Fundargerð

19. Leikmannastefna íslensku Þjóðkirkjunnar í Iðnskólanum í Reykjavík

 

Fundargerð

 

Þann 24 maí 2005 sendi biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson út bréf sem boðaði til Leikmannastefnu íslensku Þjóðkirkjunnar þann 24 júní í Iðnskólanum í Reykjavík, ásamt

eftirfarandi dagskrá.

Föstudagur 24 júní 2005

9.30 Setning Leikmannastefnu og Kirkjuþing unga fólksins í Hallgrímskirkju, herra Karl Sigurbjörnsson

10.00 Skýrsla Leikmannaráðs og reikningar Helgi K. Hjálmsson
Kynntar nýjar samþykktir Marinó Þorsteinsson
Kosningar Nýtt leikmannaráð
Framsöguerindi: safnaðarstarf í þéttbýli og dreifbýli. Hvers væntum við ?
Fyrirlesarar; Bergur Torfason Þingeyri, Hermann Jónasson Siglufirði. Lárus Jónsson Hvammstanga.

12-13 Léttur hádegisverður á kennarastofu Iðnskólans í Reykjavík

13.00 Fundi framhaldið

15.00 Heimsókn í Neskirkju, safnaðarheimilið kynnt og skoðað. Safnaðarstarf í Neskirkju kynnt

17.00 Fundi frestað

Leikmannastefna verður síðan hluti Kirkjudaga á Skólavörðuhæð og verður formlega slitið ásamt Kirkjudögum á miðnætti laugardagsins 25 júní 2005.

1. Setning Leikmannastefnu

Biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson, setti 19. Leikmannastefnuna ásamt Kirkjuþingi Unga fólksins í Hallgrímskirkju. Hann fór með bæn ritningalestra og sungnir voru sálmar. Börn úr Seljakirkju komu og sungu nokkur lög. Stefán M. Gunnlaugsson verkefnastjóri kirkjudaga sagði frá Kirkjudögum. Að lokinni setningu var gengið til Iðnskólans í Reykjavík.

2. Leikmannastefna

Fundur var settur í stofu 415 í Iðnskólanum í Reykjavík af Helga K. Hjálmssyni formanni leikmannaráðs og bauð hann alla velkomna. Fundarstjórar voru kjörnir Jóhann E. Björnsson, kirkjuþingsmaður og Hermann Jónasson úr Skagafjarðarprófastsdæmi. Fundarritarar voru kjörnir Magnhildur Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdarstjóri Leikmannastefnu og Jón Oddgeir Guðmundsson, úr Eyjafjarðarprófastsdæmi.

Þessa leikmannastefnu sátu 57 fulltrúar og gestir. Var formönnum sóknarnefnda og öðrum áhugasömum boðið sérstaklega að sitja leikmannastefnuna. Fulltrúar frá íslensku söfnuðunum í Noregi, Svíþjóð,Kaupmannahöfn og London sátu stefnuna.

3. Skýrsla Leikmannaráðs og reikningar

Formaður Leikmannaráðs, Helgi K. Hjálmsson, flutti skýrslu ráðsins og greindi frá reikningum sjá fylgiskjal 1. Í skýrslu sinni ræddi hann um fræðslu fyrir sóknarnefndir og þátt Leikmannaskólans og Fræðsludeildar þar í og hvatti til aukinnar starfsemi á þeim vettvangi og lagði áherslu á fræðslu um það sem hann nefndi “Að starfa í sóknarnefnd”. Ennfremur ræddi hann um agavandamál og samskipti sóknarnefnda og presta og þann óhóflega langa tíma sem núverandi ferli tekur, og hvernig það lamar safnaðarstarfið. Hann hvatti kirkjuþingsmenn til að taka á þessu máli og kom með hugmynd að svokallaðri aganefnd, sem biskup myndi skipa, og auknum völdum til prófasta til að veita áminningu og einnig biskups til að geta tekið strax á erfiðum málum. Nokkrar umræður urðu um skýrsluna Meðal annars var rætt um nauðsyn þess að efla Leikmannastefnuna.

Svohljóðandi ályktun var samþykkt samhljóða:

“Leikmannastefna 2005 beinir þeirri tillögu til Kirkjuráðs og Kirkjuþings 2005, að það beiti sér fyrir því, að meðferð agavandamála verði skilvirkari og fljótvirkari en nú er, þannig að safnaðarstarf þurfi ekki að líða lengi vegna erfiðra vandamála, sem upp kunna að koma milli presta og safnaða. Leikmannastefnan bendir á, að hugsanleg lausn vandans sé að öll vafaatriði varðandi húsbóndavaldið sé ljós, jafnframt því sem próföstum sé veitt vald til þess að gefa fyrstu áminningu. Ef þetta dugar ekki og þegar sáttatilraunir hafa verið reyndar til þrautar, sé unnt að vísa málum til svokallaðrar “aganefndar” til meðferðar, sem aðstoði biskup við lausn viðkomandi máls.

Varðandi stöðu djákna innan kerfisins er brýnt að skilgreint sé hvar húsbóndavaldið sé varðandi störf þeirra og ábyrgð.”

Reikningar Leikmannaráðs voru bornir upp og samþykktir samhljóða.

3. Kynntar nýjar samþykktir

Í framhaldi af samþykkt Kirkjuþings 2004 á samþykktum fyrir leikmannastefnu voru nýjar samþykktir fyrir Leikmannastefnu kynnt af Marinó Þorsteinssyni úr Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. sjá fylgiskjal 2 Miklar umræður voru um þessar samþykktir og komu fram nokkrar breytingatillögur þá aðallega við 2 gr og 7 gr. Þær voru síðan samþykktar með lítilsháttar breytingum sjá fylgiskjal 3.

4. Kosning

Í samræmi við hinar nýju samþykktir um leikmannastefnu var nýtt Leikmannaráð kjörið til tveggja ára, aðal- og varamenn. Helgi K. Hjálmsson formaður bar upp tillögur um óbreytt Leikmannaráð næstu 2 árin. Leikmannaráð er þannig skipað

Helgi K. Hjálmsson, Kjalarnessprófastsdæmi

Jón Oddgeir Guðmundsson, Eyjafjarðarprófastsdæmi.

María Jóna Einarsdóttir, Borgarfjarðarprófastsdæmi.

Marinó Þorsteinsson, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, varamaður

Hermann Jónasson, Skagafjarðarprófastsdæmi, varamaður.

Guðný Guðnadóttir, Skaftafellsprófastsdæmi, varamaður.

Það var samþykkt samhljóða.

5. Framsöguerindi

Yfirskrift þessarar Leikmannastefnu var “Safnaðarstarf í dreifbýli og þéttbýli. Hvers væntum við?”. Fyrirlesarar voru Bergur Torfason, Hermann Jónasson, Lárus Jónsson, sr. Örn Bárður Jónsson, sr. Sigurður Árni Þórðarson og dr. Guðmundur K. Magnússon, prófessor. Fyrir hádegi var rætt um safnaðarstarf í dreifbýli. Þeir sem fluttu þá erindi voru Bergur Torfason sjá fylgiskjal 4, Hermann Jónasson sjá fylgiskjal 5 og Lárus Jónsson sjá fylgiskjal 6. Erindi þeirra voru mjög áhugaverð og þeir lýstu vel vanda sókna í dreifbýli til að halda uppi blómlegu kirkjustarfi. Eftir að þeir luku máli sínu var gert matarhlé kl 12.15.

6. Umræður

Eftir matarhlé héldu umræður áfram um erindin sem voru flutt fyrir hádegi. Margir tóku þátt í umræðunum um fyrirlestrana og líka voru rædd önnur mál. Leikmannastefnugestir voru sammála um að erindin voru áhugaverð og sýndu þann mikla mun, sem er á möguleikum til blómlegs safnaðarstarfs annarsvegar í þéttbýli og hinsvegar dreifbýli. Rætt var um þá miklu þjóðfélagsþróun sem átt hefur sér stað frá því að núverandi sóknar- og starfsmörk voru sett á, þegar allt miðaðist við þann samgöngumáta, sem þá tíðkaðist, til hins tæknivædda nútíma. Nauðsyn þess að þessi mál yrðu skoðuð með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta og að þeir starfskraftar og fjármunir, sem í boði eru myndu nýtast sem best það leiðir til þess að þjónustan yrði betri og safnaðarstarfið lifandi. Það álit kom fram hjá fulltrúa Barðastrandarprófastsdæmis og fleirri aðilum á Leikmannastefnunni að sú stefna að fækka prófastsdæmum væri röng og myndi engu skila nema lakara safnaðarstarfi og sú breyting sem hefði átt sér stað varðandi sitt prófastsdæmi hefði verið gerð gegn vilja og samþykkt íbúanna.

Nokkrir sögðu að kirkjan þyrfti að þróast í takt við tímann

.

Leikmannastefnan samþykkti ályktun “að beina því til kirkjuþings að settur verði á fót starfshópur til þess að kanna möguleika á því að setja upp starfsstöðvar,(kirkjustöðvar) þar sem það á við, þar sem 2 – 3 prestar, ásamt djákna eða djáknum, myndu þjóna stærri landssvæðum, með tilliti til landfræðilegra staðhátta.”

Í umræðunni eftir hádegi komu fulltrúar hinnar íslensku kirkju erlendis og kynntu starfsemi sína.

7. Neskirkja

Leikmannastefnan var flutt í Neskirkju. Sr. Örn Bárður Jónsson flutti stutta hugvekju og bauð alla velkomna. Síðan var farið í hið nýja safnaðarheimili og það kynnt. Boðið var upp á kaffi og meðlæti. Eftir kaffið hélt dr. Guðmundur Magnússon stutt erindi um safnaðarstarf í þéttbýli og sagði sögu Neskirkju. Sr Örn Bárður Jónsson og dr. Sigurður Árni Þórðarson kynntu safnaðarstarf í Neskirkju og safnaðarstarf í þéttbýli. Nokkrir tóku til máls eftir þeirra erindi. Síðan tók Helgi Hjálmsson við og þakkaði þeim í Neskirkju fyrir höfðinglegar móttökur.

Fundarhlé var gert kl. 17.00 til miðnættis laugardagsins 25 júní, og Leikmannastefnan varð hluti af Kirkjudögum.

8. Biskupsstofa

Einnig var leikmannastefnugestum boðið að koma í morgunmat á Biskupstofu laugardaginn 25 júní og þeim kynnt starfsemin á Biskupsstofu og húsnæðið skoðað. Um 20 manns komu þangað. Góður rómur var gerður af þessari ferð

Þátttakendalisti fylgir sjá fylgiskjal 7

9. Slit Leikmannastefnu

Biskup Íslands sleit stefnunni ásamt kirkjudögum í Hallgrímskirkju að kveldi 25 júní

Magnhildur Sigurbjörnsdóttir/Jón Oddgeir Guðmundsson fundarritarar

 

Samþykktir um leikmannastefnu

 

1.gr. Leikmannastefna

Biskup Íslands boðar til leikmannastefnu í samráði við leikmannaráð. Boðun og meðferð mála á leikmannastefnu skal vera samkvæmt þingsköpum.

 

2.gr. Þingsköp leikmannastefnu

 

 1. Leikmannastefnan er boðuð með a.m.k. mánaðar fyrirvara, og skal lýst eftir málum, sem óskað er eftir að séu tekin fyrir á leikmannastefnunni. Leikmannastefna starfar að jafnaði 2 daga í senn.
 1. Dagskrá leikmannastefnu skal send fulltrúum viku fyrir leikmannastefnu og jafnframt liggja frammi á biskupsstofu. Í dagskrá skal geta allra meginmála og tillaga, sem leikmannastefnan fær til meðferðar og umfjöllunar. Óheimilt er að taka fyrir mál, sem varða leikmannastefnuna sjálfa og ekki hafa verið kynnt í dagskrá, nema með samþykki ¾ mættra fulltrúa.
 1. Formaður leikmannaráðs stjórnar kjöri fundarstjóra og ritara.
 1. Í upphafi hverrar stefnu, skipta formaður leikmannaráðs, fundarstjóri og ritari fulltrúum upp í umræðuhópa, til þess að fjalla um þau erindi og mál, sem stefnan hefur til meðferðar hverju sinni, ef þurfa þykir. Hver umræðuhópur kýs umræðustjóra og ritara úr sínum hópi. Aldursforseti hvers hóps skal stjórna kosningu umræðustjóra og ritara.
 1. Fundarstjóri stýrir umræðum og kosningum á stefnunni og heldur mælendaskrá. Ef fundarstjóri tekur þátt í umræðum eða forfallast gegnir formaður leikmannaráðs störfum hans á meðan. Heimilt er að hljóðrita umræður á leikmannastefnu. Ritari skal skila fullfrágenginni fundargerð til leikmannaráðs innan mánaðar eftir lok leikmannastefnu.
 1. Mál skal að jafnaði reifað af flutningsmanni, og tillögum fylgi greinargerð. Öllum málum og tillögum, sem eiga að verða hluti að ályktunum stefnunnar, skal vísa til meðferðar í umræðuhópum í lok fyrri umræðu. Allar breytingartillögur og bókanir verður að bera fram skriflega.
 1. Að lokinni umfjöllun í umræðuhópi skal umræðustjóri gera grein fyrir niðurstöðum umræðuhópsins og leggja fram skriflegar ályktanir hans, til meðferðar við seinni umræðu á leikmannastefnunni.
 1. Að lokinni seinni umræðu skal hvert mál vera borið undir atkvæði, og skal niðurstaðan vera ályktun leikmannastefnunnar varðandi viðkomandi mál eða tillögu. Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu. Leynileg atkvæðagreiðsla skal fara fram ef einhver fulltrúi óskar þess.

 

3. gr. Tilgangur leikmannastefnu

Leikmannastefna er vettvangur almennra skoðanaskipta um málefni leikmanna og faglegur samráðsvettvangur aðila.

Fjallar um málefni leikmanna, hlutverk og störf sókna og sóknarnefnda, svo og um starf kristilegra félagasamtaka og aðra þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins

Kemur sameiginlega fram fyrir hönd leikmanna, sókna og sóknarnefnda gagnvart stjórnvöldum, stofnunum kirkjunnar, starfsmönnum hennar og samtökum þeirra svo og öðrum aðilum eftir því, sem við á

Eflir þátttöku leikmanna í starfi kirkjunnar og kynni þeirra sín á milli.

4. gr. Fulltrúar leikmannastefnu

Á leikmannastefnu eiga sæti með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt tveir fulltrúar leikmanna fyrir hvert prófastsdæmi, sem kjörnir eru á héraðsfundum til fjögurra ára í senn. Þó skulu prófastsdæmi með fleiri en 15 þús. íbúa eiga þrjá fulltrúa á leikmannastefnu og prófastsdæmi með fleiri en 30 þús. íbúa eiga fjóra fulltrúa. Kjósa skal varamann fyrir hvern fulltrúa.

5 gr. Fulltrúar leikmannastefnu án atkvæðisréttar

Leikmannastefnu með málfrelsi og tillögurétt sitja:

 1. Biskup Íslands eða fulltrúi hans
 2. Forseti kirkjuþings eða varaforseti
 3. Leikmenn á kirkjuþingi
 4. Leikmenn í kirkjuráði
 5. Aðrir þeir sem Biskup Íslands tilnefnir hverju sinni í samráði við leikmannaráð
 6. Fulltrúi frá hverjum þeim samtökum og félögum sem starfa á landsvísu innan Þjóðkirkjunnar.

6. gr. Afl atkvæða

Afl atkvæða ræður úrslitum mála á leikmannastefnu. Hver fulltrúi á leikmannastefnu sem nefndur er í 4. gr. fer með eitt atkvæði á leikmannastefnu.

 

7. gr. Leikmannaráð

Fulltrúar leikmannastefnu kjósa leikmannaráð úr hópi leikmanna skv. 4. gr. til fjögurra ára. Leikmannaráð er skipað þremur mönnum og jafnmörgum til vara og skulu þeir skipta með sér verkum. Leikmannastefna getur samþykkt að auka fjölda fulltrúa í leikmannaráði. Kjósa skal hluta leikmannaráðs á tveggja ára fresti. Heimilt er að endurkjósa leikmannaráðsfulltrúa. Leikmannaráð sér um undirbúning og framkvæmd leikmannastefnu í samráði við Biskup Íslands og er í fyrirsvari fyrir leikmannastefnu milli stefna. Þá annast leikmannaráð um framkvæmd þeirra mála sem leikmannastefna vísar til ráðsins. Kosning til leikmannaráðs, nefnda og annarra trúnaðarstarfa á vegum leikmannastefnu skal vera skrifleg og leynileg. Kjósa skal þriggja manna uppstillingarnefnd, á leikmannastefnu ári fyrir kosningu í leikmannaráð, er gerir tillögu um þá sem kjósa skal. Starfsmaður biskupsstofu er framkvæmdastjóri leikmannaráðs.

 

8. gr. Fjármál

Leikmannastefna hefur sérstakan fjárhag með rekstarstyrk frá kirkjumálasjóði.

Ferðakostnaður einstakra fulltrúa prófastsdæmanna greiðist af héraðssjóðum, þannig að allir héraðssjóðir bera sama kostnað á hvern fulltrúa, sem rétt á til setu á leikmannastefnu.

Leikmannaráð ákvarðar upphæð á hvern fulltrúa.

Kirkjuráð ber kostnað af setu kirkjuþingsmanna og kirkjuráðsmanna og biskupsstofa kostnað af setu biskups og annara fulltrúa biskupsstofu.

Samtök sem senda fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa, bera kostnað af þátttöku þeirra nema leikmannaráð ákveði annað.

Reikningsár er almanaksár.

Reikningar síðasta árs, endurskoðaðir og áritaðir, ásamt fjárhagsáætlun næsta árs skulu lagðir fyrir leikmannastefnu til samþykktar.

Kjósa skal skoðunarmann reikninga á leikmannastefnu til eins árs í senn.

 

9. gr. Gildistaka.

Reglur þessar öðlast gildi 1. júlí 2005.