Ísafjarðarkirkja

 

Messa á næst síðasta sunnudegi kirkjuársins

Sunnudaginn 19. nóvember kl. 11:00 verður messa í Ísafjarðarkirkju. Kór Ísafjarðarkirkju syngur. Organisti er Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 18/11 2017

Vatn er undirstaða alls lífs

Vissir þú að 800 milljónir jarðarbúa búa við þau skertu lífsgæði að þurfa að neyta mengaðs vatns en afleiðingarnar sjást í þeirri óhugnanlega háu tölu að 3,5 milljónir dauðsfalla má rekja árlega til vatnsborinna sjúkdóma.  Þetta er ástæðan fyrir því að Hjálparstarf kirkjunnar hefur á hverju ári safnað fyrir hreinu vatni.  Og afraksturinn er mikill því að fyrir hverja krónu sem fjárfest er í vatni koma rúmlega fjórar á móti í minnkandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Magnús Erlingsson, 14/11 2017

Kvöldmessa með myrru

Sunnudagskvöldið 12. nóvember kl. 20:00 var kvöldmessa í Ísafjarðarkirkju.  Þetta var óhefðbundin messa með altarisgöngur og var hún vel sótt.  Tónlistin var í höndum þeirra Þorsteins Hauks Þorsteinssonar og Georgs Bjarnasonar, sem léku á gítar og bassa.  Prestur var sr. Magnús Erlingsson.  Athöfninni lauk með persónulegri blessun þar sem presturinn smurði viðstadda með myrruolíu en það var gert með því að teikna kross í lófa hvers og eins.  Myrra var ein af gjöfunum, sem vitringarnir færðu Jesúbarninu.

Magnús Erlingsson, 10/11 2017

Fermingarbörn söfnuðu fyrir hreinu vatni

Á Ísafirði gengu fermingarbörn hús úr húsi mánudagskvöldið 13. nóvember og söfnuðu aurum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Alls söfnuðust 63.878 krónur.  Er þessi baukasöfnun árleg en söfnunarféð fer til þess að tryggja fólki í Austur-Afríku hreint vatn.  Það er gert með því að setja upp lokaða brunna með handdælum.

Börn í fermingarfræðslu um allt land hafa undanfarna daga gengið í hús í hverfinu sínu með bauk Hjálparstarfsins í hendinni. Þau hafa safnað fyrir vatni. Um vatnsverkefnið má fræðast hér: http://www.help.is/doc/229 Kirkjan þakkar fyrir góðar undirtektir!

Magnús Erlingsson, 10/11 2017

Jól í skókassa

Jól í skókassa er yndislegt verkefni.  Þá eru ýmsir smáhlutir settir í skókassa, sem síðan er pakkað inn í jólapappír.  Kössunum er síðan komið til Úkraníu þar sem Rétttrúnaðarkirkjan sér um að dreifa þeim til munaðarlausra barna.  Það er KFUM á Íslandi, sem heldur utan um þessa starfsemi.

Í Ísafjarðarkirkju var tekið á móti skókössum frá föstudeginum 3. til þriðjudagsins 7. nóvember.  Margir skókassar bárust.  Meðal annars komu krakkarnir í 7. bekk Grunnskólans með fjöldann allan af kössum til að gleðja börn í Úkraníu.  Þetta er hinn sanni andi jólanna.

Magnús Erlingsson, 10/11 2017

Messa sunnudaginn 5. nóvember klukkan ellefu

Sunnudaginn 5. nóvember kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju. Kór Ísafjarðarkirkju söng. Organisti var Tuuli Rähni en prestur sr. Magnús Erlingsson. Á þessum sunnudegi héldum við hátíðlega allra heilagra messu og veltum fyrir okkur hverju siðbótin hefði breytt í mannkynssögunni.

Magnús Erlingsson, 4/11 2017

Kjóstu Þjóðkirkjuna

Í síðustu viku kepptust stjórnmálaflokkarnir við að útlista af hverju við ættum að kjósa þá.  Nú vil benda fólki á af hverju það ætti að kjósa það að vera í Þjóðkirkjunni.  Hvað fær fólk í Ísafjarðarsókn fyrir sóknargjöldin sín?

1.  Þú færð einstaka byggingu fyrir helgihald, tónleika og skólaslit.  Sóknargjöldin hafa farið í að byggja Ísafjarðarkirkju, halda henni við og reka hana.  Kirkjan er vel heppnuð bygging og er góð umgjörð utan um hjónavígslur, fermingar, útfarir og aðra kirkjulega starfsemi.  Kirkjan er bygging, sem við erum stolt af.

2.  Þú ert að borga fyrir fjölþætt safnaðarstarf.  Í kirkjunni og safnaðarheimilinu fer fram fjölbreytt starfsemi eins og kirkjuskólasamverur, foreldrasamverur, fundir og helgihald.

3. Þú færð lýðræðislegt grasrótarstarf.  Sú hugmynd að fólkið stýri málum í söfnuði á sér djúpar rætur í þjóðkirkjunni.  Í raun nær hún allt aftur til siðaskiptanna.  Sóknarfólk getur haft virk áhrif á safnaðarstörfin í gegnum þátttöku í sóknarnefnd og prestar og starfsfólk eru með opin eyru og augu fyrir tillögum og hugmyndum.  Ýmsar lýðræðisumbætur hafa orðið út frá þessari hugsjón og mörg mannúðarsamtök eiga rætur að rekja til safnaðarstarfs.  Má þar nefna kvenfélögin, KFUM, Amnesty International ofl.

Verum stolt af því að það sé kirkja í okkar heimabyggð.  Stöndum vörð um það, sem vel er gert!

Magnús Erlingsson, 30/10 2017

Óhefðbundin messa sunnudagskvöldið 29. október!

Í tilefni af Veturnóttum vorum við óhefðbundna mess í Ísafjarðarkirkju sunnudagskvjöldið 29. október kl. 20:00. Hún hófst á því Karólína Mist Stefánsdóttir söng Ég leitaði blárra blóma við lag Harðar Torfasonar.  Síðan söng Kór Ísafjarðarkirkju nokkra létta sálma við undirleik rafmagnsgítars, bassa, fiðlu og píanós.  Bænagjörðin fólst í íhugun og fóru þá margir að altarinu og kveiktu á kerum, sem þeir settu á kirkjugólfið.  Altarisgangan var við hliðaraltarið.  Í lok messunnar sungu allir viðstaddir Líttu sérhvert sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlason.

Magnús Erlingsson, 20/10 2017

Messa og kynning á nýútkominni bók

Sunnudaginn 15. október kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju. Kór Ísafjarðarkirkju söng. Prestur var sr. Magnús Erlingsson.
Að messu lokinni kynnti sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson nýútkomna bók sína um Þormóðsslysið. Boðið var upp á kaffisopa í safnaðarheimilinu.

Magnús Erlingsson, 11/10 2017

Heimalærdómur í fermingarfræðslu

Næsti tími í fermingarfræðslu verður mánudaginn 9. nóvember.  Fyrir þann tím á að lesa heima 2. kaflann í Matteusarguðspjalli og 2. kaflann í Lúkasarguðspjalli.  Textinn er hér fyrir neðan:

Lagður í jötu

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
4Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

Frelsari fæddur

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
13Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
14Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

15Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ 16Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. 17Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. 18Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. 19En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. 20Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Látinn heita Jesús

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. 22En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, 23en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ 24og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.

Símeon og Anna

Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum 26og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. 27Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins 28tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
29Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
30því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
31sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
32ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.

33Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. 34En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
35Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

36Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó 37og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. 38Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.  39Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. 40En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.

Jesús tólf ára

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. 42Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. 43Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. 44Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. 45En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
46Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. 47En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. 48Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
49Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ 50En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
51Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. 52Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Koma vitringa

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
3Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. 4Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
5Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
6Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“

7Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. 8Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
9Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. 10Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, 11þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
12En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Til Egyptalands

13Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
14Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. 15Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“
16Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.
17Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:
18Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.

Heim aftur

19Þegar Heródes var dáinn þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi 20og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir sem sátu um líf barnsins.“ 21Jósef tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.
22En þá er hann heyrði að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar, föður síns, óttaðist hann að fara þangað og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. 23Þar settist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast.“

Magnús Erlingsson, 26/9 2017

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

 

Ísafjarðarkirkja, Sólgötu 1, 400 Ísafirði. Sími 456 3171 , fax 456 3070 · Kerfi RSS