Fræðsla

Öflugt fræðslustarf fer fram á vegum þjóðkirkjunnar fyrir alla aldurshópa. Þekktasta fræðslustarfið er án vafa fermingarfræðslan sem fer fram í hverjum söfnuði og á hverju ári taka yfir fjögurþúsund börn þátt í fermingarstarfi á vegum Þjóðkirkjunnar.

Í mörgum söfnuðum er boðið upp á fræðslu fyrir fullorðna, þar má nefna fræðslu á fjölskyldumorgnum um ýmiss verkefni lífsins. Í mörgum kirkjum eru Biblíulestrar þar sem rit Biblíunnar eru lesin, rædd og ritskýrð. Víða er alls kyns hópastarf þar sem fer fram fræðsla um sorg og sorgarviðbrögð, hjónabandið, trúna og ýmis önnur siðferðisleg málefni. Starf eldri borgara er vel sótt um land allt og þar fer fram fræðsla um ýmis mál bæði trúarleg og samfélagsleg.

Flestir þekkja til sunnudagaskólans þar sem börn koma í helgihald með fjölskyldum sínum og kynnast þar kirkjunni, samfélaginu þar og kristinni trú. Þjóðkirkjan heldur úti gríðarmiklu barna og unglinga starfi um allt land. Þar eru Biblíusögur sagðar og kenndar.

Hér að ofan má sjá umfjöllun um fræðslu eftir aldurshópum og er vitnað í fræðslustefnu þjóðkirkjunar en hana má einnig finna í heild hér að neðan.