Sauðárkrókskirkja

 

Ástin, drekinn og dauðinn

Í tilefni af bleikum október mánuði taka Sauðárkrókskirkja og Krabbameinsfélag Skagafjarðar höndum saman og bjóða til fyrirlestrar með Vilborgu Davíðsdóttur í safnaðarheimilinu þann 12.október kl.20.

Á síðustu þremur árum hefur Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur kvatt eiginmann sinn, tengdamóður, föður og litla dótturdóttur. Bók hennar, Ástin, drekinn og dauðinn, sem kom út í fyrra, hefur vakið mikla athygli og hlotið lof fyrir að fjalla um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn en um leið jarðbundinn hátt. Þar lýsir hún vegferð sinni og hennar heittelskaða með sjúkdómi sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Hún veitir þar í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En bókin er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.

Miðvikudagskvöldið 12. október mun Vilborg flytja erindi í Sauðárkrókskirkju um hvernig dauðinn breytir tilveru þeirra sem eftir lifa og hvernig þetta ferðalag hefur kennt henni að það eru einmitt þrautirnar í lífinu sem gera það að ævintýri.

Erindi Vilborgar í safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju hefst kl. 20:00 og eru allir velkomnir.

Sigríður Gunnarsdóttir, 6/10 2016

Heimsókn frá Eþíópíu

Í gær komu gestir langt að komnir og heimsóttu fermingarbörnin í Sauðárkrókskirkju. Þau Million og Ahmed Nur eru frá Eþíópíu. Þau vinna að verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar þar í landi. Þau sögðu frá landinu sínu og hvað það er dýrmætt að fá aðstoð frá okkur til að aðstoða fólk við að byggja brunna og fá betri aðgang að hreinu vatni. Sú hjálp bætir heilsufar og hjálpar ekki síst börnum og konum sem þurfa annars að ganga langar leiðir til að nálgast vatn og það getur tekið nánast allan daginn. Með Million og Ahmed Nur var túlkurinn Birna, takk fyrir komuna :)

Sigríður Gunnarsdóttir, 5/10 2016

Opið hús fyrir foreldra ungra barna á þriðjudögum

Á hverjum þriðjudagsmorgni er opið hús fyrir foreldra ungra barna í safnaðarheimiliu frá kl.10-12. Oftast köllum við þetta mömmumorgna því mömmurnar eru í algjörum meirihluta. Þar er gott að koma saman með krílin, spjalla og fá sér kaffi og með því. Öðru hvoru koma góðir gestir sem flytja erindi sem tengjast ungum börnum og/eða foreldrum þeirra. Næsta þriðjudag þann, 4. október kemur Jenný ljósmóðir og fræðir um brjóstagjöf og næringu barna á fyrsta ári.

Verið velkomin með litlu börnin!

Sigríður Gunnarsdóttir, 28/9 2016

Messa og sunnudagaskóli 2. október

Næsta sunnudag verður sunnudagaskólinn á sínum stað kl.11. Umsjón hefur Sigrún Fossberg ásamt aðstoðarkonunni Halldóru Hebu og Rögnvaldur er við píanóið. Síðasta sunnudag komu litlir hvolpar í heimsókn enda var Biblíusagan Örkin hans Nóa. Alltaf eitthvað skemmtilegt og fræðandi á hverjum sunnudegi.

Eftir hádegið verður messa kl.14. Fermingarbörn lesa ritningarlestra, kirkjukórinn leiðir sönginn undir stjórn Rögnvaldar organista. Prestur er sr. Sigríður Gunnarsdóttir. Verið velkomin til kirkju!

Sigríður Gunnarsdóttir, 28/9 2016

Stubbarnir snúa aftur

Stubbarnir, kirkjustarf fyrir 10-12 ára börn verður á fimmtudögum kl.17.15-18.30. Fjölbreytt dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og lagt er upp úr að allir séu með. Ekki þarf að skrá sig, bara mæta stundvíslega í góða skapinu. Umsjón hafa Sigga prestur,  Hildur Ýr og Sylvía, ásamt aðstoðarleiðtogum.

Sigríður Gunnarsdóttir, 14/9 2016

Sunnudagaskóli og messa 18. september

Næsta sunnudag, kl.11 hefur sunnudagaskólinn göngu sína að nýju eftir sumarfrí.

Umsjón hafa Sigrún Fossberg og Rögnvaldur Valbergsson sem er við píanóið og þeim til aðstoðar er Halldóra Heba Magnúsdóttir. Gæðastund fyrir yngstu börnin, þar sem blandað sem saman söng, fræðslu, biblíusögum og bænum.

Messa kl.14. Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Rögnvaldar organista. Fermingarbörn lesa ritningarlestra og eftir messu er boðið upp á kaffi, djús og kleinur í safnaðarheimilinu.

Verið velkomin til kirkjunnar!

Sigríður Gunnarsdóttir, 14/9 2016

Konur eru konum bestar

Sjálfstyrkingarnámskeiðið Konur eru konum bestar verður haldið í safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju þriðjudagana 27. september og 4. október, kl.19-22.

Námskeið þetta hefur verið haldið í mörgum kirkjum, hér á landi og erlendis frá árinu 1989 og notið vinsælda. Hér gefst konum tækifæri til að kynnast sjálfum sér betur í félagsskap annarra kvenna. Þær deila reynslu sinni hver með annarri og bent er á leiðir til uppbyggingar. Þá er mikið lagt upp úr umræðum og hópavinnu. Ýmsum spurningum er velt upp og sögur Biblíunnar eru notaðar til að varpa ljósi á daglegan veruleika kvenna enn þann dag í dag.

Þátttaka er konum að kostnaðarlausu, en nauðsynlegt að skrá sig á netfangið: sigridur.gunnarsdottir@kirkjan.is

 

Sigríður Gunnarsdóttir, 7/9 2016

Messa 4. september

Næsta sunnudag 4. september er messa kl.11 í Sauðárkrókskirkju. Kirkjukórinn leiðir söng, organisti Rögnvaldur Valbergsson. Léttur hádegisverður í safnaðarheimilinu á eftir. Verið velkomin!

 

Sigríður Gunnarsdóttir, 29/8 2016

Messa á sjúkrahúsinu 28. ágúst

Næsta sunnudag, 28. ágúst verður messa á dvalarheimilinu Sauðárhæðum kl. 14. Félagar úr kirkjukórnum leiða sálmasöng, organisti Rögnvaldur Valbergsson og prestur sr. Sigríður Gunnarsdóttir.

Sigríður Gunnarsdóttir, 24/8 2016

Kvöldmessa 14. ágúst

Næsta sunnudag hringja kirkjuklukkurnar til messu kl.20.

Gott er að koma til kirkju á sumarkvöldi, hlusta á orð Guðs í tali og tónum.  Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar organista. Sr. Sigríður Gunnarsdóttir þjónar fyrir altari og prédikar.

Fermingarbörn vorsins 2017 ásamt forráðamönnum boðin sérstaklega velkomin. Stuttur fundur eftir messuna um fermingarnámskeiðið í Vatnaskógi sem verður dagana 15.-19. ágúst.

Verið velkomin til kirkju.

Sóknarprestur

“Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.! (Jes 42.3a)

Sigríður Gunnarsdóttir, 8/8 2016

Kirkjan er opin samkvæmt samkomulagi.
Kirkjuvörður Baldvin Kristjánsson, s:8925536.
Organisti Rögnvaldur Valbergsson s. 8635871.
Sóknarprestur Sigríður Gunnarsdóttir, s. 8628293

 

Aðalgötu 1, 550 Sauðárkróki. Sími 453 5930 · Kerfi RSS