Setningarræða Biskups Íslands

Leikmannastefna 2012 Setning

  Formaður Leikmannaráðs, Marinó Þorsteinsson, forseti kirkjuþings, Margrét Björnsdóttir, ágætu leikmannastefnufulltrúar. Það er mér heiður og gleði að fá að setja Leikmannastefnu. Þetta er í 15. sinn og hið síðasta. Að leiðarlokum þakka ég góð samskipti og samstarf við Leikmannastefnu. Hún hefur verið mér einkar kær. Ég hef notið ánægjulegra samskipta á þessum vettvangi og samskiptin við Leikmannaráð og formenn þess, þá Helga Hjálmsson og Marinó. Ég við þakka þau samskipti sérstaklega, og við ykkur hin sem hafið haslað ykkur völl á þessum vettvangi.
Eins þakka ég Magnhildi Sigurbjörnsdóttur hennar góða starf í þágu Leikmannastefnunnar, hún hefur haldið utan um hlutina með mikilli prýði og sóma.
Ykkur öll, kæru vinir, fel ég góðum Guði á hendur. Og það sem þið eruð fulltrúar fyrir. Þið eruð fulltrúar um 280 sókna, safnaða þjóðkirkjunnar í landinu! Því megið þið aldrei gleyma. Ykkur finnst ef til vill þið vera fá og smá, en þið eruð fulltrúar safnaðanna í landinu, víðfeðmustu almannahreyfingu landsins, sem þjóðkirkjan er!

Á þessum vegamótum leita á mig orð sem mér eru afar hugstæð, og sem ég vildi leggja ykkur á hjarta sérstaklega. Annað er úr guðspjöllunum, hitt Vídalínspostillu.
Í Matteusarguðspjalli 13. kafla segir: „Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er himnaríki súrdeigi er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt.“
Hinn textinn er frá meistara Jóni Vídalín. Í  aðfararorðum postillu sinnar segir hann: „Hinni dýrkeyptu Jesú Kristi brúði Kristilegri kirkju Guðs í Íslandi, minni hjartkærri móður, óska ég friðar og heilla af sínum unnusta.“
„Elskulega móðir!“ Þannig ávarpar hann kirkjuna sína með hlýju og kærleika. „Unnusta“ kallar hann sig. Hann á við þann sem elskar, ann og er skuldbundinn. Kirkjan hefur oft fyrr og síðar verið nefnd móðir. „Kirkjan er oss kristnum móðir,“ segir í fallegum sálmi sem oft er sunginn við upphaf Leikmannastefnu. Kirkjan elur og nærir trúna, hún leggur okkur bænamálið á varir, hún styður okkur fyrstu skrefin á vegi trúar og siðar. Eins og Jón Vídalín, forðum, blessa ég þá móður og bið henni heilla og friðar. Unnustar hennar erum við, við elskum hana og viljum henni allt hið besta. Það held ég áreiðanlega að við eigum öll sameiginlegt.
Höfum þessi orð í huga: Móðir, unnusti.   
Mér rennur til rifja hve iðnir ýmsir eru að tala þjóðkirkjuna niður. Nú er sem það sé til marks um sérstakt vit og yfirburði að gagnrýna allt í tætlur. Hver greinin og bloggfærslan rekur aðra sem draga fram hið neikvæða í fari kirkjunnar. „Kirkja óttans,“ er þessháttar yfirskrift sem prýðir vef kirkjunnar. Hvaða tilgangi þjónar svona merkimiðar og orðaleppar? Hver er annars þessi kirkja óttans, já eða djörfungar, eins og næsta grein nefndist að því  mig minnir? Og hvað er þessi kreppa kirkjunnar sem gjarna er haldið fram og ma er til umræðu hér á leikmannastefnu?
 
„minni hjartkærri móður, óska ég friðar og heilla af sínum unnusta.“
Við erum öll börn hjartkærrar móður. Við erum öll unnustar heilagrar kirkju. 
Það eru tímamót í kirkjunni okkar og miklar breytingar í deiglunni, það mun móta leikmannastefnu að þessu sinni. Guð styrki ykkur öll, uppörvi, efli og styðji í öllum góðum vilja og verki.  
Frumvarp til þjóðkirkjulaga verður hér til umfjöllunar og það leiðir hugann að spurningunni sem lögð verður fyrir þjóðina ef að líkum lætur vegna tillagna Stjórnlagaráðs og varðar framtíð þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá. Ég vænti þess að hið þétta og stóra landsþekjandi net leikmanna, trúnaðarmanna þjóðkirkjunnar sem Leikmannastefnan er fulltrúi fyrir, láti sig þetta mál varða og láti í sér heyra um framtíð þjóðkirkjunnar.

Í núgildandi stjórnarskrá er í 62. gr. kveðið á um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja og skuli ríkisvaldið að styðja hana og vernda. Þessu megi breyta með lögum. Í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar er svo ákvæði um það hvernig með skuli farið falli ákvæði 62. gr. brott: „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“
Það er augljóst að hjá þessu ákvæði núgildandi stjórnarskrár verður ekki komist. Sumum virðist þetta eitthvað óljóst, en þetta er samt dagljóst. Þetta ákvæði nýtur sérstöðu innan stjórnarskrárinnar og verður ekki breytt nema sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla komi til. Ákvæði stjórnarskrár um þjóðkirkju er eina ákvæði stjórnarskrárinnar sem ber að vísa til þjóðarinnar ef breyting er gerð þar á. Það má ekki gleymast. Það er þjóðin sem ræður framtíð þjóðkirkjunnar.
Á að vera ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá eða ekki? Það er ekki einföld spurning. Því að mörgu er að hyggja. Umræðan um samband ríkis og kirkju er sannarlega mikilvæg umræða sem varðar grundvallarþátt samfélags og menningar.

Ef stjórnarskrárákvæðið fellur út þá er því ósvarað hvað um þjóðkirkjuna verður. Líklegt er að kjósendur vilji vita hvað breytingar muni fela í sér. Því hefur ekki verið svarað.
Verður kirkjan þá sem hver önnur frjáls félagasamtök í landinu? Mörgum finnst það álitlegur kostur, það samrýmist fremur eðli kirkjunnar að vera hreyfing en stofnun. En sem stofnun, opinber stofnun, lýtur þessi fjölmennasta almannahreyfing landsins landslögum um starfsemi sína, þar á meðal stjórnsýslulögum, jafnréttislögum, og opinberu eftirliti um fjárreiður sínar. Telja má þó nokkra almannahagsmuni þar í húfi.
Er verið að setja á laggirnar nýja kirkju í landinu?  Þetta er lykilatriði: verður það tryggt að sögulegt og menningarlegt samhengi er órofið við þá kirkju sem verið hefur ráðsmaður hins andlega þjóðararfs um aldir?
Og hvað með menningararfinn? Þjóðkirkjan heldur utan um menningararf okkar, samhengi sögunnar sem sýnilegt er á kirkjustöðunum um land allt, yfir 200 friðaðar kirkjur eru í umsjá og forræði þjóðkirkjusafnaðanna í landinu.
Hvernig verður hægt að rökstyðja lagasetningu um eitt trúfélag sérstaklega ef það á ekki viðfestu í stjórnarskránni? Væri það ekki brot á jafnræðisreglunni?  

Svo má minna á það að þjóðkirkjan er líka einhver mikilvægasti menningarmiðill í landinu og gegnir afar mikilvægu lykilhlutverki gagnvart þeim veiku í samfélaginu og sem samstarfsaðili við þau sem vinna að réttlæti og friði í heiminum. Allt þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðina og ríkisvaldið.  

Samband ríkis og kirkju er í brennidepli á hinum Norðurlöndunum öllum, þar sem segja má að trúmálunum sé fyrirkomið með svipuðum hætti og séu í raun tilbrigði við sama stef.
Í Noregi – þar sem er ríkiskirkja, rekin af ríki og sveitarfélögum- stefnir í grundvallarbreytingu á stöðu þjóðkirkjunnar. Eftir umfangsmiklar umræður, skýrslur og rannsóknir þar sem niðurstaðan virtist nánast gefin að ríki og kirkja myndu skilja, að hin margvíslegu ákvæði norsku stjórnarskrárinnar um kirkjuna yrðu felld út með öllu, settust allir þingflokkar norska Stórþingsins niður og náðu samstöðu um tillögu til stjórnarskrárákvæðis sem svo hljóðar: „Allir þegnar ríkisins skulu njóta frelsis til trúariðkunar. Norska kirkjan, evangelisk-lútersk kirkja, verður áfram þjóðkirkja Noregs og skal sem slík njóta stuðnings ríkisins. Nánari útfærslur að því lútandi skulu gerðar með lögum. Öll trú- og lífsskoðunarfélög skulu njóta stuðnings með ámóta hætti.“

Á grundvelli þessa ákvæði verða sett rammalög um norsku kirkjuna, ríkið mun styrkja starfsemi kirkjunnar og tryggja tekjustofna hennar. 
 Norska ríkisstjórnin markaði þá stefnu að styðja þjóðkirkjuna og viðurkenna mikilvægi hennar fyrir samfélagið, ekki síst í ljósi fjölmenningarsamfélagsins. Menn sjá þar styrk í því að hafa opna og rúmgóða þjóðkirkju sem stendur vörð um grundvallargildi á traustum stoðum sögu og menningar. Menn mátu það líka svo að mikilvægt væri að enginn vafi léki á því að ekki væri verið að setja á laggirnar nýja kirkju í landinu, að sögulegt og menningarlegt samhengi væri órofið við þá kirkju sem verið hefur ráðsmaður hins andlega þjóðararfs um aldir. Þetta allt á sannarlega við hér á landi.
 
Biskupskjör að þessu sinni fer fram í þessu andrúmslofti.
Á þjóðkirkjan sér framtíð? Og hvað ákvarðar framtíð hennar? Er það alþingi, ríkisstjórn? Eða er það biskupinn? Þessir aðilar hafa sannarlega mikil áhrif. En hugurinn leitar til orða Jesú sem ég las áðan. Þeirri staðreynd sem þar er lýst megum við ekki gleyma: Framtíð þjóðkirkjunnar er í þinni hendi, þú kristna kona, kristni karl, hver sem þú ert og hvar sem þú hefur haslað þér völl í samfélaginu. Þú ert hér á Leikmannastefnu fulltrúi þess fólks sem heldur uppi kirkjunni og sem ákvarðar framtíð hennar. Þjóðkirkjan er lýðræðislega uppbyggð og því háð því fólki sem þar vill taka þátt og sem með þátttöku sinni, bæn og trú á vettvangi dagsins er súrdeigið, saltið, ljósið, sem stendur fyrir það besta sem Ísland á. Það fólk sem skráð er í þjóðkirkjuna í Þjóðskrá heldur uppi þjónustu hennar í sinni sókn, þar sem það býr, tryggir með sóknargjaldi sínu starfsemi og þjónustu kirkjunnar í heimabyggð sinni. Án þess getur hún vart sinnt hlutverki sínu.  
Á 13. hundrað manns starfa í sóknarnefndunum og stýra málefnum 280 þjóðkirkjusókna um land allt, stórum og smáum. Svo er ótalinn sá mikli fjöldi fólks sem tekur þátt í safnaðarstarfi sóknarkirknanna og gefur sig fram þar sem kallað er eftir kröftum, hugmyndum og náðargáfum fólks í sjálfboðnu starfi. Það getur átt við um barna og unglingastarf, öldrunarstarf, kirkjukór. Þið eruð fulltrúar alls þessa fólks!
 
Sóknarkirkjan þín heima stendur fyrir margt í lífi og minningu samfélagsins. En umfram allt stendur hún fyrir þessa iðkun og athöfn þar sem sagan af Jesú er sögð, nafn hans, ljós og von er lögð yfir hvítvoðunginn á morgni lífs og signir þann sem lokið hefur lífsferð sinni, og orð Krists og andi veitir þeim sem standa í stríði daganna styrk og blessun, skjól og vörn.
Sóknarkirkan þín heima er frátekin til að vera Guðs hús og minna á návist hans og náð, vegvísir, varða við vegi okkar, eða sjómerki við viðsjála strönd.
 
Sem vottur og líkami Jesú Krists er kirkjan hið litla súrdeig, falið í stórum mæli mjöls af ýmsu tagi.  Í dæmisögu Jesú var það kona sem tók súrdeigið. Hann lýsir sögulegri staðreynd. Hann er að segja söguna af mæðrum og ömmum þessa lands sem signdu börnin sín og kenndu þeim að biðja í Jesú nafni. Á heimilum landsins er sú saga enn að gerast, jafnvel nú í kvöld, þessi saga súrdeigsins, trúarinnar sem blessar og reisir þjóðir, og byggir upp þann lífskjarna kristinnar menningar sem er kristið heimili. Helgidómarnir í bæjum og borgum, til sjávar og sveita landsins, eru hluti þess samhengis. Framtíð kirkjunnar er háð því að það rofni ekki.

Allt er að breytast. Nýr biskup mun taka við embætti. Ný stjórnarskrá mun væntanlega sjá dagsins ljós og marka kirkjunni breyttan sess. Nýjar áskorandi menningar og samfélags munu færa hinu kristna samfélagi ný verkefni að glíma við. Hvað ákvarðar framtíð þjóðkirkjunnar? Það er nú svo að því meir sem þú lætur kirkjunni í té þeim mun betri möguleika hefur hún á að lifa af. Kæri leikmaður, mundu það, að framtíð þjóðkirkjunnar er í þinni hendi!
 
Leikmannastefna 2012 er sett. Ég bið formann Leikmannaráðs, Marinó Þorsteinsson að taka við stjórninni. Friður Guðs sé með ykkur öllum.