Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

2. sunnudagur eftir páska (misericordias domini)

Litur: Hvítur.

Vers vikunnar:
Jesús sagði: „Ég er góði hirðirinn. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast.“ (Jóh 10.11a, 27-28a)

Kollekta:
Almáttugi Guð, sem fyrir lægingu sonar þína hefur reist upp hinn fallna heim: Veit öllum, sem á þig trúa, ævarandi gleði, svo að þeir, sem þú hefur hrifið úr háska eilífs dauða, njóti af náð þinni eilífs fagnaðar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Esk 34.11-16, 31
Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er.

Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25
Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Sálmur: 161
Hirðisraust þín, Herra blíði,
hljómi skært í eyrum mér,
svo ég gjarna heyri’ og hlýði
hennar kalli’ og fylgi þér,
þér, sem vegna þinna sauða
þitt gafst sjálfur líf í dauða,
þér, sem ert mín hjálp og hlíf,
huggun, von og eilíft líf.

Herra minn og hirðir góði,
hjarta mitt skal prísa þig,
því ég veit, að þú með blóði
þínu hefur frelsað mig.
Undir hirðishendi þinni
hólpið æ er sálu minni,
og þú glatar aldrei mér,
ef ég hlýðinn fylgi þér.

Sb. 1886 – Björn Halldórsson

Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, þú ert góði hirðirinn sem leiðir okkur á þínum vegum og lætur okkur ekkert skorta. Þú yfirgefur okkur aldrei, þú ert hjá okkur allan æviveginn, frá vöggu til grafar, þegar við fæðumst og þegar við deyjum. Við biðjum þig. Halt þú utan um okkur, hjörðina þína, eins og góður hirðir, haltu áfram að leita að þeim týndu, og safna þú þeim saman sem villast frá og vernda þú þau sérstaklega sem eru ekki af þínu sauðahúsi eða er bara ekki kunnugt um það. Gakk í veg fyrir þau sem eins og blóðþyrstir úlfar ráðast á hjörðina, meiða og deyða, og snú þeim frá, og gef líf og lækningu hinu særða og mædda, þú sem lifir og ríkir að eilífu. Amen.