Fundargerð

22. Leikmannastefna Þjóðkirkjunnar í Vídalínskirkju í Garðabæ
19.-20. apríl 2008

Þann 4. mars 2008 sendi biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson út bréf sem boðaði til Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar þann 19.- 20 apríl í Vídalínskirkju í Garðabæ, ásamt eftirfarandi dagskrá.

Laugardagur 19. apríl 2008

10.00 Setning leikmannastefnunnar
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands
10.30 Kosning fundarstjóra og fundarritara
Kynning fulltrúa og gesta
Skýrsla leikmannaráðs og reikningar
Formaður leikmannaráðs: Marinó Þorsteinsson
Umræður
11.00 Samantekt frá Kirkjuþingi 2007
Ragnhildur Benediktsdóttir, skrifstofustjóri Biskupsstofu
11.30 Kirkjan og samfélagið.
Frummælendur:
Sveinbjörn Markús Njálsson, skólastjóri Álftanesskóla
Margrét Elíasdóttir, leikskólastjóri Blásölum, Reykjavík
Birgitta Thorsteinsson, Félag kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum,
12.15 Hádegisverður
Erling Ásgeirsson, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, flytur ávarp.
13.00  Kirkjan og samfélagið, framhald frá því fyrir hádegi.
Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarforstjóri, Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
Hörður Jóhannesson, varalögreglustjóri. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
14.00 Fyrirspurnir
Skipt í umræðuhópa
15.30 Kaffihlé
16.00 Samantekt og skil frá umræðuhópum
17.00 Fundarhlé
19.00 Sameiginlegur kvöldverður í safnaðarheimili Vídalínskirkju

Sunnudagur 20. apríl 2008
9.30 Kosning skoðunarmanns reikninga
Afgreiðsla mála
11.00 Messa í Vídalínskirkju
12.00 Hádegisverður og slit leikmannastefnu

Laugardagur 19 . apríl 2008

1. Setning Leikmannastefnu

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson setti 22. Leikmannastefnu í Vídalínskirkju. Hann fór með bæn, ritningarlestur, sungnir voru sálmar og síðan flutti hann stutt ávarp.
Þar sem hann fjallaði um samstarf kirkjunnar við skóla, lögreglu og sjúkrastofnanir. Stefnuskrá þjóðkirkjunnar fyrir þetta ár væri einmitt samstarf þjóðkirkjunnar við hinar ýmsu stofnanir. Einnig þakkaði hann leikmannastefnufulltrúum áralangt starf fyrir kirkjuna og óskaði góðs gengis á leikmannastefnunni. Síðan var gengið til safnaðarheimilis Vídalínskirkju.

2. Leikmannastefnan

Marinó Þorsteinsson formaður leikmannaráðs bauð alla velkomna og þakkaði biskupi fyrir góða ræðu.

Fundarstjóri var kosinn Jón Hákon Magnússon Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Fundarritarar voru kosnir Elfa Björk Bragadóttir Húnavatnsprófastsdæmi og Magnhildur Sigurbjörnsdóttir framkvæmdarstjóri leikmannaráðs.

Leikmannstefnuna sátu 40 fulltrúar og gestir (sjá fylgiskjal 1).

3. Skýrsla Leikmannaráðs og reikningsuppgjör

Formaður Leikmannaráðs Marinó Þorsteinsson flutti skýrslu ráðsins og greindi frá reikningsuppgjöri 2007 (sjá fylgiskjal 2).

Engar umræður urðu um skýrsluna og reikningsuppgjörið, sem var síðan borið upp til samþykktar og var samþykkt samhljóða.

Fyrirspurn kom upp varðandi kostnað fulltrúa á leikmannastefnu frá Ólafi Valgeirssyni Múlaprófastsdæmi.  Marinó Þorsteinsson svaraði því að reikningar vegna útlagðs kostnaðar ætti að senda til leikmannráðs, biskupsstofu.

4. Samantekt frá Kirkjuþingi 2007

Ragnhildur Benediktsdóttir skrifstofustjóri biskupsstofu tók saman helstu mál og samþykktir kirkjuþings frá 2007 (sjá fylgiskjal 3).
Áhugi leikmannastefnufulltrúa beindist aðallega að reglum um breytingum á starfsreglum um sóknarnefndir og um breytingar á starfsreglum um presta.

5. Kirkjan og samfélagið

Fjallað var um samstarf kirkjunnar við skóla, lögreglu og sjúkrastofnanir en yfirskrift stefnunnar var „Kirkjan og samfélagið.“ Frummælendur sögðu frá samstarfi kirkju og skóla, verkefninu Vinaleið, samstarfi sjúkrahúsa og kirkju og lögreglu og kirkju. Í máli þeirra kom skýrt fram að þetta samstarf er afar dýrmætt bæði skólum, löggæslu og starfi inn á sjúkrahúsum.

Fyrstur var Sveinbjörn Markús Njálsson skólastjóri Álftanesskóla sem sagði frá verkefninu Vinaleið (sjá fylgiskjal 4) og hvernig hefur gengið í samstarfi Álftanesskóla og Garðaprestakalls. Það starf stuðlar enn frekar að vellíðan barnanna í skólanum í formi sálgæslu og stuðnings. Almenn ánægja sé með verkefnið bæði af hálfu nemenda, starfsfólks skólans og foreldra.

Birgitta Thorsteinsson grunnskólakennari fjallaði um kennslu í kristinfræði, trúarbragðafræðum og siðfræði. (sjá fylgiskjal 5). Kom hún inn á í máli sínu að það þyrftu að vera skýrar línur varðandi hvernig kirkja og skóli ættu með sér samstarf. Starfið í skólanum væri á forsendum skólans en í kirkjunni væri starfið á forsendum kirkjunnar. Hún fjallaði líka um möguleika sem fælust í því að kirkjan hefði frumkvæði að því að búa til fræðsluefni um kristna trú og kirkju sem gæti nýst í kennslu í grunnskólunum.

Margrét Elíasdóttir leikskólastjóri í Blásölum sagði frá samstarfi Árbæjarsóknar og leikskólans um dyggðaþema.(sjá fylgiskjal 6). Þar kemur æskulýðsfulltrúinn úr Árbæjarkirkju í heimsókn og vinnur með börnunum að dyggðaþema þar sem fjallað er um vináttuna og kærleikann. Almenn ánægja er með þetta samstarf leikskólans og kirkjunnar og börnin njóta þess vel.  Einnig sagði hún frá því hvernig prestar í Árbæjarkirkju komu að til aðstoðar varðandi andlát barns.

Góð umræða átti sér stað eftir þessi þrjú erindi.  Spurt var um vinaleiðina hvort nemandi sjálfur geti sótt sér aðstoðar, án samþykktar foreldris. Svar:  Vinaleiðin er margþætt og þurfa nemendur 1. – 7. bekkjar að fá samþykki foreldra sinna. En nemendur 8. – 10.  bekkjar þurfa ekki samþykki foreldra. Einnig var spurt um hvort barn sem kynnist skólaráðgjafa (prests) það vel að það tjái sig um mál eins og misnotkun á heimilinu.  Svar:  Því er til að svara að það er til skýrsla hjá Álftanesskóla varðandi þetta og þar er komið inn á trúnað milli barna og allra starfsmanna, barnaverndarnefndar og trúnað við foreldra.  Hjá leikmannastefnufulltrúum kom fram að það þyrfti að ræða betur um samskipti milli skóla og kirkju og komast að góðri niðurstöðu. Það þyrfti að koma í veg fyrir neikvæða umræðu.  Fulltrúarnir þökkuðu fyrir góð erindi og sögðu að þetta væri þörf umræða og gott að heyra mismunandi sjónarmið.

Klukkan 12.30 var gert matarhlé. Matur var í boði Bæjarstjórnar Garðabæjar. Erling Ásgeirsson forseti bæjarstjórnar flutti stutt ávarp og sagði sögu Garðabæjar.

  
Framhald af umræðum um kirkjuna og samfélagið hófst kl. 13.45

Í máli Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra kom fram að á LHS starfa 7 prestar og 1 djákni, en 6 kapellur eru á stofnuninni (sjá fylgiskjal 7) . Í starfi prestanna og djáknans er sálgæslan stærsti þátturinn og þar er einnig sinnt  þeim hópi sem tengist hverjum sjúklingi, aðstandendur og ástvinir.

Hörður Jóhannesson varalögreglustjóri fjallaði um samstarf presta og lögreglu. Hversu mikilvægt þetta samstarf væri og nauðsynlegt. Oft væri samt nauðsynlegt að lögreglan sinnti betur upplýsingagjöf til presta varðandi váleg tíðindi sem þeir þyrftu að bera fólki, því að prestarnir sitji oft uppi með vandann.  Einnig sagði hann frá kyrrðardögum sem lögreglumenn hefðu farið á í Skálholti

Geirjón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði frá samstarfi kirkjunnar og lögreglu í miðborginni. Nefndi hann sérstaklega samstarf miðborgarprests og lögreglunnar og hversu áhrifaríkt það starf hefði verið. Sérstaklega þegar tókst að sporna við hópasöfnun ungmenna í miðborginni í kjölfar samræmdu prófanna og einnig á menningarnótt og á 17. júní. Dómkirkjan er að gera góða hluti og Kvöldkirkjan kærkomin, en opna þarf samt kirkjuna meira. Besta forvarnarstarfið er að börn séu sem mest heima. Börn eru afleiðing en ekki orsök

Nokkrir tóku til máls eftir þessi erindi. Almenn ánægja með aukið samstarf fagfólks spítalanna og kirkjunnar. Fréttir af slysum væru oft komnar í fréttir áður en búið er að tilkynna aðstandendum. Það þyrfti að stöðva.  Auka þarf samstarf kirkjunnar við lögregluna.

Kl. 14.30 var skipt í fjóra umræðuhópa þar sem farið var yfir erindin sem flutt höfðu verið fyrr um daginn. Þeir sem fóru fyrir hópunum voru Steindór Haraldssson, Reynir Sveinsson, Anna þóra Paulsdóttir og Þórdís Friðbjörnsdóttir.

Kl. 15.30  Kaffihlé. Kaffið og kökur voru í boði sóknarnefndar Garðasóknar.

Kl. 16.10  Umræðuhóparnir gera grein fyrir niðurstöðum hópanna

Umræðuhópur 1:  Steindór Haraldsson gerði grein fyrir  niðurstöðum.

Í breyttu samfélagi er þörfin meiri í dag en var áður fyrir vinaleið.  Með upplýstri umræðu á að auka við þjónustuþörf barna og fleirri tilboð til þeirra efla vinaleiðina.

Kirkja og skóli ættu að þróa í samvinnu vinarleið og vera með hana í stöðugri þróun, samtalsþróun.

Hvernig á kirkjan að bregðast við því að kristin orð megi ekki heyrast í skólanum.
Kirkjan verður að standa vörð um sín gildi.  Menning og hefðir okkar byggjast á kristnum gildum.  Kirkjan hefur sameinast við það að fá gagnrýni á sig.

Gleður okkur hversu margir prestar starfa á LHS og hve sterk trúarleg þjónusta virðist í raun vera. Spurningin er hvort söfnuðir séu of stórir ef fólk veit ekki hvert þeir eiga að leita.

Æskilegt er að kirkjan komi þjónustu sinni betur á framfæri.  Hvers mátt þú búast við af presti þínum varðandi almenna þjónustu? Þarf kirkjan að kynna betur þjónustu sína inn á heimilinum?

Forvarnir lögreglu og miðborgarprests þarf að eflast. Samstarf lögreglu og kirkju þarf að byggja upp til að unnt sé að vinna betur saman við erfiðar aðstæður(áföll).

Umræðuhópur 2: Reynir Sveinsson gerði grein fyrir niðurstöðum.

1. Vinaleið verði þróuð áfram, vera óhrædd að koma fram sem kristinn.  Við ættum að stíga hægt til jarðar í þróuninni. Vinaleiðin er ein leið til að leita eftir einmana sálum.

2.  Háværar mótmælaraddir ráða ferðinni.  Lögð verði meiri áhersla á kristnifræði. breyttar aðferðir í fræðslu en vera sönn í okkar fræðslu en gæta fyllsta umburðarlyndis, hvort sem er í leikskóla eða grunnskóla.

3. Sjúkrahúsið er óhrætt við stefnumótun sína og uppsker eins og sáð er til.  Fögnum nánu samstarfi milli sjúkrastofnanna og biskupsstofu.

4. Samvinna lögreglu og kirkju er mjög góð og er að eflast.

Lokaorð:  Heilt á litið eftir fróðleg erindi. Þeir sem þora að standa á sínu og segja ég er kristinn, sjá árangur.

Umræðuhópur 3: Þórdís Friðbjörnsdóttir gerði grein fyrir niðurstöðum

Kirkjan og skólarnir:
Samstarf þessara stofnana er mikilvæg, sama hvert skólstigið er.  Samstarfið þarf að vera faglegt  og skýrt afmarkað svo markmið og hlutverk hvers og eins sé skýrt.  Góð kynning fyrir skólann og hverfið. Foreldraráð og foreldrafélög eru nauðsynleg.

Kirkjan þarf að standa fast á sínu en jafnframt að sýna öðrum viðhorfum virðingu.

Kirkjan og aðrar stofnanir:
Samskipti og samstarf eru nauðsynleg. Mun meira en almenningur gerir sér grein fyrir.  Þau þurfa ekki alltaf að vera með formlegum hætti.

Farsælt er að kirkjan kemur að starfi fyrir ungt fólk með öðrum, samanber RKÍ, Lögreglu og Slysavarnarfélaginu.  Það á að vera jafn eðlilegt að kirkjan taki þátt í slíku samstarfi á jafnréttisgrundvelli, sem og einhver annar.

Hópur 4: Anna Þóra Paulsdóttir gerði grein fyrir niðurstöðum.

Samstarf kirkju og skóla/leikskóla:
Efna á til samræðna milli skóla, foreldra og kirkju um kristinfræðifræðslu í skólum.
Efla á kennara í starfi sínu og bjóða þeim fræðslu og stuðning í kirkjunni.
Samræma á faglegt efni í trúarbragðafræðslu sem og kristnifræði þannig að kennarinn geti kennt það faglega og það vegi ekki á móti hans lífsskoðun.
Vinaleiðin módel frá Álftanesskóla. -  Kirkjan gæti stutt þróunarstarfið með fjárframlagi á móti sveitarfélagi/sóknarnefnd. Gera það varanlega.
Kl. 17.00  Fundarhlé

Kl. 19.00  Sameignlegur kvöldverður í safnaðarheimili Vídalínskirkju í boði Héraðsnefndar Kjalarnesprófastsdæmis. Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur flutti fróðlegt erindi um þátt leikmanna í kirkjustarfi. Kór eldri borgara úr Garðabænum söng nokkur lög.

Sunnudagur 20 apríl

Kl. 9.30  Jón H. Magnússon fundarstjóri bauð alla velkomna og þakkaði fyrir gærdaginn.  Síðan tók Marinó Þorsteinsson  formaður Leikmannaráðs til máls og lagði til að Bergur Torfason Vestfjarðarprófastsdæmi yrði kosinn skoðunarmaður rekstraryfirlits.
Það var samþykkt samhljóða.

Samþykktar voru tvær ályktanir. Í fyrri ályktuninni sem borinn var fram af Helga K. Hjálmssyni er hvatt til þess að samstarf skóla og kirkju, hin svo kallaða vinaleið verði efld, eftir því sem tök eru á, í ljósi þeirra ómetanlegu aðstoðar, sem hún hefur möguleika á að veita.

Síðari ályktunin var borinn fram af Marinó Þorsteinssyni. Þar er þakkað hið mikla samstarf kirkjunnar við skóla, heilbrigðisstéttir og löggæslu. Starf sem oft er unnið í kyrrþey en með markvissum hætti. Leikmannastefna leggur mjög mikla áherslu á að þetta samstarf eflist og haldi áfram með enn meiri krafti

Undir liðnum önnur mál spunnust nokkrar umræður:

  • Leikmannastefnufulltrúar voru óánægðir með hvað fáir Kirkjuþingsmenn(leikmenn) sátu stefnuna
  • Á Leikmannastefnuna vantaði síðari daginn starfsfólk frá biskupsstofu til að svara fyrirspurnum undir liðnum önnur mál
  • Fræðslusvið Biskupsstofu þarf að vera sýnilegra þó helst út á landi,  Þar sem fjármagn hjá sóknum er af skornum skammti til að fá góða fyrirlesara eða aðra fræðslu.  Út á landi fara öll sóknargjöldin í viðhald eða laun. Þannig ætti fræðslusviðið að bjóða landsbyggðinni ókeypis námskeið. Landsbyggðin ætti að fá sömu þjónustu og þéttbýlið.
  • Hafa þarf meiri eftirlit með prestum(sérstaklega úti á landi) að þeir sinni sínu hlutverki. Þetta ætti ekki við um alla og margir prestar væru að sinna hlutverki sínu og það vel.
  • Ímynd  kirkjunnar(ásýnd) þarf að bæta. Sérstaklega í þeirri umræðu sem hefur verið undanfarið í þjóðfélaginu. Láta meira í okkur heyra.
  • Erindin sem flutt voru á Leikmannastefnunni voru talin mjög góð og umræðan þörf. Þau þyrfti samt að ræða þetta betur og komast að góðri niðurstöðu þar sem allir eru sáttir.

Marinó Þorsteinsson formaður leikmannaráðs þakkað fundarstjóra röggsama fundarstjórn, fundarriturum sín störf og  leikmannastefnufulltrúum fyrir góða stefnu og umræðu og sleit síðan stefnunni kl. 10.45.

Síðan var gengið til messu þar sem sr. Friðrík Hjartar þjónaði fyrir altari, Marinó Þorsteinsson prédikaði og leikmannastefnufulltrúar lásu ritningarlestra og aðstoðuðu við útdeilingu.