Staða trúfélaga rædd á leikmannastefnu

Staða trúfélaga, gildi kirkjuþings og æskulýðsmál eru helstu málefni 27. leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar, sem fer fram í Grensáskirkju 9. mars nk og hefst með ávarpi biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur. Á hverju ári fjallar leikmannastefnan um ýmis mikilvæg og aðkallandi mál í safnaðastarfi þjóðkirkjunnar um land allt.

Æskulýðsstarf í uppnámi? er fyrsta málefnið sem tekið verður fyrir og framsögu hafa Jónína Sig Eyþórsdóttir, Ninna Sif Svavarsdóttir og sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, sem eru virk í æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar. Einnig verða hringborðsumræður um stöðu trúfélaga, en þar ætla leikmenn frá Veginum, Hvítasunnusöfnuðinum, Rússnesku réttrúnaðarkirkjunni og Kaþólsku kirkjunni að greina frá stöðu safnaðarstarfs í viðkomandi söfnuðum. Stefán Magnússon, varaforseti Kirkjuþings, flytur erindi umgildi Kirkjuþings Þjóðkirkjunnar.

Á leikmannastefnu eiga setu fulltrúar safnaðarfólks í hverju prófastsdæmi landsins, sem kjörnir á héraðsfundum til fjögurra ára í senn. Auk þess sitja á leikmannastefnu Biskup Íslands, forseti kirkjuþings, leikmenn á kirkjuþingi og í kirkjuráði auk fulltrúa samtaka og félaga sem starfa á landsvísu innan Þjóðkirkjunnar.

Dagskrá Leikmannstefnu