Sauðárkrókskirkja

 

Hafdís og Klemmi koma á Lummudaga

Um næstu helgi eru Lummudagar og af þvi tilefni býður Sauðárkrókskirkja til leiksýningar á laugardaginn 25. júni,  kl. 13:00. Sýningin heitir Hafdís og Klemmi – og leyndardómar háaloftsins. Þetta er skemmtileg sýning fyrir börn á öllum aldri. Persónur eru Hafdís og Klemmi sem eru jafnframt aðalpersónur þáttaseríunnar Daginn í dag en sýningin er sjálfstætt framhald þáttanna.

Sýningin fjallar um ævintýri vinanna tveggja sem finna dularfullt tæki uppi á háalofti heima hjá ömmu Hafdísar. Umfjöllunarefni sýningarinnar eru hæfileikar. Hverjir hafa hæfileika og hvernig getur maður nýtt hæfileika sína til góðs? Mikið er gert uppúr þátttöku barnanna í áhorfendasalnum.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir!

Sigríður Gunnarsdóttir, 24/6 2016

Messa á 17. júní

Messa verður kl.11 á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní.

Kirkjukórinn leiðir söng undir stjórn Rögnvaldar organista. Þau sem eiga þjóðbúninga eru hvött til skarta þeim jí tilefni dagsins og koma til kirkju. Verið velkomin! Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sigríður Gunnarsdóttir, 9/6 2016

Skráning í fermingarfræðslu 2016/2017

Í dag fengu börn fædd árið 2003 heim með sér skráningarblað í fermingarfræðslu fyrir næsta vetur. Fermingarstörfin hefjast með fermingarbúðum í Vatnaskóg dagana 15.-19. ágúst. Skráningarblaðinu á að skila útfylltu fyrir 27. maí til ritara skólans eða undirritaðrar. Athugið að öll börn eru velkomin í fermingarferðalagið, hvort sem þau ætla að fermast eða ekki.

Fermingardagar næsta vor eru:

Pálmasunnudagur 9. apríl, kl.11

Laugardagur eftir páska 22. apríl, kl. 11

Hvítasunnudagur 4. júní, kl.11.

Bestu kveðjur,

Sigríður Gunnarsdóttir

 

Sigríður Gunnarsdóttir, 19/5 2016

Sr. Karl Sigurbjörnsson prédikar á uppstingingardag

Fimmtudaginn 5. maí sem er uppstingningardagur verður messa kl.11 í Sauðárkrókskirkju.

Við fáum góðan gest til að prédika, sr. Karl Sigurbjörnsson biskup og sr. Sigríður Gunnarsdóttir þjónar fyrir altari. Kirkjukórinn leiðir söng og Rögnvaldur Valbergsson verður við orgelið. Eftir messuna verður boðið upp á súpu og brauð í safnaðarheimilinu.

Uppstingingardagur er tileinkaður öldruðum í kirkjunni og því eru eldri borgarar sérstaklega boðnir velkomnir.

Hlökkum til að sjá ykkur!

.

Sigríður Gunnarsdóttir, 4/5 2016

Kirkjukvöld kirkjukórs Sauðárkróks

Sæluvikan, árleg menningarhátíð Skagfirðinga, hefst næsta sunnudag. Í áratugi hefur kirkjukór Sauðárkróks haldið kirkjukvöld á mánudagskvöldi í sæluviku, sem ber upp á 25. apríl og verður kl. 20.

Kórinn syngur lög úr ýmsum áttum undir stjórn orgnistans Rögnvaldar Valbergssonar og gítarleikarinn Fúsi Ben mun einnig spila undir. Gestasöngvari með kórnum er söngkonan góðkunna Kristjana Arngrímsdóttir. Ræðumaður kvöldins er Eyþór Árnason skáld og listamaður frá Uppsölum og kynnir er Pétur Pétursson, formaður sóknarnefndar og Álftagerðisbróðir.

Aðgangseyrir er aðeins krónur 2000 og athugið að ekki er tekið við kortum.

Verið velkomin!

Sigríður Gunnarsdóttir, 19/4 2016

Messa sunnudaginn 24. apríl

Næsta sunnudag, 24. apríl, verður messa kl.11 í Sauðárkrókskirkju. Fermd verða þrjú frændsystkin. Kirkjukórinn leiðir söng, organisti er Rögnvaldur Valbergsson. Prestar eru tveir sr. Gísli Gunnarsson og sr. Sigríður Gunnarsdóttir.

Verið velkomin til kirkjunnar!

Sigríður Gunnarsdóttir, 19/4 2016

Fermingarmessa 2. apríl 2016

Laugardaginn 2. apríl, kl.11 verða sex börn fermd í Sauðárkrókskirkju. Verið velkomin til kirkjunnar, nóg pláss fyrir alla!

Sigríður Gunnarsdóttir, 1/4 2016

Hrafnhildur Ýr syngur á skírdagskvöld í Sauðárkrókskirkju

Að kvöldi skírdags, þann 24. mars, kl.20 býður Sauðárkrókskirkja til tónleika með Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur.

Hrafnhildur Ýr vakti fyrst athygli í söngkeppni framhaldsskólanna fyrir margt löngu. Síðast söng hún sig inn í hug og hjörtu landsmanna í Vocie þáttunum s.l vetur.
Í hléi, verður atburða skírdagskvöld minnst eins og greint er frá þeim í guðspjöllunum. Óhefðbundin altarisganga þar sem við brjótum brauð frá Sauðárkróksbakaríi og bergjum á ávexti vínviðarins með.

Tónleikar og gæðastund fyrir alla fjölskylduna. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Sigríður Gunnarsdóttir, 21/3 2016

Helgihald í dymbilviku og á páskum

Mikið verður um að vera í kirkjunni á næstunni og fjölbreytt helgihald yfir bænadaga og páska:

Pálmasunnudagur, 20. mars: Fermingarmessa kl.11

Skírdagur, 24. mars: Tónleikar með Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur kl.20. Óhefðbundin altarisganga í hléi, aðgangur ókeypis.

Föstudagurinn langi, 25. mars: Passíusálmarnir lesnir í heild sinni, byrjað kl. 10 f.h. Fólk getur komið og farið að vild. Þau sem vilja lesa setji sig í samband við sóknarprest fyrir miðvikudag 23. mars.

Messa kl. 17. Píslarsagan lesin og litanían sungin.

Páskadagur 27. mars: Hátíðarmessa kl. 8. Vaknað í bítið og upprisunni fagnað. Boðið upp á morgunverðarhlaðborð eftir messu.

Hátíðarmessa á dvalarheimilinu kl. 13.

Páskamessa í Hvammskirkju kl. 16.

Sigríður Gunnarsdóttir, 17/3 2016

Ritningarvers fyrir fermingarbörn

Senn líður að fermingum og öll fermingarbörn velja sér ritningarorð úr Biblíunni til að gera að sínum einkunnarorðum á fermingardaginn. Hér koma fjölmargar tillögur:

Ritningarvers

Nýja testamentið

 • Sæl eru fátæk í anda því að þeirra er himnaríki. Mt. 5.3
 • Sæl eru hógvær því að þau munu jörðina erfa. Mt. 5.5
 • Sæl eru þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þau munu södd verða. Mt 5.6
 • Sæl eru miskunnsöm því að þeim mun miskunnað verða. Mt. 5.7
 • Sæl eru hjartahrein því að þau munu Guð sjá. Mt. 5.8
 • Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Mt. 5.9
 • Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann. Mt. 6.8
 • Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Mt. 7.7
 • Allt sem þið viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Mt. 7.12
 • Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Mt. 11.28
 • Sjá þjón minn sem ég hef útvalið, minn elskaða sem ég hef velþóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann og hann mun boða þjóðunum rétt. Mt. 12.18
 • Á nafn hans munu þjóðirnar vona. Mt. 12.21
 • Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Mt. 16.16
 • Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Mt. 28.18
 • En Jesús sagði: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er himnaríki. Mt. 19.14
 • Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Mt. 23.11
 • Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða. Mt. 23.12
 • Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. Mt. 24.42
 • Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni. Mk. 9.24
 • Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér, og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig. Mk. 9.37
 • Guði er enginn hlutur um megn. Lk. 1.37
 • Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn. Lk. 1.68
 • En ég segi yður er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott sem hata yður. Lk. 6.27
 • Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur. Lk. 6.36
 • Og Jesús sagði við alla: Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Lk. 9.23
 • Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða glata sjálfum sér? Lk. 9.25
 • Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. Lk. 12.34
 • Hann mælti: Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð. Lk. 18.27
 • Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. Jh. 8.12
 • Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jh. 10.11
 • Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Jh. 11.25
 • Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins. Jh. 12.36
 • Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Jh. 14.6
 • Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Jh. 14.15
 • Ég lifi og þér munuð lifa. Jh. 14.19
 • Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Jh. 15.12
 • Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Jh. 15.14
 • En þeir sögðu: Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt. Post. 16.31
 • Sælla er að gefa, en þiggja. Post. 20.35
 • Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. Róm. 8.28
 • Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Róm. 12.9
 • Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Róm. 12.11
 • Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Róm. 12.12
 • Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. Róm. 12.15.
 • Gjaldið engum illt fyrir illt. Róm. 12.17
 • Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Róm 15.13
 • En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur. 1.Kor. 13.13
 • Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. 2.Kor. 3.17.
 • Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Gal. 3.26
 • Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. Gal. 6.2
 • Sá sem þykist vera nokkuð en er þó ekkert blekkir sjálfan sig. Gal. 6.3
 • Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp. Gal. 6.9
 • Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Fil. 2.5
 • Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Fil. 4.4.
 • Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Fil. 4.5
 • Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4.13
 • Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Kól. 2.6
 • Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Heb. 13.8
 • Ef við játum syndir okkar þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. 1.Jóh. 1.9
 • Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. 1.Jóh. 4.8

 

Gamla testamentið

 

 • Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 1. Mós. 1.1.
 • En þú, Drottinn, ert skjöldur minn, sæmd mín og lætur mig bera höfuðið hátt. Sl. 3.4
 • Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum. Sl. 4.9
 • Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta, kunngjöra öll máttarverk þín. Sl. 9.2
 • Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita. Sl. 9.11
 • Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Sl. 16.1
 • Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna. Sl. 17.8
 • Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum. Sl. 18.31.
 • Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Sl. 23.1
 • Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Sl. 23.4
 • Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Sl. 25.4
 • Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð. Sl 31.6
 • Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann og frelsar þá. Sl. 34.8
 • Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sl. 37.5
 • Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Sl. 46.2
 • Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sl. 51.12
 • Þú ert kraftur minn, þér fel ég mig því að Guð er vígi mitt. Sl. 59.10
 • Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sl. 86.11
 • Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Sl. 91.11
 • Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sl. 100.5
 • Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein. Sl 103.3
 • Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu. Sl. 119.9
 • Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum. Sl. 119.10
 • Drottinn er hlutskipti mitt, ég hef ákveðið að halda boð þín. Sl. 119.57
 • Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum. Sl. 119.89
 • Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sl. 119.105
 • Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Sl. 121.2
 • Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sl. 121.5
 • Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Sl. 121.7
 • Drottinn, vertu góðum góður og þeim sem hjartahreinir eru. Sl. 125.4
 • Kenn mér að gera vilja þinn, því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sl. 143.10
 • Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sl. 145.8
 • Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum. Sl. 145.17
 • Drottinn styður alla þá sem ætla að hníga og reisir upp alla niðurbeygða. Sl. 145.14
 • Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Ok. 22.1
 • Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt. Jes. 40.29
 • Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: Óttast eigi, ég bjarga þér. Jes. 41.13
 • Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jes. 55.6
 • Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hefi í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29.11

Sigríður Gunnarsdóttir, 7/3 2016

Kirkjan er opin samkvæmt samkomulagi.
Kirkjuvörður Baldvin Kristjánsson, s:8925536.
Organisti Rögnvaldur Valbergsson s. 8635871.
Sóknarprestur Sigríður Gunnarsdóttir, s. 8628293

 

Aðalgötu 1, 550 Sauðárkróki. Sími 453 5930 · Kerfi RSS