Þjóðkirkjan við utanverðan Eyjafjörð

 

Fréttir af KFUM og KFUK starfinu á Dalvík og Ólafsfirði

Hér á eftir fer pistill um KFUM og KFUK starfið sem boðið er upp á fyrir 4.-7. bekk á Dalvík og Ólafsfirði. Þetta er fjórða árið sem það er í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri. Starfið hefst nú eftir ármót fimmtudaginn 8. febrúar. Hér á eftir fer grein eftir Jóhann Þorsteinsson, sviðsstjóra æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi, þar sem hann segir frá þessu starfi.

Fjórða árið í röð eru vikulegir fundir KFUM og KFUK í boði fyrir börn í 4.-7. bekk, bæði á Dalvík og Ólafsfirði. Starfið nær yfir átta vikur á hvoru misseri, í október og nóvember á haustmisseri og í febrúar og mars á vormisseri. Leiðtogarnir koma frá KFUM og KFUK á Akureyri og er dagskráin sú sama og boðið er upp á þar. Í vetur eru það Helga Frímann og Pétur Ragnhildarson sem halda uppi dagskránni í samstarfi við sóknarprestana. Aðsókn á haustmisseri var ljómandi góð og voru yfir 40 börn skráð í starfið á hvorum stað. Margt skemmtilegt hefur verið á dagskrá og má nefna fundarefni eins og Amazing race, bandý, foreldraboð, spilafund og margt fleira.

Hápunktur haustmisseris var án efa helgarsamvera í Ólafsfirði dagana 5.-6. nóvember en þá komu saman ríflega 60 krakkar úr starfi KFUM og KFUK á Norðurlandi og úr TTT-starfi Akureyrarkirkju. Yfirskrift mótsins var Guð elskar glaðan gjafara og fór dagskráin að mestu fram í grunnskólanum og íþróttahúsinu en endapunkturinn var vel heppnuð fjölskylduguðsþjónusta í Ólafsfjarðarkirkju þar sem börnin skipuðu kórinn, sáu um lestra og fluttu hugvekju í formi leikþátts. Voru allir sammála í lok móts að Ólafsfirðingar hefðu tekið vel á móti gestum og færum við þeim öllum hjartans þakkir fyrir.

Frá guðsþjónustu í lok mótsins á Ólafsfirði

Á hverju misseri er lagt til grundvallar fræðsluefni sem gefið er út af KFUM og KFUK og notað í deildarstarfi um allt land. Á haustmisseri var yfirskrift fræðsluefnisins Góð gildi – þjóðgildi en þar var horft til þeirra 12 grunngilda sem þjóðfundurinn í Laugardalshöll 2009 taldi æskilegt að þjóðin myndi sameinast um í náinni framtíð. Þar sem markmið með öllu starfi kirkjunnar og KFUM og KFUK er að boða kristna trú mótast umfjöllun fræðsluefnisins á þjóðgildunum af því.

Á vormisseri er yfirskrift fræðsluefnisins Rétt og rangt og verður sérstaklega horft til þeirra gilda sem heimssamband KFUM hefur tekið saman í skjal sem nefnist Challenge 21 og verða þau skoðuð í ljósi dyggðalista Páls postula úr 5. kafla Galatabréfsins.

Fundir hefjast að nýju miðvikudaginn 8. febrúar og verður fundartími sá sami og fyrir jól, í Dalvíkurkirkju kl. 16.00-16.50 og í Ólafsfjarðarkirkju kl. 17.30-18.20. Þátttaka er öllum opin og ókeypis en sóknir kirknanna standa straum af öllum kostnaði. Starfinu lýkur á vormisserinu með dagsferð í sumarbúðirnar Hólavatni laugardaginn 31. mars og vonandi verður það stór hópur hressra krakka frá Dalvík og Ólafsfirði sem slæst í för með Akureyringum í árlega vorferð KFUM og KFUK.

Jóhann Þorsteinsson, sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi

 

Guðmundur Guðmundsson, 2/2 2012 kl. 15.43

     

    Þjóðkirkjan við utanverðan Eyjafjörð. · Kerfi RSS