Ísafjarðarkirkja

 

Messa í Ísafjarðarkirkju

Sunnudaginn 14. október kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.  Þema þessarar messu var sköpunin.  Fjallað var um sköpunarsögu Biblíunnar í predikun og textum.  Sálmarnir tóku einnig mið af efninu.  Fermingarbörn aðstoðuðu við messuna.  Hér fyrir neðan er hægt að skoða textana og lesa predikunina.

Predikun á 20. sd.e.trin. 2018

Sköpunin

Lexía:  Gen 1.1-10

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.  Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. Guð nefndi ljósið dag en myrkrið nótt. Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur. Þá sagði Guð: „Verði festing milli vatnanna og hún greini vötn frá vötnum.“ Þá gerði Guð festinguna. Skildi hún milli vatnanna sem voru undir festingunni og vatnanna sem voru yfir festingunni. Og það varð svo. Og Guð nefndi festinguna himin.  Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn annar dagur. Þá sagði Guð: „Vötnin undir himninum safnist saman í einn stað og þurrlendið komi í ljós.“ Og það varð svo. Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott.  

Pistill:  Gen 1.26-28, 1.31-2.4

Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss.  Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“ Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.  Hann skapaði þau karl og konu. Guð blessaði þau.  Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott. Og það varð kvöld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur. Himinn og jörð voru nú fullgerð og öll þeirra prýði. Á sjöunda degi lauk Guð verki sínu og hvíldist hinn sjöunda dag frá öllu því er hann hafði unnið. Og Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann því að þann dag hvíldist Guð frá öllu sköpunarverki sínu sem hann hafði unnið að. Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar.  

Guðspjall:  Jóh 1.1-5

Í upphafi var Orðið[ og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.  Hann var í upphafi hjá Guði.  Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er.  Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.  Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Predikun

I.   Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.   Líklega er engin saga í Biblíunni jafn oft misskilin og mistúlkuð og sköpunarsagan í fyrsta kafla Biblíunnar.  Hversu oft hef ég ekki heyrt fólk segja:  Það gerðist ekki svona!  Jörðin var ekki sköpuð á sjö dögum?  Og það er rétt, sköpun heiminsins tók milljónir ára, svo langan tíma að hugur minn nær ekki utan um þá eilífð.  En þau, sem ætla að nálgast Biblíuna með þessum hætti, gætu allt eins spurt af hverju það standi ekkert í Biblíunni um snjallsíma, tölvur, rafmagnsbíla, internetið, já, halló, það er heldur ekkert minnst á pizzur og Coca Cola.  Og símanúmer lögreglunnar á Ísafirði er ekki einu sinni að finna í Biblíunni!  Staðreyndin er sú að allt þetta, sem ég taldi upp að væri ekki að finna í Biblíunni eru hlutir, sem tilheyra 21. öldinni, nútímanum.  Og nýjustu kenningar í náttúruvísindum eru líka hluti af þekkingu 20. aldarinnar.  Biblían var ekki skrifuð á 20. öldinni.  Hún var skrifið fyrir 2000 árum og elstu hlutar hennar fyrir 3000 árum síðan.  Og hún var skrifuð af mönnum.  Ef engill hefði opinberast og sýnt höfundum Biblíunnar snjallsíma, sagt þeim frá rafmagni eða afstæðiskenningu Einsteins þá hefðu þeir ekki skilið neitt af því, sem engillinn flutti þeim.   Biblían var auðvitað ekki skrifuð sem vísindarit eða kennslubók í náttúruvísindum.  Sem trúarbók á hún meira skylt við bókmenntir og heimspeki.  Sköpunarsagan í Biblíunni er skrifuð til að svara spurningunni af hverju, af hverju er heimurinn eins og hann er?  Hver er tilgangurinn með þessum heimi, sem við lifum í?  Þau, sem ekki trúa á Guð, segja að það sé enginn tilgangur annar en sá sem við gefum okkur sjálf.  Heimurinn hafi orðið til fyrir tilviljun.  Veltum þessu aðeins fyrir okkur?  Ég held hér á Biblíunni.  Þetta er stór bók.  Hugsum okkur að öllum stöfunum í þessari bók væri safnað saman í einn haug ásamt öllum orðabilunum og svo væri tölvu fengið það hlutverk að raða þessum milljón stöfum eða hvað þeir eru nú margir, saman á tilviljanakenndan hátt.  Hversu miklir möguleikar væru á því að tölvan hitti á þessa einu réttu samsetningu, sem gefur okkur þessa bók?  Hverfandi litlar  líkar, minni en engar líkur!  En rithöfundur gæti skrifað svona bók.  En gæti rithöfundur búið til og skapað túnfífil, sem vex hér villtur í hlíðinni?  Gæti hann búið til og skapað gráa köttinn, sem stundum laumast hér inn í kirkjuna?  Nei, alls ekki, því jurtir og lífverur eru svo miklu flóknari smíð heldur en ein stór bók.  Stundum held ég að þau, sem trúa á tilviljanir séu miklu trúaðri og trúgjarnari heldur en við, sem treystum á Guð og trúum því að hann standi að baki alls þess, sem er.

II.   Framan af 20. öldinni gagnrýndu margir setninguna ”Verði ljós og það varð ljós.”  Fáránlegt að láta sér detta í hug að heimurinn eigi sér eitthvað upphaf, heimurinn hefur alltaf verið til!  Þegar ég fæddist árið 1959 hafði enginn heyrt kenninguna um Mikla hvell, kenningu um að heimurinn eigi sér upphaf í mikilli sprengingu, stórum blossa.  Það var nefnilega farið að halla í 1970 þegar sú kenning leit dagsins ljós.  Og þá allt í einu varð þessi setning ”Verði ljós og það varð ljós” ekki svo fráleit heldur rímaði hún við nýjustu kenningar vísindanna.   Hvað kom sköpun alheimsins af stað?  Var það tilviljun að efni alheimsins þéttist og sprakk?  Eru öll náttúrlögmálin tilviljun?  Tilviljun að við erum hér?  Eða er einhver hugsun að baki öllu þessu?  Er Guð til?  Biblían er skrifuð til að svara þessum spurningum.  Biblían er vitnisburður þeirra manna og kvenna, sem trúðu á Guð og voru sannfærð um að Guð stæði að baki veröldinni, undur heimsins væri hans smíð, hans vilji og markmið.   Og takið eftir því hvernig Biblían segir að heimurinn hafi orðið til.  Guð talaði, hann nefndi hlutina, fyrirbærin og þá urðu þau til.  Aðeins það, sem hefur heiti, er til.  Þegar ég var strákur þá var ekki til ofvirkni og athyglisbrestur, í staðinn var sagt að þessi að hinn krakkinn væri mikill fyrir sér eða óþekkur.  Þegar ég var strákur þá var enginn lesblindur því hugtakið lesblinda var ekki til.  Í staðinn var sagt að sumir væru tregir eða tossar.  Það er tungumálið, hugsunin sem skapar og býr til allt sem er.

III.   Textinn um sköpun manneskjunnar er fallegur.  ”Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss.”  Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.  Hann skapaði þau karl og konu.”  Bæði karlinn og konan eru sköpuð í Guðs mynd.  Með þeim er jafnræði.  Guð er greinilega jafnréttissinni.  Og fyrst karlinn og konan eru bæði sköpuð í Guðs mynd þá er mynd Guðs hvorki karl né kona.  Að segja að Guð hljóti annað hvort að vera karl eða kona er ekkert minna en það að smætta Guð, gera hann að einhverju, sem hann ekki er.   Í hverju er þá guðsmyndin fólgin fyrst hún er ekki fólgin í útlitinu eða kyninu?  Sumir hafa látið sér detta það í hug að guðsmynd manneskjunnar sé fólgin í því að geta trúað á Guð, geta hugsað út fyrir sjálfa sig.  Aðrir hafa bent á að guðsmynd manneskjunnar felist í hlutverki hennar í heiminum, sem er það að drottna yfir veröldinni, manneskjan á að vernda náttúruna, hlúa að lífinu, hún er ráðsmaður Guðs hér á jörðu.   Það eru tvær sköpunarsögur í Biblíunni.  Í öðrum kaflanum kemur önnur sköpunarsaga og hún er allt öðru vísi en sagan í fyrsta kaflanum.  En þar er sagt frá því að Guð hafi leitt dýrin fram fyrir manninn og maðurinn gefið þeim nafn.  Kannski er guðsmynd okkar sú að við getum sett nafn á alla hluti, við getum komið orðum að því sem er, greint og nefnt allt það, sem er.  ”Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði.”

IV.  Það er ekki tilviljun að höfundar sköpunarsögunnar í 1. kafla Biblíunnar láti hana gerast á sjö dögum.  Sjö daga vika, það að skipta tímanum upp í sjö daga einingar, var uppfinning manna í Austurlöndum.  Og höfundar sköpunarsögunnar láta sköpunina gerast á einni viku.  Hver dagur vikunnar er helgaður ákveðnum þætti í sköpunarverkinu.  Fyrsti dagur vikunnar er helgaður ljósinu.  Þess vegna heitir hann sunnudagur.  Með þessu vildu höfundarnir benda fólki á að það væri ákveðinn hrynjandi í heiminum, ákveðinn taktur í veröldinni, sjö daga taktur.  Heimurinn er skapaður á sjö dögum.  Við lifum í þessari sjö daga tímaeiningu.  Sköpunarsagan fjallar um vikuna sem tímaeiningu og hluta af Guðs góðu sköpun.   Manneskjan var sköpuð á sjötta degi.  Við erum greinilega ekki kóróna sköpunarverksins.  Því enn var eftir sjöundi dagurinn.  Og hvað gerði Guð þá?  Hann hvíldist.  Sjöundi dagurinn er helgaður hvíldinni.  Þá hvílumst við frá vinnu, slökum á, hugsum, gerum eitthvað skemmtilegt.  Í hvíldinni hafa orðið til mestu sköpunarverk mannsandans.  Þegar manneskjan tók sér hvíld frá brauðstritinu þá fór hún að semja tónlist, segja sögur, syngja, mála málverk, hugsa, pæla, stúdera og njóta lífsins.  Sjöundi dagurinn eru helgaður trúnni á Guð og öllu því, sem manneskjan hefur skapað og hugsað, öllu því, sem við köllum einu nafni menningu.   Þessi hugmynd, að vinna í sex daga og taka sér svo frí þann sjöunda, hafa þá hvíld frá daglegum verkum til að sinna mannsandanum, var boðskapur sköpunarsögunnar.  Og hvílík snilld og allt það, sem sjöundi dagurinn hefur fært okkur.  Manneskjan lifir ekki á brauðinu einu saman.  Hún þarf hvíld og andlega næringu.  Það er boðskapur sköpunarsögunnar.  Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.

Magnús Erlingsson, 11/10 2018 kl. 11.07

     

    Ísafjarðarkirkja, Sólgötu 1, 400 Ísafirði. Sími 456 3171 , fax 456 3070 · Kerfi RSS