Setningarræða

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands

Verið velkomin til Leikmannastefnu 2011, fulltrúar sókna og safnaða, kristilegra hreyfinga, stjórnvalda kirkjunnar. Þið birtið grasrótina í þjóðkirkjunni. Þakka ykkur fyrir það sem þið leggið kirkjunni í té með þátttöku ykkar í starfi hennar og styrkir stöðu hennar og vitnisburð. Ég þakka Marinó Þorsteinssyni, formanni Leikmannaráðs og Leikmannaráði einkar gott samstarf og samskipti, og Magnhildi Sigurbjörnsdóttur fyrir að halda vel utanum málefni Leikmannastefnunnar og undirbúning allan. Prestum og forráðamönnum Árbæjarkirkju þakka ég góðar móttökur.

Tvennt verður einkum hér á dagskrá. Stefnumótun þjónustu þjóðkirkjunnar og ríki og kirkja. Þetta er skylt. Þjóðkirkjan er að skilgreina þjónustu sína, sjálfsmynd og grunnstarfsemi meðal annars vegna þess að sá bakhjarl sem ríkisvaldið og löggjafinn hefur verið hinum kristna sið í landinu er ekki eins traustur og skyldi.

Fermingarnar setja nú svip á þjóðlífið þetta vor eins og löngum áður. Enn munu um 9 af hverjum 10 börnum á 14. aldursári fermast. Flest okkar munum vera við eina eða fleiri fermingar eða sitja fermingarveislur þessar vikurnar og gleðjast yfir unglingi sem vinnur heilagt heit í helgidómum þjóðkirkjunnar. Þetta er hefður, siður sem grípur inn í þjóðarsálina. Eins er um skírnir og jarðarfarir. Þarna er þjóðkirkjan sýnileg sem samfélag og vettvangur sem leggur okkur til orð og athöfn og merkingarmynstur á mikilvægum krossgötum. Þegar nýr einstaklingur er kominn í heiminn þá kemur kirkjan upp að hlið okkar tekur utanum barnið, foreldrana, samfélagið með orði sínu og atferli og minnir á að þetta varnalausa barn er þáttur í samhengi sem er meira, stærra, dýpra, hærra, auðugra en fjölskyldan, samfélagið, þjóðin, ríkið, sem það tilheyrir. Þegar unglingurinn er á þeim krossgötum frá bernsku til fullorðinsára þá gerist það sama. Við eigum það víst áreiðanlega flest öll sameiginlegt að við vorum fermd og eigum „ömurlegar“ fermingarmyndir einhvers staðar á góðum stað! Þetta er iðkun, samfélag, samhengi, orð og athöfn, hátíð sem kveður það sem að baki er í kærleika og fagnar því sem framundan er í von og trú. Þú ert ekki einn, þú ert ekki ein, segir þetta samhengi, þú gengur troðna slóð, þrátt fyrir allt. Við höfum fetað þessa leið, við sem eldri erum, já og gengnar kynslóðir. En einn er sá sem gengið hefur leiðina alla og á enda, og lengra. Það er frelsarinn Jesús. Þetta er þjóðkirkjan umfram allt, þetta samhengi, mynstur, athöfn og orð. Og hún verður það svo lengi sem hún snertir samfélagið, heimilin og fjölskyldurnar.
Það er margt hægt að segja um þjóðkirkjuna, en eitt er víst að hún er sýnileg í athöfnum sínum.

Þjóðkirkjan er stofnun, en jafnframt því er hún hreyfing.

Hún er fjöldahreyfing á 3. hundrað safnaða. En hún er líka opinber stofnun, lögbundin. Þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju þá er mikilvægt að hafa þetta í huga og sjá fyrir sér hvað menn vilja. Ég sé ekki fyrir mér að vilji sé fyrir því að þjóðkirkjan verði skilgreind sem frjáls félagasamtök, hliðstætt td Rauðakrossinum eða Rótarý, eða AA samtökin. Ég hef talið að það væri samfélagslegur styrkur fólginn í því að vera opinber stofnun, bundin lögum, svo sem stjórnsýslu og jafnréttislögum, fjármál hennar undir eftirliti Ríkisendurskoðunar, svo eitthvað sé nefnt.

Verði kirkjan einungis skilgreind sem hreyfing eða frjáls félagasamtök þá verða söfnuðir hennar skoðanasamfélög, samfélög um skoðanir, trúar- eða landsmálapólitískar skoðanir. Sú er ekki raunin um þjóðkirkjuna. Hún er ekki skoðanasamfélag, meðlimir hennar eru ekki krafðir um skoðanir á hinu eða þessu. Þegar við játum trúna í guðsþjónustu kirkjunnar erum við ekki að samsinna eða samþykkja hvert einasta orð, við erum að staðsetja okkur í samhengi sem á sér djúpar rætur í sögu, menningu og samfélagi og af þeim rótum spretta þeir ávextir sem helst og fremst munu næra og styrkja samfélag okkar til framtíðar. Mér finnst þetta atriði mikilvægast um þjóðkirkjuna: Hún er samhengi sem við stöndum í.
Hér eru ríki og kirkja að miklu leyti aðskilin og ríkið telur sig ekki bundið trúnaði við þjóðkirkjuna eina, heldur ber skyldur gagnvart öðrum trúfélögum og ber að sýna jafnræði.
Skv. stjórnarskrá segir: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Merkilegt er hve þessu hefur verið lítill gaumur gefinn.

En hvað gerist ef það ákvæði er fellt út? Stundum er talað um allnokkurn fjölda laga og lagagreina myndu falla úr gildi í kjölfarið, lög um helgidagafrið eru þar á meðal og að sjálfsögðu kirkjulögin. Ég er hins vegar hreint ekki viss um að neitt af þessu þyrfti endilega að falla, þótt svo að stjórnarskrárákvæðið færi. Og kannski sæjum við ekki svo miklar breytingar í fyrstu.

Það fyrsta sem við sæjum hverfa væri guðsþjónusta í tengslum við innsetning forseta Íslands og setningu alþingis. Það er út af fyrir sig.

Eitt af því sem ég tel brýnt að vinna að í tengslum við þær breytingar á sambandi ríkis og kirkju sem verða, er að efla stofnanir kirkjunnar og þátttöku og ábyrgð leikmanna. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þá veru, en betur má ef duga skal. Ég tel td afar mikilvægt að breyta starfsreglum um biskupskjör og auka vægi leikmanna umtalsvert. Ég hef varpað fram hugmynd um það að valnefndir prestakallanna kjósi kjörmann. Þannig næðist meira jafnræði. Ég vona að kirkjuþing samþykki slíkar breytingar á hausti komanda.

Orðið þjóðkirkja er ekki heiti heldur verklýsing, stefnuskrá. Hin evangelísk- lútherska kirkja hefur skyldum að gegna við íslenska þjóð, stofnanir og samfélag. Mörgum rennur til rifja ófullkomleiki kirkjunnar og vandkvæði sem hrjá hana.

Kirkjan er sjaldnast eins og við viljum hafa hana. Hún er ekki hugarsýn í hæðum fullkomleikans. Hún er samfélag við Orðið sem varð hold, sýnilegur á okkar jörð, í mannlegri sögu. Drottinn Jesú Krist. Kirkjan er þrátt fyrir það allt sem við erum og gerum. Guð veit hvað hann er að gera með því að gefa okkur einmitt þessa kirkju sem við fæddumst inn í, sem ól okkur við móðurbrjóst sín, sem leiðir okkur fram fyrir auglit hans og að lindum orðs hans og borðs í samfélagi við annað fólk. Guð blessi það allt og þau öll sem hann elska.

Leikmannastefna 2011 er sett.