Langamýri

 

Sumarið er tíminn…..

Vorið hefur heilsað með einmunablíðu í Skagafirði og gróður snemma á ferðinni. Hann er líka snemma á ferðinni fyrsti hópurinn frá Ellimálaráði sem kom hingað 1. júní og verður þessa viku. Það ber helst til tíðinda að Valgerður Gísladóttir sem leitt hefur þetta starf í áratugi lét af störfum í fyrrahaust en við framkvæmdastjórn Ellimálaráðs tók Þórey Dögg Jónsdóttir djákni sem stýrir hópnum ásamt Hólmfríði  Ólafsdóttir djákna og Hrafnhildi Eyþórsdóttur djáknanema. Dagskráin er hefðbundin þar sem fléttað er saman skemmtun og fróðleik. Alla morgna eru helgistundir, síðan gönguferðir, leikfimi eða farið í pottinn. Síðdegis er bingó, leikir eða lestur að ógleymdri dagsferðinni sem að þessu sinni verður farin heim að Hólum með viðkomu á Hofsósi og Sauðárkróki. Kvöldvökur eru öll kvöld og gjarnan boðið uppá lifandi tónlist. Í gær var hvorki meira né minna en heill karlakór í boði þegar félagar í Heimi fengu innhlaup til æfinga og sungu nokkur lög fyrir gesti í staðinn.

Gunnar Rögnvaldsson, 3/6 2014

“Sigurhátíð sæl og blíð”

Í fyrra var tekin upp sú nýbreytni að halda páskaguðsþjónustuna klukkan ellefu á páskadagsmorgun hér á Löngumýri og bjóða gestum til dögurðar að henni lokinni. Mæltist það svo vel fyrir að framhald var á. Um áttatíu kirkjugestir nutu stundarinnar í hvívetna en sr Gísli predikaði og Stefán Gíslason stjórnaði sameiginlegum kór prestakallsins.

Gunnar Rögnvaldsson, 25/4 2014

Fermingarfræðslan

Nú um og eftir páskana hefur fjöldi ungmenna staðfest skírnina  með fermingarathöfninni  eftir undirbúning hjá prestum víðsvegar um landið. Áttundi bekkur Varmahlíðarskóla er þar engin undantekning þrátt fyrir að einhverjir fermist ekki fyrr en á hvítasunnunni. Bekkurinn ásamt sr Döllu og sr Gísla dvaldi hér daglangt rétt fyrir páska og þá var síðustu spurningunum svarað, en í mínu ungdæmi hét fermingarundinbúningurinn að ganga til spurninga.

Það er ástæðulaust að kvíða framtíðinni meðan unga fólkið er jafn frjótt og hæfileikaríkt og þessi hópur sýnir og sannar.

Gunnar Rögnvaldsson, 25/4 2014

Að hafa sitthvað á prjónunum…..

Hannyrðir margvíslegar og tóvinna eru samofnar búsetu í landinu og voru um aldir verulega stór þáttur í vetrarvinnu til sveita . Þá var prjónles og vaðmál mikilvæg verslunarvara í vöruskiftum fyrir utan það að skýla og hlýja landsmönnum.

Og enn er prjónað. Undanfarnar helgar hafa prjónarnir tifað frá morgni til kvölds á námskeiðum Quiltbúðarinnar þar sem konur af öllu landinu koma saman og sinna hugarefnum sínum og listsköpun.  Áhuginn er feykilegur og ástundunin slík að aðeins er staðið upp á matar og kaffitímum sem eru í boði reglulega á þriggja tíma fresti.

Gunnar Rögnvaldsson, 31/3 2014

Úr “bláu skólaljóðunum”

Starf grunnskólanna er fjölbreytt og uppbyggilegt eins og vera ber og fléttar inn í margar áskoranir fyrir börnin. Ein af þeim er upplestrarkeppni grunnskólanna sem að jafnaði fer fram á útmánuðum. Nemendur Varmahlíðarskóla stóðu sig afburða vel og skipuðu þeir Ari Óskar Víkingsson og Friðrik Snær Björnsson efstu tvö sætin í Skagafirði. Þeir ásamt öðrum bekkjarsystkynum sínum, kennara og skólastjóra komu hér í vikunni til fundar við eldri borgara í samstarfi við Helgu og Indu. Fyrst tóku þau þátt í almennri söngstund en stigu síðan á stokk og lásu stutta bókarkafla eða ljóð og völdu mörg þeirra hin sígildu bláu skólaljóð sem uppsprettu kvæðanna. Einnig léku Þórkatla í Birkihlíð og Dalmar í Litla-Dal á píanó. Fátt er gagnlegra og skemmtilegra á vorum dögum en leiða saman kynslóðir þar sem margir áratugir bera í milli. Tækifæri þeirra til að miðla hvort öðru eru vissulega allnokkur en aðstæður engu að síður gjörbreyttar frá því sem var þegar allir bjuggu og störfuðu hlið við hlið frá morgni til kvölds og máltækið “hvað ungur nemur gamall temur” átti sannarlega við.

Bestu þakkir fyrir komuna sjöundi bekkur Varmahlíðarskóla og takk fyrir skemmtunina.

Gunnar Rögnvaldsson, 27/3 2014

Síðasti TTT hittingurinn

Barnastarfið hefur verið öflugt í vetur og tíu til tólf ára krakkarnir dugleg að mæta. Sr Dalla og Gísli hafa leitt samverurnar þar sem mikið er sungið, leikið og spallað. ( sjá fyrri frétt)

Þessi mynd var tekin á síðasta TTT deginum í vetur.

Gunnar Rögnvaldsson, 27/3 2014

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar á Löngumýri

Einn skemmtilegasti dagur í safnaðarstarfinu er æskulýðsdagurinn sem er fyrsti sunnudagur í mars eins og flestir vita. Þá er mikið um að vera hér á Mýrinni. Fermingarbörnin eru í aðalhlutverki og hafa venjulega bakað vöfflur og safnað um leið fé til að styrkja unga Indverska stúlku sem prestakallið hefur stutt við undangengin ár. Að þessu sinni var messan fyrir hádegi og því lögðu börnin í súpu og bjuggu til salat sem gestir gerðu góð skil. Nóg safnaðist til að standa straum af námskostnaði og uppihaldi Galam næstkomandi ár.

Kirkjukórinn söng undir stjórn Stefáns Gíslasonar og kirkjuskólabörnin tóku virkan þátt. Góður dagur og gleðilegur.

Gunnar Rögnvaldsson, 4/3 2014

TTT stuð

Einu sinni í mánuði eða svo kemur tíu til tólf ára hópurinn úr Varmahlíðarskóla hingað og skemmtir sér saman undir styrkri stjórn sr. Gísla og sr. Döllu. Farið er í leiki, mikið sungið, fjörugar keppnir í hinu og þessu en endað á veglegu kaffi hjá Ingu. Myndirnar segja sína sögu….

Gunnar Rögnvaldsson, 4/3 2014

Sautjánda starfsár Helgu og Indu með eldri borgurum

Þeim er ekki fisjað saman stöllunum Helgu Bjarnadóttur í Varmahlíð og Indu Indriðadóttur í Lauftúni þegar kemur að félagsstörfum eldri borgara. Í sautján ár hafa þær staðið fyrir samkomum á Löngumýri þar sem eldri borgarar víðsvegar úr Skagafirði koma saman hálfsmánaðarlega, syngja, hlýða á upplestur og síðast en ekki síst grípa í spil. En þar er ekki látið við sitja því í hvert skifti bjóða þær til stórveislu og gildir þá einu hvort tíu eða fimmtíu gestir koma. Ætíð eru þær viðbúnar hverju sem er. Fyrir jólin er svo hangikjötsveisla og þá koma gjarnan Hofsósingar í heimsókn. Allt er þetta að sjálfsögðu í sjálfboðavinnu, en smávegis innheimt fyrir veitingar. Í gegnum tíðina er fjöldinn mikill sem hingað hefur komið fyrir atbeina þeirra stallsystra. Fastur kjarni mætir hvernig sem viðrar en aðrir koma sjaldnar. Fólkið sameinast í bíla og fylgist að eftir hentugleikum og auðveldar þannig hvert öðru að mæta hér fram í sveit. Stöku sinnum koma gestir og skemmta fólkinu að ógleymdum nemendum úr Varmahlíðarskóla sem koma í reglubundnar heimsóknir, syngja og spila.

 

Gunnar Rögnvaldsson, 25/2 2014

Janúarfagnaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju

Til margra ára hefur sá siður viðhaldist að sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju bíður starfsfólki kirkjunnar, kirkjukórnum, heimsóknarvinum og sóknarnefnd til kvöldverðar og skemmtunar á Löngumýri með hækkandi sól. Þær breytingar urðu á síðasta ári að Brynjar Pálsson lét af formennsku sóknarnefndar eftir margra ára farsælt starf. Pétur Pétursson frá Álftagerði tók við taumunum og stóð fyrir dagskrá kvöldsins. Undir borðum voru skemmtiatriði þar sem kórinn söng nokkur lög og félagar hans stigu jafnframt á stokk og fluttu gamanmál. Þátttaka er ávallt góð og glatt á hjalla enda glaðvær hópur á ferð. Hafið þökk fyrir komuna.

Gunnar Rögnvaldsson, 24/1 2014

Á döfinni í október 20138. Samvera Eldri borgara í Skagafirði.
9. Mömmumorgunn
9. Fundur Lionsklúbbs Skagafjarðar
10. Kóræfing
13. Fjölskylduguðsþjónusta
14. Fermingarbörn úr Glerárkirkju
15. Fermingarbörn úr Glerárkirkju
16. Námskeið fyrir sóknarnefndarfólk
20. Sunnudagaskóli
21. Fermingarbörn úr Glerárkirkju
22. Samvera Eldri borgara í Skagafirði.
23. Fundur hjá Lionsklúbbi Skagafjarðar
24.-27. Íþróttafélagið Fjörður, Íþróttafélag fatlaðra Reykjavík, Bocciamót
27. Sunnudagaskóli
28.-30. Fermingarbörn úr Seltjarnarneskirkju
31. Félagsþjónusta Skagafjarðar


Aðrir vefir:

· Þjóðkirkjan
· Hólar
· Sveitarfélagið Skagafjörður
· Skálholtsskóli
· Skagafjörður.com
· Hofsós- og Hólaprestakall
· Sauðárkrókskirkja

 

Langamýri, 560 Varmahlíð. Sími 453 8116 , fax 453 8808 · Kerfi RSS