Fundargerð

Þann 9. febrúar 2013 sendi biskup Íslands, Agnes M Sigurðardóttir út bréf/tölvupóst þar sem boðað var til Leikmannastefnu þjóðkirkjunnar 9. mars 2013 í safnaðarheimili Grensáskirkju, ásamt eftirfarandi dagskrá.

27. Leikmannastefna Þjóðkirkjunnar haldin í safnaðarheimili Grensáskirkju

Laugardagur 09. mars. 2013
09.30 Setning Leikmannastefnunnar
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir 10.00 Kosning fundarstjóra og skipun ritara
Skýrsla leikmannaráðs og reikningar
Formaður leikmannaráðs, Marinó Þorsteinsson Umræður
10.30 Æskulýðsstarf í uppnámi? Jónína Sif Eyþórsdóttir
Ninna Sif Svavarsdóttir 11.00 Gildi Kirkjuþings
Stefán Magnússon, varaforseti Kirkjuþings
12.00 Hádegisverður
13.00 Hringborð: Staða trúfélaga
Hafsteinn Einarsson, fulltrúi Vegarins
Gísli Freyr Valdórsson, fulltrúi Hvítasunnusafnaðarins Guðmundur Ólafsson, fulltrúi Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar Jóhanna Long, fulltrúi safnaðar Kaþólsku kirkjunnar
Fyrirspurnir og umræður
15.00 Kaffiveitingar
15.20 Kosningar
15.45 Ályktanir og önnur mál 16.45 Biskupsgarður, slit

1. Setning Leikmannastefnu
Biskup Íslands, frú Agnes M Sigurðardóttir setti 27. Leikmannastefnu þjóðkirkjunnar í Grensáskirkju. Þetta var í fyrsta skipti sem hún setti Leikmannastefnuna. Biskup fór með bæn, sungnir voru sálmar og eftir það var stefnan flutt í safnaðarheimilið og þar flutti biskupinn ávarp (sjá fylgiskjal 1). Þar hvatti hún leikmannastefnufulltrúa til að gleyma ekki að þeir eru fulltrúar safnaðanna í landinu, víðfeðmustu almannahreyfingu landsins, sem þjóðkirkjan er. Biskup lýsti áhyggjum sínum af neikvæðri umræðu um kirkjuna, sem víða má finna og spyr hver tilgangurinn sé. Í ræðu hennar kom fram að það þyrfti að hlúa að æsku landsins og mikilvægt skref hefði verið stigið þegar Alþingi lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við í Þjóðkirkjunni stefnum öll í sömu átt og má líkja kirkjunni við skip og á skipinu starfa margir með mismunandi hlutverk. Samstaða og samstarf milli trúfélaga er nauðsyn.

2. Leikmannastefnan
Marinó Þorsteinsson formaður leikmannaráðs bauð alla velkomna og þakkaði biskupi hlý orð í garð leikmannastefnufulltrúa. Fundarstjóri var kosinn Jón Hákon Magnússon, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Fundarritarar voru kosnir Þórdís Friðbjörnsdóttir, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi og Magnhildur Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdarstjóri leikmannaráðs. Jón Hákon Magnússon bauð alla velkomna og fulltrúar kynntu sig. Á þessari Leikmannstefnu sátu 40 fulltrúar og gestir (sjá fylgiskjal 2).

3. Skýrsla Leikmannaráðs og reikningsuppgjör
Formaður Leikmannaráðs Marinó Þorsteinsson flutti skýrslu ráðsins og greindi frá reikningsuppgjöri 2012 (sjá fylgiskjal 3). Skýrslan og reikningsuppgjörið 2012 voru borin upp og samþykkt samhljóða.

4. Æskulýðsmál í uppnámi ?
Jónína Sif Eyþórsdóttir og Ninna Sif Svavarsdóttir ræddu um stöðu æskulýðsmála í sóknum landsins. (sjá fylgiskjal 4) Þær sögðu meðal annars að Æskulýðsnefnd þjóðkirkjunnar hafi verið endurvakin 2011. Hver söfnuður setji sér markmið í barna- og unglingastarfi, sem hæfir hverri sókn fyrir sig. Tryggt verði að um fagleg vinnubrögð verði í æskulýðsmálum. Hver sókn á að leggja fram áætlun í þessum málum. Æskilegt er að bjóða upp á barna- og unglingastarf allan ársins hring. Þetta starf er fyrir alla, allir velkomnir, engin samkeppni, hver og einn á sínum forsendum. Eins og áður sagði er mikilvægt að hafa á að skipa hæfu starfsfólki í barna- og unglingastarfinu. Í smærri sóknum er eðlilegt að prestur beri ábyrgð á barna- og unglingastarfinu. Reyndar telur æskulýðsnefndin eðlilegt að gera þær kröfur þegar valinn er nýr prestur að hann hafi til að bera einhverja menntun/hæfileika á þessu sviði. Umdeilt. Í fermingarfræðslunni er hægt að ná til þeirra sem ekki rekast í ýmsum öðrum félagsmálum. Víða gott samstarf við skólana, þar næst til barna og unglinga sem hafa þörf fyrir barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Í kjölfar hrunsins fór að harðna á dalnum og hafa sóknir dregið saman í æskulýðsmálum. Ef ekkert æskulýðsstarf er í sóknum ættu þær að bjóða fermingarbörnum á Landsmót æskulýðsfélaga.

5. 41. mál kirkjuþings;
Tillaga til þingsályktunar um sameiningu prestakalla
Marinó Þorsteinsson lagði fram bréf frá Kirkjuráði stílað 7. mars 2013.(sjá fylgiskjal.5) Þar sem segir í nefndaráliti allsherjarnefndar kirkjuþings „Nefndin hefur fjallað um tillögu til þingsályktunar um sameiningu prestkalla og telur mikilvægt að mál 41 fari til kynningar á héraðsfundum, prestastefnu, leikmannastefnu og til allra sóknarnefnaformanna á landinu“. Samþykkt að vísa þessu máli til Leikmannaráðs þar sem það hafi komið of seint fram.

6. Gildi Kirkjuþings
Stefán Magnússon varaforseti kirkjuþings talaði um gildi kirkjuþings (sjá fylgiskjal 6). Hann talaði meðal annars um að traust á kirkjunni hefði aukist. Mörgum kom á óvart stuðningur við kirkjuna í atkvæðagreiðslunni vegna stjórnarskrárinnar. Kirkjan þarf að standa undir þessu trausti. Auka þarf áhrif almennings í kirkjumálum, t.d. við val á prestum, í sóknarnefndir o. fl. Stefán telur reyndar að við séum á leið til aukinnar þátttöku almennings.
Hvernig hefur kirkjan tekið á vandamálum innan hennar?
Kirkjan er lengi að taka ákvarðanir, það hefur spillt fyrir henni. Bregðast þarf fljótt við. Söfnuðir/sóknir njóti vafans ef deilumál dragast á langinn. Um skeið hefur verið unnið að drögum um breytingar á þjóðkirkjulögum. Við þurfum að fylgja takti tímans en vanda þarf verkið. Á að leggja heildstæð lög eða hluta fyrir alþingi? Lítill vilji hjá mörgum þingmönnum fyrir því. Kirkjuþing þarf að hittast oftar t.d. tvisvar á ári til að sinna því sem upp kemur. Kirkjan hefur þurft að sæta niðurskurði eftir hrun. Óeðlilegt að niðurskurður til kirkjunnar sé meiri en til annarra stofnana innanríkisráðuneytis. Ekki lengra gengið í niðurskurði án uppsagna presta. Sóknargjöld eiga að standa undir starfsemi sóknanna – langt í land að það standist. Margar sóknir nánast gjaldþrota. Kirkjan er í sókn á öllum sviðum. Hún er fjöldahreyfing meginþorra landsmanna.
Í umræðum eftir erindi Stefáns kom fram í máli biskups að Leikmannastefnan þyrfti að vera öflugur málsvari kirkjunnar.
Í umræðunni kom einnig fram að ríkisvaldið óskar eftir endurskoðun á ákvæðum í kirkjuráðssamningi frá 1997 milli kirkju og ríkis. Trúlegt að reynt verði að ná endanlegum samningi um sóknargjöld í viðræðum sem efalaust fara af stað í haust. Það er okkar að þrýsta á þingmenn um hækkun sóknargjalda, leikmannstefnan getur verið þrýstiafl, svo og sóknarnefndarfólk.: Umræða um fjármál á kirkjuþingi alltaf erfið, þurfum að fá stuðning frá almenningi. Safnaðafólk á að beita sér meira fyrir kirkjuna. Stuðningur og traust á kirkjunni kemur frá okkur/almenningi. Við erum öll talsmenn Krists og eigum að sameina krafta okkar og mynda breiðfylkingu.
Matarhlé milli kl. 12:00-13:00, sr. Ólafur Jóhannsson sagði frá Grensássókn

7. Staða trúfélaga
Vegurinn – Hafsteinn Einarsson
Öldungar stýra Veginum. Í reynd einræði þeirra. Upphaflega 8 öldungar valdir úr söfnuði. Öldungar velja nýjan öldung. Söfnuðurinn fær ekki að velja. Forstöðumaður valinn úr hópi öldunga. Forstöðumaðurinn eini launaði starfsmaður safnaðarins. Tíund greidd til kirkjunnar. Fólk ræður hvað það borgar mikið. Öflugt samkomuhald hjá Veginum og margt í boði, s.s. trúboð á Grænlandi, Alfanámskeið Miðbæjartrúboð. Í Veginum eru um það bil 600 manns.
Hvítasunnusöfnuðurinn – Gísli Freyr Valdórsson (sjá fylgiskjal 7)
Viðhorfið til trúfélaga er að mörgu leyti jákvæðara en áður, á sama tíma og trúin sjálf hefur mætt meiri hörku. Endurskipulagning hefur styrkt Hvítasunnukirkjuna. Gísli sagði meðal annars „það má þröngva trúleysi upp á fólk en ekki má þröngva trú inn á fólk.“
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan – Guðmundur Ólafsson (sjá fylgiskjal 8)
Sálmur nr. 6 í sálmabókinni er frá rússnesku kirkjunni. Helsti íkoninn er Theotokos. Eftir að Sergius patríarki samdi við Stalín varð Rétttrúnaðarkirkjan nánast þjóðkirkja í Rússlandi. Um það bil 300 skráðir í kirkjuna á Íslandi, en það fer eftir því hversu margir Rússar eru að vinna hérna, þó meðlimir séu af mörgum þjóðernum.
Kaþólski söfnuðurinn – Jóhanna Long
Þrír söfnuðir eru á Reykjavíkursvæðinu: Landakotskirkja, Maríukirkjan í Breiðholti og Jósepskirkjan í Hafnarfirði. Starfsemi Landakotssafnaðar er mikil. Fyrirlestrar/fræðsluerindi margvísleg, kvikmyndakvöld, bæði trúarleg og veraldleg. Ferðalög, þá er alltaf prestur í för og messað á leiðinni (auðvelt að fá lánaða kirkjur frá Þjóðkirkjunni)- pílagrímsferð að minnismerki Jóns Arasonar. Kvenfélag Landakotskirkju hefur stutt mikið við starfsemi safnaðarins. Í Maríukirkjunni eru gífurlega sterkir bænahópar skipulagðir af söfnuðinum. Sama á við um Jósepskirkjuna. Kirkjurnar þrjár þekkjast betur núna en áður. Ekki formleg markmið hjá trúfélögunum að fjölga safnaðarfólki.
Fram kom í fyrirspurnum eftir kynningu trúfélaganna að öll trúfélögin eru tilbúin til meira samstarfs sín á milli. Þá aðallega í sambandi við samveru. Hátíð vonar sem haldin verður í haust er dæmi um samstarfsverkefni. Einnig kom fram í umræðum á eftir að kristnir einstaklingar ættu að standa saman.
Kaffiveitingar í boði Grensássóknar

8. Kosningar
Úr leikmannaráði áttu að ganga 1 aðalmaður og 1 varamaður, það eru þeir Marinó Þorsteinsson og Helgi K. Hjálmsson. Marinó Þorsteinsson gaf kost á sér áfram, en Helgi K Hjálmsson ákvað að hætta eftir að hafa setið í stjórn Leikmannaráðs frá upphafi og í mörg ár sem formaður. Hafliði Jósteinsson lagði til fyrir hönd kjörnefndar að Marinó yrði endurkjörinn og að Reynir Sveinsson Kjalanesprófastsdæmi yrði kosinn í stað Helga. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Skoðunarmaður reikninga var kosinn áfram Bergur Torfason.

9. Ályktanir og önnur mál
Eftirfarandi ályktun um friðun Skálholts var lögð fram af Svönu Helen Björnsdóttur kirkjuþingsmanni. Þessi ályktun var samþykkt með meirihluta atkvæða, nokkrir sátu hjá og 3 voru á móti.

Ályktun um friðun Skálholtskirkju og nánasta umhverfis hennar
Leikmannastefna þjóðkirkjunnar 2013, haldin 9. mars 2013 í Grensáskirkju, fagnar þeirri ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra frá 27. desember 2012 um að friða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi kirkjunnar. Friðunin nær til ytra og innra byrðis kirkjunnar og ytra byrðis skólans. Ráðherra hefur þannig fallist á sjónarmið húsafriðunarnefndar, sem óskaði eftir friðuninni.
Leikmannastefna fagnar því að staðarmynd þessa helgistaðar íslensku kirkjunnar hefur nú verið friðuð á hálfrar aldar afmælisári hennar.
Leikmannastefna vekur athygli á því að friðunin nær ekki til nýlegrar yfirbyggingar yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar sem eru nánast við kirkjuvegginn. Sú nýbygging er ekki friðuð, heldur aðeins fornleifarnar sem hún hefur verið reist yfir í hinum forna kirkjugarði.
Leikmannastefna hvetur til þess að yfirbyggingin yfir fornleifarnar við kirkjuvegginn verði flutt á annan stað á svæðinu, fjarri hinum friðuðu byggingum og staðarmyndinni í Skálholti. Hvatt er til þess að það verk verði unnið og því lokið fyrir 50 ára vígsluafmæli Skálholtskirkju hinn 21. júlí á komandi sumri. Skálholt hefur verið helgur staður kristinna manna á Íslandi í aldaraðir og ber öllum að umgangast staðinn með virðingu og væntumþykju.

Eftirfarandi ályktun um sóknargjöld var lögð fram af Marinó Þorsteinssyni og var samþykkt samhljóða.
Leikmannastefnan 2013 skorar á stjórnvöld að hlutast til þess að sóknargjöld verði leiðrétt.
Leikmannastefna Þjóðkirkjunnar sem haldin var í Grensáskirkju 9. mars 2013 vill árétta enn einu sinni að ríkið hefur með einhliða ákvörðunum á síðustu árum tekið sífellt stærri hluta innheimts sóknargjalds til sín. Það hefur verið réttlætt af ríkisvaldinu annars vegar með miklum niðurskurði ríkistekna vegna bankahrunsins og hins vegar með því að hér sé um að ræða framlag sem ríkið hafi fullt sjálfdæmi um sem er fjarri sanni.
Leikmannastefnan lýsir verulega þungum áhyggjum af þessari þróun, enda er um að ræða félagsgjöld sóknanna sem er grundvöllur kirkjustarfsins í heimabyggð. Er nú svo komið að ill mögulegt er að halda úti grunnstarfi í mjög mörgum sóknum Íslands, þar sem laun og annar nauðsynlegur rekstrarkostnaður auk fjármagnskostnaðar hefur hækkað verulega á þessu tímabili.
Leikmannastefnan vekur athygli á áliti sem nefnd á vegum innanríkisráðherra skilaði af sér á síðastliðnu ári þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sóknargjöld hafa lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafi greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðlagsbóta um 5%. Með sama hætti ættu sóknargjöld fyrir árið 2013 að vera kr. 958 á hvern gjaldanda en eru nú kr. 728. Er hér því um að ræða brot á jafnræði sem er mikið óréttlæti í garð trúfélaga.
Leikmannastefnan skorar því á stjórnvöld að hlutast til þess að sóknargjöldin verði leiðrétt til samræmis við þróun fjárveitinga til stofnana innanríkisráðuneytisins þannig að sóknargjöldin verði kr. 958 á mánuði fyrir hvern gjaldanda á árinu 2013 í stað kr. 728 og renni óskert til sókna þjóðkirkjunnar eins og vera ber og gerður verði samningur við Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög um ákvörðun sóknargjalda.
Undir liðnum önnur mál kom gerði Björn Erlingsson, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, að umtalsefni fækkun á presta í Grafarvogssókn (sjá fylgiskjal 9). Þá þökkuðu nokkrir fundarmenn fyrir góða Leikmannastefnu.

10. Slit á Leikmannastefnu
Biskup Íslands, frú Agnes M Sigurðardóttir bauð leikmannastefnufulltrúum til sín í Biskupsgarð og sleit stefnunni, einnig þakkaði hún Helga K Hjálmsyni fyrir vel unnin störf í þágu leikmanna. Marinó Þorsteinsson færði Helga gjöf frá Leikmannastefnunni.