Skora á Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar

Leikmannaráð þjóðkirkjunnar hefur sent Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar bréf þar sem skorað er á ráðið að falla frá tillögu sinni um breytingar á fyrirkomulagi samskipta skóla borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Leikmannaráð vill með þessu ítreka áskorun Leikmannastefnu frá því í apríl 2011. Leikmannaráð segir skort á samráði í vinnu Mannréttindaráðs dapurlegt og bendir á að samstarf skóla til trúfélög séu ekki brot á mannréttindum, samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Áskorun Leikmannaráðs fylgir hér að neðan.

Áréttuð áskorun til Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar

Leikmannaráð þjóðkirkjunnar áréttar áskorun Leikmannastefnu þjóðkirkjunnar í Reykjavík þann 2. apríl 2011 þar sem skorað er á mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að falla frá tillögu sinni um breytingar á fyrirkomulagi samskipta skóla borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög.
Leikmannaráð bendir á úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu sem segir að það brjóti alls ekki í bága við almenn mannréttindi og ekki sé um mismunun að ræða þótt trúfélög séu í samstarfi við leik- og grunnskóla enda sé samstarfinu ávallt stýrt af viðkomandi skólayfirvöldum.
Það er dapurt til þess að vita að mannréttindaráð Reykjavíkur virðist ekki hafa haft áhuga á að hafa samráð um tillögugerðina við marga þeirra aðila sem málið varðar þar með talið trúfélög borgarinnar. Slík vinnubrögð ganga þvert á sjónarmið um góða stjórnsýslu. Það gengur líka þvert á lýðræðishugmyndir borgarbúa að lítill minnihluti ætli sér að þvínga slíkum breytingum upp á meirihluta íbúa höfuðborgarinnar.
Af þessum ástæðum og mörgum fleiri, sem of langt mál yrði að rekja hér vill Leikmannaráð ítreka óskir sínar um að borgarráð vísi frá umræddri tillögu og slái þess í stað skjaldborg um rétt foreldra og barna til trúfrelsis skv. 14. og 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Reykjavík 21. júní 2011
Marinó Þorsteinsson
formaður Leikmannaráðs