Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

23. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Kirkjan í heiminum.
Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
Konungi konunganna og Drottni drottnanna sem einn hefur ódauðleika honum sé heiður og eilífur máttur. (sbr. 1Tím 6.15-16)

Kollekta:
Drottinn, vér biðjum þig: Fyrirgef misgjörðir lýðs þíns. Leys oss í mildi þinni úr viðjum synda vorra, sem vér í breyskleika vorum höfum á oss lagt. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: 1Mós 18.20-21, (22b-33)
Drottinn sagði: „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. Ég ætla að stíga niður og gæta að hvort þeir hafa aðhafst allt sem neyðarópin, sem borist hafa til mín, benda til. Ef ekki vil ég vita það.“

Abraham stóð enn frammi fyrir Drottni. Hann gekk fram og mælti: „Ætlarðu að tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega? Vera má að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Ætlarðu þá að tortíma þeim og þyrma ekki borginni vegna hinna fimmtíu réttlátu sem þar eru? Fjarri þér sé að gera slíkt, að deyða hinn réttláta með hinum guðlausa. Fer þá hinum réttláta eins og hinum guðlausa. Fjarri sé það þér. Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“
Drottinn svaraði: „Finni ég fimmtíu réttláta í Sódómu þá þyrmi ég borginni allri þeirra vegna.“
Þá sagði Abraham: „Ég hef dirfst að eiga orðastað við sjálfan Drottin þótt ég sé duft eitt og aska. Nú kann fimm að skorta á tölu fimmtíu réttlátra. Ætlarðu þá að tortíma allri borginni vegna þeirra fimm?“
Hann svaraði: „Ég mun ekki tortíma borginni ef ég finn þar fjörutíu og fimm.“
Og enn sagði Abraham við hann: „Vera má að þar finnist ekki nema fjörutíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna fjörutíu mun ég ekkert aðhafast.“
Þá sagði Abraham: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér, að ég tek aftur til máls. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.“
Hann svaraði: „Ef ég finn þar þrjátíu aðhefst ég ekkert.“
Þá sagði Abraham: „Enn gerist ég svo djarfur að ávarpa Drottin. Vera má að þar finnist ekki nema tuttugu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tuttugu tortími ég ekki borginni.“
Abraham mælti: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér þótt ég taki til máls aðeins í þetta eina skipti. Vera má að þar finnist ekki nema tíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tíu tortími ég ekki borginni.“
Og Drottinn fór er hann hafði lokið að tala við Abraham en Abraham hvarf aftur heimleiðis.

Pistill: Fil 3.17-21
Systkin, breytið öll eftir mér og festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur. Margir breyta – ég hef oft sagt ykkur það og nú segi ég það jafnvel grátandi – eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Guðspjall: Matt 22.15-22
Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“
Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“
Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“
Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“
Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.

Sálmur: 205
Af heimi skattskrift heimtuð er,
en hvað skal, Drottinn, gjalda þér?
Er annað til en eymd og sekt?
Er annað til en synd og nekt?

Þín grunnlaus elska sjálf það sá,
þú sendir frelsið jörðu á,
að fyrra bragði’ að bjóða grið
og boða líf og náð og frið.

Ó, Guð, minn Guð, ég gjarna vil
þér gjalda það, sem hef ég til,
mitt þakklátt hjarta, hreina sál,
minn huga, vilja, raust og mál.

Svo lengi sem ég lifi hér,
ég lofa skatt að gjalda þér
í heiðri, þökk og hreinni trú.
Það hjartans loforð meðtak þú.

Þig lofi, Drottinn, lífs míns ár,
þig lofi hvert mitt sorgartár,
þig lofi öll mín efni’ og ráð,
sem allt er gjöf af þinni náð.

Ég sjálfur ekkert á né hef.
Af auðlegð þinni part mér gef,
svo geti’ eg meira goldið þér.
Ó, Guð minn, sjálfur lifðu’ í mér.

Sb. 1871 – Matthías Jochumsson

Bæn dagsins:
Guð, þú sem einn ert Drottinn, gef okkur kjark til að fylgja kalli þínu og taka þá áhættu sem felst í frelsinu sem þú kallar okkur til, fyrir Jesú Krist, bróður okkar og Drottinn. Amen.