Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkja og stjórnarskrá

upplýsingavefur vegna þjóðaratkvæðagreiðslu

Þjóðkirkja og stjórnarskrá – upplýsingavefur vegna þjóðaratkvæðagreiðslu

* * *

Velkomin

Agnes M. Sigurðardóttir

Agnes M. Sigurðardóttir

Kæri lesandi, vertu velkominn að þessum upplýsingavef þjóðkirkjunnar vegna komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hvet til þess að spurningu um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá verði svarað játandi.

Mig langar að koma á framfæri, hér á forsíðu, atriðum sem ég tel tengja þjóðina og kirkjuna og lýsa hlutverki hennar - atriði sem mikilvægt er fyrir okkur að hafa í huga þegar við tökum ákvörðun þann 20. október. Og þar sem stjórnarskráin er í grunninn sáttmáli okkar um undirstöður samfélagsins, er mikilvægt að um mögulegar breytingar á stjórnarskrá ríki breið sátt.

Stjórnarskrá kveður á um meginatriði í skipan samfélagsins; hún er grundvöllur laga og reglna. Trúarleg málefni eru meðal grunnstoða hvers samfélags. Ef við lítum til Evrópuríkja má sjá að ýmist í stjórnarskrá eða löggjöf er að finna stuðning við og jafnframt umgjörð um stöðu trúfélaga. Kirkja og íslensk þjóð hafa átt langa og farsæla samleið og íslensk menning og samfélagssýn eru sterklega mótuð af kristnum sið.

Þjóðkirkjan hefur annast kirkjulega og félagslega þjónustu um landið allt; það er í senn köllun hennar og skylda er fer vel við samferð kirkju og þjóðar um aldir og lagahefð. Í hjálparstarfi sínu um allt land, undir nafni Hjálparstarfs kirkjunnar, hefur hún verið í farabroddi hvað varðar faglega meðferð mála, virðingu fyrir manneskjunni og möguleikum til sjálfshjálpar. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar veitir félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu ókeypis eða gegn því gjaldi sem viðkomandi ræður við. Kirkjan hefur í sínu afar fjölbreytta starfi á að skipa hæfu og vel menntuðu starfsfólki sem er í nánum tengslum við aðrar stofnanir og samtök sem vinna að almannaheill.

Lögformlegt samband ríkis og kirkju birtist í samningum, sáttmálum og löggjöf eins og við svo marga aðila samfélagsins, enda er þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag, aðskilið frá ríkisvaldinu. Allt þetta stendur óhaggað hvort sem ákvæði um þjóðkirkju verður í stjórnarskrá eða ekki. Ekki þarf að óttast að stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju feli í sér mismunun. Ákvæðið er í samræmi við hæstaréttardóm og trúfrelsis- og jafnréttisreglur stjórnarskrárinnar sem og alþjóðlega mannréttindasamninga.

Þjóðkirkjunni ber að standa vörð um kristinn sið og gildi. Köllun hennar er að boða kristna trú og hún vill leiða, eins og hún hefur gert, samstarf við önnur trúfélög og lífsskoðunarhópa, með það að marki að styrkja heilnæmt mannlíf og stuðla að réttlátu samfélagi.

Ég hvet þig, sem og landsmenn alla, til að kynna þér vel þau mál sem kosið verður um þann 20. október og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þjóðinni til heilla.

Agnes M. Sigurðardóttir
biskup Íslands.

* * *

Spurningin sem snertir þjóðkirkjuna í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október er þessi:
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

* * *

Kirkjuráð og kirkjuþing hafa ályktað um þessi efni:

Kirkjuráð minnir á að hin evangelísk-lúterska þjóðkirkja er einn mikilvægasti grunnþáttur samfélagsins, opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um landið allt, opinber og lögbundin stofnun sem myndar ramma um trúarhefð meirihluta þjóðarinnar, einstaklinga, fjölskyldna og heimila, og heldur utan um mikilvæga arfleifð og minningu og menningu samfélagsins.

Í samfélagi þar sem æ fleiri trúarhreyfingar, trúarhættir og trúarhugmyndir hasla sér völl og kalla til áhrifa felst menningarlegur og samfélagslegur styrkur í því að hafa opna og rúmgóða þjóðkirkju sem stendur vörð um grundvallargildi á traustum stoðum sögu og menningar.

Í vaxandi fjölmenningu hefur þjóðkirkjan stuðlað að virðingu og skilningi milli trúarbragða og menningarheima. Þjóðkirkjan er auk þess einn mikilvægasti menningarmiðill í landinu og gegnir lykilhlutverki gagnvart þeim veiku í samfélaginu og sem samstarfsaðili við þau sem vinna að réttlæti og friði í heiminum.

Mikilvægt er að pólitísk og samfélagsleg sátt sé um þjóðkirkjuna sem og aðrar grundvallarstofnanir menningar og samfélags

Kirkjuráð hvetur til þess að við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá verði þess minnst, og að ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands geymi ákvæði um hina evangelísk lútersku þjóðkirkju eins og verið hefur. Jafnframt því verði staða og réttindi annarra trú– og lífsskoðunarfélaga tryggð með hliðstæðum hætti og gert var í stjórnarskrá Noregs en þar segir: Allir þegnar ríkisins skulu njóta frelsis til trúariðkunar. Norska kirkjan, evangelísk-lútersk kirkja er þjóðkirkja og skal sem slík njóta stuðnings ríkisins. Nánar skal það ákvarðað með lögum. Öll trú- og lífsskoðunarfélög skulu njóta stuðnings með ámóta hætti.

Aukakirkjuþing, haldið 1. september 2012, hvetur kjósendur til að minnast þess að hin evangelíska lúterska þjóðkirkja er samofin menningu og sögu íslensku þjóðarinnar sem og annarra norrænna þjóða. Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt. Hún er því mikilvæg grunnstoð íslensks samfélags. Því hvetur þingið til þess að áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að staða og réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð.