Heimasíða Söngmála kirkjunnar kemur aftur í notkun.

Hér verða fluttar fréttir af málum kirkjutónlistarinnar á fjölbreyttum vettvangi árið 2015.

Ný Sálmabók árið 2011?

Sálmabókarnefnd þjóðkirkjunnar undir forystu Einars Sigurbjörnssonar er nú komin á fulla ferð við undirbúning útgáfu nýrrar sálmabókar. Stefnt er að útgáfu bókarinnar árið 2011. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar á sæti í nefndinni og leiðir vinnu við uppsetningu nótna og undirbúning að tilsvarandi sálmasöngsbók. Mikil vinna er framundan í sambandi við val á sálmum úr samtímanum og ekki ljóst hve mikið rými er fyrir nýja sálma. Rétt er að hvetja organista til að nýta tækifærið til að senda inn sálma, sem hugsanlega ættu erindi í nýja sálmabók og ekki hafa borist til sálmabókarnefndar. Sérstaklega hefur verið kvartað undan skorti á sálmum fyrir brúðkaup og fermingar. Í Söngvasjóði á Efnisveitu kirkjunnar er að finna mikið af nýju sálmaefni í flokknum Eide-söngvar. Spurningar eru hvort ekki séu þar einhverjir söngvar sem erindi eiga í sálmabók 21. aldar.

Kórasamverur í haust.

Í október n.k. verða haldnar kórasamverur  á tveimur stöðum með viku millibili. Sú fyrri verður fyrir kirkjukóra á Norðurlandi á Akureyri helgina 9.-11. október, hin síðari fyrir kirkjukóra í Borgarfirði í Reykholti helgina 16.-18. október. Kórastefnurnar eru samstarfsverkefni organista á þessum svæðum og söngmálastjóra. Markmiðin eru að æfa saman valin kórverk fyrir helgihald, að efla samstöðu organista og kirkjukóra á svæðinu, að fá nýjar hugmyndir fyrir starfið í kirkjunni og að njóta þess að syngja saman góða tónlist. Organistarnir á svæðunum hafa veg og vanda af skipulaginu. Verkefnastjórar eru Eyþór Ingi Jónsson organisti Akureyrarkirkju fyrir Norðurland og Sveinn Arnar Sæmundsson organisti Akraneskirkju fyrir Borgarfjörð.

Kórastefna kirkjunnar 2010.

Söngmálastjóri stefnir að næstu Kórastefnu kirkjunnar í ágúst 2010. Fyrirkomulagið verður með líku sniði og síðast. Æft verður eitt stærra verk til flutnings á tónleikum í Hallgrímskirkju, svo og fleiri smærri kórverk til notkunar í helgihaldi. Reiknað er að stefnan byrji á fimmtudegi 19. ágúst og ljúki á sunnudagskvöldi 22. ágúst. Listi yfir kórverk sem flutt verða á kórastefnunni verður fyrst kynntur á organistanámskeiðinu í Skálholti nú í ágúst.

Sálmafoss 22. ágúst 2009

Eftir vel heppnaðar dagskrár undir yfirskriftinni “Sálmafoss”, sem haldnar hafa verið undanfarin tvö ár í Hallgrímskirkju á Menningarnótt hefur verið ákveðið að halda áfram á sömu braut. Söngmálastjóri skipuleggur dagskrána í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kórum og organistum er boðið að koma og flytja kór- og orgeltónlist í einskonar maraþondagskrá sem stendur allan eftirmiðdaginn og fram á kvöld. Aðalþema er sálmurinn í margbreytilegum útfærslum. Að þessu sinni verða frumfluttir sjö nýir sálmar sem Tónmenntasjóður kirkjunnar pantaði. Á heilu tímunum verða kenndir og sungnir sálmar, bæði nýir og gamlir. Óskað er eftir kórum til að leiða sönginn og flytja síðan stutta kórsöngskrá. Þeir kórar og organistar sem áhuga hafa á þátttöku er bent á að senda Söngmálastjóra póst með tillögum um efni. Sálmafossinn hefur notið mikillar athygli og aðsóknar.

Ný kórbók í haust?

Í framhaldi af könnun söngmálastjóra hjá organistum á þörf fyrir útgáfu á kórbókum, þar sem ljóst var að mestur áhugi var á kórbók er væri einhvers konar framhald á söngvasveigsbókinni “Dýrð, vald, virðing”, var sett í gang undirbúningsvinna fyrir slíka útgáfu. Fengnar voru tillögur frá ýmsum starfandi organistum og er nú val efnis komið á lokastig. Stefnt er að því að bókin komi út í haust. Efni bókarinnar verður kynnt og valin lög æfð og flutt á organistanámskeiðinu í ágúst. Hér verður um mjög fjölbreytt efni að ræða með mikla notkunarmöguleika, sem eflaust verður vel tekið.

Tónmenntasjóður – 7 nýir Sálmar 2009

Tónmenntasjóður kirkjunnar pantaði við lok síðasta árs sjö nýja sálma hjá jafn mörgum skáldum og tónskáldum. Verkefnið sem kallast “Sálmar 2009” er framhald af samskonar pöntun á fjórum sálmum árið 2007, en þeir sálmar voru frumfluttir á Sálmafossi í ágúst það ár. Nú hafa öll skáldin skilað sínum nýju sálmum.
Sálmar 2009 eru:
Lifandi Guð eftir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason,
Höfundur húmblárra fjalla eftir Sveinbjörn J. Baldvinsson og Tryggva M. Baldvinsson,
Verndarvængur eftir Gerði Kristnýju og Báru Grímsdóttir,
Ég heyri þig eftir Böðvar Guðmundsson og Jón Hlöðver Áskelsson,
Ákall eftir Sigurð Pálsson og Margréti Kristínu Sigurðardóttur,
Á hverjum degi Drottinn minn ég bið eftir Kristján Kristjánsson (KK) og
Hún laugaði fætur Jesú eftir Jónu Hrönn Bolladóttur og Gunnar Gunnarsson.
sálmum.
Bíða sálmarnir nú frumflutnings sem er fyrirhugaður á Sálmafossi á Menningarnótt þann 22. ágúst nú í sumar.

Fimm kórar frumfluttu 50 passíusálmalög Jóns Ásgeirssonar í Hallgrímskirkju.

Á föstudaginn langa, þann 10. apríl s.l. voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar fluttir í Hallgrímskirkju eins og venja er. Að þessu sinni voru í tengslum við lesturinn frumflutt 50 ný lög Jóns Ásgeirssonar. Fimm kórar frá kirkjum á Reykjavíkursvæðinu skiptu með sér flutningnum, þannig að hver kór söng tíu lög. Kórarnir sem komu fram voru Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar, Kór Hjallakirkju undir stjórn Jóns Ólafs Sigurðssonar, Kór Vídalínskirkju undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar, Barbörukórinn í Hafnarfirði undir stjórn Guðmundar Sigurðssonar og Kór Akraneskirkju undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar. Talið er að á fjórða þúsund manns hafi lagt leið sína í Hallgrímskirkju til að upplifa Passíusálmana í þessum nýja búningi. Jón Ásgeirssson, hinn rúmlega áttræði söngsmiður, var viðstaddur söng allra sálmanna og var hylltur að loknum flutningi Kórs Akraneskirkju á lokaversi 50. sálms. Þetta vers má sjá og heyra á þessu myndbandi: http://vimeo.com/channels/sjonvarpkirkjunnar/page:2

Ekki er ólíklegt að passíusálmalög Jóns rati inn á Efnisveituna síðar.

Söngvahátíð barnanna

Helgina 7.-8. mars var Söngvahátíð barnanna haldin í Hallgrímskirkju.  Á þriðja hundrað manns sóttu tónleikana sem haldnir voru á sunnudeginum og tókust þeir afar vel.  Hér að neðan má sjá myndir frá æfingum svo og tónleikunum.

Myndir frá Söngvahátíð barnanna, 8. mars 2009

http://www.flickr.com/photos/kirkjan/sets/72157615011402406/