíu.  Eftir morgunmat þá fórum við í messu í Holtskirkju.  Fólkið í sveitinn var einnig mætt.  Þetta var góð guðsþjónusta þar sem mikið var sungið.  Um hádegið kom svo rúta og ók okkur heim til Ísafjarðar.

Með kærri kveðju og þökk fyrir samveruna, Fjölnir Ásbjörnson og, Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 11/10 2016

Messa sunnudag

Sunnudaginn 9. október kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 8/10 2016

Jarðarför

Laugardaginn 8. október kl. 14:00 var Sigmundur Lelli Gunnarsson jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju. Jarðsett var í Réttarholtskirkjugarði.  Að athöfn lokinni var boðið til erfidrykkju í félagsheimilinu í Hnífsdal.

Magnús Erlingsson, 6/10 2016

Orgeltónleikar á föstudagskvöld

Föstudagskvöldið 7. október kl. 20:00 voru haldnir orgeltónleikar í Ísafjarðarkirkju. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir lék þá verk eftir Pál Halldórsson.

Sigrún Magna er organisti við Akureyrarkirkju.  Hún er fædd og uppalin í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún útskrifaðist með kantorspróf árið 2000 og einleikarapróf árið 2003.

Páll Halldórsson, organleikari fæddist í Hnífsdal þann 14. janúar þann 1902. Faðir hans var Halldór Pálsson útvegsbóndi og móðir hans var Guðríður Mósesdóttir. Páll var elstur sjö systkina.
Páll nam orgelleik hjá Páli Ísólfssyni og kontrapunkt hjá dr. Victori Urbancic. Þá stundaði hann framhaldsnám í Basel og Kaupmannahöfn.
Páll var fyrsti organleikari í Hallgrímssókn í Reykjavík og starfaði þar frá árinu 1941-1977. Hann samdi mikið af lögum, eins og til að mynda: Hin mæta morgunstund, partita fyrir orgel 1981. Ó, guð, þér hrós og heiður ber, partita fyrir orgel, útg. 1981. og Tólf kóralforspil, útg. 1982. Einnig tók hann saman Nýtt söngvasafn, sem hann bjó til prentunar ásamt Friðriki Bjarnasyni. Páll sat í stjórn Í stjórn Félags íslenskra organleikara og í norræna kirkjutónlistarráðinu um árabil.

Magnús Erlingsson, 4/10 2016

Fuglar himinsins

Altarisverkið í Ísafjarðarkirkju hefur vakið athygli.  Fyrir nokkrum árum var gerð heimildarmynd um þetta listaverk.  Hér er hægt að horfa á þessa stuttmynd á Youtube-vefnum:  https://www.youtube.com/watch?v=MolRkCMVsq4

Fræðslumyndin um Fugla himinsins var frumsýnd á Prestastefnu Íslands þegar hún var haldin á Ísafirði í júní 2014.

Magnús Erlingsson, 4/10 2016

Messa í byrjun október

Fyrsta sunnudag í október, þann 2. tíunda kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Predikunin fjallaði um stöðu kirkju og trúar í nútímanum.

Magnús Erlingsson, 30/9 2016

Engin fermingarfræðsla en heimalærdómur í staðinn

Vikuna 26. til 30. september var enginn tími í fermingarfræðslu vegna þess að sr. Magnús þurfti að sækja prófastafund.  Í staðinn áttu fermingarbörnin að lesa heima í Nýja testamentinu sínu.  Þau áttu að lesa heima um boðun Maríu í fyrsta kafla Lúkasarguðspjalls, versin 26-38, síðan áttu þau að lesa um fæðingu Jesú í öðrum kafla Lúkasar, versin 1-21.  Og loks áttu þau að lesa um vitrangana í Matteusarguðspjalli, versin versin 1-18 í öðrum kaflanum.  Fyrir þau, sem höfðu ekki Nýja testamentið við hendina, þá birti presturinn þessa texta hér fyrir neðan:

Boðun Maríu:  En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“
En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“   Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“   Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“    Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.

Fæðing Jesú: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.   En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“  Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.   Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.   Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.

Koma vitringanna:   Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“   Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“   Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:   Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.  Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“     Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“   Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.    En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.     Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“   Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“    Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.      Þegar Heródes var dáinn þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir sem sátu um líf barnsins.“ Jósef tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.     En þá er hann heyrði að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar, föður síns, óttaðist hann að fara þangað og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. Þar settist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast.“

Magnús Erlingsson, 25/9 2016

Guðsþjónusta á Hlíf

Sunnudaginn 25. september kl. 14:00 var guðsþjónusta á Hlíf.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Eftir messuna var boðið upp á kaffisopa og kökur, sem kórfélagar höfðu bakað.

Magnús Erlingsson, 21/9 2016

Kirkjuskólinn í Hnífsdal er farinn af stað

Kirkjuskólinn í Hnífsdalskapellu hófst mánudaginn 19. september.  Samverurnar eru klukkan fimm og byggjast þær upp á söng, fræðslu og helgihaldi.  Umsjón með starfinu hafa þeu Ása María Guðmundsdóttir og sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 18/9 2016

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Sunnudagur

Í Ísafjarðarkirkju er alla jafnan messað á sunnudögum kl. 11:00.

Dagskrá ...