Prestafélag Íslands

 

Siðareglur, codex ethicus fyrir Prestafélag Íslands um samskipti félagsmanna innbyrðis.

1.     Siðareglur þessar eru settar til að efla gagnkvæma virðingu og samkennd meðal félagsmanna.

2.     Minnug þess að prestur er þjónn og hirðir safnaðar en ekki starfsmaður hans, skal gætt Gullnu reglunnar: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulu þér og þeim gjöra“ (Matt. 7:12) í samskiptum við allt fólk.

3.    Prestar skulu virða starfsvettvang hver annars og stuðla að góðu samstarfi og samkennd fremur en samkeppni innan stéttarinnar. Prestar skulu sýna hver öðrum heilindi og virðingu í viðtali sem umtali, ráðum og gjörðum.

4.    Prestar skulu reiðubúnir til að aðstoða hver annan þegar þörf krefur og gæta þess að fara ekki óumbeðnir inn á starfsvettvang annarra.

5.    Prestar vinna embættisverk fyrir starfssystkin sín, ekkjur þeirra og ekkla án þess að krefja þau um greiðslu.

6.     Þegar prestur sækir um embætti eða starf sýnir hann öðrum umsækjendum fyllstu tillitssemi. Þegar prestur lætur af embætti skal hann ekki hlutast til um hver umsækjenda er valinn í hans stað.

7.    Prestur skal gæta þess að vera málefnalegur í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.

Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt
skal fara. Presti ber að fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

Reykjavík 3. sept. 2012

Reglur um sátta- og siðanefnd Prestafélags Íslands
Stjórn Prestafélags Íslands (P.Í.) skipar sátta- og siðanefnd. Í henni sitja þrír fulltrúar, skipaðir til fjögurra ára í senn. Stjórn P.Í. velur einn, sem skal vera formaður, og fer þess á leit við biskup Íslands, að hann tilnefni einn og við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að hún tilnefni annan. Þessir sömu aðilar tilnefna einnig jafn marga varamenn. P.Í. kostar störf sátta- og siðanefndar.

Hver sá prestur sem er félagsmaður í P.Í., getur kært til sátta- og siðanefndar telji hann að starfssystkin hans hafi brotið framangreindar siðareglur. Sátta- og siðanefnd tekur aðeins fyrir mál sem henni berast skriflega. Jafnframt skal sátta- og siðanefnd afgreiða öll mál skriflega. Sátta- og siðanefnd er heimilt að vísa máli frá með rökstuðningi sjái hún ástæðu til. Sátta- og siðanefnd getur leitað sér faglegrar sérfræðiráðgjafar ef nauðsyn krefur.

Sátta- og siðanefnd gætir fyllsta trúnaðar og nafnleyndar varðandi öll málsgögn og samtöl vegna meðferðar mála.

Sátta- og siðanefnd metur hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur til að fjalla um kærumál vegna tengsla við kæranda eða kærðu. Sé nefndarmaður úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um mál skal varamaður taka sæti hans. Sé hann einnig vanhæfur skal leita eftir tilnefningu stjórnar P.Í.

Sátta- og siðanefnd heldur gjörðabók og starfar á grundvelli siðareglna P.Í. Aðilum máls skal boðið að mæta fyrir sátta- og siðanefnd til að útskýra mál sitt, ávirðingar og varnir. Undir öllum kringumstæðum skulu hlutaðeigandi málsaðilar leggja fram skriflegar greinargerðir. Sátta- og siðanefnd skal ætíð kanna fyrst hvort unnt sé að sætta málsaðila. Kæranda skal heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en sátta- og siðanefndarmenn hafa undirritað úrskurð. Sátta- og siðanefnd skal taka mál fyrir svo fljótt sem auðið er og hraða eftir föngum úrskurði sínum. Ef sátta- og siðanefnd er ekki einhuga um úrskurð skal meirihlutaálit ráða niðurstöðu. Sátta- og siðanefnd er skylt að ná fram  niðurstöðu og má ekki víkja frá máli fyrr.

Hafi hinn kærði prestur verið félagsmaður P.Í. þegar meint brot er talið hafa verið framið, þá skal sátta- og siðanefnd fjalla um málið.

Sátta- og siðanefnd getur veitt presti áminningu. Ef prestur gerist ítrekað eða stórfelldlega brotlegur við siðareglur þessar, er stjórn félagsins heimilt að víkja viðkomandi úr félaginu. Skal slík ákvörðun borin undir aðalfund.

Sátta- og siðanefnd skal vera vakandi yfir þeim ágöllum sem vera kunna á siðareglum þessum og leggja fyrir stjórn P.Í. tillögur um breytingar á þeim ef þurfa þykir.

Reykjavík 3. sept. 2012

     

    · Kerfi RSS