Leikmannastefna ályktar um sóknargjöld og friðun í Skálholti

Leikmannastefna sem haldin var í Grensáskirkju í dag samþykkti ályktanir um sóknargjöld og friðun í Skálholti. Stefnan skorar á stjórnvöld að hlutast til þess að sóknargjöld verði leiðrétt og hvetur til þess að yfirbygging yfir fornleifar við kirkjuvegg Skálholtsdómkirkju verði flutt á annan stað á svæðinu.

Sóknargjöld verður að leiðrétta

Leikmannastefna lýsti verulega þungum áhyggjum af skerðingu sóknargjalda undanfarin ár. Skerðingin veldur því að erfitt reynist að halda úti grunnþjónustu í mörgum sóknum. Stefnan skorar á stjórnvöld hlustast til um leiðréttingu sóknargjaldanna. Í ályktuninni segir meðal annars:

Leikmannastefnan skorar því á stjórnvöld að hlutast til þess að sóknargjöldin verði leiðrétt til samræmis við þróun fjárveitinga til stofnana innanríkisráðuneytisins þannig að sóknargjöldin verði kr. 958 á mánuði fyrir hvern gjaldanda á árinu 2013 í stað kr. 728 og renni óskert til sókna þjóðkirkjunnar eins og vera ber og gerður verði samningur við Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög um ákvörðun sóknargjalda.

Fagnar friðun í Skálholti

Leikmannastefnan fagnar ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra frá 27. desember 2012 um að friða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi kirkjunnar. Hún hvetur jafnframt til þess að Þorláksbúð verði flutt.

Leikmannastefna hvetur til þess að yfirbyggingin yfir fornleifarnar við kirkjuvegginn verði flutt á annan stað á svæðinu, fjarri hinum friðuðu byggingum og staðarmyndinni í Skálholti. Hvatt er til þess að það verk verði unnið og því lokið fyrir 50 ára vígsluafmæli Skálholtskirkju hinn 21. júlí á komandi sumri. Skálholt hefur verið helgur staður kristinna manna á Íslandi í aldaraðir og ber öllum að umgangast staðinn með virðingu og væntumþykju.

Lesa ályktanirnar