Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Fastan

Fastan, sjö vikna fastan hefst með öskudegi og lýkur að kvöldi laugardagsins fyrir páska. Það eru 46 dagar, reyndar, en sex sunnudagar föstunnar teljast ekki með, vegna þess að sunnudagur er alltaf minning upprisu Krists og því var og er aldrei fastað á sunnudegi.

Frumkirkjan nýtti föstuna til að læra að beygja „holdsins og hjartans kné“ með líkamlegri föstu, og fræðslu um meginatriði trúarinnar, og æfingu í innlifun, bæn og íhugun. Kirkjan þarf að endurheimta föstuna í trúarlífi og iðkun. Hún þarf að verða okkur tími endurnýjunar þeirrar trúar sem við vorum skírð til, tími endurmats og iðrunar, til þroska í bænalífi, styrkingar í trú og kærleika. Fastan hvetur okkur til að breyta á einhvern hátt lífsvenjum og neyslu til að tjá samstöðu með þeim sem líða skort, og samstöðu með jörðinni sem líður vegna neysluþarfa okkar. Fastan minnir okkur líka á að trúin er ekki aðeins hugarstarfsemi.

Guðspjallstextar föstunnar eru baráttutextar. Jesús gengur á hólm við hið illa í lífinu, afneitar djöflinum, læknar sjúka, rekur út illa anda, mettar hungraða, gefur blindum sýn. Allt eru þetta tákn þess að guðsríki er komið, að Guð er að verki. Þetta eru fyrirboðar upprisunnar og hins endanlega sigurs yfir synd og dauða.

Lestur Passíusálmanna á föstunni hefur verið dýrmætur þáttur í trúarhefð Íslendinga. Þann þátt megum við ekki vanrækja né glata. Það er vel að Ríkisútvarpið skuli halda þeim sið og velja til þess lesendur sem víðast að úr þjóðfélaginu, sem hafa hrifið hlustandann með sér inn í dýpt og fegurð og auðgi þeirrar gersemi sem Passíusálmarnir eru. Samfelldur lestur Passíusálmanna á föstudaginn langa er nú iðkaður víða í kirkjum landsins. Er það vel. Passíusálmarnir eru allt of dýrmætur þáttur í arfleifð okkar og trúarlífi að okkur leyfist að láta blása burt.

Litur föstunnar, sjövikna föstu, langaföstu er fjólublár, litur iðrunarinnar. Á boðunardegi Maríu, sunnudeginu sem næst er 25. mars, þá er litur hvítur.

Nánar