Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

2. sunnudagur í níuviknaföstu (sexagesimae) – Biblíudagurinn

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Svo segir: „Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni.““ (Heb 3.15)

Kollekta:
Drottinn Jesús Kristur, þú sem ert orð lífsins. Þú gjörðist hold á jörðu og kunngjörðir oss leyndardóma Guðs ríkis: Gef oss náð til að trúa með fögnuði og treysta því, sem Heilög ritning boðar oss til hjálpræðis, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Jes 55.6-13
Leitið Drottins meðan hann er að finna,
ákallið hann meðan hann er nálægur.
Hinn guðlausi láti af breytni sinni
og illmennið af vélráðum sínum
og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum,
til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.
Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum
og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.
Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.
Já, þér skuluð fara burt fagnandi
og örugg verðið þér leidd af stað.
Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður
og öll tré á sléttunni klappa saman lófum.
Í stað þyrnirunna skal kýprusviður vaxa
og myrtusviður í staðinn fyrir netlur.
Þetta verður Drottni til dýrðar,
ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð.

Pistill: 2Kor 12.2-9
Ég þekki kristinn mann. Fyrir fjórtán árum var hann hrifinn burt allt til þriðja himins. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Og mér er kunnugt um að þessi maður var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Af slíku vil ég hrósa mér en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér nema þá af veikleika mínum. Þótt ég vildi hrósa mér væri ég ekki frávita því að ég væri að segja sannleika. En ég veigra mér við því til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.
Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

Guðspjall: Lúk 8.4-15
Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Sálmur: 117
Góðan ávöxt Guði berum,
gróður settir hans af náð
þessa heims í akri erum,
æðra lífs þó til var sáð.
Góðan jarðveg gaf oss Drottinn,
góð svo jurt hér yrði sprottin.

Lífdögg hann oss sendi sína:
sinnar skírnar vatnið tært.
Ljósið sitt hann lét oss skína:
lífsins orða blysið skært.
Náðargeisla himins hlýja
hann oss jafnan sendi nýja.

Góðan ávöxt Guði berum,
góðan ávöxt sjálfum oss,
eigi lengur visnir verum,
vöxum upp við Jesú kross.´
Lát oss þar við lífstréð rétta,
lífsins faðir, ávallt spretta.

Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Eilífi Guð, Leiddu mig að vinjum þíns eilífa Orðs Leiddu mig út úr eyðimörk örlaga og böls Hjálpa mér að vera vakandi í þolinmæði og trúfesti Kenndu mér tungumálið svo að ég skilji hvað þú segir mér. Leiddu mig til baka að vinjum orðs þíns, svo að ég sé hjá þér og lofi þig að eilífu.