Erindi

Lárus Þór Jónsson

Leikmannastefna kirkjunnar – Hallgrímskirkju, 24. júní 2005

Fundarstjóri og aðrir fundamenn.

Ég heiti Lárus Þór Jónsson, er 45 ára, giftur þriggja barna faðir og starfa sem heimilislæknir, nú við Heilsug. stöð Hlíðahverfis s.l. 11/2 ár. Þar áður 6 ½ ár á Hvammstanga og 4 ár í Ólafsvík.

Á þessum 10.5 árum sem við fjölskyldan bjuggum úti á landi sat ég alls 8 ár í sóknarnefnd, 3 ár í sóknarnefnd Ólafsvíkurkirkju , árin 1994-1997, sem meðstjórnandi, og síðan 5 ár í sóknarnefnd Hvammstangakirkju, árin 1998-2003, allan tímann sem formaður.

Í Ólafsvík eru um 1200 sóknarbörn en 650 í Hvammstangasókn.

Í þessu erindi mínu mun ég aðallega fjalla um fjármál og fjárhag sókna þar sem eitt helsta hlutverk sóknarnefnda er að ráðstafa oft takmörkuðum fjármunum safnaða þannig að þeir nýtist sem best einnig mun ég stikla á stóru varðandi undirbúning og fjármögnun fyrir byggingu safnaðarheimilis á Hvammstanga.

Það sem aðgreinir sóknir og safnaðarstarf í dreifbýli frá því sem gerist í þéttbýli er aðallega að í dreifbýli eru sóknarbörnin yfirleitt miklu færri og þar af leiðandi litlar tekjur af sóknargjöldum en fjöldi kirkna er oft i öfugu hlutfalli við fjölda íbúa prestakalla.

Í Breiðabólstaðarprestakalli í V-Hún þar sem ég bjó eru t.d. fjórar sóknir, Hvammstangasókn langstærst en í hinum sóknunum þremur er allt niður í 30-50 manns. Hver sókn með sitt Guðshús og fara nánast allar tekjur þessara litlu safnaða í viðhald kirknanna og duga ekki til. Í þessum litlu sóknum gengur oft illa að manna sóknarnefndir, hvað þá að fá fólk til annarra starfa á vegum kirkjunnar. Ofan á þennan vanda sem stafar af fámenni bætist svo að fúsleiki til sjálfboðastarfs virðist fara þverrandi hjá þjóðinni eftir því sem hún hefur það betra fjárhagslega og tækifæri til afþreigingar aukast. Í dag er meiri samkeppni um frítíma fólks en áður var, þótt frítími hafi aukist hjá þorra fólks.

Skipan sókna og prestakalla er að mínu áliti víða orðin úrelt, einkum í dreifbýli, þar sem hún miðast við samgöngur fyrri alda en hefur ekki fylgt þeirri þróun sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu s.s. með stórbættum samgöngum og farartækjum. Í einni sókn á Norðurlandi t.d. þurfa sóknarbörn að keyra fram hjá nágrannakirkju á leiðinni í sína sóknarkirkju af því að í gamla daga fór fólk á hestum eða gangandi yfir fjallið til að sækja messur en í dag er keyrður lengri vegur fyrir fjallið.

Í Vestur Húnavatnssýlsu eru tvö prestaköll þótt búið sé að sameina sýsluna alla í eitt sveitarfélag. Öll börn þessa sveitarfélags fara í sama skóla en samt er 8. bekk skipt í tvennt þegar kemur að fermingarfræðslu og taka þá báðir prestarnir sinn hvorn bekkjarhelming á sama tíma, í fermingarfræðsluna, í stað þess að skipta með sér verkum svo þeir þurfi ekki að vera báðir bundnir við verkefni sem annar gæti svo hæglega unnið eða þeir komið sér saman um verkaskiptingu sem þeir reyndar gera að e-u leyti.

Á utanverðu Snæfellsnesi gerðist það undarlega að mínu áliti að á sama tíma og sveitarfélögin í kringum Jökul voru sameinuð var Ólafsvíkurprestakall klofið og Hellissandur aðskilinn frá og tilheyrir nú öðru prestakalli. Þ.e. á sama tíma og Ólafsvík og Hellissandur sameinast í eitt sveitarfélag var sameiginlegu prestakalli þessarar staða sundrað.

Ég tel að mikil tækifæri felist í sameiningu sókna og prestakalla, þannig að skipan prestsumdæma (prestakalla og sókna) fylgi sem mest skiptingu sveitarfélaga.

Þar sem ég er læknir hef ég oft borið saman skipulag heilbrigðis- og læknisþjónustu við skipulag og starfshætti kirkjunnar.

Í báðum þeim sveitarfélögum, á Vestur- og Norðvesturlandi, sem ég hef búið og starfað í, er umfang læknishéraðanna nánst þau sömu og nýlega sameinaðra sveitarfélaga. Reyndar var skipan læknishéraðanna talsvert langt á undan sveitarfélögunum, því að segja má að sveitarfélgöin hafi fetað í fótspor læknishéraðanna í báðum þessum tilvikum eða að læknishéuðin hafi upphaflega verið vel skipulögð m.t.t. félagslegra og landfræðilegra aðstæðna. Hef ég oft rætt það við prestana á þessum stöðum að mér finnist að sókaskipan geti að verulegu leyti farið saman við skiptingu læknishéraða. Ég sjái t.d. engin rök fyrir því að færri íbúar séu á hvern prest og að fjarlægðir þurfi ekki að hamla sameiningu sókna eða prestakalla ferkar en sameining sveitarfélaga og læknishéraða sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, einkum til að skapa sterkari rekstareiningar, hagræða í rekstri, stækka vaktsvæði og nýta betur fjármuni, fasteignir og mannskap. Í báðum þessum sveitarfélögum sem ég hef nefnt, þ.e. Snæfellsbæ og Húnaþingi Vestra eru tveir læknar sem starfa við sömu heilbrigðisstofnun eða heilsugæslustöð en einnig eru tveir prestar í þessum sveitarfélögum en hvor í sínu prestakalli, yfirleitt með fleiri en eina sókn.

Í stað þess að prestar séu einir í sínu prestakalli, alltaf á vakt svo að segja, gætu þeir t.d. skipt með sér “vaktþjónustu” og þannig fengið betur afmarkaðan frítíma og nýtt vinnutíma sinn betur og boðið upp á meiri og betri þjónustu í mörgum tilfellum.

Bygging safnaðarheimilis við Hvammstangakirkju

 

Þá er ég kominn að því að greina frá undirbúningi og byggingu safnaðarheimils á Hvammstanga.

Alllangur aðdragandi hafði verið að þessu verkefni og þörfin fyrir löngu orðin mjög brýn.

1996 leitaði þáverandi sóknarnefnd og sóknarprestur til Húsameistara ríkisins með hugmyndir sínar um byggingu safnaðarheimilis, sem lengi hafa verið til umræðu innan safnaðarins og fyrrverandi prestar hafa óskað eftir.

Árangur þeirrar málaumleitunar varð “Frumathugun á viðbyggingarmöguleikum ” við Hvammstangakirkju þar sem 6 möguleikar voru dregnir fram og bent á kosti þeirra og galla.

Komu þá fram fjórir möguleikar á staðsetningu viðbyggingar og var síðar stuðst við eina af þessum tillögum. Þegar sóknarnefndin fékk svo reikning fyrir þessa frumathugun upp á 300 þús kr snarhætti hún að hugsa meira um byggingaframkvæmdir í bili.

Hvammstangakirkja er staðsett á Hvammstanga sem er lang stærsti þéttbýliskjarni í Vestur Húnavatnssýslu og er miðstöð stjórnsýslu og þjónustu fyrir íbúa allrar sýslunnar sem eru um 1100 en íbúar í Hvammstangasókn voru 1. des. 1998, 655 talsins.

Mátti ætla að með sameiningu allra sveitarfélaga í Vestur Húnavatnssýslu árið 1997 myndi vægi Hvammstanga í sýslunni aukast m.a. vegna fækkunar fólks í hinum dreifðari byggðum og þótti líklegt að reynt yrði að sporna gegn flutningi fólks frá sveitarfélaginu með eflingu þéttbýliskjarnans á Hvammstanga.

Í Hvammstangakirkju hafði verið rekið öflugt safnaðarstarf, einkum á meðal barna og unglinga. Hafði það starf að mestu leyti farið fram í bráðabirgðaaðstöðu í kjallara prestssetursins á skrifstofu sóknarprests. Voru þar oft saman komin 20-30 börn/unglingar og stundum enn fleiri.

Á skrifstofu sóknarprestsins voru einnig haldnir “foreldramorgnar” sem og aðrir fundir s.s. sóknarnefndarfundir og ýmsir fræðslufundir.

Gefur auga leið að sóknarprestur, og fjölskylda hans, urðu fyrir talsverðum óþægindum vegna svo mikils ágangs á heimili þeirra og skrifstofu sóknarprests.

Taldi sóknarnefndin að aðstöðuleysi stæði safnaðarstarfinu, sem var reyndar mjög blómlegt, verulega fyrir þrifum og bindi hendur sóknarprests og safnaðar varðandi frekari vöxt og viðgang í starfi safnaðarins.

Í Hvammstangakirkju, sem var vígð 1957, vantar alveg aðstöðu til fundarhalda. Fatahengjum er mjög ábótavant og almenningssalerni vantar. Þá er engin aðstaða fyrir kirkjukaffi.

Við núverandi aðstæður hefur kirkjukórinn enga aðra aðstöðu en kirkjuloftið við orgelið.

Við stórar athafnir, s.s. jarðarfarir, hefur verið gripið til þess ráðs að setja upp sjónvarp í nærliggjandi skóla þannig að fólki, sem ekki kemst fyrir í kirkjunni sjálfri, gefist kostur á að fylgjast með athöfnum af sjónvarpsskjá.

Árið 1998 taldi sóknarnefndin og sóknarprestur að nútímalegt safnaðarstarf krefjist mun betri aðstöðu en Hvammstangasöfnuður hafði mátt búa við fram að þessu og fóru að leita stuðnings við áform um byggingu safnaðarheimilis. Var sóknarnefnd mjög svo meðvituð um þá áhættu sem svona byggingaráform, fyrir lítinn og fjárvana söfnuð, hefur í för með sér, eins og svo mörg dæmi sanna. Settu sókanrnefnd og sóknarprestur sér það markmið að láta þessi áform ekki koma niður á blómlegu starfi innan safnaðarins með fjársvelti. Frekar minna starf án fullnægjandi húsnæðis en tómt hús án starfs.

Leitaði sóknarnefndin allra leiða annarra en byggingu nýs hús til að mæta þörfum safnaðarins fyrir aukið húsrými. Kannaðir voru möguleikar á kaupum á notuðu íbúðarhúsi sem næst liggur kirkjunni en það hús var ekki falt auk þess sem það mætir ekki öllum þörfum safnaðarins um aðstöðu. Rætt var við forráðamenn sveitarfélagsins um húsnæði á vegum sveitarfélagsins sem og samnýtingu á húsnæði með öðrum aðilum s.s. tónlistarskóla en þær viðræður leiddu ekki til hagstæðrar niðurstöðu. Eftir vandlega athugun komst sóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja áfast safnaðarheimili við norðurhlið kirkjunnar.

Það sem áynnist með nýrri viðbygginu væri:

1) Stórbætt aðstaða fyrir safnaðarstarf m.a. barna- og unglingastarf..

2) Stóraukið rými fyrir fjölmennari kirkjulegar athafnir.

3) Stórbætt fundaaðstaða.

4) Verulega aukin og bætt vinnuaðstaða fyrir starfsmenn kirkjunnar kór og organista.

5) Skrifstofa fyrir sóknarprest.

6) Veitingaaðstaða.

7) Geymslurými og aðstaða fyrir ræstingu eykst verulega.

8) Aðgengi fyrir fatlaða stórbatnar.

9) Stórbætt salernisaðstaða sem er algerlega óviðunandi eins og er.

10) Mun rýmri og stóraukin fatahengi.

Það sem sóknarnefnd hafði einkum að leiðarljósi við byggingu safnaðarheimilis var aðhaldssemi í meðförum fjármuna og hagsýni þar sem notagildi skyldi í hávegum haft án þess að það bitni á útliti eða endingu. Byggingin yrði látlaus en hæfi kirkjunni og að byggingin spilli ekki útliti kirjunnar né skyggi á hana.

Fyrir lítinn söfnuð, upp á 650 sálir, með 2.5 – 3 milljónir kr í árstekjur af sóknargjöldum, er það geysilega stórt verkefni að ráðast í byggingaframkvæmdir fyrir tugi milljóna kr. En af þessum 2,5-3 milljónum sem sóknin hefur í árstekjur þarf að borga öllum starfsmönnum laun, standa undir rekstrar- og viðhaldskostnaði kirkjunnar sem og standa straum af kostnaði við allt safnaðarstarfið. Satt best að segja er ekki erfitt að nýta alla þá fjármuni í reksturinn, þannig að ekkert verði eftir til nýframkvæmda.

Til byggingar safnaðarheimils átti sóknin í upphafi 3 milljónir kr í sjóði. Ljóst var að þeir fjármunir dygðu skammt í svo fjárfrekri framkvæmd.

En eins og forðum þegar Jesú sagði lærisveinum sínum að fæða 5000 manns þótt þeir ættu ekki nema 2 fiska og 5 brauð tókst þeim að metta allan fjöldan e. að frelsarinn hafði blessað matinn, eins þarf mikla trú til að ráðast í svo stóra framkvæmd með svo litla fjármuni í upphafi. En ef Drottin er hafður með í ráðum og beðið er um blessun hans geta stórir hlutir gerst.

Að öllu ofantöldu taldi sóknarnefnd 1998 rétt að bíða ekki lengur með framkvæmdir og taldi rétt að hefjast handa sem allra fyrst en þó yrði ekki ráðist í byggingarframkvæmdir fyrr en næðist að sjá fyrir endann á fjármögnun byggingarinnar.

Fyrsta kostnaðaráætlun fyrir byggingu sem yrði 180 m² að grunnfleti hljóðaði upp á ca 25 milljónir. Reikna mátti með að þriðjung þeirrar upphæðar væri hægt að fá í styrk en það sem á vantaði yrðu heimamenn að afla. Setti sóknarnefnd sér það markmið að afla með frjálsum fjárframlögum alls um 8-9 milljóna króna en leggja sjálf fram úr eigin rekstri þann þriðjung sem þá vantaði upp á til að klára dæmið. Rekstur sóknarinnar gæti ekki staðið undir nema um þriðjung kostnaðar, m.a. með lánum, ca 10 millj. en ekki mætti taka meira úr rekstrinum en næmi ca 500.000 kr á ári og því miklvægt að byrja strax að leggja fyrir og ávaxta vel sjóðinn

Aðalsafnaðarfundur í maí 1999 veitti sóknarnefnd umboð til að hefja hönnun á nýju safnaðarheimili við kirkjuna.

Sótt var um styrk til Jöfnunarsjóðs sókna haustið 1999 og fékkst 500 þús kr framlag til undirbúnings og hönnunar.

Leitaði sóknarnefnd til Haralds Haraldssonar arkitekts, sem hafði komið að hönnun Áskirkju, og Bjarna Þórs Einarssonar byggingatæknifræðings um að taka að sér hönnun á þessari viðbyggingu en þeir bjuggu báðir á Hvammstanga..

Á aðalsafnaðarfundi í maí árið 2000 kynnti Haraldur nokkuð mótaðar útlitsteikningar að nýju safnaðarheimili sem var mjög vel tekið af öllum þorra fundarmanna.

Var samþykkt að veita sóknarnefnd umboð til áframhaldandi undirbúnings fyrir byggingu m.a. með öflun fjármagns fyrir framkvæmdum.

Við hönnun og allan undirbúning að framkvæmdum var haft samráð við marga aðila s.s. bygginganefnd Forsætisráðuneytisins, sem fer með réttargæslu á hönnun Guðjóns Samúelssonar, sem teiknaði Hvammstangakirkju, bygginga- og listanefnd þjóðkirkjunnar sem gefur umsögn um hönnun og fjárhagsáætlun fyrir ný- og viðbyggingar til sóknarnefnda, hönnuða og Kirkjuráðs sem úthlutar styrkjum úr Jöfnunarsjóði sókna, einnig voru fundir með fulltrúum Kirkjuráðs sem og starfsfólki safnaðarins auk þess sem hugmyndir og teikningar að byggingunni voru reifaðar ítarlega á almennum safnaðarfundum endurtekið sem og á aðalsafnaðarfundum. Fréttabréf voru þrisvar send öllum sóknarbörnum þar sem byggingaráform voru reifuð, teiknignar kynntar og fjárhagsáætlun kynnt og fjárþörfin þannig auglýst og sóknarbörn kvött til að styðja málefnið.

Veitti aðalsafnaðarfundur, haldinn í maí 2002, sóknarnefnd umboð til að hefjast handa við byggingaframkvæmdir. Samið var við ráðgjafar- og verkfræðisþjónustuna Ráðbarð sf á Hvammstanga og arkitektinn Harald V. Haraldsson um heildarhönnun verksins og gerð útboðsgagna. Var þegar búið að sammþykkja byggingarnefndarteikningar og grenndarkynning farið fram.

Var fyrsti áfangi verksins, þ.e. húsið fullbúið að utan en tilbúið til sandspörslunar að innan auk endurbóta á kyndingu og loftræstingu í kirkju, boðinn út sumarið 2002 og bárust fjögur tilboð. Samið var við Tvo smiði ehf á Hvammstanga um að annast verkið og skyldu framkvæmdir standa yfir sumarið 2003.

Var því öll hönnun og framkvæmd byggingarinnar í höndum heimamanna sem sóknarnefnd þótti mikilvægt til að tengja verkefnið betur söfnuðinum og til að efla velvild fyrir framkvæmdinni ekki síst með það í huga að fjáröflun þar að stærstum hluta að koma frá heimamönnum.

Alls nam kostnaður við þennan fyrsta áfanga, með hönnun og öðrum tilfallandi kostnaði, um 30 milljónum kr.

Fjáröflun hafði gengið vonum framar. Alls höfðu styrkir og gjafir til safnaðarheimilisbyggingar, frá upphafi söfnunar í september 2000, numið alls 8.2 milljónum kr, sem með vöxtum og verðbótum nam rúmum 9 milljónum kr vorið 2003.

Að viðbættum þeim fjármunum sem sóknin hafði getað lagt fyrir til þessa verkefnis hafði tekist að safna saman alls 13 milljónum króna til þessarar framkvæmdar þegar fyrsta skóflustungan var tekin í maí 2003.

Kirkjuráð veitti Hvammstangasókn vilyrði fyrir fjárstuðningi úr Jöfnunarsjóði sókna í þrjú ári, 4 milljónir kr á ári, 12 milljónir kr alls og hafði fyrsta greiðslan þegar verið greidd þegar framkvæmdir hófust.

Alls var því búið að tryggja nálægt 25 milljónum kr skuldlaust til byggingar safnaðarheimilisins þegar framkvæmdir hófust. Vantaði því enn um 5 milljónir kr til að ná endum saman við þennan fyrsta áfanga byggingarinnar.

Það má því segja að fjárhagur sóknarinnar hafi staðið mjög traustum fótum þegar framkvæmdir hófust

Áætlaður kostnaður við lokafrágang byggingarinnar, þ.e. gólfefni, raflögn, innréttingar o.fl. er síðan um 10 milljónir kr. Heildarkostnaður við bygginguna er þannig áætlaður um 40 milljónir kr.

Helsti lærdómur af þessu ferli öllu er eftirfarandi:

Áður en farið er af stað í miklar byggingarframkvæmdir skal fyrst:

1) Kanna vel þörfina. Gera ítarlega þarfagreiningu og mættu sem flestir koma að henni.

2) Byrja sem fyrst að safna peningum, leggja fyrir og gera raunhæfa kostnaðaráætlun.

3) Biðja stöðugt fyrir verkefninu.

4) Undirbúa verkefnið vel áður en haldið er af stað. Vanda hönnun sérstaklega vel.

5) Nýta vel ráðgjöf Lista- og byggingarnefndar þjóðkirkjunnar (atvinnumenn).

6) Hafa náið samráð við sóknarprest, starfsfólk safnaðarins og almenna safnðarmeðlimi.

7) Kynna verkefnið vel, bæði hönnun og kostnaðaráætlun. Skapa áhuga fyrir verkefninu á jákvæðum nótum.

8) Þolinmæði. Fara ekki af stað fyrr en sér fyrir endann á fjármögnun. Bíða frekar og leggja fyrir peninga og ávaxta þá sem best.

Einn stór kostur við sameiningu sókna til samræmis við sveitarfélögin í landinu er sá að þá yrði miklu auðveldara að sækja um fjárhagslegan stuðning til sveitarfélaga við kirkju- og safnaðarstarf en nú er.

Við fjáröflun fyrir safnaðarheimilsbyggingu á Hvammstanga var mér oft hugsað til þess hvað það hefði verið gott að fá sveitarfélagið, sem er miklu öflugra fjárhagslega en sóknin, í lið með sér og hefði örugglega verið hægt að fá fjárhagslegan stuðning við svo stóra framkvæmd sem nýtast myndi svo til öllum íbúm sveitarfélagsins á einn eða annan hátt, ef ekki væru svo margar sóknir í sveitarfélaginu eins og raunin er.

Þar sem ég veit að sveitarfélögin veita styrki í ýmis málefni sem talin eru íbúunum til hagsbóta er ég viss um að hægt er að sækja stuðning frá sveitarfélögunum í safnaðarstarf en á það má líta frá ýmsum sjónarhornum s.s. sem æskulýðsstarf, forvarnarstarf, líknarmál, fræðslustarfsemi, áfallahjálp, kærleiksþjónustu o.m.fl.

Þótt sveitarstjórnarmenn séu margir mjög jákvæðir í garð kirkjunnar eru hendur þeirra bundnar við útdeilingu fjárstyrkja til safnaða þar sem fleiri en ein sókn er innan sama sveitarfélags vegna hættu á mismunun þegnanna. Ef ein sókn fær fjárstuðning er hætt við að íbúar annarra sókna vilji fá sams konar stuðning.

Ef aðeins ein kirkja, ein sókn og eitt safnaðarheimil væri í sveitarfélaginu væri staðan allt önnur varðandi umsóknir um fjárstuðning við kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum sóknarinnar.

Lokaorð

Þjóðirkjan þarf að laga sig að þeim veruleika og þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu hverju sinni.

Ég tel mjög mikilvægt fyrir kirkjuna að skipulag hennar taki mið af þeim öflugu félagslegu einingum sem sveitarfélögin eru í dag sem hafa á sinni könnu m.a.: grunnskóla, leikskóla, dagheimili, félagsmiðstöðvar f. unglinga og aldraða, heimilshjálp og sumstaðar einnig heilbrigðisþjónusu o.m. fl.

Íbúar sama sveitarfélgas finna til ákveðinnar samstöðu og samkenndar með því að tilheyra sömu félagslegu einingunni. Þeir t.d. borga útsvar til þessarar sameiginlegu stjórnsýslueiningar og hafa oft skoðun á því hvernig málum skuli háttað og fjármunum ráðstafað í þeirra nærumhverfi.

Börn þeirra fara oft öll í sama skóla og hinir öldnu á sömu öldrunarstofnun.

Mikilvægt er að kirkjan fylgi eftir þessari samfélagslegu þróun sem ferkar stuðlar að félagslegri einingu, sem er svo mikilvæg innan kirkjunnar. Sameining og stækkun sókna felur einnig í sér mikil tækifæri til betri nýtingar fjármuna, fasteigna, annarra fastafjármuna og mannafla og þar með eflingar kirkjunnar sem stofnunar í íslensku samfélagi .

Megi yfirvöldum kirkjunnar, sóknarnefndarfólki og almennum sóknarbörnum veitast sú náð að sjá hvað kirkjunni og þjóðinni er fyrir bestu í málefnum kirkjunnar og safnaðarstarfi og farmkvæma síðan skv. því í sem mestri sátt við þjóðina alla og málstað og boðskap kirkjunnar.