Leikmannastefna ræðir þjónustu kirkjunnar

leikmannastefna2011_previewUm 40 fulltrúar sóknarnefnda og prófastsdæma af landinu öllu sátu 25. Leikmannastefnu  þjóðkirkjunnar sem haldin var í Árbæjarkirkju þann 2. apríl sl. Á dagskrá leikmannastefnunnar var umræða þjónusta kirkjunnar og samstarfssvæði og samband ríkis og kirkju.  

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, setti ráðstefnuna og ræddi  meðal annars um sýnileika kirkjunnar í athöfnum hennar svo sem í skírn og fermingu og kirkjuna sem hreyfingu.  Hann sagði jafnfram að auka ætti þátttöku og ábyrgð leikmanna í starfi þjóðkirkjunnar. 

Marinó Þorsteinsson, formaður leikmannaráðs, flutti skýrslu ráðsins, en þar var rakið það helsta sem gerst hafði frá leikmannastefnu 2010.

Þjónusta kirkjunnar

Sr. Þorvaldur Karl  Helgason biskupsritari talaði um Þjónustu kirkjunnar – samstarfssvæði sem samþykkt var á kirkjuþingi  2010.  Inntakið hennar er að rætt er um fimm grunnþjónustuþætti, umgjörð, skipulag og starfsfólk kirkjunnar.  Eins og segir í ályktun leikmannastefnunnar 2011 tekur hún undir áherslur sem birtast í samþykkt kirkjuþings um þjónustu kirkjunnar og beinir því til sóknarnefnda að taka ríkan þátt í því að gera samstarfsvæðin sem virkust og nýta tækifærin sem í þeim felast, til eflingar þjónustu við sóknarbörn og til styrkingar á starfi sóknanna.

Ríki og kirkja

Ágúst Þór Árnason brautarstjóri lagadeildar Háskólans á Akureyri og Hjalti Hugason prófessor í guðfræði og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands ræddu um aðskilnað ríkis og kirkju.  Þar kom fram meðal annars að á liðnum árum hefur sú krafa orðið æ háværari, í löndum þar sem þjóðkirkja er við lýði, að dregið sé úr sérstöðu og sértækum stuðningi við slíka kirkjuskipan. Þessar kröfur eru þó með ýmsum hætti og ólíkar eftir löndum. Í þessu sambandi hefur komið berlega í ljós að nauðsynlegt er að kanna í þessu samhengi ítarlega raunverulegt inntak þjóðkirkjuhugtaksins og hvort ríkinu beri skylda til að gæta hlutleysis í afstöðu sinni til trúfélaga (til athugunar lífsskoðunarfélög) umfram það sem nú tíðkast. Einnig var rætt um hvað gerist í kjölfar aðskilnaðar ríkis og kirkju? Auk þess hvaða afleiðingar breytinganna hefði í för með sér. Góð málefnaleg umræða fór fram á leikmannastefnunni um þetta mikilvæga en viðkvæma mál.

Leikmannastefna þjóðkirkjunnar 2011 ályktaði að skorað yrði  á mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að falla frá tillögu sinni um breytingar á fyrirkomulagi samskipta skóla borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Fulltrúar á leikmannastefnunni voru mjög ánægðir með málþingið og málin sem þar voru rædd, Leikmannastefnunni lauk með messu í Árbæjarkirkju á sunnudeginum þar sem Marinó Þorsteinsson, formaður leikmannaráðs, prédikaði og leikmenn lásu ritningar og lokabæn.

Nánar

Ályktun um kirkju og skóla

Ályktun um þjónustu kirkjunnar

Myndir frá Leikmannastefnu