Skýrsla og erindi

Helgi K. Hjálmsson, formaður Leikmannaráðs

 

Skýrsla og erindi

Biskup Íslands, ágætu leikmannastefnufulltrúar og gestir.

19. leikmannastefnan er nú að hefjast.

Þessi leikmannastefna er með nokkuð öðru sniði en venja er til.

Á síðustu kirkjudögum var hún beinn hluti af þeim, og haldin jafnhliða, sem varð þess valdandi að þátttakendur í leikmannastefnunni fóru á mis við fjölbreytta dagskrá og sýningar, sem til boða stóðu fyrir þátttakendur.

Það var því strax á fundi Leikmannaráðs 3. júní 2004, þegar Stefán Már Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Kirkjudaganna, kom á fund ráðsins og kynnti væntanlega kirkjudaga í júní 2005, að ég kom þá með þá hugmynd að í tengslum við kirkjudagana yrði haldin stór Leikmannastefna með fulltrúum úr öllum sóknum landsins og að reynt yrði að hafa stefnuna þannig að þátttakendur hennar gætu síðan notið kirkjudaganna.

Í ljósi þessa þá var ákveðið að Leikmannastefnan yrði haldin, sem sér liður ásamt Kirkjuþingi unga fólksins degi áður en hinir raunverulegu kirkjudagar hæfust og yrði síðan hluti af Kirkjudögum.

Mig hefur lengi langað til þess, að fá til fundar hóp sóknarnefndarfólks, sem allt vinnur að safnaðar- og kirkjumálum, til þess að setjast niður og ræða um safnaðarstarfið og hvernig megi efla það, okkur öllum til blessunar.

Í framhaldi af þessu ákvað Leikmannaráð að bjóða öllum sóknarnefndarformönnum á landinu til þátttöku í Leikmannastefnunni ásamt kjörnum fulltrúum og kirkjuþingsmönnum.

Yfirskrift þessarar leikmannastefnu er “Safnaðarstarf í þéttbýli og dreifbýli, og síðan er spurt : Hvers væntum við?. Eins og fram kemur í dagskráinni þá koma fyrirlesarar víða að, frá Ísafirði kemur Bergur Torfason, frá Siglufirði kemur Hermann Jónasson og frá Hvammstanga Lárus Jónsson og síðan í tengslum við síðari hluta Leikmannastefnunnar koma héðan úr Reykjavík prófessor Guðmundur K. Magnússon, formaður sóknarnefndar Nessóknar og sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur Nessóknar, sem munu sýna okkur hið glæsilega nýja safnaðarheimil Neskirkju og greina okkur frá safnaðarstarfinu þéttbýli.

Við væntum þess að líflegar umræður skapist bæði hér og vestur í Neskirkju um safnaðarstarfið.

Á síðustu leikmannastefnu, sem haldin var dagana 1. og 2. maí 2004 í hinu glæsilega safnaðarheimili Glerárkirkju, ræddi biskup Íslands um aðskilnað ríkis og kirkju og hvernig málum mundi skipast við þær breytingar. Hann gat þess að samband ríkis og kirkju væri eins og hjónaband. Í reynd er nú um aðskilnað á borði og sæng að ræða og fjárskilnaður þegar orðinn á milli ríkis og kirkju. Það samband, sem nú væri á, væri mjög hagkvæmt fyrir báða aðila. Hann hvatti okkur til að standa vörð um þann dýrmæta arf, sem við höfum hlotið og að ganga til móts við framtíðina í trú á lífið.

Á stefnunni ræddi Guðmundur Þór Guðmundsson , framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, um framtíð Leikmannastefnu í ljósi afgreiðslu Kirkjuþings 2003, þar sem kirkjuþing hafnaði tillögunum um nýjar starfsreglur. Þarna urðu miklar umræður um málið en bæði kirkjuþingsmenn og aðrir fulltrúar leikmannastefnunnar voru sammála því að Leikmannastefnan væri mjög gagnlegur vettvangur skoðanaskipta milli leikmanna um safnaðar- og kirkjustarfið.

Það þyrfti aðeins að laga orðalag samþykktanna lítilsháttar, til þess að vinna þeim brautargengi á Kirkjuþingi.

Leikmannaráði og framkvæmdastjóra Kirkjuráðs var falið að vinna að verkefninu.

Í Leikmannaráði sitja, kosin til tveggja ára á Leikmannastefnu 2003:

Helgi K. Hjálmsson, Kjalarnesprófastsdæmi, formaður

Jón Oddgeir Jónsson, Eyjafjarðarprófastsdæmi, ritari.

María Jóna Einarsdóttir, Borgarfjarðarprófastsdæmi, meðstjórnandi.

Marinó þorsteinsson, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, varamaður

Hermann Jónasson, Skagafjarðarprófastsdæmi, varamaður.

Guðný Guðnadóttir, Skaftafellsprófastsdæmi, varamaður

Leikmannaráð hélt 7 fundi á árinu og að auki áttu bæði framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, Guðmundur Þór Guðmundsson og Marinó Þorsteinsson, leikmannaráðsmaður, nokkra fundi með mér, um drög að samþykktum Leikmannastefnu, sem síðan var vísað til Kirkjuþings 2004, þar sem drögin að samþykktum fyrir Leikmannastefnu voru samþykkt og jafnframt að drög að þingsköpum yrðu lögð fyrir þessa Leikmannastefnu, til afgreiðslu.

Ég hefi beðið Marinó Þorsteinsson, um að gera grein fyrir þeim hér á eftir, en drögin voru send með fundarboðinu.

Á síðustu leikmannastefnu var meðal annars ályktað um fræðlumál eins og gert hefur verið á mörgum öðrum leikmannastefnum.

Ályktunin var svohljóðandi :

Leikmanastefna á Akureyri 1. og 2. maí 2004, ályktar að leggja þurfi aukna áherslu á símenntun leikmanana og óvígðs starfsfólks kirkjunnar samkvæmt starfsreglum um fræðslu:

Um fræðslu fyrir leikmenn innan kirkjunnar frá árinu 2000 er sagt í 2. grein:

Með fræðslustarfi kirkjunnar fyrir leikmenn skal:

· Gefa almenningi kost á fræðslu um trú, sið og kirkju.

· Veita starsfólki og sóknarnefndum þjóðkirkjunnar fræðslu um starfshætti kirkjunnar.

Til þess að framfylgja þessari stefnumörkun leggur Leikmannastefna til:

  • Að efla starf Leikmannaskólans, annars vegar með stærri fjárveitingu úr kirkjusjóðum og hins vegar með kynningarátaki á starfi hans meðal sóknarnefnda og leikmanna yfirleitt.
  • Að Leikmannaskólinn skipuleggi, hvetji til og standi fyrir námskeiðum fyrir sóknarnefndir og annað starfsfólk kirkjunnar víða um land á komandi hausti og það verði fastur liður í starfi hans á hverju ári.
  • Að Leikmannaskólanum verði gert kleift að skipuleggja og halda sérstök námskeið fyrir fræðara, til þess að aðstoða þá við að halda námskeið fyrir leikmenn í sínum heimabyggðum.
  • Að Leikmannaskólanum verði gert kleift að gefa út og láta vinna aðgengilegt námsefni fyrir þessi námskeið svo þátttakendur geti nýtt sér efnið áfram í starfi sínu.

Leikmannastefna hvetur sóknarnefndir og héraðsnefndir til að leggja Leikmannaskólanum lið við að framfylgja þessum markmiðum með aðstoð og fjárframlögum eins og frekast er kostur.

Nú er rétt að staldra við og sjá hvað gerst hefur í þessum málum.

Árum saman hefur leikmannastefna gert ályktanir um fræðslu fyrir leikmenn, sem starfa í sóknarnefndum, til þess að aðstoða þá við sín dýrmætu og fórnfúsu störf í þágu kirkjunnar.

En því miður þá hefur hingað til ekki verið lögð nógu mikil rækt við grasrótina sjálfa.

Þessu þarf að breyta.

Ég hefi talið nauðsynlegt að Leikmannaskólinn í samráði við Fræðsludeild biskupsstofu skipuleggi námskeið fyrir sóknarnefndarfólk, námskeið, sem ég hefi leyft mér að kalla “Að starfa í sóknarnefnd”.

Fulltrúi Leikmannaráðs, Arthur Knut Farestveit hefur tjáð mér, að núna loksins sé að verða breyting á þessu og það sé ætlunin að skipuleggja þessi námskeið með ákveðnum dagsetningum og staðsetningum. Ég leyfi mér að binda miklar vonir við þetta. Við verðum að gera þá kröfu til Leikmannaskólans og Fræðsludeildar að þessar stofnanir taki mark á ályktunum og samþykktum Leikmannastefna.

Þegar litið er í námsvísi Leikmannaskólans sést að öll námskeið, sem boðið er uppá 2004 – 2005 og ekki fjalla beinlínis um trú og trúarbrögð eru ódagsett og óstaðsett. Að mínu viti þá er nauðsynlegt að bæði dagsetja og staðsetja væntanleg námskeið um hverskonar leikmannastörf og námskeið fyrir sóknarnefndir, ef það er ranverulegur ásetningur að halda þau. Því miður þá verð ég að segja að mér finnst mjög miður að hvorki Leikmannaskólinn né Fræðsludeild hafa haft samband við Leikmannaráð um þessi efni. Sérstaklega í ljósi þeirrar ályktunar sem Leikmannastefna 2004 gerði og ég gerði grein fyrir hér að framan.

Nú skulum við leiða hugann að öðru og ekki síður mikilvægu atriði, en það eru samskipti leikmanna og presta.

Til þess að blómlegt safnaðarstarf geti dafnað, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, þurfa samskipti þessara aðila að vera í lagi, og þegar út af ber, að þá sé hægt að taka á þeim málum, strax, og með þeirri festu, sem nauðsynleg er til að koma málum í lag án tafar, en ekki að þurfa að búa við þau ósköp, sem ég þekki af eigin raun, þar sem ferlið hefur tekið eitt og hálft ár með þeim afleiðingum að safnaðarstarf og starfsgleði fer niður fyrir frostmark.

Svona mál þurfa að fá fljóta og skjóta afgreiðslu.

Þegar úrskurðar- og áfrýjunarnefndum var komið á með samþykktum kirkjuþings, leit ég svo á að þær væru fyrst og fremst tæki fyrir Biskup til að taka á erfiðum málum varðandi samskiptavandamál sóknarfólks og presta.

Tæki fyrir Biskup sem hann gæti skotið málum til, en þetta væri ekki vopn í hendi sóknarpresta og eða presta, sem í engu sinna fyrirmælum og sáttaumleitunum, til þess eins, að því er virðist, að draga á langinn varanlega lausn erfiðra mála, þar sem allt ferlið tekur marga mánuði, og á meðan það er í gangi virðist ekkert vera hægt að gera.

Kerfið þarf að vera þannig að strax og prófastur hefur reynt til þrautar sáttaumleitanir, þá geti hann veitt sóknarpresti áminningu og jafnframt vísað málinu til “aganefndar” á biskupsstofu. Ég kem þessari hugmynd hér á framfæri um aganefnd, þar sem mér finnst að starfsreglur úrskuraðarnefndarinnar vera flóknar og að allt ferlið þar tekur allt of langan tíma.

Í aganefnd ættu sæti þrír fulltrúar skipaðir af Biskupi.

Þessi aganefnd myndi kanna viðkomandi vandamál þegar í stað og meta og vísa því síðan til biskups, sem gæti afgreitt málið endanlega annaðhvort með tilflutningi eða áminningu, sem væri þá jafnframt önnur áminning.

Til þess að þetta kerfi virki eins og til er ætlast er nauðsynlegt að það sé Biskup, sem skipi sóknarpresta, eins og hann skipar presta, og að hann hafi þar fullkomið húsbóndavald. Þó svo að ráðherra skipi áfram sóknarpresta getur hann sem best framselt húsbóndavaldið í hendur Biskupi, ef einhver vafi leikur á því hvar það vald sé.

Ég er ekki að fara fram á breytingu við kosningu eða val á sóknarpresti, þar sem ég tel að það mál hafi fengið þokkalega lausn þegar kosningin var færð framfyrir valnefndina.

Raunar tel ég ferlið óþarflega flókið, sérstaklega hvað varðar valnefndina, og hæfnismatið, en það er annað mál.

Þegar Frú Sólveig Pétursdóttir, var kirkjumálaráðherra, kynnti hún á kirkjuþingi frumvarp til laga, sem hún hugðist leggja fyrir alþingi, þess efnis að færa veitingavald á embættum sóknarpresta til biskups.

Því miður bar kirkjuþing ekki gæfu til að samþykkja þessar tillögur.

Var raunar kolfellt, að undirlagi presta á kirkjuþingi, að því er ég tel.

Auðvitað á húsbóndavaldið að vera hjá Biskupi og hann á að hafa óskorað vald til þess að færa presta til í starfi þegar þess gerist þörf.

Ennfremur er nauðsynlegt að 5 ára skipunartíminn sé raunverulegur og að ekki þurfi árs fyrirvara, ef safnaðarfólk óskar eftir breytingu.

Svona kerfi þarf að vera einfalt í sniðum og sveigjanlegt.

Ég hygg að það sé skynsamlegt að þessi leikmannastefna geri ályktun til kirkjuráðs og kirkjuþings um málefni og samskipti safnaða og presta, svo og um djákna. Það er nauðsynlegt að ljóst sé hvar húsbóndavaldið sé varðandi djáknanna ekki síður en prestana. Staða djákna er svolítið sérstök, þar sem þeir eru ráðnir af sóknarnefnd, en starfa í samvinnu við presta.

Ályktunin gæti litið þannig út:

Leikmannastefna 2005 beinir þeirri tillög til Kirkjuráðs og Kirkjuþings 2005, að það beiti sér fyrir því, að meðferð agavandamála verði skilvirkari og fljótvirkari en nú er, þannig að safnaðarstarf þurfi ekki að líða lengi vegna erfiðra vandamála, sem upp kunna að koma milli presta og safnaða. Leikmannastefnan bendir á, að hugsanleg lausn vandans sé að öll vafaatriði varðandi húsbóndavaldið sé ljóst, jafnframt því sem próföstum sé veitt vald til þess að gefa fyrstu áminningu. Ef þetta dugar ekki og þegar sáttatilraunir hafa verið reyndar til þrautar, sé unnt að vísa málum til svokallaðrar “aganefndar” til meðferðar, sem aðstoði biskup við lausn viðkomandi máls.

Varðandi stöðu djákna innan kerfisins er brýnt að skilgreint sé hvar húsbóndavaldið sé varðandi störf þeirra og ábyrgð.

Um greinargerð með þessari tillögu vísast til þess, sem hefur verið sagt hér að framan.

Reikningsuppgjör ársins 2004 var sent með fundarboði.

Eins og fram kemur þá var uppgjörið yfirfarið af félagskjörnum skoðunarmanni, Bergi Torfasyni, og áritað þann 22. janúar 2005. Ég vil færa Bergi þakkir fyrir hans störf og þá breytingu, sem hann gerði á uppsetningunni frá fyrri árum til hins betra. Ég tel að þessi uppsetning gefi betri mynd af fjárhag Leikmannastefnunnar.

Reikningsuppgjörið var svo lagt fyrir Leikmannaráð 12. maí 2005, sem staðfesti það með áritun sinni.

Reikningsuppgjör ársins 2004.

I. Tekjur.

Krónur

Samtölur.

Greiðslur frá héraðssjóðum

525.000

Ógr. Héraðsjóður Ísafjarðarprófastsdæmis

35.000

Kristnisjóður

400.000

Vextir.

4.651

964.651

II. Gjöld.

Fulltrúakostnaður á leikmannastefnu

715.444

Fyrirlestrar á leikmannastefnu

0

Bankakostnaður

790

Ritföng, ljósrit, frímerki

2.387

Fjármagnstekjuskattur

464

Fundir og ferðakostnaður Leikmannaráðs.

400.553

1.119.638

Rekstrarafkoma ársins.

-154.987

III. Eignir.

Peningar í sjóði 31. desember 2004

15.263

Innistæða á Hlr. 200974

317.503

Ógr. Héraðsjóður Ísafjarðarprófastsdæmis

35.000

367.766

IV. Skuldir.

Ógreiddir reikningar

303.480

Flutt frá fyrra ári

219.273

Mínus rekstrarhalli ársins

-154.987

Hrein eign flutt til næsta árs.

64.286

64.286

367.766

Ég vil geta þess hér að Héraðssjóður Ísafjarðarprófastsdæmis hefur nú loks greitt skuld sína þannig að ekkert er útistandandi í dag og engir ógreiddir reikningar.

Þess ber að geta að sá dráttur, sem varð á greiðslum frá nokkrum héraðssjóðum og þá sérstaklega héraðssjóði Ísafjarðarprófastsdæmis er afskaplega hvimleiður og olli óþarfa kostnaði og erfiðleikum. Ég sé ekki nokkra afsökun fyrir því að draga lögboðnar greiðslur, svona eins og þarna átti sér stað.

Ég vil geta þess að langflestir héraðssjóðir greiða sína reikninga strax og þeir berast.

Á fundi Leikmannaráðs var samþykkt að færa reikningshald Leikmannastefnu til Biskupsstofu, þar sem frú Magnhildur Sigurbjörnsdóttir er orðin starfsmaður okkar.

Hefur það nú verið gert og mun gjaldkeri biskupsstofu annast um greiðlu reikninga og halda utanum reikningshaldið.

Það hefur strax sýnt sig hvað það er mikilvægt að hafa á að skipa góðu starfsfólki og vil ég nota þetta tækifæri og þakka Magnhildi Sigurbjörnsdóttur mínar bestu þakkir fyrir mjög ánægjulegt samstarf, svo og meðstjórnarfólki mínu í Leikmannaráði , sem nú ljúka störfum, þar sem samkvæmt samþykktum Kirkjuþings á að kjósa nýtt Leikmannaráð hér á þessum fundi.